11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3319 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Svava Jakobsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þm., sem hér hafa talað, þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans. Ég ætla ekki að gera skýrsluna í heild að umræðuefni, það hefur fulltrúi Alþb. í utanrmn. gert, en mig langar að víkja að einu afmörkuðu atriði, kaflanum í skýrslunni sem heitir: „Þróun alþjóðamála, hlutverk smærri ríkja.“

Í þeim kafla spyr hæstv. utanrrh. hvað smáþjóðir, eins og sú sem byggir Ísland, geti gert til að stuðla að bættum skilyrðum til afvopnunar og almennt bættri sambúð og samvinnu í heiminum. Þetta er mikilvæg spurning, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið, og hlýtur að hvíla á okkur öllum. Því miður er ég ekki nógu ánægð með svarið sem hæstv. ráðh. setur fram, því að mér virðist að hann telji að það nægi Íslendingum að vinna í alþjóðastofnunum að því að reyna að hafa áhrif á risaveldin, efla samvinnu, sem að vísu er góðra gjalda vert, og það er ekki meining mín með þessum orðum að gera lítið úr þeim þætti málsins, en ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki nóg.

Þegar ég las þennan kafla hugsaði ég eftir mjög svipuðum brautum og hv. 3. landsk. þm. gerði áðan í ræðustól. Ég þóttist finna þarna hliðstæðu við landhelgismálið, þróun þess og baráttu okkar Íslendinga eftir endanlegum árangri þar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að lengi vel, meðan afturhaldsöfl réðu landinu, var látið nægja að vinna að viðurkenningu á útfærslu fiskveiðilögsögu á alþjóðavettvangi, reynt að hafa áhrif á aðrar þjóðir og láta svo slag standa með það, hvað stórveldin létu hafa mikil áhrif á sig og hvenær væri hægt að láta til skarar skríða.

Það má velta því fyrir sér, hvernig farið hefði fyrir fiskstofnum okkar, ef við hefðum ekki tekið frumkvæði í þessu máli heima fyrir og stækkað fiskveiðilandhelgina, enda þótt það kostaði baráttu, svo sem öllum er kunnugt. Ég hygg, að það frumkvæði, sem við sýndum þá, hafi ráðið úrslitum, og ég hygg að við verðum að vinna eftir mjög svipuðum brautum í afvopnunarmálum, ef við meinum eitthvað með þessum fögru orðum. Það er nú einu sinni svo, að Ísland er NATO-ríki og hér er erlendur her, og því verðum við að taka afstöðu og sýna hana í verki, en láta okkur ekki nægja góðar og gegnar yfirlýsingar um að við séum friðsöm þjóð.

Það er ekkert leyndarmál, að Bandaríkjamenn hafa forskot í vígbúnaði og í gangi er eilíf hringrás vígbúnaðarkapphlaups. Þetta vígbúnaðarkapphlaup er löngu hætt að styrkja svonefnt „jafnvægi óttans“, heldur eykur það líkurnar á styrjöld í okkar heimshluta með hverju ári. Það er líka viðurkennt í skýrslu utanrrh., að sambúðin milli risaveldanna tveggja fari versnandi að þessu leyti. Ein sönnun þessa er ferill í framleiðslu kjarnorkusprengja. Nú er svo komið, að hernaðarsérfræðingar hafa lagað kjarnorkusprengjuna að samvisku sinni, gert hana litla og hættulausa eignum og mannvirkjum. Hún grandar aðeins mannslífum. Hér á ég vitaskuld við nevtrónusprengjuna, sem mjög hefur verið til umræðu að undanförnu.

