01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

311. mál, sjónvarp

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 19 legg ég fram fsp. til hæstv. menntmrh. um framkvæmdir á sviði sjónvarps. Fsp hljóðar svo:

„Hvað líður framkvæmdum áætlunar um sjónvarp til allra landsmanna? Sérstaklega er spurt:

1. Hvað hefur verið varið miklu fjármagni til undirbúnings útsendingar í lit?

2. Hvaða nýjar dreifistöðvar sjónvarps hafa verið eða verða reistar í ár?

3. Hvaða nýjar dreifistöðvar sjónvarps eru ráðgerðar á árinu 1978?“

Fsp. þessi á rætur sínar að rekja til þess, að hæstv. menntmrh. skipaði 13. júlí 1976 n. til þess að atbuga dreifingu sjónvarps og gera áætlun um slíkt. Í n. þessari áttu sæti sá sem hér talar, Sverrir Hermannsson alþm og Ingi Tryggvason alþm. N. skilaði áliti 3. des. 1976 í skýrslu sem hún nefndi: Sjónvarp til allra landsmanna. Í skýrslu þessari er gerð áætlun um tekjur sem eru fyrst og fremst tollatekjur af innfluttum sjónvarpstækjum. Sömuleiðis er sett fram framkvæmdaáætlun sem er í 10 liðum. Framkvæmdaáætlunin nær til fimm ára og er þar gert ráð fyrir að koma sjónvarpi til allra notenda á landi og gera jafnframt. verulegt átak til þess að koma sjónvarpi til sjómanna á miðum úti. Áætlun þessi nær til allra framkvæmda á sviði sjónvarps, ekki eingöngu dreifistöðva, því að talið var nauðsynlegt að skoða málið í heild sinni.

Á árinu 1977 var gert ráð fyrir í þessari áætlun að varið yrði 40 millj. kr. til endurnýjunar bráðabirgðastöðva, 63 millj kr. til þess að halda áfram að koma örbylgjukerfi um landið, 70 millj. kr. til nýrra stöðva fyrir notendur yfir 8 og 50 millj. kr. til nýrra stöðva fyrir færri en 8 notendur. Jafnframt var gert ráð fyrir að verja 50 millj. kr. til þess að hefja útsendingar í lit.

Hæstv. menntmrh. tók þessari áætlun mjög vel og gerði grein fyrir því opinberlega, að henni yrði fylgt eins og frekast er kostur, en gat þess jafnframt að talið væri nauðsynlegt að fá gleggri upplýsingar um tekjuhlið en þær áætlanir, sem lagðar eru fram í skýrslunni, einar gera ráð fyrir. Nú er það staðreyndin, að tekjur af innfluttum sjónvarpstækjum hafa orðið fyllilega svo miklar sem gert er ráð fyrir í þessari skýrslu Hins vegar hefur orðið nokkuð vart við það að framkvæmdir, sérstaklega í sambandi við nýjar stöðvar, hafi gengið hægar en gert er ráð fyrir.

Út af fyrir sig sýnist mér eðlilegt að tryggja tekjur áður en ákveðið er að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir. Hins vegar hlýtur ávallt sú spurning að vakna, í hvaða röð framkvæmdum er þá frestað og hvenær tekjur eru taldar það tryggar að ganga megi til framkvæmda samkv. áætluninni og halda þeim síðan áfram út 5 ára tímabilið. Því hefur mér þótt ástæða til þess að leggja þessa fsp. fram.

Nokkur frestur hefur orðið á framkvæmdum, en fréttir benda til þess að tekjur séu hins vegar ríflegar, og tel ég nauðsynlegt að þeir, sem ekki hafa sjónvarp nú, fái að vita hvenær þeir mega vænta framkvæmda.