11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3276 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Nú er kominn sá tími árs er ég samkv. venju gef Alþ. skýrslu um utanríkismál, þ. e. þróun alþjóðamála og samskipti Íslands við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Mun þetta vera tíunda árið síðan sá háttur var tekinn upp að flytja Alþingi árlega yfirlitsskýrslu af þessu tagi og leyfi ég mér að ætla, að þingheimi og þeim, sem fylgjast með störfum þingsins þyki það góður síður, sem halda beri.

Skýrslunni fylgir skýrsla fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um 32. Allsherjarþingið. Var báðum skýrslunum dreift nokkru fyrir þessa umr. svo að þm. hefur væntanlega gefist tími til að kynna sér þær. Ég er að sjálfsögðu fús til að ræða nánar að loknum flutningi skýrslu minnar einstök atriði hennar eftir því sem óskað kann að verða. — Þá vil ég geta þess, að fulltrúar í utanrmn., bæði aðalmenn og varamenn, fá einnig ársskýrslu sendiráðanna. Ég hef gert örfáar leiðréttingar á ritvillum og því, sem hreyst hefur örlítið síðan skýrslan var gerð. Ég vona, að þm. lesi það í máli með mér þegar þar að kemur. Það er svo smávægilegt, að ég held að það taki tæpast að vera að benda á það hverju sinni.

Að því er varðar framvindu í því utanríkismáli sem okkur Íslendinga varðar mest, landhelgismálinu, álítum við nú allir, að algjör efnahagslögsaga njóti trausts stuðnings samkv. alþjóðarétti. Auðæfin í efnahagslögsögu okkar höfum við til eigin nýtingar og veitum þar öðrum réttindi einungis eins og við teljum ástand fiskstofna heimila og í samræmi við þau ákvæði, sem við höfum barist fyrir að tekin væru upp í þann viðræðutexta sem nú liggur fyrir fundi Hafréttarráðstefnunnar, sem stendur yfir og hófst í Genf hinn 27. fyrra mánaðar. Ég mun víkja nokkrum orðum að þeim fundi og verkefnum hans síðar í skýrslunni.

Í þessu sambandi vil ég rifja upp einu sinni enn, að árið 1971, þegar ég fór fyrst til samninga við Breta og Vestur-Þjóðverja, voru aflatölur þessara þjóða sem hér segir: Bretland 210 þús. tonn, Vestur-Þýskaland 125 þús. tonn. Auk þessa höfðu fiskað á Íslandsmiðum aðrar erlendar þjóðir og mun afli þeirra hafa numið samtals 56 þús. tonnum. Er þarna því alls um að ræða 391 þús. tonn.

Þessi afli hefur farið minnkandi stig af stigi á þessum tæpu 7 árum eftir því sem sigrarnir hafa unnist og nú eru aðeins í gildi þrír samningar við útlendinga: Belga, Norðmenn og Færeyinga, og nam afli þeirra á s. l. ári samtals 27 þús. tonnum auk samnings við Færeyinga um gagnkvæm réttindi til veiða annars vegar á loðnu og hins vegar kolmunna.

Þegar þessar tölur eru athugaðar hljóta allir að sjá hversu gífurlegum árangri hefur verið náð á umgetnu tímabili. Árið 1971 var fiskveiðilögsagan 12 sjómílur, nú er hún 200 sjómílur. Árið 1971 var afli útlendinga 391 þús. tonn, nú er hann um 27 þús. tonn. Auk þess hafa ýmis önnur réttindi áunnist í hafréttarmálum, sem ég sé ekki ástæðu til að tíunda hér.

Þrátt fyrir þetta er þó ýmislegt enn ógert á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, og er auðvitað nauðsynlegt nú sem fyrr að Íslendingar taki virkan þátt í þeim störfum undir öflugri forustu Hans G. Andersens sendiherra í góðri samvinnu við fulltrúa þingflokkanna og embættismenn viðkomandi ráðuneyta.

Ástæður þess, að svo vel hefur til tekist, tel ég vera margar. Landgrunnslögin eru nú 30 ára gömul og þeirra var minnst á Hafréttarráðstefnu nú fyrir nokkrum dögum. Stjórnarforusta hefur allt tímabilið verið ákveðin, þróun alþjóðamála hefur verið hagstæð, Alþ. hefur verið einhuga og það sem þó e. t. v. skiptir mestu er samstaða allrar þjóðarinnar.

Nú er það okkar að gæta fengins fjár, og það hefur á stundum reynst býsna erfitt. Ég vona að íslenska þjóðin beri gæfu til þess að standa vörð um auðæfi hafsins, því að hvort tveggja er, að undirstaða íslensks efnahagslífs hygg ég að um langan aldur verði fiskveiðar og fiskvinnsla, þótt sjálfsagt sé að reyna fleiri leiðir til að auka fjölbreytni atvinnuveganna, og svo hitt, að friðun fiskimiðanna á ekki að vera eingöngu fyrir okkur Íslendinga, heldur jafnframt til sköpunar fæðuforðabúrs fyrir aðra.

Þegar hafa verið gerðir nokkrir samningar við aðrar þjóðir um sameiginlegar ráðstafanir til verndunar og friðunar fiskistofnanna og má vænta árangurs af þeirri samvinnu í framtíðinni.

Ég tel það hafa verið mér bæði lífsreynslu og gæfu að hafa fengið aðstöðu til að starfa að landhelgismálinu undanfarin rúm 6 ár, og ég er þakklátur öllum þeim góðu mönnum sem ég hef átt kost á að starfa með, hvar í flokki sem þeir standa. Stundum hefur okkur greint á um leiðir, en aldrei um markmið.

Telja verður, að á árinu hafi heldur stirðnað samskipti risaveldanna. Lítið sem ekkert hefur miðað í átt til samkomulags í afvopnunarmálum, þ. á m. hvorki samningsumleitunum um takmörkun á langdrægum gereyðingarvopnum, svokölluðum SALT-viðræðum, né í viðræðunum í Vín um niðurskurð herbúnaðar í Mið-Evrópu, MBFR. Vígbúnaðarkapphlaupið heldur áfram. Áætlað er, að árleg hernaðarútgjöld ríkja heims nemi nú um 350 milljörðum dala og að nálægt 60 millj. manna stundi störf, sem tengd eru vígbúnaði. 3/4 hlutar hernaðarútgjaldanna eru á vegum 6 ríkja. En útgjöld á þessu sviði eru ekki bundin við þau ein, fátækustu ríki veraldar, þar sem árstekjur á einstakling eru yfirleitt innan við 200 dali, verja svipuðu fjármagni til herbúnaðar og til fjárfestingar í landbúnaði.

Ég hef sagt það áður, bæði hér og á erlendum vettvangi, að samkomulag risaveldanna um afvopnun, einkum þó bann við framleiðslu, geymslu og dreifingu gereyðingarvopna hvers eðlis sem þau eru, sé óhjákvæmileg forsenda fyrir framhaldi þeirrar slökunarstefnu, sem svo mikið hefur verið rætt um undanfarin ár og við viljum efla eftir mætti. Og það fjármagn, sem sparaðist við allsherjarsamdrátt vígbúnaðarins gæti að sjálfsögðu gerbreytt stöðu mála í viðureigninni við hungur og sjúkdóma sem nú herja í mörgum heimshlutum.

Hér vaknar sú spurning, hvað smáþjóðir eins og sú, sem byggir Ísland, geti gert til að stuðla að bættum skilyrðum til afvopnunar og almennt bættri sambúð og samvinnu í heiminum.

Þróun sögunnar og tæknin breyttu þessari landfræðilega einangruðu eyju okkar á nærri svipstundu í mikilvæga stöð frá hernaðarlegu sjónarmiði. Ísland valdi að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu og varð þannig hlekkur í varnarkeðju sem að minn áliti er enn í dag nauðsynleg til að viðhalda valdajafnvæginu í Evrópu og reyndar í heiminum öllum og stuðla þannig að varðveislu friðarins. Ég hef margoft áður hér í þingsölum sagt, að ég teldi það ekki eðlilegt né æskilegt, að Ísland skyldi þurfa að gerast meðlimur í varnarbandalagi. En meta ber jafnan allar aðstæður af raunsæi og gera það, sem heillavænlegast er fyrir land og þjóð. Það er mín skoðun, að íslensk ríkisstj. eigi að styðja allar tilraunir á hvaða vettvangi sem er, sem stuðlað geta að afvopnun og hanni við dreifingu vopna í heiminum.

