01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

311. mál, sjónvarp

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að hafa örlítinn formála að svari við þessari fsp. Ég vil fyrst minna á það, að útbreiðsla sjónvarps hér á landi var ótrúlega hröð. Tolltekjur af sjónvarpstækjum og lán, einkum erlend tækjakaupalán, stóðu undir framkvæmdum á þessum mikla spretti Um 1970 var útbreiðslan að umfangi orðin nálega það sem hún er í dag. Tolltekjur minnkuðu vegna minni innflutnings móttökutækja þegar markaðurinn var mettaður orðinn og greiðslubyrði skulda féll á með miklum þunga, svo að ekkert varð í raun og veru aflögu til að kosta nýjar framkvæmdir. Jafnframt þrengdi svo að rekstri Ríkisútvarpsins í heild að skuldir söfnuðust upp hjá viðskiptabanka, ríkissjóði og eigin húsbyggingasjóði Ríkisútvarpsins. Þessi staða var óþolandi. Hún var rétt af á um það bil þremur árum. Viðskiptastaða hjá banka og ríkissjóði er nú eðlileg og húsbyggingasjóður fær framlag sitt samkv. lögum. Það sér fyrir endann á greiðslu erlendu skuldanna og tolltekjur hafa vaxið að mun þar sem endurnýjun sjónvarpstækja er orðin aðkallandi hjá fyrstu notendum og margir kaupa nú litsjónvarpstæki sem eru mun dýrari en svarthvít, eins og kunnugt er. Í samræmi við þetta hefur verið unnið að gerð áætlunar um framkvæmdir hjá sjónvarpi og útvarpi.

Nefnd hefur skilað till. að áætlun um dreifingu sjónvarps, eins og hv. fyrirspyrjandi minntist á, og sama n vinnur áfram að tillögugerð fyrir útvarpið. Jafnframt hefur verið hafist handa um endurnýjun bráðabirgðastöðva í dreifikerfi sjónvarps, smiði nýrra stöðva o.fl. og byrjað á litvæðingu sjónvarpsins. Einnig er á þessum árum unnið í vaxandi mæli að endurbótum hjá útvarpinu á dreifikerfi þess.

Um gerð framkvæmdaáætlunar um sjónvarpsdreifingu á grundvelli þeirra till., sem n. skilaði, vil ég aðeins segja það, að mér hefur sýnst ógerlegt að ganga endanlega frá slíkri áætlunargerð til langs tíma fyrr en að fenginni u.þ.b. eins árs reynslu af tolltekjunum, hverjar þær mundu verða eftir að litvæðing sjónvarpsins er hafin og menn taka í alvöru að kaupa inn litasjónvarpstæki.

Það er óhægt um vik að svara af tölulegri nákvæmni nokkru um framkvæmdir nú á þessum tíma og verður varla gert til falls fyrr en ársuppgjör liggur fyrir En ég vil greina frá því sem fyrir liggur. Ég vil þá fyrst aðeins rifja það upp, að tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum eru áætlaðar verða 200 millj. kr. á þessu ári. Það er ógerlegt að segja til um það í dag með nokkurri vissu hver útkoman verður í árslok, en líklegt þykir að hún verði ekki langt frá áætlun. Eftir því sem mér er tjáð eru horfur á því, að tala innfluttra tækja verði töluvert lægri en áætlað var, en aftur hlutfall litatækja í innflutningi mun hærra, sem mundi þá vega það upp að tækin eru færri.

Um litvæðinguna er það að segja, að kostur á þessu ári er orðinn samtals um 80 millj. kr. Það má geta þess hér, að sérstakt álag á afnotagjöld af litatækjum skilar tæplega 10 millj. kr, á þessu ári.

Það, sem hefur verið gert, er að gamlar svarthvítar vélar í sjónvarpssal hafa verið endurnýjaðar með lithæfum vélum, eins og kunnugt er raunar, ásamt tilheyrandi búnaði, og einnig hefur starfsfólk hlotið nokkra þjálfun af þessu tilefni. — Ég vil skjóta því hér inn í, að næsta skref, sem til greina kæmi í litvæðingu að dómi þeirra sem þar fjalla nú mest um, er kaup á vél eða vélum sem senda út kvikmyndir í litum. Það er nokkuð dýr framkvæmd, eins og það sem nú hefur verið gert, og mér virðist ekki eðlilegt að taka ákvörðun um það fyrr en kunnugt er orðið um tolltekjur þessa árs a.m.k. En ég vil taka það skýrt fram, að ég legg þyngsta áherslu á dreifingu, endurbætur og útfærslu. Fram hjá hinu verður ekki horft, að tolltekjunum er ætlað að standa undir stofnkostnaðinum og þar skila litatækin langmestum hluta. Þegar þess er enn fremur gætt, að mjög margir a.m.k. virðast nú endurnýja tæki sín með litatækjum, þá er ljóst að vinna ber að litvæðingunni jafnframt.

Eins og hv. þm er væntanlega kunnugt, annast Póstur og sími ýmsar framkvæmdir fyrir Ríkisútvarpið, þ. á m. framkvæmdir við sjónvarpsdreifinguna. Vinnu er enn hvergi nærri lokið við þau verkefni sem hafa verið í gangi á þessu ári, og þess vegna liggur nú ekki fyrir uppgjör, en ég skal geta framkvæmdanna.

