13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3413 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

49. mál, hlutafélög

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Mér er að sjálfsögðu kunnugt að stjórn Sambandsins hefur heimilað tveimur fulltrúum starfsmanna Sambandsins að sitja stjórnarfundi Sambandsins með málfrelsi og tillögurétti. Einmitt þess vegna sagði ég áðan, að ég byggist við að stjórn Sambandsins mundi koma það harla mikið á óvart, ef hún læsi það svar frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, sem allshn. þessarar hv. d. barst í vetur í umsögn Vinnumálasambands samvinnufélaganna um þá hugmynd að veita starfsmönnum fyrirtækja aukna hlutdeild í stjórn þeirra. Svar Vinnumálasambands samvinnufélaganna er alls ekki í samræmi við þá stefnu sem komið hefur fram hjá stjórn Sambandsins, m. a. í þeirri afgreiðslu sem ég lýsti áðan. Ég held að fróðlegt væri, hæði fyrir stjórnarmenn í Sambandinu og áhugamenn um samvinnumál sem telja sig vera félagshyggjumenn, að kynna sér hvernig hugsað er í þeirri stofnun er nefnist Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Það er e. t. v. talsvert langan veg frá þeim hugsanagangi sem ég vona að sé ríkjandi í stjórnarfundaherbergi Sambands ísl. samvinnufélaga.

Þau lög, sem að mínu áliti hafa verið notuð sem fyrirmynd við samningu þess frv., sem hér liggur fyrir, þ. e. a. s. lög um hlutafélög í nágrannalöndum okkar, gera flestöll ráð fyrir því, að starfsmenn hlutafélaga hafi aðild að stjórnum þeirra. Hér er því ekki um nýmæli að ræða, heldur atriði sem þeir, sem sömdu þetta frv., hefðu, ef þeir hefðu kært sig um, getað tekið inn í frv: samninguna, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu það fyrir augunum í þeim lögum sem þeir höfðu sem fyrirmynd. T. d. er mér kunnugt um að í norsku hlutafélögunum er sérstakur kafli um aðild starfsmanna að stjórn fyrirtækja. Mér er kunnugt um að í sænsku hlutafélagalögunum er svo líka. Og mér er kunnugt um að stjórnskipuð nefnd, sem lauk störfum í Bretlandi fyrir rúmlega ári og fjallaði einmitt um atvinnulýðræðismál, gerði það að till. sinni, að þeim málum yrði til lykta ráðið hvað varðaði hlutafélög með sérstökum kafla í hlutafélagalöggjöf. Þannig er um að ræða mál sem allar nágrannaþjóðir okkar hafa leyst með einum og sama hætti, þ. e. a. s. með lagasetningu á þjóðþingum, en ekki samningum milli aðila vinnumarkaðarins, enda er ekki um að ræða kaup- og kjaramál heldur mannréttindamál. Allar þessar nágrannaþjóðir hafa komist að þeirri niðurstöðu, að þetta bæri að gera með löggjöf af löggjafarstofnun.

Ég held að við nánari umhugsun hljótum við Íslendingar að komast að sömu niðurstöðu, ef við viljum ná þessum hugmyndum fram, m. a. vegna þeirrar reynslu sem við höfum haft af öðrum vinnubrögðum, sem m. a. hafa komið fram í því, að nefndin sem skipuð var fyrir mörgum árum til þess að fjalla um þessi mál og skipuð var fulltrúum annars vegar Alþýðusambands Íslands og hins vegar Vinnuveitendasambands Íslands, hefur ekki haldið fundi um þetta mál árum saman, er nánast ekki lengur til. Þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að leysa málið á grundvelli samninga aðila vinnumarkaðarins, hafa hér eins og alls staðar erlendis ekki reynst þess eðlis að geta leyst málið, heldur erum við eins og allar okkar nágrannaþjóðir, sem svipað hafa gert, að leita fanga hjá löggjafarstofnun þjóðarinnar, hinu háa Alþingi. Spurningin er bara sú: Vilja Alþ. og alþm. veita launþegum í landinu þessi réttindi, sem í mínum huga eru ekki kjaraatriði, heldur mannréttindi: atkvæðisrétt í efnahagsmálum sambærilegan við þann atkvæðisrétt í félags- og stjórnmálum, sem íslenskir launþegar hafa haft blessunarlega um nokkurra áratuga skeið?