Smærri ríkin í samfélagi þjóðanna eru oft þess megnug að greiða fyrir lausn milliríkjadeilumála. Þau eiga sjaldnar beinna hagsmuna að gæta og njóta því oft meira trúnaðartrausts en stærri ríki, sem með réttu eða röngu eru grunuð um að blanda sér í málin vegna sérhagsmuna.

Við tölum gjarnan um Ísland sem þann smæsta af öllum smáum. Þetta lætur nærri, en er þó ekki alveg rétt og til upplýsinga mætti kannske geta þess, að þegar Maldaví-eyjar fengu aðild að Sameinuðu þjóðunum 1965, var Ísland ekki lengur minnsta aðildarríkið að fólksfjölda og á síðustu 7 árum eða frá árinu 1971 hafa bæst við 8 önnur ríki, sem öll telja færri íbúa en Ísland. Ísland er því 10. minnsta ríkið núna samkv. þessum mælikvarða. Síðan koma enn fimm ríki, sem eru heldur fólksfleiri en þó um og undir 300 þus. Má þá fyrst nefna 16. og 17. ríkið í röðinni sem eru Lúxemburg og Malta, en 25 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna telja færri íbúa en hálfa millj. manns og eru því í þessu sambandi alger smáríki eins og við.

Fulltrúum Íslands í alþjóðastofnunum er ætlað það hlutverk að efla samvinnu við allar þjóðir og þjóðasambönd, sem vilja vinna að vernd friðar og raunverulegri afvopnun. Alger afvopnun er, eins og ég sagði áðan, eina undirstaðan, sem varanlegur og tryggur friður í heiminum getur byggst á. Mönnum getur e. t. v. fundist ólíklegt að von mín um frið, sem gerir varnarbandalag óþörf, muni rætast í náinni framtíð, en það er sannfæring mín, að þeim mun betur beri þá að vinna að því takmarki.

Almenningur hefur nú miklu meiri möguleika á að fylgjast með alþjóðamálum vegna framfara í fjölmiðlum, þýðing svæðasamvinnu hefur aukist, samvinna milli smáríkja hefur eflst, m. a. þar eð þróunarlöndin kjósa oft minni iðnþróunarlönd til samstarfs og skipulag alþjóðastofnana er á þann veg, að smáríkin geta haft þar tiltölulega mikil áhrif. Flestum, ef ekki öllum, ber saman um að smáríkin í Evrópu hafi haft þýðingarmikil áhrif á Öryggismálaráðstefnu Evrópu, sem stóð yfir á árunum 1973–1975, og er talið að ekki hefði náðst sá árangur á ráðstefnunni, sem raun ber vitni, án framlags þeirra. Stórveldin hafa ekki alltaf möguleika á að notfæra sér það vald sem þau hafa yfir að ráða.

Þróun í þjóðarétti er í sömu átt. Aldrei hefur alþjóðlegt samstarf verið jafnlýðræðislegt og eftir síðari heimsstyrjöld. Eðlilegt er, að minni ríki styðji slíka þróun, ekki síst vegna þess að hún er þeim í hag. Afleiðing þessarar þróunar gæti orðið sú, að Norðurlöndin fengju forustuhlutverk á vissum sviðum, svo sem í afvopnunarmálum, slökun, þróunarmálum, umhverfismálum og á fleiri sviðum.

Á síðustu utanríkisráðherrafundum Norðurlanda og einkum þeim síðasta í Osló fyrir nokkrum víkum hefur verið rætt mikið um hlutverk smærri ríkja í dag í alþjóðlegu samstarfi. Álit margra er, að þau hafi stærra hlutverki að gegna nú heldur en áður hefur verið.

Viðræður og samvinna Norðurlandanna um mál Sameinuðu þjóðanna, bæði á fundum í höfuðborgunum og í New York, hafa yfirleitt gefist vel. Norræn samstaða í alþjóðamálum er nauðsynleg. Með samstöðu fæst yfirleitt meiri árangur. Sá, sem stendur einn, stendur veikt.

Sú staðreynd, að þrjú Norðurlandanna eru meðlimir Atlantshafsbandalagsins, en tvö þeirra sjá um landvarnir sínar sjálf, hefur ekki spillt samkomulaginu. Sama má segja hvað viðvíkur Efnahagsbandalaginu og EFTA.

Rætt hefur verið um starfsskiptingu innan Norðurlandanna í þýðingarmiklum alþjóðamálum. Með starfsskiptingunni mælir sú staðreynd, að löndin eru öll fremur lítil og hafa takmarkað fjármagn og starfslið. Með því að hjálpast að í stað þess að keppa hvert við annað verður meiri árangri náð. Í aðstoð sinni við þróunarlöndin hafa Norðurlöndin komið á bæði samstarfi og eins konar starfsskiptingu. Á móti starfsskiptingu mælir stundum það, að Norðurlöndin eru öll fullvalda ríki og af ýmsum ástæðum getur verið óhentugt að láta annað land annast þýðingarmikil utanríkismál fyrir sig.

Þeir, sem kunnugir eru, telja að ýmis ríki þriðja heimsins vilji taka Norðurlöndin til fyrirmyndar hvað snertir umbætur þjóðfélaga sinna. Eðlilegt væri, að Norðurlöndin hefðu samvinnu um að koma til móts við þessi lönd.

Búist er við að haldið verði áfram umr. um hlutverk smáþjóðanna í alþjóðamálum á næsta utanrrh.- fundi, sem haldinn verður í Stokkhólmi í haust.

Ég mun að öðru leyti ekki gera samstarfið í Norðurlandaráði að umtalsefni, þar sem ég veit ekki betur en sendinefnd Alþingis á því þingi muni gefa þinginu um það sérstaka skýrslu, svo sem gert var á s. l. þingi.

Friður hefur að mestu haldist í Miðausturlöndum og í deilumálum Ísraels og Egyptalands hefur skeð sá merki atburður, auðvitað að undanskildum hernaðinum í Suður-Líbanon, en sá merki atburður hefur skeð, að Anvar Sadat, forseti Egyptalands, lýsti sig fúsan til að taka upp beinar tvíhliða viðræður við leiðtoga Ísraels og fór til Jerúsalems til að reyna að opna einhverja samningsleið í þessum langvarandi og margslungnu vandamálum. Sadat hefur að mínu mati sýnt aðdáunarvert hugrekki með þessu frumkvæði sínu og á miklar þakkir skilið. Höfuðatriðið í þróuninni, sem þarna hefur átt sér stað er, að fram skuli hafa komið vilji til að leita í einlægni að leiðum til lausnar. Engan þarf að undra þótt vandleystur ágreiningur rísi þegar byrjað var að ræða einstök atriði. En við verðum að vona að framtak Sadats renni ekki út í sandinn og báðir aðilar sýni sáttfýsi og hógværð í kröfum sínum. Hermdarverk og vopnuð átök, sem brutust út í kjölfar þeirra nú fyrir skemmstu varpa skugga á málið, en vona ber að þau verði ekki til að spilla lausn til langframa.

Það er og hefur verið stefna ríkisstj., að lausnin á vandanum í Miðausturlöndum verði að byggjast á samþykktum Öryggisráðsins, sem kveða á um, að landvinningar með valdi séu óþolandi, að Ísrael verði að hverfa á brott frá þeim svæðum, sem það tók herskildi árið 1967, svo og að virða beri fullveldi og sjálfstæði allra ríkja á svæðinu og rétt þeirra til að lifa í friði innan tryggra og viðurkenndra landamæra. Einnig vil ég taka það fram, að lausnin, hver sem hún verður, hlýtur að fela í sér viðurkenningu á rétti Palestínumanna til heimalands, og Palestínumenn verða að sínu leyti að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis. Ég tel einnig að Palestínumenn eigi að taka fullan þátt í samningsviðræðum um friðsamlega lausn á þann hátt, sem samkomulag verður um milli málsaðila.

Mig langar að skjóta því hér inn í, að það kom ljóst fram er Sadat fór til Jerúsalem, að sjónvarpið er nú og á eftir að verða enn meiri áhrifavaldur í samskiptum þjóða. Ræðum þeirra Sadats og Begins var sjónvarpað yfir gervihnetti og hundruð milljóna manna fylgdust með atburðunum, þegar þeir voru að gerast. Þannig skapaðist almenningsálit á svipstundu í hinum frjálsa heimi þar sem móttaka á sjónvarpsmyndinni var heimiluð. Ég leyfi mér að fullyrða, að í framtíðinni þegar tæknin eykst verða ráðamenn þeirra landa, sem stjórna vilja miðlun upplýsinga í stöðugt meiri vanda að leyna fólkið staðreyndum og túlka atburðina sér í hag. Þannig mun fjölmiðlun og þá sérstaklega beinar sjónvarpsútsendingar um allan heim eiga eftir að verða snar þáttur í meðferð utanríkismála í heiminum.