Það er kaldhæðni, í ljósi yfirlýsinga okkar á alþjóðavettvangi um að við séum friðsöm þjóð, að sá boðskapur skyldi ganga út yfir heimsbyggðina einmitt héðan af Íslandi, að það hernaðarbandalag, sem Ísland er í, skyldi fagna þessu vopni. Það gerðist í ágústmánuði á síðasta ári að Luns, þessi mikli landsfaðir íslenskra NATO-sinna, var á fundi samtaka um vestræna samvinnu og lét það boð út ganga til fjölmiðla, að hann fagnaði framleiðslu sprengjunnar og með þeim rökum, að framleiðsla hennar mundi koma í veg fyrir stríð og hún mundi enn minnka líkurnar á því, að kjarnorkuvopnum yrði beitt. Skilji þeir sem skynsemi hafa. Luns lagði einnig áherslu á, að kerfi NATOs til að koma í veg fyrir stríð byggðist á kjarnorkuvopnum engu síður en venjulegum vopnum. NATO og amerískir hernaðarsérfræðingar gerðu sér miklar vonir um, að bandamenn þeirra í Evrópu tækju þessari sprengju fegins hendi. Nú hefur það hins vegar gerst, að Bandaríkjaforseti hefur fallist á að fresta ákvörðun um framleiðslu hennar. Það gerir hann vegna þrýstings bæði heima fyrir og ríkisstjórna sumra hverra í Evrópu. Þannig hefur t. d. hollenska ríkisstjórnin hafnað sprengjunni, Norðmenn hafa gert það einnig. Í Hollandi gerðist það, að varnarmálaráðherra landsins sagði af sér, og bendir það til þess, að ákvörðun hollensku ríkisstjórnarinnar muni ekki hafa verið tekin átakalaust. Í Hollandi er sterk andófshreyfing í gangi til þess að koma í veg fyrir framleiðslu þessarar sprengju. Þá fögnuðu breska ríkisstjórnin og sú belgíska ákvörðun Carters Bandaríkjaforseta um að fresta ákvörðun á framleiðslu hennar. Vestur-Þjóðverjar hafa hins vegar verið ákveðnastir í stuðningi við framleiðslu sprengjunnar, og er kannske trúlegt, að ríkisstjórnin hafi þar hrakist undan stjórnarandstöðunni, þeirri stjórnarandstöðu þar í landi sem kennir sig við Krist, en hún taldi að Carter hefði lagst hundflatur fyrir rússneska ,,keisaranum“ með því að taka þessa ákvörðun.

Nú ætla ég að víkja máli mínu að íslensku ríkisstj. Það kom í fréttum, að hæstv. ríkisstj. á Íslandi fékk bréf frá Brésneff og hún hefur svarað því bréfi. Það er auðvitað ágætt að svara sendibréfum og telst kurteisi. En það væri fróðlegt samt, ef íslenska ríkisstj. upplýsti hina íslensku þjóð um afstöðu sína og þá ekki síður afstöðu til framleiðslu þessarar sprengju. Hefur íslenska ríkisstj. reynt að hafa áhrif á Bandaríkjamenn í þessu sambandi? Ég spyr þessa vegna þess, að Bandaríkjaforseti hefur aðeins frestað ákvörðun um framleiðslu, sem þýðir að hann geti breytt þeirri ákvörðun hvenær sem veður skipast í lofti. Færi svo, þá verður íslenska ríkisstj. að mínu viti að taka hressilega á móti og hafa ákveðna afstöðu í þessu máli og í samræmi við þann vilja sem kemur fram hjá hæstv. utanrrh. um að Íslandi beri að vinna að afvopnun.

Ég spyr hæstv. utanrrh., hvort ríkisstj. hafi hugsað sér að mótmæla opinberlega framleiðslu þessarar sprengju. Mér er ekki kunnugt um að hún hafi gert það. En hafi hún látið uppi álit sitt við einhverja aðila vil ég spyrja hvernig það álit hafi verið. Ég vil í þessu sambandi minna á till. til þáll., sem ég flutti fyrir tveim árum ásamt hv. þm. Magnúsi T. Ólafssyni, um að Alþ. ályktaði að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf er bannaði geymslu hvers konar kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði, og nefndi einkum flugvélar sem flyttu kjarnorkuvopn. Þessi till. fékk aldrei neina afgreiðslu í utanrmn. Ég er þeirrar skoðunar, að enn sé þörf á slíkum lögum og þróunin að undanförnu ýti undir að slík lög verði sett.

Í skýrslu hæstv. ráðh. stendur orðrétt:

„Ég hef sagt það áður, bæði hér og á erlendum vettvangi, að samkomulag risaveldanna um afvopnun, einkum þó bann við framleiðslu, geymslu og dreifingu gereyðingarvopna, hvers eðlis sem þau eru, sé óhjákvæmileg forsenda fyrir framhaldi þeirrar slökunarstefnu sem svo mikið hefur verið rætt um undanfarin ár og við viljum efla eftir mætti.“

Ég get tekið undir þetta að vissu marki. En ég vil þó brýna hæstv. ráðh. á því, að ég tel það enn mikilvægara að taka frumkvæði hér heima, að við byrjum hér heima hjá okkur að hreinsa til, að banna kjarnorkuvopn, hvers eðlis sem þau eru, og reka þann her úr landi, sem hér er, og segja okkur úr hernaðarbandalaginu NATO.