13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

228. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Frsm. (Lárus Jónsson) :

Hæstv. forseti. Iðnn. hv. Nd. hefur haft til athugunar frv. til laga um breyt. á lögum um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins. N. leggur einróma til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 523.

Þessar breytingar eru þrjár: Sú fyrsta er orðalagsbreyting, um stjórn á Þróunarsjóði og er í rauninni til fyllri skýringar á því ákvæði. Önnur breytingin felst að meginmáli í því, að 1/3 hluti af fullvinnslugjaldi, sem leggist á grásleppuhrogn, gangi til Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda. Að öðru leyti eru þarna dagsetningarbreytingar til samræmis. Þriðja breytingin er um gildistöku, sem er samræmisbreyting einnig.

N. hefur athugað umsagnir frá Samtökum grásleppuhrognaframleiðenda, Sjávarafurðadeild SÍS og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Umsagnir þessar eru fremur neikvæðar um álagningu 3% fullvinnslugjalds á útflutt óunnin grásleppuhrogn og önnur fryst eða söltuð hrogn. Til samkomulags við grásleppuhrognaframleiðendur féllst n. á að greiða skyldi til þeirra 1/2 hluta þess gjalds sem lagt yrði á grásleppuhrognaframleiðendur, eins og ég sagði áðan, og fallast þá Samtök grásleppuhrognaframleiðenda á frv. með þeirri breytingu. Var það staðfest á fundi n. af framkvæmdastjóra þeirra, Guðmundi Lýðssyni.

Þessi breyting þótti sanngjörn með tilliti til þess að grásleppuhrognaframleiðendur hafa einir hrognaframleiðenda greitt 6% útflutningsgjald í 5 ár til Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins, en hafa ekki notið fríðinda úr sjóðum sjávarútvegsins eins og aðrir sem útgerð stunda og sjómennsku.

Með þessari lagabreytingu mundu þessir framleiðendur einungis greiða 3% fullvinnslugjald, en ekki önnur útflutningsgjöld, og þar af rennur hluti til þeirra eigin samtaka. Geta má þess í þessu sambandi, að aðrir framleiðendur sjávarafurða greiða 6% útflutningsgjöld í sjóði sjávarútvegsins, eins og kunnugt er.

Það er svo mál út af fyrir sig, sem ég ræði ekki nánar í þessu sambandi, að athuga þarf hvort ekki sé eðlilegt að grásleppusjómenn greiði 2–3% útflutningsgjald samkv. almennum lögum um slík gjöld, en nytu þá a. m. k. hluta þeirra fríðinda sem sjóðir sjávarútvegsins veita. Þetta er algert sérmál sem bera verður að með breytingum á almennum lögum um útflutningsgjöld. Því ræði ég það ekki frekar að sinni í þessu sambandi.

Hugmyndin um fullvinnslugjald er rökstudd þannig, að álagning þess geri íslenskt hráefni dýrara fyrir erlenda framleiðendur en íslenska. Séu tekjur af gjaldinu notaðar til að örva sölu á fullunnum íslenskum vörum úr hliðstæðu hráefni, þá stuðlar þetta gjald á tvennan hátt að meiri fullvinnslu innlendra hráefna í landinu. Nefnd, sem skipuð var af iðnrh., setti fram þessa fullvinnslugjaldshugmynd í mjög ítarlegu nál. Í þessari nefnd voru Árni Þ. Árnason, form. nefndarinnar, frá iðnrn., Jón B. Jónasson frá sjútvrn. og Gylfi Magnússon framkvæmdastjóri Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins.

Iðnn. þessarar hv. d. fellst á að fullvinnslugjald sé hentugt stjórntæki til þess að hvetja á tvennan hátt til aukinnar fullvinnslu íslenskra hráefna í landinu. Hún hefur einnig kynnt sér þá miklu þörf sem er á því að hvetja til stóraukins útflutnings á íslensku lagmeti. Því leggur n. til, að frv. verði samþ. með fyrrgreindum breytingum, eins og áður segir.

Sölustofnun lagmetis var sett á laggirnar með lögum frá 16. maí 1972. Með þeim lögum var einnig komið á fót Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins. Samkv. lögum þessum skyldi Sölustofnun lagmetis hljóta 25 millj. kr. ríkisstyrk í 5 ár. Jafnframt voru Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins tryggðar tekjur, m. a. með 6% útflutningsgjaldi á grásleppuhrognum. Stjórn Sölustofnunar lagmetis telur að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika eigi að stefna að því, að almenn dagleg sölustarfsemi þessarar stofnunar verði að standa undir sér fjárhagslega með eðlilegum umboðslaunatekjum. Þess vegna hefur ekki verið farið fram á áframhaldandi fjárstyrk úr ríkissjóði í þessu skyni. Þessi stefna kann að reynast erfið í framkvæmd, einkum vegna þess að umboðslaunatekjur stafa, eins og sakir standa nú, að miklu leyti af fáum stórum sölusamningum. Á þetta verður þó að reyna á næstunni.

