13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3386 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

169. mál, Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóður

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð var lagt fram í Nd. Alþ. fyrr á þessu þingi og hefur hlotið afgreiðslu þar. Ég trúi, að frv. hafi verið samþ. óbreytt og afgr. þannig til þessarar hv. deildar.

Það er vissulega langt síðan áhugamenn um kvikmyndagerð tóku að hugleiða sérstakar aðgerðir til að greiða fyrir íslenskri kvikmyndagerð sérstaklega og jafnframt aðgerðir til að stuðla að söfnun og varðveislu íslenskra kvikmynda. Það hefur komið fram frv. í þessa stefnu á Alþ. og sérstök stjórnskipuð nefnd vann svo að undirbúningi þessa frv.

Ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir frv. í hv. Nd. og því fylgja einnig allítarlegar aths. Ég vil því stytta þessa framsögu nokkuð og leyfi mér að vísa til aths. og svo til þeirrar ræðu sem ég flutti í Nd. og þegar hefur verið prentuð í þingtíðindum. Ég vil þó víkja örfáum orðum að tveimur meginþáttum frv.

I. kaflinn fjallar um Kvikmyndasafnið og segir þar, að stofna skuli Kvikmyndasafn Íslands og það hafa aðsetur í Fræðslumyndasafni ríkisins og starfa í tengslum við það, a. m. k. fyrst um sinn. Það þótti rétt að hafa þennan hátt á. Fræðslumyndasafn ríkisins hefur starfað í allmörg ár og hefur í rann og veru átt, eftir því sem það hefur getað komið við, að halda til haga íslenskum kvikmyndum. Það hefur verið svo um hríð og vaxandi, að húsnæði það, sem Fræðslumyndasafnið hefur yfir að ráða, er mjög af skornum skammti og aðstaða þess hefur verið mjög erfið. En mér þykir líklegt að úr því verði bætt innan tíðar, enda er það nánast óhjákvæmilegt satt að segja, aðstaðan er slík.

Höfuðviðfangsefni Kvikmyndasafnsins verður að safna íslenskum kvikmyndum og varðveita þær, en einnig kemur til greina að safna eftirgerðum af vönduðum erlendum kvikmyndum sem hafa listrænt og kvikmyndasögulegt gildi, eins og segir í frv. Þá eru ákvæði um að ríkissjóður kosti húsnæði og geymslurými fyrir kvikmyndirnar og veita skuli til þess sérstakt fjárframlag á fjárlögum. Þá er svo fyrir mælt, að Fræðslumyndasafn annist rekstur Kvikmyndasafnsins gegn hæfilegri borgun, og er gert ráð fyrir, að heimilt sé að ráða a. m. k. í hálfa stöðu einn sérhæfðan starfsmann vegna Kvikmyndasafnsins og yrðu honum greidd laun beint úr ríkissjóði. Þá er ákvæði um að greiða skuli til Kvikmyndasafnsins árið 1979 5 millj. kr. og svo árlegt framlag eftir því sem ákveðið verður á fjárl. Síðan er ákvæði um sérstaka stjórn Kvikmyndasafnsins, hvernig hún skuli mynduð, og ég fer ekki nánar út í það.

