13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3367 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. og fsp., er hann flutti í þeirri ræðu, vildi ég gjarnan taka fram það sem hér fer á eftir:

Í haust, þegar umr. utan dagskrár um möguleika á breytingu á kosningalögum og/eða stjórnarskrá, gaf ég þá yfirlýsingu, að ríkisstj. vildi efna til viðræðna milli stjórnmálaflokka til að kanna hvaða úrræði væru fyrir hendi til endurbóta á kosningalöggjöf og stjórnarskrá, enn fremur að óskað mundi verða eftir að stjórnarskrárnefnd væri innt eftir grg. um störf nefndarinnar að þeim málum er lytu að breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá. Hvort tveggja þetta hefur verið efnt. Mér er kunnugt um að formenn þingflokkanna ræddu það sín á milli á s. l. hausti, hvernig viðræðum þessum skyldi hagað í ríkisstj. var talið eðlilegt að flokkarnir útnefndu fulltrúa til þessara viðræðna og í kjölfar þess útnefndi Sjálfstfl. fulltrúa sína í stjórnarskrárnefnd, þá Gunnar Thoroddsen, hæstv. iðnrh., og Ingólf Jónsson, hv. 1. þm. Suðurl. Ég hygg að hinn stjórnarflokkurinn hafi einnig útnefnt sína fulltrúa, og ég hef gengið út frá því sem vísu um aðra flokka, vissi raunar ekki fyrr en í dag, að þingflokkur Alþb. hefði ekki útnefnt fulltrúa til slíkra viðræðna. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum vikum — ég held nær tveimur mánuðum — bar þetta mál á góma á milli okkar hv. 5. þm. Norðurl. v. Þá tjáði ég honum einmitt efnislega, að mál þetta væri af hálfu Sjálfstfl. í höndum fulltrúa hans í stjskrn., og benti honum á, en þá var hv. 5. þm. Norðurl. v. orðinn form. þingflokks Alþb., að hafa samband við hæstv. félmrh. varðandi þetta mál og lofaði að gera það sömuleiðis, sem ég og gerði.

Ég held að það komi e. t. v. fram af þessu, að Alþb. hefur ekki haft neinn sérstakan áhuga á breytingum á kosningalögunum, þótt Alþb.- menn hafi flutt till. um það í upphafi þings, en formælandi þingflokks Alþfl. hafði vakið máls á því í upphafi þinghalds. Það var í lófa lagið af hálfu þessara flokka að óska eftir því á hvaða stigi málsins sem var, að þessar viðræður gengju hraðar fyrir sig eða hæfust alla vega en það hefur ekki verið gert, svo að mér sé kunnugt um, nema hvað snertir það samtal, sem ég vitnaði i, á milli okkar hv. 5. þm. Norðurl. v.

Það er líka vitnisburður um lítinn áhuga þeirra Alþb.- manna á breytingum á kosningalögum að þessu leyti, að þeir hafa látið till. frá sér liggja í n. allan þingtímann og ekki hefur mér borist til eyrna, þótt vera kunni að svo hafi verið, að fulltrúar Alþb. í þeirri n. hafi rekið á eftir meðferð þeirrar till. innan n. Þannig held ég að ekki fari milli mála, að fulltrúar Alþb. hafi ekki sýnt neinn áhuga á breytingum á kosningalögum eða raunar stjskr. hvað snertir fyrirkomulag kosninga til Alþ. Það getur vel verið að gagnrýna megi einnig og samhliða áhugaleysi eða skort á áhuga fulltrúa annarra þingflokka að þessu leyti. En ljóst er, að fulltrúar Alþb. hafa sýnt algert áhugaleysi í þessum efnum.

Við skulum aðeins rifja það upp, að einkum er þrennt sem kom til greina að breyta með löggjöf á þessu þingi, án þess að til stjórnarskrárbreytinga kæmi. Það er í fyrsta lagi reglum þeim sem gilda um úthlutun uppbótarþingsæta, og þá hafa einkum og sér í lagi verið nefndar þær leiðir sem fjallað er um í frv. því sem flutt er í Nd. af hv. þm. Ellert B. Schram o. fl., þ. e. a. s. að fella niður úthlutun uppbótarþingsæta til þeirra sem hæstar hlutfallstölur atkv. hafa í kjördæmi, en ná ekki kosningu, og fella niður bann við því, að sami flokkur geti fengið fleiri en einn uppbótarþm. úr hverju kjördæmi,

Í öðru lagi hefur verið rætt um þá breytingu sem till. hv. 1. landsk. þm., Jóns Árm. Héðinssonar, fjallar um, þ. e. a. s. að flokkur, sem fái a. m. k. 5% atkv., fái úthlutað uppbótarþingsæti. Leikið getur vafi á því, hvort unnt er að breyta kosningalögum með þeim hætti án breytinga á stjskr.

Í þriðja lagi hefur svo verið rætt um möguleika á því að breyta vægi útstrikana og breytinga á kjörseðli eða setja aðrar reglur varðandi listaframboð, þannig að hver kjósandi hefði meiri áhrif á hvaða frambjóðandi yrði kosinn sem þm. í kjördæmi hans.

