13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3389 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

169. mál, Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóður

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um það fremur en 1. landsk. þm. að standa upp og lýsa yfir sérstakri ánægju með þetta frv. Að mínu viti er með því stigið spor, stórt spor til að tryggja að Íslendingar styrki grundvöll menningar sinnar. Eins og allir vita, höfum við löngum hælt okkur af því að eiga sögu — sögu frá þeim atburðum þegar land byggðist og sögu til okkar daga. Það er nú einu sinni svo, að hið ritaða orð hefur átt þó nokkuð mikið í vök að verjast, og fyrst og fremst eru það kvikmyndirnar, sem hafa tekið yfir. Ég vænti þess, að þetta verði til þess að menning Íslendinga standi fastari fótum og sú æska, sem er að vaxa upp í dag, muni komast í miklu nánari tengsl við það líf, sem lifað hefur verið í þessu landi. Eins og kom vissulega fram í ræðu hv. 1. landsk. þm., að það eru tímamót á svo mörgum sviðum í þjóðháttum okkar í dag, að þung ábyrgð er lögð á herðar þeirrar kynslóðar, sem lifir þetta tímamótaskeið, að sjá til þess að tengslin milli nútíðar og fortíðar í sögu þjóðarinnar rofni ekki.

Ég vil jafnframt geta þess, að þó að mér hafi fundist, eins og fleirum, að íslensk kvikmyndaframleiðsla væri misjöfn að gæðum þegar farið væri að setja á svið atburði, þá trúi ég því, að okkur muni vaxa fiskur um hrygg í þeim efnum og að þetta sé eitt af því sem e. t. v. geti í framtíðinni styrkt fjárhagsstöðu þessarar þjóðar. Við eigum ósnortið land með mikla möguleika til þess að stunda þar kvikmyndagerð, og ástæðulaust er að útlendingar plægi þann akur.

Ég vil svo að lokum óska menntmrh. til hamingju með að hafa lagt þetta frv. fram og vona að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi.