13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3427 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

145. mál, viðskiptabankar

Flm. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég hafði tilkynnt forseta fyrr í dag, að ég þyrfti að vera á fundi í næsta húsi, milli kl. 5 og 6, en ég sé að þannig hefur tekist til, að einmitt þessa stuttu stund, sem ég var í burtu úr salnum, þó að ég hafi verið viðstaddur í allan dag annars og setið gjarnan fastar en aðrir í sæti mínu, þá hefur verið staðið þannig að málum, að tekið er til umr. mál, sem ég hef flutt, og haldinn yfir mér fjarstöddum alveg sérstakur eldhúsdagur. Ég kom inn í lok þessa málflutnings hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Hann sagði, að hann hefði farið sérstaklega fram á það, að ég gæti verið viðstaddur á meðan hann flytti mál sitt, svo að það gerir málið enn þá alvarlegra, að mér skyldi ekki gert aðvart á þessum fáu mínútum sem ég þurfti að vera í burtu. Og svo er málflutningurinn á þessa lund á meðan ég er í burtu. Ég hefði gjarnan viljað hlýða á hv. þm. og ég tala nú ekki um að eiga kost á því að ræða við hann efnislega um þau atriði, sem hann þóttist gera aths. við í málflutningi mínum, ef þar hefur þá verið um einhver efnisleg atriði að ræða. Ég tel mig nú reyndar hafa talsverða ástæðu til að draga slíkt í efa í tilefni af því sem ég heyrði í lok ræðu hans.

Ég heyrði t. d., að hann lagði út af því, að það frv., sem ég flyt um skipan viðskiptabanka ríkisins, þrengdi alveg sérstaklega að bændum. Auðvitað reyndi hv. þm. ekki að færa nein rök fyrir þessu. Ég hafði hins vegar í máli mínu áður rætt allítarlega, hvernig væri statt með þann banka, sem ber nafn bændanna eða tengist starfsgrein þeirra, Búnaðarbankann, og hlut bændanna í sambandi við starfsemi hans. Fróðlegt hefði verið að heyra hvernig hv. þm. Stefán Valgeirsson reyndi að hnekkja því, sem ég sagði þá um starfsemi bankans og viðhorf hans til bænda, þar sem ég m. a. benti á, að ljóst lægi fyrir að Búnaðarbankinn væri ekki meiri banki bændanna en svo, að um langan tíma hefði það verið þannig og væri enn í dag, að einn af þremur viðskiptabönkum ríkisins, Landsbankinn, lánar bændastéttinni meira fé en Búnaðarbankinn hefur gert og gerir. Og þar skiptir einu máli hvort lítið er á almenn afurðalán til landbúnaðarins eða önnur viðaukalán, allan tímann hefur það verið þannig, að Landsbankinu hefur veitt bændastéttinni meiri heildarlán en Búnaðarbankinn.

Það kemur einnig í ljós, þegar lítið er á heildarútlán Búnaðarbankans, að milli 30 og 40% af heildarútlánum bankans eru tengd við landbúnað og bændur, en mikill meiri hluti af útlánum bankans fer til annarra. Þessar staðreyndir, sem ég hef áður nefnt í tölum og er auðvelt að koma með hvenær sem er, sýna að auðvitað er fjarstæða að halda því fram, að Búnaðarbankinn sé, eins og nú er komið, sérstakur banki bænda eða landbúnaðarins, enda er það svo, eins og ég henti einnig á í fyrri ræðu minni, að auðvelt er að taka heila landshluta sem dæmi, t. d. þann landshluta sem ég kem úr, Austurland. Þar er aðeins um eitt tiltölulega lítið útibú að ræða frá Búnaðarbankanum og heildarlán hans, hæði til bænda og annarra á því svæði, eru hverfandi borið saman víð lán annarra banka. Nei, hið rétta er, eins og ég sagði og forustumenn bankans hafa líka við önnur tækifæri viðurkennt, að Búnaðarbankinn er fyrir löngu orðinn almennur viðskiptabanki, sem lánar í ríkum mæli til allt annarra aðila en bænda. Þar hefur gjarnan borið sérstaklega á lánum til verslunar og ýmissa viðskiptaaðila, stórra verktaka og ýmissa þeirra sem framsóknarmönnum dettur í hug að kalla braskara við viss tækifæri. Og auðvelt er að sýna fram á það í tölum, hvernig þessu er háttað. Þannig er auðvitað víðs fjarri, að hægt sé að segja að þessi ríkisbanki sé sérstaklega banki bændanna frekar en t. d. Landsbankinn. Hann er, eins og ég sagði, almennur viðskiptabanki sem á sín viðskipti við bændur eins og Landsbankinn, en ekki er hægt að segja að hér sé eingöngu um banka bændanna að ræða.

