13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3401 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

228. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. þm. Lárusar Jónssonar, að þörf sé á því að fullvinna meira hráefni úr sjávarafla, þannig að sem mest sé flutt fullunnið úr landi. Segja má að fullvinnslugjald eigi nokkurn rétt á sér, en ég vil þó vekja athygli á því í sambandi við þetta mál, að fleiri leiðir koma til greina en þær sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel, þrátt fyrir að allir um. í iðnn. Nd. hafi verið sammála um að svo skuli gert sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. að leggja fullvinnslugjaldið á söltuð grásleppuhrogn, söltuð matarhrogn og fryst hrogn, þá leið ekki rétta með hliðsjón af því sem hér mun verða sagt á eftir.

Það, sem vakti sérstaklega athygli mína í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar, var að hann talaði um grásleppu- og þorskhrogn. En frv. gengur mun lengra en að um sé að ræða fullvinnslugjald á aðeins grásleppu- og þorskhrogn, því í 3. gr. og einnig endurtekið í brtt. á þskj. 523 er tekið fram að greiða skuli til Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins á tímabilinu frá 1. apríl 1978 til 1. apríl 1981 fullvinnslugjald af söltuðum grásleppuhrognum, söltuðum matarhrognum og frystum þorskhrognum, sem flutt eru til útlanda, svo og útfluttu lagmeti. Þarna er því gert ráð fyrir álagningu á öll fryst hrogn og matarhrogn. Mun ég víkja nánar að því á eftir, að slík álagning stríðir raunverulega gegn megintilgangi frv.

Það, sem verið er að gera með þessu frv. í sambandi við tekjuöflun vegna Sölustofnunar lagmetis, er raunverulega að álagningarstefnan á atvinnuvegina er í fullum gangi. Sem sagt báknið mikla eða báknið burt, sem ýmsir vilja, það skal vera, en þeir, sem úti í atvinnulífinu eiga að standa á eigin fótum, skulu greiða gjöld til þess að viðhalda bákninu. Ekkert má draga saman eða minnka annars staðar vegna þeirra þarfa sem ég tel að séu fyrir hendi í sambandi við Sölustofnunina, ekkert má draga saman hjá ríkinu til þess að fullnægja því.

Það, sem raunverulega er verið að gera með þeirri fjáröflunarleið, sem frv. gerir ráð fyrir, er að verið er að leysa ríkissjóð undan fjárhagsskuldbindingum vegna þessara mála og velta þeim yfir á aðra og þá einkum hraðfrystiiðnaðinn. Á sama tíma sem þetta gerist er engum pinklum létt af hraðfrystiiðnaðinum. Vil ég þar sérstaklega minnast á aðflutningsgjöld af hvers konar vélum og tækjum til frystiiðnaðar og fiskvinnslu. Á sama tíma sem verið er að leggja ákveðið prósentugjald á ákveðinn hluta þeirra sjávarafurða sem frystiiðnaðurinn framleiðir og flytur úr landi, býr hraðfrystiiðnaðurinn við þau ókjör samanborið við annan iðnað, þ. á m. þann iðnað sem hér er til umr., að hann nýtur ekki þeirra kjara í sambandi við aðflutningsgjöld, sem svonefndur samkeppnisiðnaður hefur, þ. e. a. s. hraðfrystiiðnaðurinn verður að greiða full gjöld af vélum og tækjum til sinna starfa. Ég minni á það t. d., að ef hraðfrystihús kaupir lyftara, þá nema aðflutningsgjöld vegna slíkra kaupa hvorki meira né minna en 67% af innkaupsverði. Af flökunarvélum verður hraðfrystiiðnaðurinn að greiða u. þ. b. 22% af andvirði, en eins og allir vita eru flökunarvélar ómissandi tæki í nútímaiðnaði eins og hraðfrystiiðnaðurinn er. Einhvern tíma hefði verið sagt að 67% álagning á jafnómissandi tæki og lyftarar eru flokkaðist undir lúxustolla, þ. e. a. s. væru sambærilegir tollar og voru á lúxusvörum áður fyrr.

Ég vek athygli á þessu vegna þess, að við höfum nokkrir barist fyrir því í mörg ár að reyna að fá þessum aðflutningsgjöldum aflétt af fiskiðnaðinum og þá alveg sérstaklega þessum 22% sem ég gat um í sambandi við flökunarvélarnar, en þau eiga einnig við lyftara og eru 67% á þeim og yfirleitt öllum öðrum tækjum, sem þessi iðnaður þarf að kaupa erlendis frá. Sú ósk okkar, að þessi gjöld verði færð í sama horf og í öðrum samkeppnisiðnaði, hefur ekki fengið náð fyrir eyrum þeirra sem ráða þessum málum. En ég vek athygli á þessu nú og því, að við þetta er ekki lengur hægt að una og allra síst um svipað leyti og verið er að tala um að leggja á hraðfrystiiðnaðinn ákveðið gjald.