Miklar samningsviðræður eiga sér nú stað varðandi framtíð suðurhluta Afríku. Í Zimbabwe hefur orðið samkomulag um stjórnarkerfi sem í gildi á að vera þar til kosningar hafa farið fram og meirihlutastjórn komin til valda. Bretar reyna nú að samræma þetta samkomulag og kröfur hinna herskáu aðila, sem bækistöðvar hafa utan Zimbabwe og vilja beita hervaldi. Vonandi tekst að afstýra blóðbaði þegar landið öðlast sjálfstæði sitt, en það hefur því miður hent þegar ríki öðlast sjálfstæði sitt í þessari heimsálfu.

Víðræðum um framkvæmd samþykktar Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæði Namibíu virðist miða í rétta átt. Norðurlöndin hafa boðið aðstoð sína meðan á umþóttunartíma stendur og eins fjárhags- og tækniaðstoð, þegar landið öðlast sjálfstæði. Munum við taka þátt í þeirri aðstoð eftir megni. Miklum þrýstingi er nú beitt frá öllum hliðum til að hafa áhrif á stjórnina í Suður-Afríku til að láta af hinni illræmdu apartheid-stefnu sinni. Fjöldi ályktana og áskorana hefur verið samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, og Öryggisráðið hefur samþykkt bindandi bann á vopnasölu og sölu á öllu því er stuðlað gæti að framleiðslu kjarnorkuvopna í Suður-Afríku. Utanrrh. Norðurlanda settu á stofn n. á fundi sínum í Helsinki s. l. haust til að rannsaka möguleikanna á að beita Suður-Afríku enn meiri þrýstingi á efnahagssviðinu. Á fundi sínum í Osló hinn 9.–10. mars s. l. samþykktu utanrrh. stefnuyfirlýsingu um ýmsar aðgerðir í framtíðinni — eða sem hér segir:

1. Bann eða aðgerðir til að hamla gegn nýjum fjárfestingum í Suður-Afríku.

2. Viðræður við norræn fyrirtæki um að draga úr framleiðslu í Suður-Afríku.

3. Tilmæli um að íþrótta- og menningarskiptum við kynþáttaaðskilnaðarstjórnina í Suður-Afríku verði hætt.

4. Norrænn stuðningur við flóttafólk, frelsishreyfingar, fórnarlömb kynþáttaskilnaðarstjórnarinnar o. fl. verði aukinn.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna munu Norðurlöndin í samræmi við stefnu sína aðallega:

1. Vinna að því að Öryggisráðið láti frá sér fara samþykktir er beinist gegn nýjum fjárfestingum í Suður-Afríku.

2. Stuðla að tillöguflutningi í Öryggisráðinu sem leitt gæti til bindandi samþykkta gegn viðskiptum við Suður-Afríku.

3. Vinna að því, að samþykkt Öryggisráðsins um vopnabann í Suður-Afríku verði haldin í hvívetna.

Ákveðið var að norræna embættismannanefndin um þessi mál skuli halda áfram störfum og taka til athugunar hugsanlegar frekari aðgerðir.

Við höfum því að öllu leyti verið samstiga hinum Norðurlöndunum í aðgerðum gegn Suður-Afríku og fregnir um annað eru á misskilningi byggðar.

Enn eiga sér stað vopnuð átök í Afríku, þar sem harðir bardagar hafa geisað í austurhorni álfunnar, nánar tiltekið í Eþíópíu og Sómalíu. Stórveldin hafa sent gífurlegt magn af hergögnum á svæðið og kúbanskir og sovéskir hermenn eru sagðir berjast með Eþíópíumönnum í þessum átökum eða hafa gert. Svo virðist sem enginn hafi ljósa hugmynd um hvernig leysa eigi málið nema sagt er, að lausnin verði að koma frá Afríkuríkjum en ekki utan frá. Ekki verður hjá því komist að álíta, að hér sé um að ræða átök um áhrifasvæði í álfunni og ber að fordæma slíkar aðferðir.

Kýpurdeilan hefur dregist á langinn meira en menn höfðu vonað. Þau góðu tíðindi gerðust þó fyrir skömmu, að forsrh. Grikklands og Tyrklands hittust og áttu beinar viðræður um Kýpurvandamálin ásamt fleiri málum, sem valdið hafa erfiðleikum í samskiptum þessara ríkja. Vonandi mun þetta ásamt viðleitni Kurts Waldheim framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hafa þau áhrif, að nú þokist verulega í átt til samkomulags.

Meðal þess jákvæða í þróun alþjóðamála upp á síðkastið má telja það, að síðasta Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna gaf vísbendingu um enn aukinn samstarfsvilja innan þessarar heimsstofnunar og að því er virtist aukinn skilning á því, að orðaflaumur og óraunhæfar samþykktir einar þjóna litlum tilgangi. Þingið var mjög athafnasamt og voru samþykktar 262 ályktanir og nú enn fleiri en á fyrri þingum samhljóða án þess að til atkvgr. þyrfti að koma, eða alls 161. þ. e. a. s. 3 af hverjum 5. Vonandi bregðast ekki þær vonir, sem við þessa þróun eru bundnar.

Fulltrúar þingflokkanna mættu á þessu Allsherjarþingi eins og venja er til og tóku þátt í nefndar- og þingstörfum. Ég flutti svo ræðu eins og undanfarin ár í almennum umr. á þinginu í septemberlok.

Eins og ég sagði áðan hafa þm. í höndum allítarlega skýrslu frá fastanefndinni um störf allsherjarþingsins. Ég mun því ekki ræða það frekar, en er að sjálfsögðu reiðubúinn til umr. um þau, ef ástæða þykir til hér síðar á fundinum.

Það verður vissulega að teljast hliðarspor í öryggis- og samstarfsmálum Evrópu, og sambúð austurs og vesturs yfirleitt, að ekki skyldi takast að ná samkomulagi um ítarlegt lokaskjal á Belgrad-fundinum. Sú staðreynd veldur óhjákvæmilega vonbrigðum. Þess hafði verið vænst, að nægur samstarfsandi ríkti á fundinum til þess að takast mætti að ganga frá nánari áætlun um samstarf ríkjanna innan ramma Helsinkisamþykktarinnar frá 1. ágúst 1975, þar sem teknir væru til meðferðar á hlutlægan hátt allir helstu efnisþættir samþykktarinnar. Í umr. á fundinum þá u. þ. b. 5 mánuði sem hann stóð tókst að fjalla mjög gaumgæfilega um framkvæmd samþykktarinnar á hinum ýmsu sviðum á því rúmlega tveggja ára tímabili sem liðið er frá undirritun hennar. Að vísu sló í brýnu nokkrum sinnum, einkum þegar fjallað var um mannréttindaákvæði samþykktarinnar en þær öldur lægði jafnharðan. Þegar að því kom að semja lokaskjal ráðstefnunnar upp úr þeim nálega 100 tillögum, sem fram höfðu komið, rak hins vegar störf fundarins fljótlega í strand. Ítrekaðar tilraunir til þess að koma málum á skrið á ný báru ekki tilætlaðan árangur.

Þrátt fyrir þetta var fundurinn alls ekki gagnslaus. Ber að vona að þróunin haldi áfram að þokast í rétta átt og sífellt fleiri ákvæði Helsinki-samþykktarinnar komist í framkvæmd. Þær opinskáu umr., sem áttu sér stað á fundinum eiga að geta haft þar örvandi áhrif. Ákveðið var, að fulltrúar aðildarríkjanna hittist á ný haustið 1980 í Madrid á Spáni og verður að vona að aðstæður til samkomulags reynist þá betri en í þetta sinn. En ég endurtek það, að það hefur ekki slitnað upp úr, ákveðin var ný ráðstefna, og er það út af fyrir sig árangur, sena ekki má vanmeta. Allir vissu að Róm var ekki byggð á einum degi og heldur mátti tæpast búast við því, að sambúð þessara ríkja batnaði svo á tveimur árum að ekki þyrfti um það að fjalla frekar.

Mannréttindamál hafa verið töluvert ofarlega á baugi að undanförnu og munu áreiðanlega verða næstu árin. Samkvæmt nýjustu skýrslu Amnesty International samtakanna er talið, að mannréttindi séu nú brotin í 116 löndum. Þarna er að sjálfsögðu um mjög misjafnlega gróf brot að ræða, en engu að síður fullljóst að mikilla umbóta er þörf.

