13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3377 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

152. mál, þinglýsingalög

Frsm. (Ingi Tryggvason) :

Herra forseti. Allshn. hefur á nokkrum fundum sínum fjallað um frv. til laga um þinglýsingar. N. varð sammála um afgreiðslu málsins, en við lokaafgreiðslu voru raunar tveir af nm. ekki viðstaddir, en höfðu þó áður látið í ljós samþykki sitt við frv.

N. flytur á sérstöku þskj. 539, brtt. Þessar brtt. varða einungis bifreiðar. Í aths. við VI. kafla frv. til þinglýsingarlaga kemur fram, að ekki hafi þótt tímabært að ákveða tilhögun á þinglýsingu eignarréttinda yfir bifreiðum meðan óséð væri, hvernig till. um breytingu á skipan bifreiðaskráningar reiddi af. Hins vegar séu gildar ástæður til að láta sömu reglur gilda um bifreiðar og um skráningarskyld skip minni en 5 rúmlestir, sem fjallað er um í VI. kafla, eins og einnig hafði verið gert ráð fyrir í fyrri frv. Till. um breytingar á skipan bifreiðaskráningar hafa ekki verið lagðar fram á yfirstandandi þingi og er þess vegna óhjákvæmilegt að miða við óbreytt ástand, ef afgreiða á þinglýsingarfrv. Brtt. þær, sem hér eru fluttar, eru í samræmi við þá skipan sem gert var ráð fyrir í fyrri frv. Er þannig gert ráð fyrir því, að þinglýsingu á eignarhafti á bifreiðum fari með sama hætti og eignarhaft á skráðum skráningarskyldum skipum minni en 5 rúmlesta. Um önnur ökutæki, þ. á m. óskráðar bifreiðar og bifhjól, létt bifhjól, beltabifhjól, dráttarvélar og tengi- og festivagna gilda þá reglur VII. kafla laga um lausafé almennt.

Samkv. þessu verður eignarhafti á bifreið þinglýst hjá dómara þar sem bifreiðin er skráð. Við umskráningu milli umdæma ber þinglýsingardómara að senda skjöl til dómara í hinu nýja umdæmi. Þinglýsingardómari fær þá vitneskju um skráningu annaðhvort frá skráningarstjóra, getur verið sama embættið, þ. e. bæjarfógetar og sýslumenn, eða með tilkynningu bifreiðareiganda, svo sem nú er algengast, t. d. í Reykjavík. Um þetta mætti ákveða nánar í reglugerð.

Mér þótti rétt að gera þessa grein fyrir brtt., sem er eins og ég áður gat um — einungis um þinglýsingar bifreiða.

Þeir Gaukur Jörundsson prófessor og Þorleifur Pálsson deildarstjóri í dómsmrn., sem unnu að samningu frv., komu báðir á fundi n., skýrðu efni frv. og svöruðu ýmsum spurningum sem nm. lögðu fyrir þá.

Þetta frv., sem hér er lagt fram, er — eins og áður hefur verið getið um — samið af Gauki Jörundssyni prófessor og Þorleifi Pálssyni og er að miklu leyti samið eftir frv., sem þeir dr. Ármann Snævarr og Ólafur A. Pálsson sömdu og fyrst var lagt fyrir á 78. löggjafarþingi, árið 1958–1959, og síðar tvisvar með nokkru millibili án þess að frv. næði fram að ganga. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. dómsmrh. á sínum tíma, miðar þetta frv. að því fyrst og fremst, að greiðar og öruggar upplýsingar megi fá um réttindi yfir fasteignum og að reglur um réttaráhrif þinglýsinga séu sem skýrastar. Frv. miðar fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir að mistök af einn eða öðru tagi komi fyrir í sambandi við þinglýsingar og enn fremur að því að gera framkvæmd þinglýsinga nútímalegri en nú er, færa þá vinnu, sem er í kringum þinglýsingar, í nútímalegra horf.

Þessu frv. fylgja svo níu frv. til breyt. á jafnmörgum lögum. Eru þessi frv. og þessar breyt. í beinum tengslum við frv. um þinglýsingar.

Ég tel ekki ástæðu til, að ég hafi fleiri orð um þetta frv., og ekki ástæðu til þess að kynna sérstaklega eða í löngu máli breytingar á þeim öðrum lögum sem er lagt til að breytt sé.

Ég tel þá ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta.