01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

311. mál, sjónvarp

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Mig langar til að bera aðeins saman þær tölulegu upplýsingar, sem komu fram hjá honum, við þá áætlun sem gerð var og ég hef vísað til áður.

Hæstv. ráðh. gat þess að tekjur yrðu nálægt 200 millj. kr., eða Ríkisútvarpið áætlaði þær 196.3 millj. Þá var áætlað að varið yrði til endurnýjunar bráðabirgðastöðva 40 millj. kr, á árinu 1977, en varið hefur verið 50 millj. kr. til þeirra stöðva.

Til örbylgjukerfis var áætlað að verja 63 millj. kr., en varið hefur verið 60 millj. Til litasjónvarpsútsendinga var áætlað að verja 50 millj., en til þess hefur verið varið 80 millj. kr. Ég verð því að segja að þeir, sem stóðu að þessari áætlun, geti út af fyrir sig verið mjög ánægðir með hvað þetta fer nálægt áætlun. En svo er hitt, sem að sjálfsögðu veldur vonbrigðum, og það er að ekkert hefur verið hreyft við tveimur liðum, lið b og e, sem eru nýjar stöðvar. Við þeim hefur ekkert verið hreyft. Þetta veldur að sjálfsögðu ekki síst vonbrigðum öllum þeim sem hafa staðið hins vegar að því að litasjónvarp verði tekið upp til að útvega tekjur. Og ég vil reyndar taka það fram, að ég tel alls ekki koma til mála að hér hefjist ekki litaútsending. Við bókstaflega getum ekki komið í veg fyrir það þótt einhverjir kunni að vilja það. Þetta er tæknibreyting sem á eflaust rétt á sér, þótt sumir kunni að telja hana óþarfa. Og það hefur sýnt sig að endurnýjun tækja er orðin mjög brýn. En fyrst og fremst fylgdum við þessu til þess að koma hinu meginmarkmiðinu fram, þ.e.a.s. nýjum stöðvum, en við því hefur ekki verið hreyft.

Ég verð að taka undir vonbrigði, sem hér hafa komið fram í þessu sambandi. Ég kann ekki skil á því, hvers vegna varið er 80 millj. kr. í litaútsendingu í stað 50 millj. Það má vera að þarna hafi verið farið fram úr þeirri áætlun sem sérfræðingar sjónvarpsins gerðu. Vel má einnig vera að þarna hafi verið ráðist í meira en talið var brýnt til þess að koma á viðunandi litaútsendingu. Ég vil taka undir þá aðvörun sem hér hefur komið í því sambandi að ráðast ekki í mjög kostnaðarsamar aðgerðir við litasjónvarp. Kannske er það langt á undan þeirri áætlun sem samkomulag varð um. Ég vil fullyrða að það hafi verið samkomulag um þá áætlun sem hér var lögð fram, við forráðamenn útvarps og sjónvarps og það yrði þá gjarnan á kostnað nýrra stöðva. En ég held að þetta tvennt verði að haldast í hendur, annars er tilganginum ekki náð. Þetta verður að haldast í hendur, og ég treysti hæstv. menntmrh. til að sjá um að svo verði.

Ég vil svo taka það fram, að að sjálfsögðu hljóta slíkar áætlanir alltaf að vera til endurskoðunar og breytingar á þeim hljóta að verða. Það skiljum við ekki síst sem að þessu stóðum. T.d. af því að hér hefur nokkuð verið minnst á sjónvarpsútsendingu til skipa, þá er nú orðið ljóst að á því máli verður veruleg breyting með tilkomu gervihnattarins Nordsat sem verður fyrir Ísland, Færeyjar og Grænland og er ráðgert að verði komið á loft 1985. Slíkur hnöttur gjörbreytir allri aðstöðu sjómanna. Skipin ná mjög auðveldlega til slíks gervihnattar. Einnig vil ég vekja athygli á því, að slíkur gervihnöttur mun leysa vandamál margra einstakra bæja sem snúa þannig að vera í sjónmáli við þennan hnött, t.d. inni í djúpum og löngum dölum. Ég vil hins vegar ekki taka undir það, að það sé ofraun fyrir okkur að koma sjónvarpi til — ja, ef ekki allra þá a.m.k. langflestra sveitarbæja. Það var áætlað 450 millj. kr. Það geta verið örfáir sem þarna verða eftir, en þeir eru ekki margir. Og það má vel vera að vandi þeirra leysist einmitt með þessari tækniþróun. Þannig hlýtur áætlunin að verða endurskoðuð með tilliti til slíkra breytinga.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að kostnaður við sendistöðvar er að meira en hálfu leyti tollur og söluskattur, tekjur ríkisins. Það er 35% tollur á sendum og 22% söluskattur, þannig að það má nokkurn veginn margfalda erlenda verðið með 2.1. Það er því meira en helmingur af þessu tolltekjur. Ríkissjóður fær verulegar tekjur einnig af þessum stöðvum sem ekki renna til útbreiðslu sjónvarps.

Ég vil svo þakka hæstv. menntmrh. að lokum fyrir þær framkvæmdir sem ráðgerðar eru á næsta ári. Ég geri mér grein fyrir að framkvæmdamáttur tæknimanna Ríkisúfvarpsins er takmarkaður. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, að það má vel fá menn utan þessarar tæknideildar til að sinna mörgum af þessum verkefnum. Ég hef kynnt mér það, að það er til mikið af færum radíómönnum hér í landinu sem með mjög lítilli þjálfun eða jafnvel engri geta tekið að sér að reisa einstakar stöðvar, og mætti jafnvel hafa hér útboð að einhverju leyti.