11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3315 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir, sem hér hafa talað, þakka hæstv. utanrrh. skýrslu þá, er hann hefur flutt þingheimi um utanríkismál. Jafnframt þakka ég honum gott og vinsamlegt samstarf við utanrmn. á liðnum tíma og þakka honum enn fremur fyrir að minna á 50 ára afmæli n. í þessum mánuði. Vil ég gjarnan taka það sem hamingjuósk frá hans hendi og endurgjalda þá ósk í nafni nefndarinnar.

Ráðh. gat þess, að þetta væri tíunda árið sem yfirlitsskýrsla af þessu tagi væri flutt á Alþ. Hygg ég að hv. þm. þyki þetta góður síður, sem þeir kunni vel að meta og þakka. Ég mun nú fara nokkrum orðum um þessa skýrslu.

Ég ætla ekki að ræða mikið mál annarra hv. þm. sem hér hafa talað. Mér hefur heyrst á ræðum þeirra, að þeir væru allir meira og minna ánægðir með skýrsluna, nema þá helst hv. 3. þm. Reykn. Hv. síðasti ræðumaður, sem talaði á undan mér, svaraði nokkrum atriðum úr ræðu hv. þm. Mér heyrðist hv. 3. þm. Reykn. aðallega halda sig í máli sínu í eigin kjördæmi, og er honum vart láandi þó að hann kunni vel við sig á þeim slóðum.

En hv. 2. landsk. þm. gat þess í ræðu sinni um þetta mál, að hann teldi að miklu meiri festa hefði ríkt í tíð núv. ríkisstj. en þeirrar fyrrv.

Er ég honum sammála um það. Skýrsla sem þessi hlýtur jafnan að bera „keim og eim síns aldarfars“. Þegar stormar geisa og stríð á alþjóðavettvangi eða stórátök eiga sér stað milli þjóðlanda, er oft frá mörgum og miklum viðburðum að segja. En þegar heldur friðvænlegra er um að lítast í heiminum og allt gengur sinn vanagang víðast hvar verður slík yfirlitsskýrsla daufari aflestrar og líkari þeirri næstu á undan, umr. líður áfram með lygnum straumi eins og á þessum síðdegisfundi. Þetta er ofur skiljanlegt, en um leið æskilegt, því að hvað er ákjósanlegra en það, að mál nái að þróast friðsamlega í samskiptum þjóða og milli þeirra fari bróðurlegt orð.

Því fer þó fjarri, að skýrsla sú, sem hér um ræðir, sé með öllu tíðindalaus. Þvert á móti greinir hún frá ýmsum mikilvægum málum. Þá er og til viðbótar að nefna fylgiritið, sem er skýrsla fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um 32. allsherjarþingið. Loks er þess að geta, að fulltrúar í utanrmn. fá einnig ársskýrslur sendiráða Íslands erlendis. Í öllum þessum skýrslum og grg. er mikinn fróðleik að finna. Naumast er því hægt með nokkrum rökum að kvarta yfir skorti á upplýsingum né nægum gögnum til umhugsunar og úrvinnslu.

Ég mun víkja að einstökum þáttum skýrslunnar. Ekki munu þeir þó allir verða teknir til meðferðar, heldur stiklað á stóru og farið fljótt yfir sögu.

Það mál sem flestir telja mestu varða — landhelgismálið — er nú komið í örugga höfn. Efnahagslögsagan er orðin staðreynd að alþjóðarétti. Nú er það okkar Íslendinga að gæta fengins fjár. Á síðustu árum hefur þróunin í þessum málum óneitanlega orðið okkur Íslendingum einkar hagstæð og síðasti áfanginn líkastur ævintýri. Það er fróðlegt og vert upprifjunar að geta þess, að árið 1971 nam samanlagður afli útlendinga á Íslandsmiðum 391 þús. tonnum, en á s. l. ári aðeins 27 þús. tonnum, auk samnings við Færeyinga um gagnkvæm veiðiréttindi. Árið 1971 var fiskveiðilögsagan 12 sjómílur, nú 200 sjómílur.

