11.04.1978
Sameinað þing: 64. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3273 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

349. mál, votheysverkun

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Við fsp. hv. 3. þm. Vestf. á þskj. 405 vil ég gefa eftirfarandi svar. — Hann hefur áður greint frá þál., svo að ég þarf ekki að minna á hana.

Á fjárlögum s. l. árs voru veittar 3 millj. til rannsókna á hvaða heyverkunaraðferðir gæfu best fóður. Rannsóknastofnun landbúnaðarins sendi aðallega ráðunautum landbúnaðarins spurninga- og leiðbeiningalista snertandi fóðursýnistökur. Þegar hafa verið rannsökuð yfir 250 votheyssýni. Meira en 90% þessara sýna hafa borist frá ráðunautum. Ráðunautar hafa svo að sjálfsögðu fengið niðurstöður þessara rannsókna og þeir nota þær í leiðbeiningastarfsemi sinni.

Bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Hvanneyri vinnur að umfangsmiklum tilraunum í votheysgerð. Hefur deildin aflað sér ýmissa tækja til afnota við þessar tilraunir. Á fjárlögum þessa árs eru 3.9 millj. kr, í þessu skyni. Verða þær notaðar til framhaldsrannsókna á þessu sviði og nýjum tilraunum bætt við, t. d. í votheysverkun á Hvanneyri og hjá bændum í nágrenninu. Þá verða gerðar samanburðartilraunir á þurrheysverkun og votheysverkun, einnig samanburður á fóðurgildi heys eftir því hver verkunin hefur verið.

Með þessu tel ég svarað 1. lið í þáltill. þeirri sem hér var greind að framan.

Um 2. lið þáltill. er þetta að segja: Til þess að auka stofnlán til votheysgryfja hefði lagabreyting orðið að eiga sér stað. Sú breyting hefur hins vegar ekki verið gerð. Reyndar verður að telja ástandið í þeim málum gott, því að lán og framlag til votheyshlaðna geta numið 75% af byggingarkostnaði flatgryfja. Aukning hefur orðið mikil í byggingu votheysgryfja, einkum á s. l. sumri. Eftirfarandi tafla sýnir þetta: Árið 1975 voru votheyshlöður 33 og lán til þeirra 33 millj. kr., árið 1976 voru þær 27 og lán 41 millj. kr., 1977 voru þær 58 og 135 millj. kr. veitt í þessu skyni.

Um þriðja atriði þáltill., að veita sérstök stofnlán til breytinga á eldri þurrheyshlöðum í votheyshlöður, er þetta að segja: Hér gildir hið sama og um 2. lið þáltill., að breyta yrði lögum ef það ætti að gera, en hér kemur fleira til:

1. Flestar gömlu hlöðurnar eru of grunnar til þess að þær geti talist eins góðar og votheyshlöður. Hæð samanþjappaðra heystæða má varla vera minni en 2.5 m, en það þýðir að vegghæð þyrfti að vera minnst 4.5–5 m.

2. Fæstar hinar eldri hlaðna eru nægilega traustbyggðar til að þola aukið álag sem því fylgir að þeim yrði breytt í votheyshlöður.

3. Aðstaða til innkeyrslu votheys í gömlu hlöðurnar, sem breyta mætti, er víða svo erfið og kostnaðarsöm að það félli um sjálft sig.

Þessar þrjár ástæður valda því, að oftast reynist hagkvæmara að byggja frekar nýjar votheyshlöður en að breyta þeim gömlu.

Ég tel að með þessu hafi ég svarað spurningunni og ljóst megi vera að þáltill. hefur þegar borið árangur og mun gera það enn þá betur, því að áfram er unnið að framgangi málsins. Ég taldi að með grg., sem ég gaf fyrr í vetur, hefði ég að þessu víkið að nokkru — í þeirri grg. sem ég útbýtti þá á borð hv. þm. Ég vona að hún skýri þetta betur, ef þetta nægir ekki.