13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

264. mál, stjórnarskipunarlög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta geta verið fá orð. Þessi mál hafa verið til umr. í dag í hv. Ed. og þarf ég því litlu að bæta við það sem þar hefur komið fram af hálfu okkar Alþb.- manna. Það er eflaust rétt hjá hv. flm., að menn hafa reiknað með því, einhverjir a. m. k., að eitthvað yrði gert í þessum efnum nú fyrir þinglok, en varla þó af hálfu stjskrn., heldur í fyrsta lagi af hálfu þeirrar ríkisstj., sem hv. þm. styður og raunar allir þeir þm., sem eru á frv. til l., sem liggur frammi í Nd., einnig um breytingar á lögum um kosningar til Alþ. Virðist vera að þeim hafi sóst illa róðurinn og þunglega að koma sinni ágætu ríkisstj. af stað í þeim efnum.

En hvað sem um það má segja, þá er mér auðvitað ljóst að nauðsynlegt er, eins og fram kom í áliti okkar, að endurskoðun fari fram á þessum málum, og að visst misvægi þarf að leiðrétta, t. d. misvægi sem skapast hefur frá því að síðasta kjördæmabreyting var gerð. Það misvægi, sem skapast hefur í þessu efni, sem ég tel nauðsynlegast að leiðrétta, ef farið er út í almenna endurskoðun, hlýtur að vera það misvægi sem skapast hefur síðan síðasta kjördæmabreyting náði fram að ganga, síðan 1959. Og þá er auðvitað ljóst, að aðalvandamálið í því efni er varðandi Reykjanes. Þetta frv. er ólíkt geðfelldara hvað það snertir en frv. í Nd., að það gerir þó beinlínis ráð fyrir því, að misvægið gagnvart Reykjanesi verði leiðrétt. Það er hins vegar ljóst af því, sem kom fram í umr. í dag, að frv. í Nd. getur haft gagnstæð áhrif og getur í mörgum tilfellum verið alveg í gagnstæða átt, og ég efast ekki um að frv.-flutningur af hálfu hv. þm. Odds Ólafssonar stafar einmitt af því, að honum hefur verið ljóst að frv. flokksbræðra hans og kjördæmismanns eins úr Reykjaneskjördæmi í Nd. gat leitt til þess, að enn væri aukinn hlutur Reykjavíkur einnar en Reykjaneskjördæmi bæri jafnvel skarðari hlut frá borði en það gerir í dag. Þess vegna hefur hv. þm. farið þessa leið. Ég efast ekki um að sú sé aðalástæðan, því að hann hefur áreiðanlega reiknað sitt dæmi til enda. En greinilegt er að svo mikið hefur þeim kumpánum legið á í kapphlaupinu þarna í Nd., að þeir hafa alls ekki reiknað neitt dæmi áður en þeir lögðu frv. sitt fram, þrátt fyrir það sem þeir eru svo aftur að benda á í lok grg. sinnar, kjósendafjölda að baki hverjum þm. Þeir hefðu þá átt að skoða dæmið svolítið nánar og líta lengra til baka. Þó viðurkenni ég að ekki er einhlítt að líta til baka í þessum efnum, vegna þess að því lengra sem við förum til baka, því minni verður vitanlega hluti Reykjaness, af þeirri ástæðu, að þá var þar lægri prósenttala landsmanna en er þar nú. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, að sá samanburður, sem við höfum stundum verið að gera í þessu efni, gæti að öllu óbreyttu orðið jafnhagstæður Reykjanesi og Reykjavík í framtíðinni. Svo kann vel að fara, ef þróunin verður sú, að Reykjavík stendur í stað, en aftur í Reykjaneskjördæmi fjölgar svo sem hefur gert.

Ég held að það fari ekki milli mála, að þetta sé það sem er nauðsynlegast að leiðrétta, þarna hafi orðið mest misræmi frá því sem var þegar síðasta kjördæmahreyting var gerð 1959. Ég get hins vegar tekið fyllilega undir það með hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, sem kom mjög glögglega inn á það áðan, að taka þyrfti fleira inn í þessa mynd en kosningarréttinn einan. Ég held að inni í þessa athugun þurfi að koma, eins og hann benti á athugun á réttlæti í miklu víðari skilningi og aðstöðu allri.

Það fer auðvitað ekki milli mála, að Reykjavík hlýtur að njóta ótvíræðs hagræðis af aðstöðu allri til áhrifa á stjórnsýsluna, að Alþ. situr þar, að ríkisstj. situr þar, að helstu stjórnarstofnanir eru þar. Ég held að mönnum detti yfirleitt ekki í hug að Reykjavík eða Stór-Reykjavíkursvæðið í heild hafi verið afskipt, það hafi verið farið svo illa með íbúa þar sem er að dómi sumra manna sem um þetta tala mest, þegar við lítum á búsetuþróunina á s. l. árum. Hvað í ósköpunum hefur blessað fólkið verið að sækja í, ef það hefur verið að sækja stöðugt í óréttlæti, verri aðstöðu eða að verða eins konar vinnudýr fyrir landsbyggðina, eins og heyrðist í umr. á Alþ. ekki fyrir löngu? Það er slæmt að sá hv. þm. skuli ekki vera viðstaddur sem hafði þessi ummæli.