Stefnan í málum þessum var mörkuð þegar í inngangi stofnskrár Sameinuðu þjóðanna 1945 og með Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var árið 1948, fyrir réttum þremur áratugum. En nú eru einnig komnir til sögunnar tveir mikilsverðir alþjóðasamningar, annar um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem ekki aðeins fela í sér fögur fyrirheit, heldur lagalegar skuldbindingar aðildarríkja. Samningar þessir voru gerðir á árinu 1966, en gengu í gildi árið 1976. Í samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi er kveðið á um stofnun 18 manna mannréttindanefndar til þess að fylgjast með og stuðla að efndum á ákvæðum samningsins — og er nefnd þessi tekin til starfa. Sérstök valfrjáls bókun með samningum veitir einstaklingum í ríkjum, sem fullgilt hafa bókunina, rétt til þess að bera meint mannréttindabrot undir nefndina, þegar úrræði innanlands hafa verið reynd til þrautar. Að því er samninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi snertir, þá er, að undanskildum kærurétti einstaklinga, um svipað eftirlit með efndum að ræða. Er það aðallega á vegum Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Helsinki-samþykktin, sem undirrituð var af leiðtogum 35 ríkja Evrópu og Norður-Ameríku hinn 1. ágúst 1975 í lok ráðstefnunnar um öryggi og samstarf í Evrópu, felur einnig m. a. í sér veigamiklar skuldbindingar um að virða mannréttindi, enda þótt sú samþykkt sé ekki í formi lagalega bindandi milliríkjasamnings. Henni svipar einnig til áðurnefndra samninga að því leyti, að gert var ráð fyrir að fulltrúar ríkjanna kæmu saman síðar til þess að kanna framkvæmd samþykktarinnar á öllum sviðum. Hef ég þegar getið fyrsta fundarins af þessu tagi, sem raunar var ekki eins árangursríkur og björtustu vonir stóðu til.

Samningar og samþykktir eins og þær, sem ég hef nú nefnt, auka líkurnar á hagstæðri þróun mannréttindamála næstu árin. Raunar verður ekki annað sagt en töluvert hafi áunnist í málum þessum á liðnum árum. Það kemur m. a. fram í því, að auk samninganna tveggja og bókunarinnar, sem ég nefndi, eru nú í gildi á vegum Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana, þ. e. UNESCO og ILO, 25 samningar og 14 yfirlýsingar. Í sumum samninganna er þó um að ræða aðeins takmarkaða vernd á þröngum sviðum mannréttinda. Þess vegna er nauðsynlegt, að haldið verði áfram á braut slíkra samningsgerða, og hefur m. a. verið lögð áhersla á það í ályktunum norrænu utanrrh., sem ég hef að sjálfsögðu staðið að, og hefur þar einnig verið hvatt til þess, að Sameinuðu þjóðirnar láti framkvæmd þessara mála meira til sín taka.

Vaxandi umr. um mál þessi á alþjóðavettvangi hafa tvímælalaust orðið til nokkurs gagns, þó að betur megi. Eftir að ríki hafa í samningum við önnur ríki skuldbundið sig til þess að virða mannréttindi, er ekki hægt að halda því fram, að þau mál séu eingöngu innanríkismál hlutaðeigandi ríkja. Það er því eðlilegt, að nú skuli vera meira um mannréttindi talað á alþjóðafundum en áður. Hinu er þó ekki að leyna, að þessar umr. eru ekki alltaf eins hlutlægar og æskilegt væri. Stundum er talað hátt um mannréttindabrot hjá einum aðila meðan þagað er yfir sams konar brotum hjá öðrum, stundum gagnrýnd ein tegund brota þegar jafnmikil eða meiri ástæða væri til að geta annarra, og loks er það ekki ótítt að steinum sé kastað úr glerhúsum.

Ísland og önnur Norðurlönd geta óhikað látið í sér heyra um þessi mál, hafa gert það og munu gera. En dæmi um þann andbyr, sem mannréttindamál geta átt að mæta, fengust hins vegar á síðasta Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna við meðferð tillagna, sem Ísland var meðflytjandi að, um að stofna embætti sérstaks mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og um ástand mannréttinda í í?ganda, sbr. nánar skýrsluna um þingið.

Að því er okkar aðgerðir frekar varðar, þá höfum við til þess að sýna samstöðu og stuðning m. a. gerst aðilar að ýmsum samningum á sviði mannréttinda, jafnvel þótt virðing fyrir þeim réttindum, sem sumum þeirra er ætlað að vernda — svo sem andúð á þrælahaldi og morðum — sé Íslendingum svo í blóð borin að óþarft sé að binda í samningum. Þannig höfum við einnig ráðgert aðild að samningunum frá 1966 um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, ásamt bókun, og um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem ég gerði að sérstöku umtalsefni áðan, þótt réttindi, sem þeir fjalla um, hafi lengi verið haldin í heiðri hér á landi. Á grundvelli ítarlegra álitsgerða prófessors Jónatans Þórmundssonar er um þessar mundir til lokaathugunar í utanrrn. og öðrum hlutaðeigandi rn., hvort og þá hvaða formsatriðum varðandi löggjöf eða lagaframkvæmd þurfi að breyta til þess að í algeru samræmi séu við samningana. Ég tel rétt að upplýsa þetta sérstaklega, þar sem að samningum þessum hefur verið vikið í fyrri umr. um utanríkismál hér á hv. Alþingi.

Þátttaka Íslands í samstarfinu innan Evrópuráðsins var á umliðnu ári svipuð og áður, þ. e. í ráðherranefnd, á Ráðgjafarþingi, Viðreisnarsjóði og í ýmsum sérfræðinganefndum Evrópuráðsins. Ísland á auk þess fulltrúa í mannréttindanefnd og mannréttindadómstóli. Ein af nefndum Ráðgjafarþings Evrópuráðsins, efnahags- og þróunarmálanefndin, hélt fund í Reykjavík 2.–4. júní s. l. Voru erlendir þátttakendur um það bil 30 og voru þeim sérstaklega kynnt íslensk efnahagsmál.

Svo til öllum málum Evrópuráðsins er vísað til ráðherranefndarinnar til umfjöllunar og samþykkis, en það eru málefni er varða félagsmál, menningar- og fræðslumál, æskulýðsmál, heilbrigðismál, umhverfis- og byggðaáætlanir, sveitarstjórnamál, löggjafarsamstarf og mannréttindi.

Eitt þýðingarmikið mál, sem einkum hefur komið til kasta ráðherranefndarinnar, er kæra Kýpur á hendur Tyrklandi fyrir mannréttindanefndinni. Mannréttindanefndin komst að þeirri niðurstöðu, að Tyrkir hefðu brotið ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu með framkomu sinni í garð Kýpur-Grikkja eftir innrásina á Kýpur. Málinu var vísað til ráðherranefndarinnar, sem reyndi að láta fara frá sér texta með nokkurs konar málamiðlun, en það tókst ekki vegna hörku málsaðila og var málinu frestað.

Ráðherranefndin er vettvangur, þar sem aðildarríkin bera saman bækur sínar og skiptast á skoðunum. Hafa sérfræðingar frá utanrrn. margra aðildarríkjanna komið á fundi í n. með fastanefndunum. Er skoðun margra háttsettra embættismanna og ráðamanna Evrópuríkjanna sú, að Evrópuráðið, þ. e. ráðherranefndin, sé kjörinn vettvangur til slíkra viðræðna, og hefur góður árangur náðst af þessu fyrirkomulagi. Einkum er bent á þá þýðingu sem slíkir fundir hafa tengsl EFTA- og Efnahagsbandalagsríkjanna og annarra aðildarríkja ráðsins, þannig að stjórnmálalegu hlutverki Evrópuráðsins hefur vaxið nokkur fiskur um hrygg.

Einn merkasti viðburður ársins, að því er til Evrópuráðsins tekur, er sá, að Spánn gerðist formlega aðili og eru aðildarríkin þar með orðin 20 talsins. Er búist við því, að Spánn eigi eftir að láta töluvert að sér kveða innan Evrópuráðsins, enda sjötta stærsta aðildarríkið.

Að venju sóttu íslenskir fulltrúar vor- og haustfundi Ráðgjafarþings Evrópuráðsins. Að tilstuðlan þingsins var efnt til ráðstefnu á Möltu á s. l. sumri um fiskverndunar- og hafréttarmál. Sóttu ráðstefnuna tveir íslenskir fulltrúar.