Saga þessa máls er þó miklu lengri. Baráttan var oft hörð og tvísýn, þótt sigur ynnist í einum áfanga af öðrum. Um þessar mundir er þess minnst. að 30 ár eru liðin frá setningu laga um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Þau voru samþykkt 5. apríl 1948. Ákvæði þeirra laga urðu stefnumarkandi í grundvallaratriðum. Með þeim hófst ný og öflug sókn sem leiddi til sigurs. Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur og formaður íslensku sendinefndarinnar á 7. fundi hafréttarráðstefnunnar í Genf minntist þessa atburðar og afmælis sérstaklega á ráðstefnunni svo að hann yrði skráður í annála hennar, og var það vel til fundið.

Það má geta þess, að Hans G. Andersen hefur marga hildi háð í þessu máli á liðnum árum og oft orðið að beita hyggindum og lagni auk afburða lagaþekkingar og lærdóms á sviði alþjóðaréttar. Ég get greint frá einu atviki til gamans, sem hefur orðið mér minnisstætt og er hér að sjálfsögðu tilfært eftir minni, því að mörg ár eru liðin síðan það bar við.

Haustíð 1949 urðum við Hans G. Andersen samferða til Sameinuðu þjóðanna, sem þá höfðu aðsetur í Lake Sueeess á Long Island í New York. Ég var þá að fara utan í fyrsta sinn á kynningarnámskeið hjá Sameinuðu þjóðunum, en Hans G. Andersen til að starfa í íslensku sendinefndinni hjá Sameinuðu þjóðunum, m. a. til að undirbúa sókn í landhelgismálinu, og varð mér það enn ljósara síðar meir. Í laganefnd Allsherjarþingsins kom þá fram till. af Íslands hálfu, að hinni nýstofnuðu þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna yrði falið að rannsaka reglur hafréttarins í heild. Spunnust miklar deilur út af þessu atriði, því að ýmsir aðrir höfðu ætlað þessari nefnd miklu þrengra og minna verkefni. Síðast valt á einu atkv. Kvaðst Hans þá hafa getað talið fulltrúa Kúbu á að standa með sér og málstað Íslands og bætti við: „Hann er skólabróðir minn frá Harvard.“ En þessi samþykkt, sem var gerð þarna í Lake Sueeess haustið 1949, er mjög merkileg fyrir þá sök, að til hennar má rekja þær hafréttarráðstefnur í raun og veru, sem haldnar hafa verið á alþjóðavettvangi og skilað hafa hafréttarmálum lengra áleiðis en nokkuð annað sem aðhafst hefur verið í þessum efnum.

Hæstv. utanrrh. getur þess í skýrslu sinni, að í landhelgismálinu hafi stundum verið ágreiningur um leiðir en aldrei um markmið. Þróun alþjóðamála hafi að vísu verið hagstæð, en alþm. einhuga. Þó hafi e. t. v. skipt mestu samstaða allrar þjóðarinnar.

Í kaflanum um þróun alþjóðamála og hlutverk smærri ríkja í því sambandi telur hæstv. utanrrh., að á árinu hafi heldur stirðnað samskipti risaveldanna, lítið hafi miðað áfram í átt til samkomulags. Þrátt fyrir Saltviðræður, Vínarviðræður o. fl. heldur vígbúnaðarkapphlaupið áfram. Slökunarstefnan á erfitt uppdráttar. Smáþjóðir eru nánast áhorfendur, en geta þó lagt lóð á vogarskálar til varðveislu friðar og öryggis í heiminum.

Norðurlönd hafa lengi haft samvinnu um málefni Sameinuðu þjóðanna og er það vel. Flestir Íslendingar vilja áreiðanlega efla norrænt samstarf eftir föngum, og núv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að við framkvæmd utanríkisstefnunnar vilji hún leggja áherslu á þátttöku Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna, samstarf Norðurlanda, varnarsamstarf vestrænna ríkja, samstarf þjóða Evrópu og þátttöku Íslands í þeim aðgerðum sem ætlað er að bæta sambúð austurs og vesturs. Þá kveðst ríkisstj. styðja eindregið alla viðleitni til að vernda mannréttindi, auðlindir og umhverfi með alþjóðlegri samstöðu.