En hv. þm. hélt því fram, að það frv., sem hér er til umr., beindist sérstaklega að því að þrengja kosti bænda. Að hvaða leyti skyldi það vera? Hvort skyldi hann finna í þessu frv., að eitthvað það kæmi fram, sem gæti táknað að dregið yrði úr viðskiptunum við bændur? Ég hafði hins vegar í máli mínu haldið því fram, að þvert á móti væru allar líkur til þess, að hægt yrði að styðja við bakið á landbúnaðinum eins og öðrum atvinnugreinum í ríkari mæli en áður hefur verið, einmitt með því að til kæmi stærri og öflugri banki. Búnaðarbankinn er eins og aðrir bankar, sem eru af takmarkaðri stærð, orðinn býsna bundinn af útlánum sínum og getur ekki hreyft sig nema takmarkað, enda ber hann því óspart við, þegar bændur þurfa á auknum fjármunum að halda, að hann geti ekki betur en hann hefur gert. Af því að hv. þm. Stefán Valgeirsson talar um, hverjir séu að þrengja kosti bænda, þá mætti kannske tala við hann svolítið um þau mál alveg sérstaklega og þátt hans í þeim efnum og flokks hans. Skyldi hv. þm. Stefán Valgeirsson eitthvað kannast við það, að fyrir 2–3 dögum hafi vextir á lánum landbúnaðarins verið stórkostlega hækkaðir? Skyldi hann kannast við, að stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins hafi hækkað grunnvexti á landbúnaðarlánum úr 10% upp í 13%, þar að auki hækkað verðtryggingu á almennum lánum bankans úr 25% upp í 33% og einnig tekið ákvörðun um að öll lán, sem bankinn hafði veitt til landbúnaðar á tímabilinu frá 1973 og fram til þessa árs, skyldu hækkuð samkv. heimildum í lánsbréfum, vextirnir skyldu þar einnig hækkaðir um 3%? Skyldi hv. þm. telja þessa aðgerð eitthvað í ætt við það að þrengja kosti bænda? Hver skyldi standa að þessu? Ætli þessi hv. þm. eigi ekki sinn skammt af því? Hins vegar er það, að þeir, sem standa að flutningi þessa frv. og styðja það með mér, höfðu þó kraft í sér til þess að greiða atkv. gegn þessari hækkun.

En þetta er auðvitað aðeins lítilræði í samanburði og sambandi við annað sem bændur hafa mátt þola að undanförnu frá þeim, sem nú fara með völd í landinu, og þar með af hálfu Framsfl. Ég veit að þeir framsóknarmenn hafa fundið svolítið til undan því sem ég og ýmsir fleiri höfum sagt um stefnu þeirra í landbúnaðarmálum að undanförnu. Og þeim hefur ekki liðið rétt vel þegar ég hef gefið mér tíma til þess að víkja nokkuð að því, hver stefna þeirra hafi verið í landbúnaðarmálum nú undanfarin ár og til hvers sú stefna hefur leitt. Við Alþb: menn höfum flutt till. á Alþ. um það að verða við óskum bændastéttarinnar um að bankakerfið lánaði bændum meira en gert hefur verið í rekstrarlán. Það hefur ekki heyrst mikið úr ræðustóli frá hv, þm. Stefáni Valgeirssyni í sambandi við þetta mál. Hann hefur sennilega látið sér nægja að vera á einhverjum bændafundum og samþykkja að þessi lán skyldu hækkuð. En þegar komið er á Alþ. hefur ekki borið mikið á áhuga hans á að hækka lánin.

Hv. þm. hefur auðvitað, eins og aðrir flokksbræður hans, haft áhuga á því að líka á bændafundum að samþykkja að nauðsynlegt væri að fella niður söluskattinn á kjöti og kjötvörum. En þegar hefur komið til þess að greiða atkv. um það mál á Alþ., þá fer orðið lítið fyrir hv. þm., þá hefur flokkur hans allur raðað sér upp og fellt þá sömu till. sem þeir höfðu verið að samþykkja á bændafundum. Það er auðvitað von, að þeir, sem standa sig þannig, geti talað um að aðrir, — með því m. a. að leggja til nokkra breytingu á skipun bankamála — séu að þrengja kosti bænda.