Á s. l. sumri kom forseti Evrópuráðsþingsins, Austurríkismaðurinn Karl Czernetz, í opinbera heimsókn til Íslands. Átti hann viðræður við ráðh., ráðuneytisstjóra utanrrn. og ýmsa fleiri embættismenn.

Sjötti fundur Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna var haldinn í New York frá 23. maí til 15. júlí 1977. Í lok fundarins var lagður fram óformlegur heildarviðræðutexti, sem unninn var af forseta ráðstefnunnar og formönnum aðalnefndanna á grundvelli umræðnanna á fundinum. Ákveðið var að textinn skyldi liggja fyrir á næsta fundi ráðstefnunnar, sem hófst í Genf 27. mars 1978 og mun standa í 3 vikur. Nýlega fóru fram í New York óformlegar viðræður um helstu deilumálin til frekari undirbúnings þessum fundi.

Textinn, sem nú liggur fyrir, styrkir stöðu efnahagslögsögunnar. Samkv. ákvæðum í kaflanum um efnahagslögsögu er það strandríkis að ákveða leyfilegan afla og eigin veiðigetu. Gert er ráð fyrir vissum réttindum landluktra og annarra ríkja, en samkv. nýrri grein gilda slík réttindi ekki gagnvart ríkjum sem eru sérstaklega háð fiskveiðum. Enn fremur er í kaflanum um lausn deilumála kveðið á um að ekki beri að vísa deilum varðandi ákvarðanir strandríkis, um leyfilegan afla og veiðigetu til úrskurðar þriðja aðila. Nýi textinn er því mjög hagstæður strandríkjum, en þau hafa átt umfangsmikla samvinnu á ráðstefnunni.

Í nýja textanum breytast einnig greinarnar, sem fjalla um mengun og vísindarannsóknir og ekki er búist við að þær valdi verulegum erfiðleikum.

Á hinn bóginn ríkir enn mikill ágreiningur um vandamál varðandi alþjóðahafsbotnssvæðið, en iðnþróuðu ríkin telja, að ekki hafi verið nægilega komið til móts við hagsmuni þeirra. Vegna þessa mikla árangurs er ekki fyrirsjáanlegt, að næsti fundur verði sá síðasti fyrir undirskrift sáttmálans og ekki hefur byrjun hans heldur aukið líkur á því að svo verði.

Í ræðu, sem ég hélt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú síðast, drap ég stuttlega á hafréttarmál. Ég lagði þar áherslu á þá skoðun íslensku ríkisstj., að alger efnahagslögsaga njóti trausts stuðnings samkv. þjóðarrétti. Ég benti jafnframt á, að vitaskuld væri fengur í því ef það yrði tekið upp í formlegan hafréttarsáttmála. Ég ítrekaði, að öllu afli þyrfti að beita til að ganga endanlega frá þeim efnisatriðum í heildarsamkomulaginu sem eftir eru, einkum og sér í lagi á sviði alþjóðahafsbotnssvæðisins. Samt fannst mér ástæða til að benda á þá augljósu staðreynd, að ekki væri hægt að búast við því að þjóðir noti til þess ótakmarkaðan tíma og fjármuni.

Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur nú starfað í um það bil 11/2 ár. Höfuðstöðvar hans eru í Tókíó, en ætlunin er að háskólinn dreifi starfsemi sinni um allan heim í tengslum við rannsókna- og menntastofnanir í ýmsum löndum. Þau svið, sem skólinn mun nú í fyrstu einbeita sér að, eru þrjú:

1. Matvælaskorturinn í heiminum og mannfjölgunarvandamál.

2. Nýting náttúruauðlinda.

3. Félagslegar framfarir.

Standa vonir til að fyrir árslok verði búið að leggja nokkurn grundvöll að starfsemi í 35 löndum.

Ísland hefur frá upphafi stutt hugmyndina um Háskóla Sameinuðu þjóðanna og er markvíst stefnt að því, að hér verði komið á fót þjálfun og kennslu varðandi nýtingu jarðhita, er fram fari hjá Orkustofnun með þátttöku Háskóla Íslands. Heimsóttu þeir dr. Walter Manshard, aðstoðarrektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna fyrir náttúruauðlindasvæðið, og dr Jim Harrison, ráðunautur Háskólans, Ísland í júní 1977 til viðræðna um það mál, og kom sá síðar nefndi hingað aftur fyrir skemmstu.

Liggur nú fyrir áætlun sem miðast við að starfsemi hér á landi hefjist á næsta ári og að hingað komi þá fimm ársdvalarstyrkþegar, eða fleiri ef dvalartími verður skemmri, og svo sem svarar 10 árið 1980. Stofnkostnaður er áætlaður um 15.2 millj. kr., þar af 8.3 millj. 1979, en árlegur rekstrarkostnaður um 24.3 millj. kr. 1979 og 33.5 millj, kr. árið 1980. Háskóli Sameinuðu þjóðanna mun taka þátt í innlendum kostnaði, auk þess sem skólinn mun kosta ferðir styrkþega hingað til lands og uppihald, þannig að áætlað er, að leggja þurfi til starfseminnar af íslenskri hálfu á árinu 1979 u. þ. b. 27.5 millj. kr. og á árinu 1980 þurfi fjárveiting hér að nema 33 millj. kr. Málið mun væntanlega koma fyrir fund háskólaráðs í júní n. k., og ef undirtektir þar verða jákvæðar er trúlegt að forráðamenn Háskólans hafi meðferðis drög að formlegum samningi ef þeir koma hingað til lands á fyrirhugaða vinnuráðstefnu Háskóla Sameinuðu þjóðanna um jarðhitamál í júlíbyrjun í sumar.

Vinnuráðstefnu þessa, sem verður á Laugarvatni dagana 4.–8. júlí n. k., er gert ráð fyrir að sæki allt að 17 erlendir sérfræðingar ásamt íslenskum sérfræðingum. Þar verður fjallað nánar um hvers konar fræðslu mest þörf sé fyrir á þessu sviði og hvaða tilhögun á henni sé æskilegust. M. a. hefur komið til tals að ákjósanlegt gæti verið að stofna samstarfsmiðstöð á Íslandi fyrir alþjóðlega fræðslu og þjálfun, er beinist að nýtingu jarðhita, en nokkur lönd halda þegar uppi starfsemi á því sviði.

Það væri vissulega ánægjulegt, ef af þessum áformum gæti orðið og við fáum þannig tækifæri til að leggja okkar skerf af mörkum til þessara mála.

Síðan lögin um aðstoð Íslands við þróunarlöndin voru sett árið 1971 hefur átt sér stað nokkur skipuleg starfsemi á því sviði. Ísland gerðist frá og með 1. júlí 1973 að telja aðill að samningi Norðurlandanna fjögurra um stjórn sameiginlegra aðstoðarverkefna í þróunarlöndum, sem þau höfðu gert með sér hinn 18. júlí 1968, en sá samningur er helsti grundvöllur norræns samstarfs á sviði þróunaraðstoðar. Hafa undanfarin tvö ár í gangi verið þrjú norræn aðstoðarverkefni í Afríku, þ. e. tvö í Tanzaníu, uppbygging samvinnurekstrar og efling landbúnaðar, og eitt í Kenýu, samvinnurekstur. Nýlega bættist við fjórða verkefnið og er það í Mozambique, þ. e. a. s. uppbygging landbúnaðar. — Ísland hefur verið aðili að öllum þessum verkefnum og leggur nú fram um 0.74% heildarkostnaðar — eða á árinu 1978 jafnvirði u. þ. b. 25 millj. ísl. kr. Um síðustu áramót voru 6 Íslendingar starfandi að umræddum verkefnum, 5 í Kenya og 1 í Tanzaníu.

Hér er þó ekki um að ræða nema hluta af aðstoð Íslands til þróunarlandanna, því að mest af þeirri aðstoð felst í framlögum til alþjóðastofnana sem starfa í þeirra þágu. Samkvæmt bráðabirgðayfirliti, sem tekið var saman á s. l. ári, námu áætluð framlög hins opinbera til aðstoðar þróunarlandanna á árinu 1977 samtals 205.2 millj. kr. eða tæplega 0.07 af áætlaðri þjóðarframleiðslu. Þetta er því miður ekki nema u. þ. b. 1/10 hluti af því hlutfalli þjóðarframleiðslu, sem ætlast er til að iðnvædd ríki leggi fram. Þarf því að huga vandlega að möguleikum á að gera hér á umtalsverða bragarbót á allra næstu árum, ekki síst þar sem grannríki okkar, er búa við svipaða vesæld og við, leggja mun meira af mörkum.