Rétt er það, að Apartheidstefna Suður-Afríkustjórnar er illræmd. Fjölmargar ályktanir og áskoranir hafa verið samþykktar af Allsherjarþingi og Öryggisráði gegn henni og út af henni. Ég hef þá stundum hugleitt, hvort þessi mikli þrýstingur á stjórn Suður-Afríku sé alveg í réttu hlutfalli við það sem viðgengst og gert er annars staðar. Hvað segja menn t. d. um þá samþykkt utanrrh. Norðurlanda, að leggja til að öllum íþrótta- og menningarskiptum við kynþáttaaðskilnaðarstjórnina í Suður-Afríku verði hætt, eins og samþykktin hljóðar? Er æskilegt eða nauðsynlegt að láta slíkar samþykktir og aðgerðir bitna á saklausu íþrótta- og æskufólki í leikjum og frjálsu samstarfi til aukinna kynna? Í framhaldi af þessum hugleiðingum mætti e. t. v. fletta upp í skýrslu hæstv. utanrrh. nokkru aftar, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stundum er talað hátt um mannréttindabrot hjá einum aðila, meðan þagað er yfir sams konar brotum hjá öðrum, stundum gagnrýnd ein tegund brota, þegar jafnmikil eða meiri ástæða væri til að geta annarra, og loks er það ekki ótítt, að steinum sé kastað úr glerhúsum:

Ég hygg einmitt að þessi orð hæstv. ráðh. hafi mikið almennt gildi og víðtækt, enda segir á öðrum stað í skýrslunni, að samkv. nýjustu skýrslu Amnesty International samtakanna sé talið, að mannréttindi séu nú brotin í 116 löndum. Á hinn bóginn skal að sjálfsögðu skýrt tekið fram, að Norðurlönd geta vafalaust trútt um talað, þegar þessi mál ber á góma, og eðlilegt og sjálfsagt að þau láti mannréttindamál jafnan til sín taka þegar þörf krefur og unnt er að þoka einhverju til betri vegar. Í skýrslu hæstv. utanrrh. er rætt um Háskóla Sameinuð u þjóðanna. Hann hefur nú starfað í um það bil eitt og hálft ár og eru höfuðstöðvar hans í Tokíó. Þau svið, sem skólinn mun nú í fyrstu einbeita sér að, eru þrjú: 1. matvælaskorturinn í heiminum og mannfjölgunarvandamál, 2. nýting náttúrnauðlinda og 3. félagslegar framfarir. Það ber að fagna því, að Ísland og fulltrúar Íslands hafa frá því fyrsta stutt hugmyndina að Háskóla Sameinuðu þjóðanna. En það er ánægjulegt, að stefnt skuli að því, að komið verði á fót hér á landi þjálfun og kennslu varðandi nýtingu jarðhita er fari fram hjá Orkustofnun með þátttöku Háskóla Íslands, eins og segir í skýrslunni. Einnig er vert að minnast á það, að komið hefur til tals, að ákjósanlegt gæti verið að stofna samstarfsmiðstöð á Íslandi fyrir alþjóðlega fræðslu og þjálfun, er beinist að nýtingu jarðhita, en nokkur lönd halda þegar uppi starfsemi á því sviði. Væri ástæða til þess að ræða þessi mál nánar, þó að það skuli ekki gert að sinni.

Hér er alllangur kafli um þróunaraðstoð og er þar fjallað um aðstoð Íslands við þróunarlöndin síðan lög voru sett um þá starfsemi árið 1971. Það er sérstaklega tekið fram, að Ísland sé nú farið að leggja sér á minni eða taka tillit til hins forna spakmælis í þessum efnum, að „sælla er að gefa en þiggja“, og er nefnt í skýrslunni að enginn vafi geti leikið á því, að Ísland eigi betur heima í hópi veitenda en þiggjenda þeirrar stofnunar. Er þetta að sjálfsögðu rétt, þó að sannarlega beri að meta þá aðstoð sem Ísland hefur þegið úr þessari átt og ég vil alls ekki telja að ófyrirsynju.

