12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3344 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

267. mál, lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt á vegum þm. Reykn. að beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og bæjarstjórnar Garðabæjar og fjallar um breytingu á lögsagnarumdæmismörkum milli þessara tveggja sveitarfélaga. Hér er um að ræða ágreiningslaust mál, eins og fram kemur á fskj., samkv. samþykktum bæjarstjórna þessara tveggja kaupstaða. Breyting lögsagnarumdæmismarka samkv. þessu frv. kemur til með að eiga sér stað í landi Setbergs, sem liggur við Hafnarfjörð, og má sjá á fskj. IV með hvaða hætti mörkin breytast.

Með tilvísun til þessa leyfi ég mér, virðulegi forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.