13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

218. mál, áskorunarmál

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., felur í sér breytingu á lögum um svonefnd áskorunarmál. Lög um það efni voru afgreidd frá Alþ. árið 1968 sem viðauki við lög um meðferð einkamála í héraði.

Lögum um áskorunarmál var ætlað að flýta fyrir meðferð minni háttar einkamála, svo sem víxil- og tékkamála og einfaldra skuldamála. Þeir, sem að lagasetningu þessari stóðu, hafa eflaust gert sér vonir um að hið nýja stefnuform, áskorunarstefnan, mundi smátt og smátt útrýma gamla stefnuforminu í fyrrgreindum málum. Reyndin hefur hins vegar orðið önnur. Á undanförnum árum hefur tæplega helmingur af dæmdum útivistarmálum, þ. e. málum þar sem stefndi hefur ekki mætt á bæjarþingi Reykjavíkur, verið áskorunarmál. Utan Reykjavíkur hefur hlutfall áskorunarmála verið víðast hvar enn lægra. Að óbreyttri löggjöf er jafnvel ástæða til að ætla að áskorunarmálum fari hlutfallslega fækkandi á næstu árum.

Ástæðan fyrir því, að áskorunarmál hafa ekki orðið eins algeng og vonir stóðu til í upphafi, er ekki sú, eins og e. t. v. mætti ætla í fljótu bragði, að lög um áskorunarmál hafi reynst illa í framkvæmd. Þvert á móti hafa lagareglurnar um áskorunarmál tvímælalaust verið til þess fallnar að flýta meðferð mála, spara dómurum tíma og draga úr kostnaði. Hins vegar mun ástæðan einkum vera sú, að lögmenn vilji spara sér ferð á fund dómara til að fá útgefna áskorunarstefnu, en samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að gefa slíka stefnu út utan réttar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af réttarfarsnefnd. Frv. stefnir, eins og önnur frv. er nefndin hefur sent frá sér, að því að hraða meðferð dómsmála. Frv. gerir ráð fyrir því, að meginreglurnar um meðferð svonefndra áskorunarmála haldist óbreyttar. Byggist það, eins og fyrr segir, á reynslu sem hefur fengist af áskorunarmeðferðinni. Í frv. er því aðeins gert ráð fyrir minni háttar breytingum á reglunum um meðferð áskorunarmála.

Í fyrsta lagi er lagt til að stefnandi geti sjálfur gefið út áskorunarstefnu utan réttar. Slík breyting ætti að stuðla að því, að lögmenn notfæri sér í ríkari mæli en hingað til það hagræði að geta gefið út áskorunarstefnu. Enn fremur er lagt til að stefnukröfur verði aðfararhæfar að liðnum 7 sólarhringum frá áritun dómara um aðfararhæfi, án þess að sérstök birting þurfi að fara fram. Þessi breyting ætti að spara stefnanda bæði tíma og fyrirhöfn og eins og fyrri breytingin að stuðla að því, að áskorunarmálum fjölgi. Þótt birting fari ekki fram á þessu stigi máls, þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því eftir sem áður, að stefnda sé birt áskorunarstefna. Breyting þessi ætti því ekki að vera varhugaverð út frá réttaröryggissjónarmiði, enda er ástæðan fyrir hinum mikla fjölda víxilmála og einfaldari skuldamála hér á landi sú, að skuldarar annaðhvort vilja ekki eða geta ekki greitt. Það heyrir hins vegar til undantekninga, að slíkar kröfur séu umdeildar.

Ég vil svo að öðru leyti vísa til aths. réttarfarsnefndar með frv. Þetta frv. var lagt fram í Ed. Það hefur farið í gegnum 3. umr. þar og verið samþ. óbreytt. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. allshn.