Samkv. þessu frv. er verið að leggja á þær afurðir, sem eru tilgreindar í 3. gr. frv., hærra prósentuálag, vegna þess sem ég vil kalla óskyldra afurða en sjálfir útflytjendur — þ. e. a. s. útflutningssamtökin sem selja þessar vörur — taka fyrir að hafa þessar afurðir í sölumeðferð, en það eru aðeins 2%. Ég tel þess vegna, eins og málum er háttað, bæði varðandi aðflutningsgjöldin og einnig það, að hraðfrystiiðnaðurinn hefur átt í erfiðleikum, að óeðlilegt sé að leggja umrætt gjald á fryst hrogn. Ef fara átti þessa leið hefði átt að taka fleiri afurðir inn í dæmið. Ég nefni sem dæmi að ekki hefði verið óeðlilegt að leggja t. d. þessa prósentu á lýsi eða saltaða og frysta síld eða það sem auðvitað hefði verið réttast að mínu viti, það hefði átt að hafa hinn fyrri hátt á, sem var í upphafi Sölustofnunar lagmetisins, þ. e. að ríkissjóður legði fram ákveðna upphæð árlega úr ríkissjóði vegna þessarar stofnunar.

Ég tel einnig rétt vegna allra málsatvika, að fram komi a. m. k. umsögn eins aðilans sem veitti umsögn um þetta frv. Ég vil — með leyfi forseta — lesa upp kafla úr umsögn frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, vegna þess að í þeirri umsögn koma fram atriði sem lúta sérstaklega að frystum loðnuhrognum og matarhrognum, en í umsögn frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem dags, er 22. mars 1978, segir m. a.:

„Meginefni þessa frv. er breyting á gjaldtöku á útflutningi sem tekjuöflun fyrir Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins. Þetta skeður með þeim hætti, að horfið er frá 6% útflutningsgjaldi á grásleppuhrogn, en í þess stað er fyrirhugað að leggja svokallað fullvinnslugjald sem nemur 3% af fob-verði saltaðra grásleppuhrogna, saltaðra matarhrogna og frystra hrogna, enn fremur 1% af fob-verði lagmetis. Tvímælalaust verður að telja eðlilegt að stutt sé við bakið á nýrri iðngrein til úrvinnslu á sjávarafla í byrjun eða þangað til séð verður hvort slík úrvinnsla skilar betri árangri en hefðbundnar vinnsluaðferðir. Í því sambandi má minna á störf fiskábyrgðarnefndar árin 1947–1949, þegar verið var að vinna markað fyrir hraðfrystan fisk í Bandaríkjunum. Nefndin var skipuð af ríkisstj. og hafði til umráða fjárveitingu á fjárlögum í þessu skyni, en hafði engin afskipti af framleiðslu- eða markaðsmálum. Þau mál voru algjörlega í höndum framleiðenda.

Við tekjuöflun til markaðsleitar og stuðning við framleiðslu á meðan söluandvirði nægir ekki fyrir framleiðslukostnaði koma ýmsar leiðir til greina. Í fyrsta lagi má nefna fjárveitingu á fjárlögum og í öðru lagi markaða tekjustofna með skattheimtu. Ef síðari leiðin er farin, kemur til álita hvaða vörutegundir skuli skattleggja. Þar sem lagmetið mun nú flokkað undir iðnaðarframleiðslu, virðist í fljótu bragði ekki óeðlilegt að annar iðnaður legði þarna nokkuð af mörkum, eins og t. d. stóriðja, en ekki mun hafa verið gert ráð fyrir að með þeim hætti væri stutt við bakið á nýgræðingi í smáiðnaði til útflutnings. Þar eð fullunnin vara er unnin úr sjávarafla virðist talið sjálfsagt að sjávarútvegurinn sé skattlagður. Að því gefnu má telja að um tvo valkosti sé að ræða: annars vegar almennan útflutningsskatt, annaðhvort sem hluta af núverandi útflutningsgjöldum eða með nokkurri hækkun þeirra, og svo hins vegar útflutningsgjald af tilteknum sjávarafurðum. Samkv. frv. er það síðasta leiðin sem valin er, en val vörutegunda virðist vægast sagt tilviljanakennt. Ætla mætti að hér kæmi helst til greina þær vörutegundir, sem fluttar eru út óunnar, en væru jafnframt líklegast hráefni fyrir lagmetisiðnaðinn, bæði nú og í framtíðinni. Auðvelt ætti að vera að rökstyðja slíka gjaldtöku frá því sjónarmiði, að um jöfnunargjald væri að ræða til að jafna aðstöðu og markaðsmun, auk þess sem von væri til að innlend framleiðsla gæti í framtíðinni greitt hærra verð fyrir hráefnið en óunnin útflutt vara.