Raunar má sem betur fer segja að stefnt hafi í rétta átt upp á síðkastið, því að framlögin á fjárl. til stofnunarinnar Aðstoð Íslands við þróunarlöndin hafa aukist verulega undanfarin 3 ár eða úr 12.5 millj. kr. 1976 í 25 millj. kr. 1977 og 40 millj. kr. á þessu ári Þetta hefur gert stofnuninni kleift að huga að frekari útfærslu starfseminnar. Þykir nú æskilegt að nýta þá reynslu, sem fengist hefur í samstarfinu við hin Norðurlöndin, og taka líka upp beina aðstoð t. d. á sviði fiskveiða við þróunarríki sem þess þarfnast. Er nú í undirbúningi í samráði við utanrrn. og fleiri aðila slík aðstoð við Kenýu og Grænhöfðaeyjar eða Cap Verde. Upphafið voru óskir frá báðum þessum ríkjum, en síðan var ákveðið að senda þá skipstjórana Guðjón Illugason til Kenýu og Baldvin Gíslason til Grænhöfðaeyja til þess að kanna aðstæður. Þeir hafa báðir öðlast reynslu í störfum fyrir FAO. Standa málin nú svo, að Kenýa hefur gert tilboð um að kosta íslenskan skipstjóra í eitt ár til að annast tilraunaveiðar og jafnframt að leggja til veiðarfæri. Svar Kenýumanna hefur nú borist, eftir að þessi skýrsla hefur verið birt, barst rétt eftir að skýrslan var samin, og þiggja þeir boðið með þökkum og liggur nú næst fyrir að ráða reyndan skipstjóra til fararinnar. Er unnið að því máli hjá stofnuninni Aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Þannig mun þetta standa á þessari stundu. Næsta skref til undirbúnings hugsanlegri aðstoð við Grænhöfðaeyjar er heimsókn fiskimálastjóra þeirra og sendiherra landsins hingað nú undir vertíðarlokin, seint í þessum mánuði. Munu þeir kynna sér útvegsmál hér með það sérstaklega í huga, hvað komið gæti að gagni heima fyrir hjá þeim. Grænhöfðaeyjar fengu sjálfstæði fyrir aðeins fáum árum og hefur komið fram af hálfu æðstu ráðamanna þeirra áhugi á að leita hér fyrirmynda á fleiri sviðum, enda er m. a. íbúafjöldi þar svipaður og hér.

Í sambandi við þróunaraðstoðina er loks vert að rifja upp, að Ísland hætti frá og með næstsíðustu áramótum að þiggja framlög frá þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), en þau höfðu um árabil numið töluverðri fjárhæð. Nokkrum verkefnum, sem ekki var að fullu lokið hefur verið haldið áfram fyrir íslenskt fé. Framlag Íslands til þessarar stofnunar er á þessu ári 17.6 millj. kr. Enginn vafi leikur á að Ísland á betur heima í hópi veitenda en þiggjenda þeirrar stofnunar, þótt alltaf megi finna hér í þessu framtíðarlandi þörf verkefni til að fjármagna.

Þegar til þess kemur að auka þróunaraðstoðina má hafa í huga, að mörg þeirra ríkja, sem mest leggja nú fram, gera það að hluta í formi eigin iðnaðarvara og þjónustustarfsemi, svo sem verkfræði- og annarri sérfræðiþjónustu. Slík aðstoð er þróunarríkjum oft hagkvæm — og getur stuðlað að góðri og öruggri nýtingu framlaga. E. t. v. gætum við þannig án þess að nokkur skaðist um leið hlynnt að einhverjum útflutningsgreina okkar.

Þátttaka okkar í störfum Atlantshafsbandalagsins hefur verið með venjulegum hætti. Í maímánuði s. l. var haldinn fundur þjóðarleiðtoga í London. Ákveðið var samkv. till. frá hinum nýja forseta Bandaríkjanna, Carter, að sérstök athugun yrði gerð á samskiptum austurs og vesturs með það fyrir augum, að fundnar verði leiðir til að bæta sambúðina og auka samskiptin og þannig vinna að áframhaldandi slökunarstefnu. Annar þjóðarleiðtogafundar verður haldinn í Washington dagana 30. og 31. næsta mánaðar.

Að því er varðar framkvæmd samkomulagsins milli Íslands og Bandaríkjanna um varnarmálin frá 22. okt. 1974 gengur allt samkvæmt áætlun. Þegar hefur verið fækkað um 420 varnarliðsmenn eins og gert var ráð fyrir. Bygging flugturns er langt á veg komin. Þjálfun hefur þegar faríð fram á flugumferðarstjórum í Bandaríkjunum vegna nýrra lendingarkerfa. Þjálfunin tók mun skemmri tíma en almennt gerist vegna hæfni þessara manna og góðrar undirstöðukunnáttu.

Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa strandgæslu Bandaríkjanna og Landhelgisgæslunnar um möguleika á þjálfun Íslendinga í hinum ýmsu skólum vestanhafs, sérstaklega að því er varðar björgun mannslífa.

Varnarliðið er um þessar mundir að fá nýjar orrustuþotur í stað hinna eldri, og síðar á árinu koma til landsins nýjustu og fullkomnustu ratsjárflugvélar sem völ er á. Í báðum tilfellum er um að ræða eðlilegar breytingar, bæði vegna þess að eldri tækin voru orðin úr sér gengin og eins vegna tæknilegra framfara. Að öðru leyti mun ég ekki endurtaka þær árlegu umr., sem um þessi mál hafa farið fram hér á hv. Alþ. nema tilefni gefist til.

Í fyrra gætti nokkurs óróa og óvissu í alþjóðaviðskiptum vegna hins hægfara hata efnahagslífsins eftir kreppuárin 1974–1975. Í ýmsum Evrópulöndum voru gerðar sérstakar ráðstafanir til aðstoðar þeim atvinnugreinum, sem verst voru settar, svo sem skipasmiði, vefnaðarvöruiðnaði og stáliðnaði. Ný innflutningshöft hafa samt ekki verið lögð á nema í undantekningartilfellum, en aukin vernd hefur verið veitt með styrkveitingum, hagstæðum lánum og öðrum ráðstöfunum. Þessar aðgerðir hafa því torveldað milliríkjaviðskipti á ákveðnum sviðum, og hefur skrifstofa GATT í Genf áætlað að þær hafi náð 3–5% af umsetningu alþjóðaviðskipta síðan 1974. Því má segja, að þrátt fyrir vissa erfiðleika hafi tekist vel að komast hjá nýjum hömlum á alþjóðaviðskipti. Er það tvímælalaust árangur af hinni viðtæku alþjóðasamvinnu um efnahags- og viðskiptamál sem á sér stað á vegum GATT, OECD, EFTA, EBE og IMF. En jafnframt skal bent á, að öflugra samstarf er nauðsynlegt til að blása nýju lífi í atvinnulíf margra landa.

Vegna efnahagserfiðleikanna, sem hófust með margföldun á olíuverði 1973, hafa samningaviðræður við GATT um lækkun tolla og afnám viðskiptahafta dregist mjög á langinn. Viðræður þessar hófust í Tokíó í sept. 1973 og eru oft við þann stað kenndar. Á fundi leiðtoga stórveldanna í London í maí 1977 var tekin ákvörðun um að stefna að því að ljúka þessum samningum sem fyrst. Um haustið komst svo skriður á málið eftir að Bandaríkin og Efnahagsbandalagið komu sér saman um ákveðin vinnubrögð og forsendur frekari samninga, þ. á m. um að tillaga Sviss um tollalækkanir á iðnaðarvörum yrði lögð til grundvallar, þó með vissum undantekningum. Talið er, að hin svokallaða svissneska formúla hafi í för með sér um 40% meðaltollalækkun á 8 ára tímabili.

Um landbúnaðarafurðir skyldi samið sérstaklega á grundvelli óska og tilboða samningsaðilanna.

Enn fremur er í Tokíó-viðræðunum stefnt að því að draga úr ýmsum öðrum viðskiptahömlum og verði settar ítarlegri reglur en eru í hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti, þ. e. a. s. GATT, um tollverð vara, opinber innkaup, niðurgreiðslur og jöfnunartolla o. fl. Þá er einnig mikið rætt um skýrari ákvæði um verndunarráðstafanir heldur en nú felast í XIX. gr. GATT-samkomulagsins. Loksins er það yfirlýstur tilgangur viðræðnanna að bæta aðstöðu þróunarlandanna og veita þeim viðskiptafríðindi án þess að ætlast sé til að þau greiði í sömu mynt.

