13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

49. mál, hlutafélög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Hæstv. forseti. Þetta frv. er mjög viðamikið. Það er samið af Benedikt Sigurjónssyni hæstaréttardómara og Gylfa Knudsen í viðskrn. Það var aðeins lagt fram til kynningar á síðasta þingi, en var svo endurflutt nú óbreytt.

Lengi hefur verið ljóst, að þörf hefur verið á því að setja nýja löggjöf um hlutafélög. Hlutafélagalögin eru frá árinu 1921. Á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa orðið miklar þjóðfélagslegar breytingar hér á landi og þess vegna nauðsynlegt að setja ný lög um þetta rekstrarform, sem hefur orðið æ algengara hér. Einnig hafa nýlega verið sett ný lög um þetta efni á Norðurlöndum sem eru svipuð í meginatriðum, en þó ber nokkuð á milli, t. d. hafa Danir með setningu sinnar löggjafar orðið að taka mið af þátttöku sinni í Efnahagsbandalaginu. Áður hafa verið gerðar tilraunir til þess að setja hér ný hlutafélagalög. A. m. k. tvisvar sinnum áður hefur verið stofnað til endurskoðunar á hlutafélagalögunum og frv. um það efni lögð fyrir Alþ., en þau hafa þó ekki náð fram að ganga.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið til meðferðar í hv. Ed. og verið tekið þar til vandlegrar athugunar, og að ég bygg hefur einnig verið fjallað um það samtímis af þeirri n. sem væntanlega mun fá frv. hér til meðferðar. Gerðar voru allmargar breytingar á frv. við meðferð þess í hv. Ed. Flestar voru þær þó lagfæringar og minni háttar breytingar, en sumar nokkru þýðingarmeiri. Flestar þeirra eru sjálfsagt til bóta, aðrar geta verið álitaefni. Um einstakar þeirra verð ég að segja, að samkvæmt mínu persónulega mati eru þær ekki til bóta. Það haggar því þó ekki, að ég tel mikla réttarbót að því að fá þetta frv. afgreitt frá Alþ. eins og það hefur verið afgreitt frá hv. Ed.

Að sjálfsögðu er um mjög mörg nýmæli að ræða í þessu frv. frá gildandi löggjöf. Ég gerði allítarlega grein fyrir þeim í framsöguræðu minni í hv. Ed., bæði nú í vetur og reyndar líka í fyrra þegar ég lagði frv. fram. Ég tel að samþykkt þess sé brýn og það muni geta leitt til mikilla réttarbóta. Þó að það sé e. t. v. ekki alveg réttilega að farið, þá vil ég leyfa mér, vegna þess hve tíminn er naumur, að vísa til þess, sem ég sagði um frv. í hv, Ed., og jafnframt til þeirra aths., sem fylgja frv., sem eru mjög ítarlegar, og vil því ekki vera að þreyta hv. dm. á lengri framsöguræðu um málið. Ég get þá eins vikið að því nánar við 2. umr. ef mér þykir ástæða til.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.