Glöggt dæmi um tilviljun í þessu efni er sú fyrirætlan að skattleggja fryst matarhrogn með sama hætti og fryst iðnaðarhrogn. Fryst matarhrogn hafa ekki verið og verða ekki hráefni fyrir lagmetisiðnað með sama hætti og iðnaðarhrogn. Enn þá gleggra dæmi og mikilvægara frá fjárhagslegu sjónarmiði eru þó frystu loðnuhrognin sem seld eru til Japans. Samkv. 3. gr. frv. verður að telja að þessi hrogn falli undir gjaldið, þótt ekki sé samræmi milli frv. og aths. við það, en í 7 málsgr. er aðeins talað um fryst þorskhrogn“ eins og kom fram í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar. „Loðnuhrogn hafa ekki verið notuð í lagmetisiðnaði hvorki hér á landi né annars staðar.

Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir gjaldi af saltaðri eða frystri síld, sem þó virðist meginuppistaðan í framleiðslu lagmetis hér á landi, og þá ekki heldur á þorskalýsi, en lifur virðist vera næststærsta vörutegundin, og kemur það fram í aths. með frv:

Í umsögn segir enn fremur:

„Ekki skal frekar fjölyrt um þessi atriði, svo augljós sem þau eru. Athygli vekur, að aths. frv. bera ekki með sér að nein tilraun hafi verið gerð til þess að áætla fjárþörf í þessu skyni við gildistöku laganna. Þá er ekki heldur sýnd nein áætlun um tekjur samkv. lögunum fyrir þetta tímabil. Í því sambandi skal bent á, að fyrir þessa vertíð“ þ. e. a. s. fyrir s. l. vetrarvertíð — „var samið um sölu á ca. 3 þús. tonnum af loðnuhrognum. Ef allt hefði gengið skaplega með veiðar og löndun loðnunnar hefði ekki verið óeðlilegt að gera ráð fyrir þessu magni, en þá mundi það skila ca. 1250 millj. í fob.- verðmæti eða 37.5 millj. í Þróunarsjóð lagmetis. Eftir tvö ár væri ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að við gætum framleitt og markaðurinn tekið við allt að 5 þús. tonnum að útflutningsverðmæti 2000–2500 millj. kr. eða sem svaraði 60–75 millj. í útflutningsskatt. Þetta er nokkru hærri upphæð en allur kostnaður við lagmetið er áætlaður fyrir árið 1977. Það má vera, að hér gæti of mikillar bjartsýni og þá sérstaklega vegna þess að ekki er víst, að við sitjum einir þjóða að þessari framleiðslu sem hingað til fyrir japanska markaðinn.

Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að fullvinnslugjald samkv. frv. verði ekki lagt á vöru ef sölusamningur hefur verið gerður fyrir 1. mars 1978 og seljandi sótt um útflutningsleyfi fyrir 1. apríl 1978. Hér virðist gæta ákveðins misskilnings í sambandi við frv. þess efnis, að seljandi getur velt þessu gjaldi á kaupendur. Fullvinnslugjaldið hefur að sjálfsögðu engin áhrif á söluverð vörunnar, en það, sem skiptir máli, er verðlagning hráefnis þar sem gjaldið kemur annars eingöngu sem skattur á vinnsluaðila vörunnar.

Af framansögðu má vera ljóst, að ekki er annars kostur en að mæla gegn samþykkt þessa frv. í sinni núverandi mynd“ segir að lokum í umsögn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.

Ég vil síðan undirstrika það og bæta því við, að sá megingjaldstofn, sem þarna er um að ræða, er fryst loðnuhrogn fyrir japanska markaðinn, en þau eru þess eðlis að þau koma aldrei til með að verða fullunnin á Íslandi. Það er eðli málsins samkv. vegna þess, að varan er þannig seld á japanska markaðnum. Ég ítreka það sjónarmið, sem fram kemur í umræddri umsögn og einnig í upphafi máls míns, að ef sú leið er valin, sem frv. gerir ráð fyrir, að eyrnamerkja og leggja ákveðið gjald á ákveðnar tilteknar útflutningsvörur, þá hefði verið eðlilegra að þar hefðu fleiri vörutegundir komið til skjalanna, og einnig hefði komið til greina að leggja ákveðið gjald á aðrar iðnaðarvörur, þannig að það væri í samræmi við það að þetta flokkast undir iðnað. Ég hefði talið eðlilegt, þar sem allir hljóta að vera sammála um að styrkja beri þá starfsemi sem sölustofnunin innir af hendi, að halda áfram enn um skeið samkv. þeirri upphaflegu leið, sem farin var á sínum tíma, þ. e. að ákveðið framlag kæmi til stofnunarinnar úr ríkissjóði á ári hverju.

Með vísan til þess, sem ég hef sagt um þetta mál mun ég ekki geta greitt frv. atkv. mitt.