Auk Bandaríkjanna, Efnahagsbandalagsins og Sviss hafa m. a. Japan, Finnland, Noregur og Svíþjóð lýst yfir stuðningi við hugmyndina um almenna tollalækkun. Samt eru horfur á því, að meiri hluti GATT-landa, þ. á m. Ísland, geti ekki fallist á ákveðna „formúlu“ fyrir tollalækkunum, heldur muni þau stefna að því að ná jafnvægi milli tollalækkana og þeirra tollfríðinda, sem þau fá í staðinn. Framan af viðræðunum hafði Ísland nána samstöðu með Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, en mun hafa aðra afstöðu í samningunum en þau lönd. Náin samvinna meðal Norðurlandanna um upplýsingaskipti og ýmis tæknileg atriði í þessum flóknu og langdregnu samningum er Íslandi mjög til gagns. En það sem hefur einkum mótað afstöðu Íslands er sú staðreynd, að langflestar útflutningsvörur okkar njóta nú tollfrelsis í Efnahagsbandalaginu og EFTA-löndum og í stærsta markaðslandi okkar, Bandaríkjunum, er innflutningur á frystri þorskblokk tollfrjáls og aðeins óverulegur tollur á freðfiskflökum. Því er þess ekki að vænta, að niðurstöður Tokíó-viðræðnanna verði til þess að greiða fyrir útflutningi okkar neitt verulega, og þar af leiðandi er ekki ástæða til að bjóða neinar tollalækkanir umfram þær, sem þegar hafa verið ákveðnar. Tokíó-viðræðurnar í GATT hafa engu að síður mikla þýðingu fyrir Ísland, svo sem önnur lönd, smá og stór, sem mjög eru háð utanríkisviðskiptum um alla afkomu sína. Með slíkum samningum þokar í rétta átt um frjáls viðskipti almennt, en í því efnahagsástandi, sem verið hefur frá því að olíukreppan hófst, er einmitt mikil hætta á að gripið verði til stórfelldra verndaraðgerða. Á því mundu smáríkin tapa mest.

Síðan 1970, er Ísland gekk í EFTA, hafa víðtækar lækkanir átt sér stað bæði á verndartollum og fjáröflunartollum, svo sem á vélum og iðnaðarhráefnum. Hefur verið reiknað út, að miðað við tolla og innflutning ársins 1973, þegar Tokíóviðræðurnar hófust, mundu heildartolltekjur verða árið 1980 um 40% lægri en 1973, og er þá reiknað með þeim tollum sem ákveðnir hafa verið í gildandi tollskrá. Þessar tollalækkanir verða að teljast aðalframlag okkar í Tokíóviðræðunum, en reyndar verður lækkunarhlutfallið miklu lægra, ef reiknað er aðeins með lækkun á almennum tollum á innflutningi frá öllum löndum, eins og gert er í GATT.

Einn merkasti viðburður ársins á viðskiptasviðinu var afnám eftirstöðva af tollum og iðnaðarvörum í viðskiptum EBE- og EFTA-landa frá 1. júlí 1977. Hafði þannig myndast fríverslunarsvæði 16 Evrópuríkja, 9 EBE-landa og 7 EFTA-landa. Hér á landi verða þó ekki verndartollar að fullu felldir niður fyrr en 1980, en á árinu 1977 var á innflutning frá EBE og EFTA-löndum lagður tollur sem samsvaraði 30% af grunntollinum eins og hann var í ársbyrjun 1970. Þessi innflutningur nam um 16% af heildarinnflutningi árið 1976.

Árið 1977 var fyrsta árið sem tollfríðindi fyrir íslenskar sjávarafurðir í Efnahagsbandalagi Evrópu. skv. bókun nr. 6, voru í gildi, Gildistaka bókunarinnar hefur átt þátt í að auka útflutninginn til EBE og hækka verðið, einkum á freðfiskflökum og frystri rækju.

Á síðasta ári hófust samningar milli EFTA og Spánar, sem miða að því að jafna viðskiptaaðstöðu EFTA-landanna og EBE á Spáni, en EBE hefur notið þar forréttinda á grundvelli viðskiptasamnings sem gerður var 1970. Þess er vænst, að Spánn lækki yfirleitt tolla á iðnaðarvörum frá EFTA-löndum um 60% og 25% skv. sérstökum vörulistum, en þar á móti komi svo lækkun EFTA-landanna a spánskum vörum 60%, þ. e. a. s. að tollurinn samsvari 40% af ytri tolli, sem gildir um innflutning frá löndum utan þessara bandalaga, Fríverslunarbandalagsins og Efnahagsbandalags Evrópu.

Búist er við að tollalækkun Spánverja taki einnig til saltfisks, freðfisks og kavíars og að vilyrði fáist um greiðari aðgang að spánska markaðinum fyrir saltfisk heldur en verið hefur. Má því ætla, að samningurinn geti haft nokkurt gildi fyrir okkur.

Þótt aðstaðan fyrir íslenskar útflutningsvörur sé yfirleitt hagstæð á erlendum mörkuðum sker þó eitt land og ein afurð sig algjörlega úr í þeim efnum. Það er Nígería og skreiðin, en enn þá hafa ekki fengist innflutningsleyfi í Nígeríu fyrir skreiðarframleiðslu síðasta árs, þótt gerðir hafi verið sölusamningar við opinbert innflutningsfyrirtæki. Af hálfu skreiðarútflytjenda og ríkisstj. hefur allt verið gert sem hægt er til að leysa þetta vandamál, en enn þá án árangurs. Þó standa vonir til að rýmkað verði um innflutning á skreið þegar Nígeríustjórn leggur fram ný fjárlög í kringum 1. apríl n. k. segir hér í skýrslunni, en nú er 1. apríl því miður liðinn án þess að nokkuð slíkt hafi gerst.

Í stærsta markaðslandi okkar fyrir saltfisk, Portúgal, hafa undanfarin ár verið miklir efnahagserfiðleikar, svo að hætta hefur verið talin á að portúgölsk stjórnvöld mundu verða að draga úr saltfiskinnflutningi. Til að koma í veg fyrir að svo yrði hefur af okkar hálfu verið lögð mikil áhersla á að auka vörukaupin frá Portúgal, en árangurinn hefur enn sem komið er verið of lítill. Verður þessi viðleitni því aukin.

Engir nýir viðskiptasamningar voru gerðir á síðasta ári. Viðskiptin við Austur-Evrópulöndin héldu áfram á grundvelli gildandi samninga og gengu þau yfirleitt vel. Í þessari skýrslu er ekki ástæða til að rekja gang þeirra viðskipta né gera almennt grein fyrir þróun utanríkisviðskiptanna. Eins og undanfarin ár er henni fyrst og fremst ætlað að fjalla um helstu viðskiptamál sem íslensk stjórnvöld hafa haft sérstök afskipti af.

Á viðskiptasviðinu hefur utanrrn. haldið áfram fyrri viðleitni til að dreifa upplýsingum um íslenskar útflutningsvörur erlendis. Meðal þeirra verkefna, sem nú er unnið að, er stofnun viðskiptafulltrúaembættis við eitt af sendiráðum Íslands í Evrópu. Málið hefur verið í undirbúningi hjá utanrrn. og viðskrn., en á fjárl. þessa árs hefur rn. fengið fjárveitingu til markaðsmála sem það hyggst nota í þessu skyni. Verður væntanlega hægt að skýra frekar frá þessum ráðagerðum alveg á næstunni. Rn. hefur jafnframt haldið áfram útgáfu upplýsinga um íslensk útflutningsfyrirtæki. Í samvinnu við viðskrn, hefur komið út síðustu daga endurbætt og vönduð upplýsingaskrá um öll íslensk útflutningsfyrirtæki: Directory of Icelandic Exporters. Verður skrá þessari dreift til sendiráða og ræðisskrifstofa Íslands erlendis.

