12.04.1978
Efri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3332 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

49. mál, hlutafélög

Jón Helgason:

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. var sammála um að leggja fram brtt., sem eru á þskj. 527. Þetta eru að nokkru leyti leiðréttingar á þá leið að 17. gr. frv. breytist þannig, að í stað þess að þar segir að í hlutafélagi skuli jafnan vera fimm hluthafar hið fæsta, þá standi: Í hlutafélagi skulu vera fimm hluthafar hið fæsta, sbr. 114. gr.

Við 39. gr. eru aðeins örlitlar breytingar, þ. e. a. s. það stendur í 2. mgr. síðast 27.–28. gr., en á að vera 27.–29. gr. Og síðast í 3. mgr. komi í staðinn fyrir 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr.: 1., 2. og 3. mgr.

Þá er breyt. við 47. gr., þar sem kveðið er á um, að heimilt skuli að viðhafa hlutfallskosningu eða margfeldiskosningu ef þeir, sem ráða 1/4 hluta hlutafjárins, óska eftir því. Tekið er fram í þeirri breytingu, sem lögð er til, að margfeldiskosning skuli ganga fyrir, ef óskað er eftir henni, og enn fremur er skilgreining á því, hvað átt er við með margfeldiskosningu.

Þá er að lokum við 65. gr. lagt til, að inn komi ný mgr. á þá leið, að í félagssamþykktum megi ákveða að enginn geti farið með fyrir sjálfs sín hönd eða annarra nema takmarkaðan hluta samanlagðra atkv. í félaginn.