Í raun og veru eru þetta þau atriði, sem unnt hefði verið að taka til meðferðar og breyta með breytingum á kosningalögum, og er, eins og ég gat um áðan, mjótt á mununum í sumum tilvikum, hvort löglegt sé, tvímælalaust, án breytingar á stjskr. Ég hefði auðvitað talið eðlilegt, að samhliða hefði verið kannað ítarlega innan stjskrn., hvort samstaða næðist þar um breytingar á stjskr., sem þetta þing hefði getað fallist á, og síðan yrðu þær breytingar staðfestar á næsta þingi og ekki kosið samkv. þeim breytingum fyrr en í öðrum kosningum héðan frá, eins og tíðkað er þegar um stjórnarskrárbreytingar er að ræða. þá á ég ekki nauðsynlega við það, að þurft hefði að rjúfa næsta þing þegar í stað eða fljótlega eftir að það kæmi saman og efna til tveggja kosninga á einu ári. Það gat allt eins verið að menn lykju fullu kjörtímabili að afloknum fyrri kosningum eftir stjórnarskrárbreytingu.

Nú er öllum ljóst, að sú stjskrn., sem kosin var á Alþ. 1972, hefur ekki verið athafnasöm. Ég tel eðlilegt, að það sé gert upp við sig, hvort sú stjskrn. á að halda áfram störfum yfir höfuð eða kjósa skuli nýja, a. m. k. sé nauðsynlegt að endurskipuleggja núverandi stjskrn. til þess að hún skili áliti. Það er kominn tími til þess. Ég er ekki þeirrar skoðunar nauðsynlega vegna þess að ég álíti núverandi stjskr. svo ófullkomna sem starfsgrundvöll lýðræðislegra vinnubragða að öðru leyti en lýtur að kosningafyrirkomulagi. En það er ljóst, að einmitt endurbætur á kosningafyrirkomulagi eru nauðsynlegar, og þegar af þeirri ástæðu ber að leggja áherslu á að stjskrn. ljúki störfum.

Ljóst er af því, sem ég hef sagt hér, að það hefur e. t. v. verið lítil von til þess að koma á breytingum á kosningalögum nema viðtæk samstaða takist um það meðal þm., og eins og fram kemur í fyrsta hluta yfirlýsingar eða samþykktar þingflokks Alþb., er hv. 5. þm. Norðurl. v. greindi frá áðan, þá telja þeir ekki unnt að beita reglum um úthlutun uppbótarþingsæta þannig, að það nái þeim tilgangi er þeir vilja að stefna. Ég skal málefnalega ekki fara að ræða þetta í einstaka atriðum, en þeir benda ekki heldur á aðra leið sem betur tryggi þann tilgang, sem þeir viðurkenna í öðru orðinu þó, að nauðsynlegt sé að ná.

Ég tel rétt, að að svo miklu leyti sem þeir fulltrúar flokka, sem þegar hafa verið tilnefndir til viðræðna um breytingar á kosningalöggjöf og kosningafyrirkomulagi, hafa ekki náð saman, sé þeim eða öðrum falið að halda áfram viðleitni sinni til þess án þess að um formlega nefndarskipun sé að ræða, en ég teldi þó eðlilegast að stjskrn. væri endurskipulögð. Að öðru leyti er ég ekki reiðubúinn á þessu stigi til þess að taka endanlega afstöðu til nýrrar nefndarskipunar til að fjalla um breytingar á kosningalögum og stjskr., þótt ég sé sammála hv. 5. þm. Norðurl. v. að nauðsynlegt sé að koma á breytingum og láta ekki annað kjörtímabil liða án þess að breytingar séu gerðar í þessum efnum.

Varðandi niðurstöðu ríkisstj. er það að segja, að ljóst er að ríkisstj. mun ekki beita sér fyrir breytingum á kosningalögum, sem taka gildi við þær kosningar sem verða í vor. Það, sem kæmi til greina, væri að slíkar breytingar yrðu e. t. v. samþykktar með gildistöku eftir kosningar í vor, þannig að eftir þeim yrði ekki kosið fyrr en í öðrum kosningum hér frá. Spyrja má þá, hvaða þýðingu það hafi, vegna þess að eðlilegt mætti þá telja að næsta þing fjallaði um málið. Ég teldi að mörgu leyti æskilegt að ná slíkri breytingu fram, þótt með gildistöku væri eftir næstu kosningar, þar sem það væri þó trygging fyrir því, að eftir þeim breytingum væri kosið í öðrum kosningum héðan í frá, ef stjórnarskrárbreyting hefði ekki verið gerð innan þess tíma. En ég hlýt að viðurkenna að nauðsynlegt sé um svo viðamikið mál sem breytingar á kosningalögum, hvað þá heldur breytingar á stjskr., að annað tveggja og helst hvort tveggja skilyrðið sé fyrir hendi, að sem viðtækust samstaða hafi tekist um breytingarnar og hins vegar hafi þær verið skoðaðar og kannaðar ofan í kjölinn.

Ríkisstj. telur eðlilegt að hafa, áður en síðasta orð af hennar hálfu á þessu þingi er sagt um þetta mál, samráð við þingflokka sína í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir. Bið ég með að greina frá þeim endanlegu niðurstöðum þar til slíkt samráð hefur átt sér stað.