Þá vil ég fyrst nefna framlengingu örbylgjuherfis frá Akureyri austur til Gagnheiðar. Þessi framkvæmd er alldýr. Hún þjónar bæði síma og sjónvarpi og er kostuð sameiginlega af Landssímanum og Ríkisútvarpinu, eins og venja hefur verið um þessar framkvæmdir. Reistar eru á árinu endurvarpsstöðvar á Breiðdalsvík og Staðarborg í Breiðdal og á Stöðvarfirði. Þær leysa af hólmi lélegar bráðabirgðastöðvar sem þarna hafa verið reknar, og er vænst að þær verði teknar í notkun í nóvemberlok. Þá er endurnýjaður gamall sendir í sjónvarpsstöðinni að Hnúkum við Blönduós. Gamli sendirinn var orðinn mjög lélegur Sá nýi er væntanlegur í nóv. og er stefnt að því að uppsetningu hans ljúki fyrir áramót. Nýi sendirinn hefur rúmlega helmingi meira afl en sá gamli, og má búast við töluverðum endurbótum á þeim svæðum þar sem styrkur Blönduóssendisins hefur verið í lágmarki. Í Vestmannaeyjakaupstað hefur verið sett upp endurvarpsstöð og er hún til bóta fyrir þann hluta kaupstaðarins sem nú býr við trufluð sjónvarpsskilyrði. Þá verður endurnýjaður tækjabúnaður sjónvarps- og endurvarpsstöðvar á Höfn í Hornafirði, en hann var orðinn gamall og mjög úr sér genginn. því verki mun einnig ljúka fyrir áramót. Enn má geta þess, að lítil endurvarpsstöð var sett upp til reynslu í Ólafsfirði og þjónar því íbúðahverfi sem ekki fékk mynd frá stöð sem þar var fyrir.

Fleira væri náttúrlega hægt að nefna ef allt væri tínt til, en þetta er það helsta. Ég vil geta þess jafnframt, að nokkrum millj. kr. verður varið síðari hluta ársins til þess að undirbúa byggingu nýrra stöðva á næsta ári, einkum smíði staðlaðra húsa.

Eins og mönnum er ljóst af því, sem ég hef nú farið yfir á árinu í ár, þá er einkum unnið að því að endurnýja bráðabirgðastöðvar sem eru búrar að endast miklu lengur en nokkur hafði í raun og veru vonað í upphafi, þegar þær voru reistar.

Kostnaður við þær framkvæmdir, sem ég hef talið, var áætlaður um 50 millj. kr., og mér skilst að það séu ekki líkur á að hann fari neitt stórlega fram úr áætlun, þó að nú sé, eins og ég sagði áðan, ómögulegt að segja um það með neinni vissu.

Hluti sjónvarpsins í örbylgjuframkvæmdunum er áætlaður 60–60 millj. kr. Og ég vil geta þess, að afborganir og vextir af fyrst og fremst erlendu tækjakaupalánunum nema á þessu ári um 43 millj. kr. og þurfa að fjármagnast af þessum lið að miklu leyti líka. En þá fer, eins og ég hef líka tekið fram, mjög að hægjast um greiðslur af þeim erlendu lánum.

Þá vil ég geta þess og vekja sérstaka athygli á því, að tæknideild Landssímans taldi ekki unnt að sinna meiri framkvæmdum á þessu sviði á yfirstandandi ári. Hún taldi sig ekki hafa mannskap til þess eða aðstöðu. Þetta fer í raun og veru saman við fjárhagsástæður, því að ég hygg að það hefði verið óvarlegt að ákveða í byrjun ársins öllu meiri framkvæmdir en þær sem verið er að vinna að, miðað við þá óvissu sem þá var um tekjuhliðina.

Spurt er um framkvæmdir á næsta ári. Um þær er það að segja, að fullnaðarákvarðanir hafa ekki verið teknar um það, ekki formlega a.m.k., en þó mun mega reikna með eftirtöldum framkvæmdum:

Það verða fyrst og fremst nýjar sjónvarpsstöðvar, en þær verða væntanlega reistar í Hörgárdal, Öxnadal, Blöndudal og Svartárdal nyrðra, á Almannaskarði, þ.e. tengistöð fyrir Lónið, og svo í Lóninu og í Borgarhöfn í Suðursveit, í Drangsnesi, við Kollafjörð í Strandasýslu og loks við Bakkaflóa.

Þá er talið óhjákvæmilegt að endurnýja stöð í Grundarfirði og var raunar áformað að gera það fyrr, en hún er ein af bráðabirgðastöðvunum og mjög úr sér gengin.

Þá er þess að geta, að í Hegranesi í Skagafirði er áætlað að endurnýja 10 ára gamlan sendi sem hefur oft verið bilaður og er orðinn mjög dýr í rekstri. Verður hann væntanlega endurnýjaður með sams konar sendi og í nágrenni Blönduóss, Þarna verður um umtalsverða aflaukningu að ræða sem á að koma til góða þeim svæðum Skagafjarðar, þar sem sviðsstyrkur frá Hegranesi er nú í lágmarki.

Þá er og í ráði að endurbæta stöðvarnar á Lágafelli í Mosfellssveit og Langholti. Þær endurbætur höfðu verið fyrirhugaðar á þessu ári.

Eins og ég sagði áðan hefur verið hafist handa um smiði húsa fyrir þessar stöðvar sumar og sjónvarpið á möstur fyrirliggjandi og tækjapantanir verða gerðar nú fyrir áramót. Ætti ekki að standa á afgreiðslu þeirra.

Ég vil svo að lokum einnig geta þess, að fyrirhugaðar eru framkvæmdir við örbylgjukerfið á leiðinni Reykjavík-Vestfirðir og einkum á nyrðri hluta þeirrar leiðar. Mun sjónvarpið taka þátt í kostnaði við það að sínum hluta, líkt og það hefur gert á öðrum stöðum á landinu.