Nei, þessi atriði eru auðvitað gersamlega út í hött hjá hv. þm. Þetta er svipað og það sem mér var sagt að hefði komið fram í ræðu hans á meðan ég var fjarstaddur, að ég hefði lagt til á bændafundum, sem ég hefði mætt á, að útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir yrðu hækkaðar um 2 milljarða kr. Auðvitað er þessi frásögn hv. þm. eintómt slúður. Þetta hef ég aldrei sagt og aldrei lagt til. Hins vegar get ég sagt honum, að í umr. um þetta mál hef ég sagt — og segi það enn — að ef málin standa þannig, að bændur landsins skortir á sem nemur 2 milljörðum kr., eins og forustumenn í landbúnaði hafa haldið fram í sambandi við útflutning á landbúnaðarafurðum, til þess að þeir gætu haldið sínum hlut, þá segi ég: þá ber að leita að ráðum til þess að hlutur þeirra versni ekki frá því sem hafði verið gert ráð fyrir. Ég er tilbúinn fyrir mitt leyti að leita að ráðum til þess að hagur bænda þurfi ekki að versna. Ég hef gert minn hlut í þeim efnum m. a. með því að styðja till. um að fella niður söluskatt á kjöti og kjötvörum eins og hændur hafa farið fram á. Það gæti komið þeim til góða ef þannig yrði haldið á málinu. Líka eru til fleiri leiðir.

Ég hef hins vegar haldið því fram, að óþarfi væri að halda þannig á stjórn landbúnaðarmála að gera þyrfti ráð fyrir 2 milljarða kr. hærri fjárhæð í útflutningsuppbætur. Sú endemisstefna, sem Framsfl. ber fyrst og fremst ábyrgð á í sambandi við stjórn landbúnaðarmála, getur auðvitað leitt til þess, að ef bændur eigi að halda sínum hlut, þá þurfi að hækka útflutningsuppbætur um 2 milljarða á ári í nokkur ár. En ég hef sagt það og segi, að það er alveg óþarfi að halda þannig á stefnunni. Ef hv. þm. Stefán Valgeirsson og aðrir með honum úr liði Framsóknar standa í því af öllu sínu kappi dag eftir dag að hækka vextina á landbúnaðarlánum og íþyngja bændum á annan hátt, kemur auðvitað að því, að auka verður við útflutningsuppbæturnar, nema þá að kjör bændanna eigi að fara niður á við, Á þetta hef ég bent og á þetta á ég eftir að benda enn þá betur og enn þá fleiri bændum. Það er spurning, hvort ég legg það ekki á mig að fara norður í kjördæmi hv. þm. til að ræða um þetta mál og gef honum kannske kost á því að koma þar á fund með mér. (Gripið fram í: Vertu velkominn.)

En ég tók líka eftir því, eða mér skildist að hv. þm. hefði sagt að ég hefði aftur á móti í till. frá verðbólgunefnd lagt til að lækka útflutningsbætur á landbúnaðarafurðum um 1 milljarð. Auðvitað fer hv. þm, í þessum efnum einnig með rangt mál. Í till. þeim, sem ég stóð að, var alveg skýrt tekið fram, að þar átti ekki að breyta á neinn hátt gildandi lögum og reglum um 10% regluna svonefndu. Hins vegar var gert ráð fyrir því, að með því að stórauka niðurgreiðslur á innlendum markaði, með því að auka niðurgreiðslurnar upp í 3.2 milljarða, þá mætti áætla að minna yrði flutt út af kjöti en ella. Það er alveg ótrúlegt trúleysi, sem kemur fram hjá þessum hv. þm., ef hann vill halda því fram, að með því að lækka verð á landbúnaðarafurðum hér innanlands verulega með stórauknum niðurgreiðslum megi ekki gera ráð fyrir því, að inniendi markaðurinn taki eitthvað meira til sín. En ef innlendi markaðurinn tekur meira til sín, þá þarf vitanlega að flytja minna út. Hér var því alveg skýrt fram tekið, að um var að ræða áætlun, óhætt væri að áætla minni útflutningsuppbætur án þess að taka á nokkurn hátt af bændum þann lagalega rétt sem þeir höfðu varðandi 10% regluna.

