13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Vegna þess að hæstv. forsrh. komst svo að orði áðan, að hann teldi rétt að endurnýja stjskrn., þá vil ég leyfa mér að spyrja hann fyrir forvitni sakir, hvort hann eigi við að hún verði endurkjörin eða hvort hann eigi við að henni verði gefinn endurnýjaður lífsþróttur, þessari sömu nefnd. Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi skýrt fram, við hvort hann átti, en hitt er augljóst mál að annað hvort þarf að koma til, ef eitthvað á að koma út úr þessum nefndarstörfum. Að öðru leyti hef ég ekki miklu við að bæta, en vildi eindregið mælast til þess við hæstv. forsrh., án þess að við förum að eyða enn frekari tíma í orðaskak um liðna tíð, að hann hugi vel að því í þingflokki sínum, hvort ekki er vilji fyrir því, að viðræðunefnd flokkanna verði komið á laggirnar með formlegum hætti.