Hlutverk íslensku utanríkisþjónustunnar á þessu sviði er að mínu mati ekki alltaf metið sem skyldi. En þegar grannt er skoðað og litið á þá fjölhættu starfsemi, sem fram fer í sendiráðum Íslands, kemur í ljós, að ekki lítill hluti starfseminnar beinist að viðskiptamálum. Sendiráðið í Moskvu hefur það t. d. sem aðalverkefni að greiða fyrir viðskiptum Íslands við Sovétríkin. Önnur sendiráð hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna varðandi viðskipti, sem háð eru ákvörðunum stjórnvalda í viðkomandi landi. Á ég þar ekki síst við saltfisksviðskipti okkar við Spán og Portúgal, sem sendiráðið í París fylgist með, og skreiðarsöluna til Nígeríu, sem sendiráðið í London leitast við að fylgja eftir. Í New York starfar sérstakur viðskiptafulltrúi sem heyrir undir sendiráðið í Washington, og eins og fyrr segir stendur til að koma upp viðskiptafulltrúa við eitt af sendiráðum Íslands í Evrópu. Væntanlega verður það í París. Öll íslensk sendiráð svara á hverjum einasta degi fjölda fyrirspurna um íslenskar útflutningsvörur, og sama hlutverki gegna ræðismenn Íslands. Frumkvæðið að sölu vara hlýtur þó yfirleitt að vera hjá framleiðendum, en utanríkisþjónustan bæði hér heima og erlendis er ávallt reiðubúin að veita alla mögulega fyrirgreiðslu við að aðstoða útflytjendur, ekki síst á nýjum mörkuðum. Einn mikilvægur hlekkur í þessari aðstoð er hið góða samstarf milli utanríkisþjónustunnar og viðskrn.

Eitt umfangsmesta, en jafnframt ánægjulegasta verkefni utanrrn. á s. l. ári var ráðstefnuhald með ræðismönnum Íslands í ágústmánuði. Þetta var önnur ræðismannaráðstefnan sem rn. bauð til, sú fyrri var árið 1971. Alls tóku nú 9A ræðismenn þátt í ráðstefnunni, flestir með maka, en heildarfjöldi ræðismanna í dag er 171. Sérstaka athygli vakti hve langt að ýmsir ræðismenn voru komnir, en meðal þátttakenda voru ræðismenn frá Indlandi, Pakistan, Japan, Suður-Kóreu, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Uruguay. Þessi upptalning er e. t. v. táknræn fyrir hve langt íslenska utanríkisþjónustan hefur teygt starfsemi sína síðustu árin.

Megintilgangur með ráðstefnunni var að kynna fyrir ræðismönnum íslensk málefni og aðstæður, eins og þær blasa við í dag. Í því skyni voru fluttir fyrirlestrar um utanríkisstefnu Íslands, efnahagsþróun og viðskiptahorfur. Jafnframt fóru fram ítarlegar umr. um störf ræðismanna og leiðbeiningar um lausn þeirra margvíslegu mála sem ræðismenn fá í hendur. Farnar voru skoðunarferðir í útflutningsfyrirtæki bæði sunnanlands og norðan. Það er álit rn., að ráðstefnan hafi heppnast í alla staði mjög vel.

Náið samstarf um undirbúning og framkvæmd ráðstefnunnar var haft við útflytjendur og útflutningssamtök, svo og borgaryfirvöld í Reykjavík og bæjaryfirvöld á Akureyri. Útflutningssamtök og fyrirtæki, sem starfa á erlendri grund, tóku að sér verulegan hlut af kostnaði við vissa hætti ráðstefnunnar ásamt ofangreindum sveitarfélögum. Kann ég þessum aðilum bestu þakkir fyrir framlag þeirra.

Á s. l. ári voru stofnaðar þrjár ræðisskrifstofur Íslands erlendis. Voru það ræðisskrifstofur í Islamabat í Pakistan, Singapore og í Nassau á Bahamaeyjum. Í undirbúningi er enn fremur að koma á fót ræðisskrifstofum í Bangkok, Hong Kong og Bahrein.

Stofnað var til stjórnmálasambands við tvö ný ríki á árinu. Bæði eru þau ríki í Afríku Það eru Ghana og Grænhöfðaeyjar: Ísland hefur í dag stjórnmálasamband við 62 ríki.

Ég vil ekki láta hjá líða að minnast á veigamikinn þátt í hinu almenna starfi utanríkisþjónustunnar, en það eru landkynningarmál. Utanríkisþjónustan hefur gegnum árin aukið starf sitt jafnt og þétt á þessu sviði, bæði með prentun og kaupum á upplýsingaefni til dreifingar erlendis, almennri fyrirgreiðslu við erlenda ferðamenn sem hafa haft samband við sendiráðin svo og kaup og útvegun kvikmynda til dreifingar meðal áhugasamra aðila og samtaka. Segja má að samanlögð þjónusta á þessu sviði sé mjög mikil, þegar tekið er tillit til þess, að á einum degi geta borist í eitt sendiráð ýmist bréflega eða símleiðis tugir fyrirspurna um Ísland.

Á s. l. ári var haldið áfram að kanna möguleika til kaupa íbúðarhúsnæðis til afnota fyrir varamenn sendiherra erlendis á þeim stöðum þar sem hagstætt þótti. Var íbúðarhúsnæði keypt í Stokkhólmi í þessu skyni. Jafnframt er nú verið að ganga frá útvegun á nýju húsnæði fyrir sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum inni í New York, en heimild til skipta á sendiherrabústað er fyrir hendi í fjárl. Fullt samráð hefur verið haft við fjvn. Alþingis um þessi mál.

Í þessu sambandi er rétt að minnast einnig á þá stefnu rn. að búa skrifstofuhúsnæði sendiráðanna íslenskum húsgögnum eftir því sem aðstæður leyfa. Nýlega er lokið við að endurnýja húsgögn sendiráðsskrifstofurnar í París, en leitað var til húsgagnaframleiðenda á Íslandi um kaup á húsgögnum. Þetta er þriðja sendiráðið þar sem skrifstofur eru nú algjörlega búnar íslenskum húsgögnum. Þetta er viðleitni utanríkisþjónustunnar til að auglýsa íslenska húsgagnaframleiðslu á erlendum vettvangi, og er ástæða til að þakka fjvn. hv. Alþingis góða samvinnu í því efni.

Norðurlöndin hin skiptast á um setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og Norðmenn fá þar nú væntanlega inni næsta ár. Íslendingar hafa lengi sleppt því tækifæri að taka sæti þegar röðin hefur komið að okkur. Þannig er um fleiri stofnanir innan Sameinuðu þjóðanna. Til að breyting megi á verða, sem ég tel mjög æskilegt, þarf þjóðin að átta sig á gildi þess fyrir Ísland, og algjör forsenda er að efla utanríkisþjónustuna og auka fjárveitingar til hennar.

Ég vil segja hér, að íslenska utanríkisþjónustan hefur á að skipa mörgum mjög hæfum starfsmönnum, sem njóta viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi og mundu áreiðanlega fullfærir um að gegna svipuðum trúnaðarstörfum og þeim sem ég var nú að nefna. Þegar þess er gætt, að í íslensku utanríkisþjónustunni starfa nú aðeins 39 menn og sú tala hefur verið óbreytt s. l. 10–12 ár, má reyndar að mínu mati furðu gegna hversu vel hefur tekist til um framkvæmd þeirrar utanríkisstefnu sem ríkisstjórnir móta á hverjum tíma.

Ég tel að tími sé kominn til þess, að við áttum okkur á því, að það kostar nokkuð að vera sjálfstæð þjóð og halda uppi sjálfstæðri utanríkisþjónustu. Sú skoðun er allt of útbreidd, að slík störf séu mest fólgin í samkvæmislífi og fánýtum hlutum. Eftir allöng kynni mín af störfum þjónustunnar vil ég fullyrða að fáir, ef nokkrir, vinna landi og þjóð meira gagn en einmitt þetta fólk. Þess vegna er það áskorun mín til Alþ., að þrátt fyrir erfiða tíma verði veitt það fjármagn sem að bestu manna yfirsýn er nauðsynlegt til þess að íslenska utanríkisþjónustan geti eigi aðeins haldið áfram, heldur aukið sitt þýðingarmikla starf.

Ég vil svo að lokum, eins og venja er til, færa utanrmn. Alþingis sérstakar þakkir fyrir mjög ánægjulegt samstarf á liðnu ári, eins og raunar öll þau ár, sem ég hef starfað með þeirri hv. n. Í þessu sambandi mætti kannske geta þess svona í lokin, að í þessum mánuði á utanrmn. Alþingis hálfrar aldar afmæli, en hún var stofnuð 16. apríl 1928. Margir þjóðkunnir menn hafa gegnt formennsku og átt sæti í þessari n., og ég vil að lokum sérstaklega geta þess, að núv. form., hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, hefur gegnt formannsstarfi í þessari n. óslitið s. l. 7 ár og stjórnað á annað hundrað þeirra 500 funda sem n. hefur haldið. — Svo þakka ég fyrir.