12.04.1978
Efri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3330 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

262. mál, samningur milli lýðveldisins Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um aðstoð í tollamálum

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur til 1. umr. á þskj. 509, er unnið af fjmrn., en vegna ákvæða laga um Stjórnarráð Íslands kemur í hlut utanrrn. að leggja það fyrir hv. Alþ. Þess vegna mæli ég fyrir þessu frv. Því fylgja svofelldar aths.:

Frv. þetta er lagt fyrir Alþ. til þess að afla heimildar fyrir ríkisstj. til fullgildingar á samningi milli Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um gagnkvæma aðstoð í tollamálum svo og að veita ákvæðum samningsins lagagildi hér á landi.

Í júní 1976 hófust viðræður milli vestur-þýskra og íslenskra stjórnvalda um gerð tvíhliða samnings um gagnkvæma aðstoð í tollamálum. Viðræðunum lauk í ágúst 1977 með því að gengið var frá samningi sem undirritaður var í Bonn 11. okt. 1977. Er þess vænst að samningurinn verði fullgiltur af aðildarríkjunum hið allra fyrsta.

Aðstoð sú, sem í samningnum felst, er tvenns konar: annars vegar aðstoð við framkvæmd tollalaga almennt, þ. e. álagningu tolla og annarra inn- og útflutningsgjalda svo og að haldnar séu reglur um inn- og útflutning, og hins vegar aðstoð til að koma í veg fyrir, rannsaka og upplýsa brot á tollalöggjöfinni. Samningurinn tekur til tolla og annarra opinberra gjalda, sem ákvörðuð eru af tollyfirvöldum.

Vegna aukinna viðskipta milli Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands svo og samskipta þjóðanna telja tollyfirvöld landanna æskilegt að samvinna þeirra á milli verði bundin í tvíhliða samningi um gagnkvæma aðstoð á sviði tollamála, þar sem slíkur samningur muni leggja grundvöll að virkari aðgerðum tollyfirvalda á því sviði. Samvinnu þessa verður að telja eðlilegt framhald þess samstarfs, sem stofnað hefur verið til með ályktun Tollasamvinnuráðsins í Brüssel frá 5. des. 1953 um gagnkvæma aðstoð tollyfirvalda til að koma í veg fyrir smygl. Ísland gerðist, eins og kunnugt er, aðili að tollasamvinnuráðinu á árinu 1971 og aðili að fyrrnefndri ályktun frá 1. maí 1973.

Samningur um gagnkvæma aðstoð í tollamálum milli Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands er byggður á hliðstæðum tvíhliða samningum milli Sambandslýðveldisins Þýskalands og hinna Norðurlandanna að Danmörku undanskilinni, með vissum breytingum vegna íslenskra aðstæðna. Er samningur þessi fyrsti tvíhliða samningurinn um tollamál, sem Ísland gerir. Samningurinn fylgir með sem fskj. og hafa þm. væntanlega kynnt sér hann.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.