11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni umtalsefni skýrslu utanrrh. alla, það hefur þegar verið gert rækilega af hálfu Alþb., en mig langar að minnast á einstök atriði í henni eða kannske öllu heldur atriði sem eru ekki í henni.

Af því að hæstv. utanrrh. minntist í skýrslu sinni á mannréttindamál, langar mig að nota tækifærið og minna á að Ísland er aðill að yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem gerð var samkv. ályktun alþjóðaráðstefnu þeirrar á kvennaárinu 1975, sem haldin var í Mexíkó, um svokallaðan kvennaáratug til 1985. Í þessari yfirlýsingu er gert ráð fyrir að áfram sé unnið á þeirri braut, sem mörkuð var með alþjóðakvennaárinu, sem sé að jöfnuði og jafnrétti kynjanna í raun á hvers konar vettvangi aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna. M. a. var gert ráð fyrir hnitmiðuðu starfi í þessa átt í samvinnu heimshlutasvæða og í hverju landi, á heimsmælikvarða sem og svæðisbundið, t. d. með starfi jafnréttisnefnda og annarra skipulagðra hópa.

Nú ern starfandi hér á landi sex jafnréttisnefndir á vegum sveitarfélaga, en þær eru allar til komnar fyrir tilstilli áhugafólks á stöðunum, og ber síður en svo að lasta það. En spyrja verður um starf af hálfu ríkisstj. og Alþ. Hefur verið reynt að örva slíka starfsemi eða hefur henni yfirleitt verið sýndur áhugi eða skilningur af hálfu stjórnvalda?

Hæstv. utanrrh. minnist ekki á þetta mál í skýrslu sinni, þrátt fyrir aðild Íslands að samkomulaginu um kvennaáratuginn, og hvergi er getið samstarfs við annarra þjóða fulltrúa í þessu sambandi, enda mun mála sannast að ríkisstj. hefur sýnt máli þessu sáralítinn áhuga og engan veginn greitt fyrir né hvatt til starfs á þessum vettvangi.

Í kafla skýrslunnar um þróun alþjóðamála lét hæstv. utanrrh. þess réttilega getið, að lítið sem ekkert hefði miðað í átt til samkomulags í afvopnunarmálum, og virðist hafa af því nokkrar áhyggjur sem von er. Jafnframt kastar hann fram þeirri spurningu, hvað smáþjóðir eins og Íslendingar geti gert til að stuðla að bættum skilyrðum til afvopnunar og almennt bættri sambúð og samvinnu í heiminum. Er ekki von að maðurinn spyrji? A. m. k. sér þess lítil merki í stefnu og starfi núv. ríkisstj., að hún hafi gert sér nokkra grein fyrir hugsanlegu lóði smáþjóðar á þær vogarskálar, eða yfirleitt hugsað, hvað þá rætt, hversu mikils lóð það mætti sín, væri það fram lagt af sjálfstæðum vilja og stefnu. Vissulega er nokkurs vert að vilja styðja tilraunir á ýmsum vettvangi, sem stuðlað gætu að afvopnun og banni við dreifingu vopna í heiminum, eins og utanrrh. getur um. Raunin er hins vegar sú, því miður, að þessi vilji kemur lítt fram í verki nema þá helst að því leyti sem Íslendingar hafa samstarf og stöðu með hinum Norðurlandaþjóðunum, sem er svo á margan hátt góðra gjalda vert. En á þeim vettvangi er þó æðilangt frá því, að Íslendingar hafi nokkurt frumkvæði, frekar að við séum dregin með af hinum. Eða hvar heyrðist t. d. rödd Íslands þegar rætt var um nifteindasprengjuna hjá Atlantshafsbandalaginu, þetta hroðalegasta vopn allra tíma, sem ætlað er að gereyða lífi, en skilja eftir mannvirki? Af afstöðu eða afstöðuleysi ríkisstj. gagnvart þessari nýjustu ógn hergagnaframleiðenda má helst ráða, að hún telji þetta ekki koma Íslendingum við. En það get ég fullvissað hæstv. ríkisstj. um, að þjóðin er þar ekki sammála. Slík morðstefna er fordæmd af allri alþýðu. Það er meira en lítið andkannalegt, að á sama tíma og lýst er yfir vilja til að stuðla að afvopnun skuli ekkert heyrast af Íslands hálfu á þeim vettvangi, sem þó var gefinn hjá Atlantshafsbandalaginu. Raunar er sjálf aðildin að NATO og hersetan á Íslandi eitt skýrasta dæmið um skilningsleysið á því, hvers megnug smáþjóð getur verið ef hún lætur ekki aðra stjórna sér. En þetta er að sjálfsögðu í samræmi við annað hjá þeirri sótsvörtu afturhaldsstjórn Framsóknar og íhalds, sem búið hefur verið við í bráðum fjögur ár, þar sem skriðdýrshátturinn gagnvart erlendu stórveldi er allsráðandi, ekki aðeins í utanríkismálum, heldur og í efnahags- og atvinnumálum, eins og sést best á því, hvernig allt er gert til að búa í haginn fyrir erlenda stóriðju á kostnað sjálfstæðrar íslenskrar atvinnustefnu.