Hv. þm. skýtur því alveg yfir mark þegar hann heldur því fram, að ég hafi lagt til að skerða útflutningsuppbótarétt bænda um 1 milljarð. Það er auðvitað alveg rangt, ekki um eina krónu, ekki um neitt heldur aðeins að setja þarna upp líkindareikning um það, hvað væri líklegt að yrði um útflutning ef yrði horfið að því ráði, eins og okkar till. stefndu að, að stórauka niðurgreiðslurnar á innlendum markaði. Þarna er því um mjög ómerkilegan útúrsnúning að ræða hjá hv. þm., sem auðvitað stenst ekki þegar málið er krufið.

En þetta er svipað og gerðist áður hjá þessum hv. þm. einmitt varðandi till. okkar sem urðum í minni hl. í verðbólgunefnd, þegar við lögðum til að lagt yrði á sérstakt gjald til tekjuöflunar, m. a. til þess að standa undir þessum auknu niðurgreiðslum og til þess að fella niður tiltekinn gjaldstofn hjá ríkinu, — þegar við lögðum til, að lagt yrði á sérstakt gjald í meginatriðum á grundvelli þess sem aðstöðugjald er lagt á nú.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson flutti alllanga ræðu um þetta atriði og reiknaði út hina herfilegustu vitleysu. Ég fékk tækifæri til þess að koma upp síðar og leiðrétta allar þær fjarstæður sem þá komu fram hjá hv. þm., þar sem hann vildi halda því fram, að þessar till. okkar þýddu stóraukin útgjöld á meðalbú í landinu. Þá fletti þessu öllu í sundur hjá hv. þm., en hann kaus auðvitað að hafa þann hátt á að láta ekki sjá sig í þingsalnum og vera þar hvergi nærstaddur. Ég tel því næstum að segja óþarfa að fara að endurtaka það sem ég sagði þá, en vísa hv. þm. á þingræðu mína um þetta efni. Ég hef sem sagt rakið þetta áður og sýnt fram á að þessar till. okkar stefndu að hagsbótum fyrir meðalbúið, en ekki að aukinni skattlagningu eins og hv. þm. hélt. Hann hafði þar auðvitað reiknað rangt eins og fyrri daginn og haldið fram staðlausum stöfum.

En ég vil nú víkja nokkru nánar að því frv., sem hér er raunverulega til umr., vegna þess að það, sem ég hef verið að ræða um, er fyrst að svara fullyrðingum hv. þm. Stefáns Valgeirssonar varðandi skoðanir mínar, sem hann reyndi að tengja við þetta frv., en eiga auðvitað ekkert skylt við efni frv. út af fyrir sig. Hann vildi reyna að leggja út af því, að með þessu frv. sýndi ég sérstakan fjandskap í garð bænda. Það frv., sem hér er um að ræða, miðar að því að fækka viðskiptabönkum ríkisins úr þremur í tvo og gera einn myndarlegan banka úr Búnaðarbankanum og Útvegsbankanum með aukafjárframlagi, sem gæti stutt þennan nýja banka verulega frá því sem fjárhagur þessara beggja banka leyfir nú í bili. Ég benti á það og bendi á það enn, að ef þessi skipan yrði gerð á bankamálunum væri hægt að spara verulega fjármuni, en þó koma bankamálastarfsemi í landinu þannig fyrir, að allt benti til þess að hún styddi betur við atvinnulífið, jafnt landbúnað sem annað atvinnulíf í landinu.

