12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3346 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þess að frv. á þskj. 534, 272. mál hv. Alþ., er tekið til 1. umr. nú örfáum dögum áður en þinglausnir eiga að fara fram samkv. því sem okkur er tjáð. Óbreyttum þm. eins og mér hefur ekki gefist tími til þess að athuga þetta mál eins rækilega og ástæða hefði verið til. Ég vil aðeins taka það fram að við fljótlega yfirsýn tel ég ekki ástæðu til þess að gera aths. við 2., 3., 4., 5., 6., 7., 8. og 9. gr. þessa frv., að öðru leyti en því, að ég vil lýsa mig fylgjandi þeirri breytingu sem gera á í 2. gr., þess efnis að Húsnæðismálastofnun ríkisins og Byggingarsjóður ríkisins taki við því hlutverki af Stofnlánadeild landbúnaðarins að veita lán til íbúðarbygginga í sveitum.

Eins og fram kemur í grg. með frv. er nauðsynlegt að nokkru rýmri reglur gildi hjá Byggingasjóði ríkisins og Húsnæðismálastofnun um íbúðahúsbyggingar í sveitum en gilda í þéttbýli, en ég held að allir séu sammála um að á sveitabæjum þurfi íbúðarhús af ýmsum ástæðum að vera nokkru stærri en í kaupstöðum og þorpum. Hins vegar eru, að því er segir í aths. við lagafrv., engar reglur um leyfilega hámarksstærð íbúðarhúsnæðis í sveitum hvað varðar lánshæfni þessa hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins og virðist ekki af frv. að setja eigi slíkar reglur þegar skipt er um lánveitanda. Enda þótt ég sé sammála því, að stærðarreglur þurfi að vera rýmri um íbúðarhúsnæði í sveitum en gilda um íbúðarhúsnæði í bæjum og kaupstöðum, þá tel ég engu að síður nauðsynlegt að Byggingarsjóður ríkisins og húsnæðismálastjórn setti reglur um hámarksstærðarmörk íbúðarhúsnæðis í sveitum.

Þetta er nú útúrdúr, sem ekki skiptir neinu meginmáli í þessu sambandi. En ég vildi aðeins vekja athygli á því, að í 1. gr. þessa frv. er verið að leggja til að leggja nýtt gjald á meginþorra launþega í þessu landi, neytendur landbúnaðarafurða, sem samkv. aths. við lagafrv. á bls. 3 nemur hvorki meira né minna en 250 millj. kr. á einu ári. Hvað er þetta nýja gjald, sem verið er að leggja á launþega í þessu landi skömmu eftir að hæstv. ríkisstj. hefur með lagaboði ógilt kjarasamninga launastéttanna og þ. á m. fólksins sem minnst ber úr býtum í landinu? Til hvers er nú, örfáum dögum síðar, verið að leggja byrðar á þetta fólk sem nema 250 millj. kr. á ári að því er segir í aths. við lagafrv. þetta? Ástæðan er sú, að Stofnlánadeild landbúnaðarins þarf að greiða hærri vexti og kostnað af lánum, sem Stofnlánadeildin tekur til þess að veita bændum stofnlán, en bændurnir greiða sjálfir, þannig að hagsmunir Stofnlánadeildarinnar verða ekki tryggðir, eins og auðsætt er af þessu, og hún mun þurfa að bera meiri byrðar vegna lánveitinganna en lántakendurnir þurfa á sig að taka. Þessi mismunur er áætlaður 250 millj. kr. á ári og talið er rétt að leggja þann mismun á herðar neytenda íslensks landbúnaðarvarnings.

Ég tel að um þessa niðurstöðu megi vissulega deila. Ég segi fyrir mig, að ég er ekki ánægður með hana og tel að sú n., sem þetta frv. fær til meðferðar, ætti að athuga vel, hvort ætti ekki að velja einhverja aðra í þessu skyni en þá sem þetta frv. leggur til, miðað við þær kringumstæður sem nú eru í þjóðfélagi okkar. Ég held að ekki væri hentugt og heppilegt, ef sú stefna yrði upp tekin að neytendur, hvort heldur í landbúnaði. í iðnaði eða í öðrum slíkum greinum, væru látnir greiða með sérstöku jöfnunargjaldi þann mun sem er á útlánsvaxtakjörum annars vegar hjá stofnlánasjóðunum og þeim vaxtakjörum sem stofnlánasjóðirnir verða að sæta á fjármagni sem þeir fá til ráðstöfunar. Ég held að þetta sé röng og varhugaverð stefna. Ég tel það mjög hættulega þróun, þessi fjölmörgu smáu gjöld og álögur, sem verið er að leggja á einstakar stéttir og landslýð í heild með lögum eins og þessum, eins og t. d. verið er að gera með 1. gr. þessa frv., bæði hið nýja gjald, sem verið er að leggja á, og enn fremur það ákvæði 1. gr. þessa frv. að fella niður tímamörk á 1% álagi á söluvörur landbúnaðarins og 1% gjaldi á útsöluverð landbúnaðarafurða, sem átti að taka enda við árslok 1980.

Þó að fáir dagar séu eftir af þingi nú, þá tel ég ástæðu til þess að Alþ. og sú n., sem um þetta mál fjallar, skoði þetta mjög vandlega ekki síst þegar slíkri gjaldtöku fylgir eins og hér um ræðir, að þarna er verið að leggja 1% gjald á heildsöluverð landbúnaðarvarnings til þess að jafna mun á vaxtagreiðslum og kjörum, sem Stofnlánasjóður landbúnaðarins verður að greiða af teknum lánum, og vaxtakjörum, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins býður af veittum lánum, með þeim afleiðingum að þeir, sem selja landbúnaðarafurðir í smásölu og leggja álagningu sína ofan á heildsöluverðið, ættu væntanlega að hafa hag af þessari gjaldtöku, vegna þess að ekki hefur komið fram — og ég óska þá eftir að það komi fram ef ég skil það rangt að ekki sé heimilt að leggja smásöluálagningu ofan á þetta jöfnunargjald, sem á að leggjast ofan á heildsöluverð eins og fram er tekið. Ég mundi a. m. k. vilja að sú n., sem um þetta mál fjallar, gerði þá breytingu á frv., að skýrt yrði tekið fram að ekki væri heimilt að leggja smásöluálagningu ofan á þann þátt heildsöluverðs landbúnaðarafurða sem hlýst af gjaldtöku eins og þessari, því að nauðsynlegt kann að vera að slík gjöld séu á lögð til skamms tíma, en engan veginn er nauðsynlegt að smásöluaðilar — þeir sem versla í smásölu með landbúnaðarafurðir — hafi hag af slíkri gjaldtöku. Ef það ákvæði kynni að vera í lögum, að slíkt mætti ekki gera, það mætti ekki leggja smásöluálagninguna ofan á slíka gjaldtöku, þá fagna ég því að sjálfsögðu. Ef slíkt ákvæði er ekki í lögum, þá tel ég nauðsynlegt að það verði sett.