12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3344 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Hæstv. forseti. Á þskj. 534 er frv. til l. um breyt. á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Árið 1973 var síðast gerð breyting á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Miðaðist sú breyting við það, að markaðir tekjustofnar deildarinnar yrðu auknir verulega frá því sem var þannig að deildin gæti orðið sjálfstæð í útlánum sínum. Það skiptir verulegu máli, að deildin geti orðið fjárhagslega sjálfstæð um lánveitingar sínar, óháð lánsfé að mestu. Kjör deildarinnar geta ekki batnað fyrr en hún er orðin fjárhagslega sjálfstæð og þarf ekki að styðjast við erlend eða innlend verðtryggð lán.

Lögin frá 1973 voru stefnumarkandi um möguleika og stjórnun lánveitinga til landbúnaðarins. Tveir fulltrúar frá félagssamtökum bænda komu inn í stjórnina. Heimilt var að lána með mismunandi kjörum eftir bústærð bænda. Þessi ákvæði vorn svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Lánareglur deildarinnar skulu miðaðar við það, að bændur, sem hafa minna en verðlagsgrundvallarbú, en hafa möguleika til að ná aukinni hagkvæmni með stækkun búanna, njóti hagkvæmustu lánakjara til umbóta á jörðum sínum, að því marki, að náð sé bústærð, sem svarar einu og hálfu verðlagsgrundvallarbúi, eins og það er á hverjum tíma“ sem þýðir nú 660 ærgildi. Segir svo í framhaldi af þessu: „Nú hefur bóndi stærra bú en sem svarar einu og hálfu verðlagsgrundvallarbúi, eða sækir um lán til framkvæmda sem svara til stærra bús og er þá heimilt að skipta lánum til viðkomandi framkvæmda þannig, að hluti þeirra sé með öðrum kjörum eða lægri hundraðshluti verði veittur út á framkvæmdirnar.“ Þetta ákvæði í lögunum hefur ekki komið til framkvæmda fyrr en á síðasta ári að farið var að beita því.

Eins og kunnugt er býr íslenskur landbúnaður ekki að fornum fjárfestingum í sama mæli og við þekkjum í grannlöndum okkar. Á s. l. hálfri öld hefur verið unnið að því að byggja á sviði landbúnaðar með fjárfestingu hjá bændum og mjólkurbúum og sláturhúsum. Mikið hefur áunnist í fjárfestingu í landbúnaði á allra síðustu árum eins og kunnugt er.

Raungildi útlána frá Stofnlánadeildinni varð hæst 1974 og hefur aldrei orðið meira en þá. Þar næst er raungildi útlána s. l. ár, 1977. Framkvæmdir í landbúnaði urðu líka mestar 1974 og þar næst á s. 1. ári. Árið 1977 lánaði deildin 2 milljarða 181 millj. kr., sem skiptist á hina einstöku lánaflokka, og fjárfestingar til bændanna sjálfra voru 83% af heildarlánunum. Mikið hefur hins vegar verið unnið að vinnslustöðvum landbúnaðarins á síðustu árum.

Vegna vaxandi framkvæmda og meiri verðhækkana en svo, að vaxtakjör deildarinnar á útlánum hennar hafi nægt, hefur geta deildarinnar til þess að sinna eftirspurn eftir lánum með eigin fjármagni farið þverrandi. Lánakjör deildarinnar á útlánum hafa verið hert nokkuð á s. l. árum, en þó hefur halli á deildinni farið vaxandi. Lántökur deildarinnar hafa í vaxandi mæli verið með óhagstæðari kjörum hvað snertir lánstíma og vexti, gengis- og verðtryggingu en útlán deildarinnar hafa verið.

Hinn 12. maí 1976 skipaði landbrh. nefnd til að endurskoða lög Stofnlánadeildarinnar. Í nefndina voru skipaðir Stefán Pálsson framkvæmdastjóri deildarinnar, sem var formaður nefndarinnar, Jón Helgason alþm., Pálmi Jónsson alþm., Stefán Valgeirsson alþm., Friðjón Þórðarson alþm., Helgi Seljan alþm. og Eiríkur Guðnason deildarstjóri í Seðlabankanum. Nefnd þessi hefur unnið mikið verk og skilaði áliti til ríkisstj. í fyrravor, en það allt hefur nokkuð verið til athugunar hjá ríkisstj. Ríkisstj. var ekki á eitt sátt um afgreiðslu málsins, eins og það kom frá nefndinni, en við framhaldsathugun á málinu hefur hún orðið það og þess vegna er það lagt fram sem frv. ríkisstj. nú.