Sama viðhorf kemur fram í því sem utanrrh. kallar öryggismál, en flestir aðrir Íslendingar herstöðvamál, ef ekki hreinlega hernámsmál. Hann segir með augsýnilegri gleði frá auknum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli og gott er ef ekki með nokkru stolti frá nýjum orrustuflugvélum af fullkomnustu gerð. sem við erum að fá okkur til varnar — eða hvað — af því að eldri tækin voru orðin úr sér gengin. Skyldi nokkur Íslendingur trúa því lengur, svo oft sem hið gagnstæða hefur komið fram, að þessi bandaríski her sé hér til varnar íslenskri þjóð? Þeir fáu, sem það gerðu enn, hafa áreiðanlega gengið af trúnni í landhelgisdeilunni, þegar bresk herskip fengu að aðhafast sem þeim sýndist á miðunum kringum landið án nokkurra afskipta verndaranna. Trúi utanrrh. því virkilega enn, að öryggi íslensku þjóðarinnar sé undir herstöðinni komið, leyfi ég mér að álíta að hann sé þar aleinn á báti.

Hitt er svo annað mál, og þess getur ráðh. í engu, að ýmsir sjá sér hag í veru hersins hérna og er þá beinlínis um gróðahagsmuni að ræða. Áhrifamiklir aðilar í öðrum stjórnarflokknum, Sjálfstfl., vilja nú fara að fá borgað í beinhörðum peningum fyrir aðstöðuna sem Bandaríkjamönnum er látin í té á Keflavíkurflugvelli, en aðrir fara í kringum málin og tala um lagningu varanlegs vegakerfis, smiði hafnarmannvirkja og flugvalla sem endurgjald. Og svo langt er nú komið það hernám hugarfarsins, sem leitt hefur af áratuga hersetu í landinu, að undir þetta heyrist tekið hér og þar um landið, þar sem sífellt skortir fé til viðhalds vega og nýlagningar. Sá byr, sem þessi hugmynd hefur fengið meðal stjórnarsinna, er án efa fyrrnefndur skilningur á gagns- og gildisleysi hersins og NATO fyrir varnir Íslands sjálfs, sem menn öðluðust í þorskastríðinu síðasta.

Nú hefur að vísu komið fram, að forsrh. landsins sé leiguhugmyndinni mótfallinn. Sú afstaða mun þó tæplega til komin fyrir einhvern meiri siðferðilegan þroska hans en annarra flokksbræðra hans, þótt fagurlega sé orðað, að ekki þyki rétt að taka fé fyrir aðstöðu til sameiginlegra varna. Forsrh., sem og ríkisstj. hans mestöll, er málsvari og fulltrúi auðvaldsstéttarinnar og tekur afstöðu sem slíkur. Hagsmunir ýmissa aðila innan þessarar stéttar geta hins vegar stangast á og gera oft, og svo er einnig í þessu tilvíki. Hér standa að baki áhrifamiklir aðilar eins og Íslenskir aðalverktakar, sem fjölskylda forsrh. er m. a. hluthafi i, og fleiri sem miklar tekjur hafa af hernum og sterk ítök hafa í Sjálfstfl. Á sama hátt eru t. d. Olíufélagið hf. og Reginn. dótturfyrirtæki SÍS, bæði meðal stærstu viðskiptaaðila hersins og voldugir aðilar innan forustu Framsfl. Þessir aðilar kæra sig hreinlega ekkert um að önnur fyrirtæki fái svipaða gróðaaðstöðu og þar með fjárhagslegan styrk og pólitísk völd í hernámsflokkunum. En hætt er við, að fleiri kæmust á jötuna ef herinn færi að standa fyrir framkvæmdum víða úti um land.

Herra forseti. Ég hef gert þátt þessara hernámsfyrirtækja að umtalsefni vegna þess, að um stöðu þeirra og tekjur er ekki eitt einasta orð í skýrslu hæstv. utanrrh. Hermangið er þó ósmár þáttur í raunverulegri afstöðu stjórnarflokkanna til dvalar bandaríska hersins og veru Íslands í NATO, eins og best kom í ljós hjá Framsókn í tíð vinstri stjórnarinnar. M. a. þess vegna á þjóðin heimtingu á að fá að fylgjast með hversu hermanginu er háttað. Það er ekki vansalaust, að hæstv. utanrrh. skuli ár eftir ár gefa skýrslu sína um utanríkismál á Alþ. og þar með um öryggismálin, sem hann nefnir svo. án þess að þessum þætti séu gerð skil. Vil ég ljúka máli mínu með að beina til hans þeirri eindregnu áskorun, að gefin verði skýrsla um viðskipti íslenskra aðila við setuliðið á Keflavíkurflugvelli og þar sé ekkert dregið undan.

Það kostar nokkuð að vera sjálfstæð þjóð, sagði ráðh. undir lok ræðu sinnar, og á þar við aukin umsvif utanríkisþjónustunnar erlendis. Vissulega kostar talsvert að vera sjálfstæð þjóð. Það kostar það m. a., að menn afsali sér gróða, sem fenginn er á kostnað sjálfs sjálfstæðisins, og að ríkisstjórn þjóðarinnar treysti sér til að taka afstöðu til mála á alþjóðavettvangi án tillits til hagsmuna erlends stórveldis.