Það er ólíkt okkur Íslendingum að sækjast eftir þessu, sækjast eftir því að búa við óréttlæti og sækjast eftir því að verða vinnudýr fyrir aðra. Ég held að það fari ekki milli mála, að þessi búsetuþróun sýni að einmitt hér hafa menn haft í mjög mörgu og flestu besta aðstöðu í hvívetna, ekki síst hvað það snertir, sem við úti á landsbyggðinni teljum oft mestu máli skipta í öllu, félagslega, menningarlega og heilbrigðislega þjónustu.

Það er svo rétt, að Suðurnesjasvæðið hefur verið nokkuð afskipt. Það er sumpart stjórnmálaflokkunum að kenna, vegna þess að Suðurnesjamönnum virðist hafa gengið illa að komast hátt á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í þessu kjördæmi. En hitt er annað mál, að Suðurnesin búa við sérstöðu sem ég vildi gjarnan taka tillit til. Að því leyti til væri engin fjarstæða að þau hefðu þarna vissa sérstöðu gagnvart því að vera sérstakt kjördæmi. Þó vil ég ekki blanda mér í það, hvort Hafnarfjörður á að vera þar eða ekki. Það þykir mér óeðlilegt, en ég get ekki og vil ekki blanda mér í það.

Aðalatriði þessa máls, sem hér er komið inn á, er auðvitað það, sem hv. þm. Ragnar Arnalds kom reyndar inn á fyrr í dag, hvers eðlis uppbótarþingsætin eru. Til hvers eru uppbótarþingsætin? Þau eru til þess að auka jafnrétti milli stjórnmálaflokkanna, og það skiptir auðvitað miklu meiru í þessu máli en hitt, hvað t. d. Reykjavík með alla sína góðu aðstöðu hefur marga þm. Ég hefði t. d. verið miklu ánægðari ef hv. þm. Oddur Ólafsson hefði látið Reykjavík sitja uppi með sína þm. Þó að hann hafi gert grein fyrir því af hverju það hafi verið, að reikna þá með því að smærri flokkar hefðu meiri möguleika til að koma manni þar að, þá er ég — ef á að fara út í það að tryggja rétt þeirra — auðvitað ekki í neinum vafa um að ég mundi styðja frv. sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson hefur komið fram með. Það er hæði miklu meira öryggi í því fólgið, og það er í raun og veru sjálfsagt sanngirnismál, að við einhverja lágmarksprósentu sé miðað, að ekki geti dottið dauð atkv., eins og hann henti réttilega á, jafnvel á milli 10 og 15 þús. atkv., án þess að hafa nokkurn fulltrúa á löggjafarþingi. Það er náttúrlega nokkuð sem er alveg útilokað og verður auðvitað ekki tryggt með þessu frv., en yrði þó tryggt með þeirri skipan sem hann lagði til. Ég held, að það atriði eigi að koma verulega vel inn í þessa endurskoðun, og vona, að svo verði. En hvað uppbótarþingsætin snertir, þá er auðvitað staðreynd að þau eru gerð til þess að skapa aukið jafnrétti milli stjórnmálaflokkanna. Og ég er ekki sáttur við það að fækka þeim úr 11 í 4 því að sannleikurinn er sá, að til þess að fullkomnum jöfnuði hefði átt að vera náð í síðustu kosningum milli flokka, sem þá náðu því að fá mann kjörinn, þá hygg ég, að þurft hefði að úthluta — ég reiknaði þá ekki nákvæmlega — 17 uppbótarþingsætum. Hefur þó oft verið meira, sem hefur þar þurft til. Ég held, að þurft hafi að úthluta 17 uppbótarsætum til að ná fullkomnum jöfnuði við þann flokk sem hafði fæsta kjósendur á bak við hvern sinn þm., þar sem var Framsfl. Að því leyti til hlýt ég auðvitað að lýsa andstöðu minni við þá hugmynd að minnka þetta jafnvægi milli stjórnmálaflokkanna. Það verður þá, ef þetta ætti að gerast, að finna einhverja aðra leið en þá sem þarna er farin, enda er eðli uppbótarþingsætanna eða eðli þeirrar skipunar einmitt að reyna að tryggja, þó að það hafi aldrei tekist, að stjórnmálaflokkarnir hafi fulltrúa á Alþ. í sem bestu samræmi við atkvæðafylgi sitt. En í því efni teldi ég líka, eins og ég tók fram áðan, að sú prósentutala, sem nefnd var, hvort sem það yrði hún eða einhver önnur, sem var komið inn á í frv. hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar, hún eigi hiklaust að koma þar inn í og það sé ekki sæmandi fyrir okkur, ef endurskoðun færi fram, að á eftir stæðum við áfram uppi með það ófremdarfyrirkomulag sem nú er, að 10—15 þús. manns í landinu með ákveðna stefnu, stefnumið og stefnumál hafi ekki aðstöðu til þess að koma fulltrúa inn á þing og þar með sjónarmiðum sínum á framfæri.