Aðalatriði þessa máls eru þau, að lagt er á 1% jöfnunargjald, sem leggst við heildsöluverð búvaranna samkv. áliti nefndarinnar, og er það til þess að jafna halla deildarinnar. Gjald þetta gæti skilað deildinni um 250 millj. kr. á ári miðað við núgildandi verðlag. Ástæðan til þess, að þessi leið var farin, var sú, að talið var réttlátara gagnvart bændum að taka þetta jöfnunargjald en að verðtryggja lánin hærra, auka við vextina, eins og að öðrum kosti hefði þurft að gera. Vaxtahækkun eða verðtrygging á lánum til bænda veldur sömu hækkun á verði búvara til neytenda og þetta jöfnunargjald. Stofnlánadeildin getur ekki lengur borið þann halla, sem á lántökum hennar er, miðað við útlánareglurnar. Það, sem því er verið að gera nú með þessu, er að jafna þann halla, auk þess sem útlánakjör deildarinnar eru samræmd þessari ráðstöfun til þess að halli verði ekki á útlánum. Þetta gjald kemur betur við bændur en vaxtahækkun og verðtrygging umfram það sem nú hefur verið ákveðið að gera. Sérstaklega kæmi vaxtahækkun hart niður á hinum ungu bændum, sem að sjálfsögðu eiga erfiðast með að stofna til búskapar á því verðlagi, sem nú gildir. Þetta mundi auka mismuninn á milli bændanna innbyrðis, en í veg fyrir það er reynt að koma með þessu frv.

Þá er ráðgert með frv. þessu að flytja lán til íbúðabygginga í sveitum frá deildinni til Húsnæðismálastofnunar ríkisins, enda eru þau íbúðalán einu lánin sem stofnlánadeild atvinnuvega verður að inna af hendi. Er óeðlilegt að slíkt sé gert, þar sem þessi stétt á sama rétt til íbúðarlána og aðrar, eins og augljóst er. Gert er ráð fyrir því, að þetta ákvæði komi þó ekki til framkvæmda fyrr en um næstu áramót, þannig að tekið verði tillit til þess í lánsfjáráætlun fyrir árið 1979. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að jarðakaupalán flytjist til Stofnlánadeildarinnar frá veðdeildinni. Er slíkt ákvæði að vísu til í lögum um Stofnlánadeildina, en hefur ekki verið notað.

Þetta eru meginatriðin í þessu frv. Þó að fleiri smærri atriði séu í frv., þá sé ég ekki ástæðu til þess að gera frekar grein fyrir þeim, því að frv. fylgja mjög greinargóðar aths., sem skýra það sem hér hefur ekki sérstaklega verið tekið fram.

Ég vil leyfa mér að þakka nefnd þeirri, sem að þessu máli hefur unnið, störf hennar. Þó að ekki hafi verið hægt að taka í frv. að þessu sinni öll þau atriði sem þar komu fram, þá verður áfram unnið að því að leysa þá þætti sem þar um ræðir, svo að deildin geti sinnt jarðakaupalánum sem öðrum lánum eins og eðlilegt er.

Eins og kunnugt er, er fyrst og fremst verið að tryggja fjárhag Stofnlánadeildarlandbúnaðarins með þessu frv., svo að lánastarfsemi deildarinnar geti orðið með eðlilegri hætti en hún hefur verið vegna hinnar auknu dýrtíðar í landinu og vegna þess að þrátt fyrir að stofntekjur hennar hafi átt að duga henni, þá hefur verðbólgan breytt því svo að ekki hefur farið sem skyldi.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að eyða fleiri orðum að þessu frv. að þessu sinni, en legg á það ríka áherslu við hv. landbn., sem fær málið til meðferðar, að hún hraði störfum sínum, því að stefnt er að því að afgreiða frv. á þessu þingi.

Ég legg svo til að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. landbn.