Á hinn bóginn verður ekki lögð of rík áhersla á mikla þörf þess að tryggja Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins hliðstæðar tekjur og áður. Þetta er ætlunin að gera með álagningu umrædds fullvinnslugjalds og 1% útflutningsgjalds á lagmeti, en það er veruleg íþynging fyrir íslenska lagmetisframleiðendur. Það sýnir að þeir hafa fullan skilning á nauðsyn málsins. Raunar má á það benda, að 1% gjald á fullunnið lagmeti samsvarar 3% gjaldi á hráefni þar sem hráefni þrefaldast yfirleitt að meðaltali í verði í lagmetisiðnaði.

Hlutverk Þróunarsjóðs, eins og það hefur verið skilgreint síðustu ár, er fyrst og fremst að fjármagna sérstök tímabundin markaðsátök, stuðla að vöruþróun, hönnun nýrra umbúða og hagræðingu í langmetisiðnaði. Fjárfrekust af þessum verkefnum eru sérstök markaðsátök. Á þessu sviði hefur Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins þegar lagt fram mikið fé, t. d. til greiðslu á halla af rekstri söluskrifstofu í Bandaríkjunum, en búist er við því, að hún standi ekki undir sér, a. m. k. ekki fyrstu þrjú árin.

Stjórn Sölustofnunarinnar hefur gert áætlun um þörf Þróunarsjóðs fyrir fjármagn næstu ár til þess að sinna verkefnum sem nú eru hafin og æskilegt er að geta unnið að næstu þrjú ár. Iðnrh. gerði grein fyrir þessari áætlun í framsögu fyrir þessu frv. Ég skal því ekki fjölyrða um þessa áætlun, aðeins geta þess, að lágmark er að mati Sölustofnunar lagmetis að verja þurfi 300 millj. kr. í þessu skyni á þremur árum. Þetta ætti að takast ef þetta frv. verður samþ., og er þá miðað við að tekjur af fullvinnslugjaldi hrogna nemi um 40–50 millj. kr. árlega, þ. e. a. s. bæði af grásleppuhrognum og þorskhrognum, og útfluttu lagmeti um 15 millj. kr., en afgangurinn verði greiddur af þeim höfuðstól sem Þróunarsjóður á nú. Á hinn bóginn er ljóst að rifa yrði seglin og hætta sérstökum þróunarverkefnum og markaðsátökum ef þessar nýju tekjur kæmu ekki til.

Rétt er að taka fram, að í áðurnefndri áætlun Þróunarsjóðs er gert ráð fyrir því að verja verulegri fjárupphæð til þess að auka sölu á fullunnum grásleppukavíar. Langmikilvægustu markaðir fyrir þessa vöru eru í Efnahagsbandalagslöndunum. Á meðan landhelgisdeilan stóð tók „bókun 6“ ekki gildi eins og kunnugt er. Tollar Efnahagsbandalagslandanna gagnvart Íslandi á lagmeti urðu þá, þ. á m. á grásleppukavíar, um 30%. Þetta tók að sjálfsögðu fyrir sölu á þessari vörn á þessa markaði. Á miðju ári 1977 féllu þessir tollar á hinn bóginn niður. Þar sem hér er um merkjavöru að ræða er þó mikið og fjárfrekt verkefni eftir, ef takast á að koma íslenska merkinu á markað á nýjan leik svo um muni.

Þá er einnig áætlað að verja verulegu fé úr Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins til stuðnings framleiðslu og sölu á þorskhrognum. Eini umtalsverði markaður niðursoðinna þorskhrogna er í Bretlandi. Þar njóta Danir, sem kaupa íslensk þorskhrogn og sjóða niður í Danmörku, algerra tollfríðinda. Þeir greiða engan toll, en íslensku framleiðendurnir greiða 10% toll. Fullvinnslugjald á þorskhrogn jafnar þarna að nokkru metin, en meira þarf til að koma ef ekki á að veita Dönum nánast einkarétt á að fullvinna íslensk þorskhrogn fyrir þennan markað.

Þótt hér sé sérstaklega minnst á framangreind brýn verkefni Þróunarsjóðs næstu ár, eru þó að sjálfsögðu mörg önnur á prjónunum, sem of langt mál yrði upp að telja.

Það tímabil, sem sölustofnun lagmetis hefur starfað, hefur verið mikið umbrotaskeið. Í kjölfar olíukreppunnar skall á viðskiptakreppa í heiminum með tilheyrandi minnkandi eftirspurn lagmetis, sem er tiltölulega dýr matvara og því viðkvæm í sölu fyrir slíkum sveiflum. Tollar í nágrannalöndunum hafa gert ókleift árum saman að selja þessa vöru á þeim mörkuðum. Nú er á hinn bóginn að rofa til. Tollar eru nú ýmist engir eða lágir í nágrannalöndunum. Í Bandaríkjunum er verið að byggja upp sölustarf sem miklar vonir eru bundnar við.

Það kom áþreifanlega í ljós á s. 1. ári, að ástæða er til aukinnar bjartsýni á að auka megi sölu á fullunnu íslensku lagmeti og margfalda með því verðmæti hráefnis. Þá rúmlega tvöfaldaðist verðmæti útflutts lagmetis. Það var meiri aukning útflutnings en í nokkurri annarri iðngrein. Samtals var útflutningsverðmætið rúmlega 1200 millj. kr. Við eigum að halda áfram á sömu braut. Við þurfum að fullvinna meira af íslensku hráefni með hverju ári og auka þannig útflutningsverðmætið. Að þessu er stefnt með þessu frv. Því leggur iðnn. einróma til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem hún hefur flutt tillögur um.