Þá er hér kafli um öryggismál. Er að því víkið þar, að þátttaka okkar í störfum Atlantshafsbandalagsins hafi verið með venjulegum hætti og að því er varði framkvæmd samkomulagsins milli Íslands og Bandaríkjanna um varnarmálin frá 22. okt. 1974 gangi allt samkvæmt áætlun. Allt er þetta góðra gjalda vert.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er og langur kafli um utanríkisviðskiptin 1977. Skal ekki farið út í þau mál með mörgum orðum. Það er rætt um að samningar standi nú yfir um lækkaða tolla og annað slíkt. Tokíóviðræðurnar í GATT hafa sömu þýðingu fyrir Ísland og önnur lönd, sem svo mjög eru háð utanríkisviðskiptum um alla afkomu sína, en það hefur löngum verið talin sérstaða Íslands, að það þyrfti mjög mikið á góðu sambandi og viðskiptum að halda við sem flestar þjóðir.

Þá er minnst á að búist sé við að tollalækkun verði á Spáni, sem taki einnig til saltfisks, freðfisks og kavíars, og að vonir standi til, að vilyrði fáist um greiðari aðgang að spánska markaðinum fyrir saltfisk en verið hefur. Ber sannarlega að fagna þessum tíðindum. Einnig ber að vona að Nígeríumarkaðurinn opnist fyrir skreiðina, þó að löng bið hafi nú orðið á því, að lausn hafi fengist á því máli.

Þá er fjallað um utanríkisþjónustuna almennt í síðasta kafla skýrslunnar og m. a. minnst á að eitt umfangsmesta, en jafnframt ánægjulegasta verkefni utanrrn. á s. 1. ári hafi verið ráðstefnuhald með ræðismönnum Íslands í ágústmánuði. Það er sannarlega rétt hjá hæstv. utanrrh., að forvitnilegt er að virða fyrir sér, hvað íslensk utanríkisþjónusta teygir orðið arma sína víða um hnöttinn. Þá er þess getið, að stofnað hafi verið til stjórnmálasambands við tvö ný ríki á árinu og að Ísland hafi nú í dag stjórnmálasamband við 62 ríki. Einnig er minnst á hinn veigamikla þátt, sem utanríkisþjónustan á í landkynningarmálum, sem eru okkur mjög þörf og mikilvæg. Það er sennilega hafið yfir allan vafa, að hinn tiltölulega fámenni hópur manna, sem starfar í íslensku utanríkisþjónustunni erlendis, leysi af hendi mjög mikilvæg og góð störf, enda er tekið fram í lok skýrslunnar, að e. t. v. megi segja að fáir eða engir vinni landi og þjóð meira gagn en einmitt þessi fámenni hópur sem starfar að utanríkismálum Íslendinga erlendis.

Ég held að flestir séu núorðið sammála um að Íslendingum er brýn nauðsyn að taka þátt í margháttuðum alþjóðasamskiptum. Sumir hafa þó á orði, að við eyðum of miklu fé og fyrirhöfn í þessi mál, en fáum of lítið í aðra hönd. En ég held að formælendum slíkra skoðana fari fækkandi. Það er að vísu rétt, að margur fundurinn og mörg ráðstefnan endar þannig, að ekki verður um uppfyllingu björtustu vona að ræða. Ýmsar samþykktir ná ekki lengra en á pappírinn. Erfitt er að knýja fram fullnustu samninga á alþjóðavettvangi. En það eitt að ræða saman, skiptast á skoðunum og bera saman bækur sínar er mikils virði og getur eytt mörgum misskilningi og stuðlað að vinsamlegum samskiptum og jafnvel varanlegum friði. Ég er þess fullviss, að mikill meiri hluti Íslendinga styður utanríkisstefnu, sem miðar að því að framfylgja þeim meginmarkmiðum sem núv. ríkisstj. setti sér í öndverðu og ég minntist á hér að framan. Íslendingar munu áfram reyna að vinna að bættri og friðsamlegri sambúð allra þjóða og sjá fótum sínum forráð í viðsjálum heimi.