Mig langar hins vegar til þess að geta um það, rifja það upp, að á kvikmyndahátíð, sem haldin var í vetur, hafði ég þá ánægju að skýra frá því að börn Lofts Guðmundssonar ljósmyndara ætluðu að afhenda Kvikmyndasafni Íslands, þegar það yrði stofnað, tvær merkar myndir sem þessi ágæti ljósmyndari og kvikmyndatökumaður líka gerði á sínum tíma. Og ég vil einnig vekja athygli á mjög eftirtektarverðu framtaki áhugamanna, Sigurðar Sverris Pálssonar og fleiri raunar, í þá veru að safna og halda til haga íslenskum kvikmyndum. Þeir hófu þetta starf fyrir alvöru, vil ég segja, í fyrra, þó það væri raunar aðeins í hjáverkum. Þeir fengu lítils háttar styrk fram menntmrn. vegna þessara starfa og lögðu þá áherslu á að finna þessar gömlu myndir, skrásetja þær og komast í samband við fólk sem hefur þær með höndum. Nú hafa þeir haldið þessu starfi áfram. T. d. hefur verið fluttur sjónvarpsþáttur þar sem reynt hefur verið að vekja áhuga á þessu efni. En sannleikurinn er sá, að þarna er um mjög þýðingarmikið menningarsögulegt efni að ræða og er ákaflega lofsvert framtak að ganga í að halda því til haga sem enn er finnanlegt af gömlum myndum. Sigurður Sverrir hefur nýlega verið á ferð í Danmörku og var hann að grúska í þessu þar einnig, um leið og hann rak önnur erindi. Hann komst í samband við yfirmann kvikmyndasafnsins danska, sem var honum mjög vinsamlegur. Og þá komst hann á snoðir um að þar eru t. d. til tvær myndir gerðar af leikritum Guðmundar Kambans og þar er að finna mynd, frá 1906 trúi ég, af íslenskri þingmannanefnd sem fór þá miklu ferð til Kaupinhafnar. Og eins sagði hann honum, þessi safnstjóri, að í þessu safni væri töluvert af efni sem ekki hefði verið skýrgreint og flokkað, og hann vissi til að þar væri eitthvað af gömlum íslenskum heimildum. Og enn er eitt, sem Sigurður Sverrir heyrði þarna ytra, sem maður veit ekki sönnur á enn og þykir næsta ótrúlegt, en sýnir þó, hvað margt er til af eldri myndum, sem er náttúrlega feiknalegur fengur í að ná saman. Hann frétti að í Frakklandi væru til, mér liggur við að segja : fornar kvikmyndir frá Íslandi, jafnvel frá því fyrir aldamót. Og hann skýrði það þannig, að þá — á allra fyrstu dögum kvikmyndanna — hefði áhuginn verið svo mikill að menn hefðu farið út um allar jarðir til þess að taka myndir. Og náttúrlega liggur skýringin líka í því, að þá var mjög mikil starfsemi Fransmanna hér á Íslandi. heilar „nýlendur“ sums staðar, bæði vestur á fjörðum og austur á fjörðum, á einum stað á Austfjörðum var t. d. rekið sjúkrahús á vegum þeirra. Mér þykir þetta út af fyrir sig ekki ótrúlegt, en þetta er mjög merkilegt. Mig langar til að láta þetta koma fram við þessa umr. um þetta mál, einmitt um Kvikmyndasafnið, um leið og ég læt í ljós mikla ánægju yfir því, að menn skuli hafa sýnt þessu svona mikinn áhuga og séu þegar byrjaðir á því starfi sem Kvikmyndasafninu er síðan ætlað að taka við og vinna.

Hinn meginþáttur frv. er svo í II. kafla þess, þar sem fjallað er um Kvikmyndasjóð, en þar segir að hann skuli stofna með 30 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði árið 1979, en síðan skal greiða árlegt framlag til sjóðsins eftir því sem ákveðið verður í fjárlögum. Það er skemmst af að segja, að Kvikmyndasjóðnum er ætlað að styrkja íslenska kvikmyndagerð jöfnum höndum með beinum framlögum og svo með lánum til kvikmyndagerðar. Og þar er svo að sjálfsögðu að finna ákvæði um stjórn Kvikmyndasjóðsins og tengingu hans við Kvikmyndasafnið.

Ég skal svo ekki hafa öllu fleiri orð um þetta frv., herra forseti. Frv. sjálft er fremur fáort og ef að lögum verður, sem ég vona fastlega að geti orðið á þessu þingi, þá yrði þarna um rammalög að ræða, einföld í gerð, sem svo yrðu útfærð nánar í reglugerð. Í reglugerð yrði þá t. d. kveðið nánar á um samstarf Kvikmyndasafns og Fræðslumyndasafns, um úthlutun úr Kvikmyndasjóði, reikningshald o. fl.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til menntmn.