Ég hafði bent á að þannig er nú komið, t. d. varðandi rekstur landbúnaðar, að hann er í slíkum tengslum við annan atvinnurekstur í landinu og annað framkvæmdalíf í landinu, að landbúnaðurinn verður ekki skilinn þarna einhliða frá. Ég hafði t. d. bent á í framsöguræðu minni til skýringar máli mínu, að ef tekið væri sem dæmi framleiðslusvæði eins og Vopnafjörður, sem ég taldi mjög skýrt dæmi um þetta efni, væri sá landbúnaður, sem þar í sveit væri rekinn, í svo nánum tengslum við útgerð í Vopnafjarðarhreppi og annan atvinnurekstur þar um slóðir að þarna stæði þetta í rauninni allt saman, engin leið væri að ætla að sinna vel einum þætti atvinnulífsins í þessu héraði án þess að taka ákveðið tillit til annarra þátta atvinnulífsins á sama stað. Þetta hefur að mínum dómi komið mjög greinilega fram hjá því fólki sem byggir þetta svæði. Þar er um að ræða t. d. landbúnaðarhrepp mikinn, Vopnafjarðarhrepp, en þar hafa menn verið sammála um að það væri landbúnaðinum í þessum hreppi nauðsynlegt, að rekin væri við sjávarsíðuna í hreppnum myndarleg útgerð og fiskvinnsla, og hreppurinn, jafnt bændurnir í hreppsnefndinni sem aðrir hafa staðið að því að koma upp slíkum fyrirtækjum og lagt sig fram um að fjármagna þau einnig til stuðnings landbúnaðarframleiðslunni á þessu svæði. Hins vegar er þessum málum þannig háttað á þessu tiltekna svæði, að vegna þeirrar starfsgreinabankapólitíkur, sem hér hefur gilt, deildist þetta litla svæði upp á milli margra banka til mikilla óþæginda. Ég er ekki í neinum vafa um að hægt væri að þjóna þessu svæði miklu betur af einum sameinuðum banka, öflugum banka sem teldi það skyldu sína að þjóna jafnt landbúnaði á þessu svæði sem sjávarútvegi, iðnaði og öðrum rekstri.

Ég nefndi einnig sem dæmi um þetta atriði það sem gerst hefur t. d. í Austur-Skaftafellssýslu. Það fer ekkert á milli mála, að bændurnir og forustumenn bænda í þeirri sveit hafa þegar talað í þessu máli. Þeir lögðu alveg hiklaust til að fá á sitt svæði banka sem gæti þjónað atvinnulífinu í Austur-Skaftafellssýslu alhliða. Þeir voru ekki á þeirri skoðun, að þeim hentaði best að hafa þrjá eða fjóra banka á Höfn í Hornafirði: einu til þess að þjóna sjávarútvegi, annan til þess að þjóna landbúnaði og hinn þriðja til þess að þjóna iðnaði eða verslun. Á þetta hef ég bent. Þarna er um það að ræða, að menn átti sig á því, hvernig atvinnulífið á Íslandi er orðið í dag. En ég þykist sjá á öllum málflutningi hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, að hann hefur ekki enn áttað sig á þessu. Hann heldur enn þá að hagstæðast sé fyrir landbúnaðinn að skera sig út úr og vera aðallega bundinn sérstökum banka og slitinn þá frá bankastarfsemi á sínu athafnasvæði, eins og nú á sér stað í ríkum mæli. Það er að því gagnstæða sem frv. mitt miðar.

En svo fullyrðir hv. þm., eins og kom fram hjá honum í ræðulok, sem ég hlýddi á, að hann hafi nú sýnt fram á að kanna þyrfti þessi mál öll miklu betur en gert hefur verið, og fullyrti reyndar að þessi mál hefðu verið lítið könnuð. Þó að fyrir alþm. liggi ítarlegar skýrslur nefndar, sem hefur unnið mikið verk í þessum málum og orðið sammála um meginatriðin í stefnunni, kemur hv. þm. Stefán Valgeirsson og heldur því fram, að þessi mál hafi verið lítið könnuð. Svona málflutning geta þeir auðvitað haft uppi sem í rauninni vilja engu breyta, vilja hafa ástandið eins og það er. Þeir geta auðvitað alltaf haldið því fram, að athuga þurfi málið betur: Við skulum biða enn, við skulum skipa enn nýja nefnd til að fara ofan í störf hinnar fyrri.

Ég álít að búið sé að vinna þau rannsóknarstörf í sambandi við bankamálin, að óþarfi sé að draga að taka ákvarðanir um viss meginatriði. Og þessi meginatriði voru þau og eru þau að mínu viti, að fækka eigi viðskiptabönkum frá því sem nú er, eins og kemur fram í áliti bankamálanefndar, fækka viðskiptabönkunum úr þremur í tvo og fækka einkabönkunum, hlutafélagsbönkunum, einnig niður í tvo. Það manaði verulega um að stíga það skerf eins og þessum málum er nú fyrir komið.

Einnig þarf auðvitað á eftir að fylgja, að tekið verði til við að skipuleggja sparisjóðakerfið á ný, því það er ekkert um að villast, að það kerfi allt er afar sundurlaust og of óvirkt eins og það er og veitir engan veginn það öryggi í peningamálum sem það þyrfti að gera. Auk þess þyrfti svo einnig, eins og kemur fram í áliti bankamálanefndar, að taka fyrir stofnlánakerfið og gera á því allverulegar breytingar og einfalda það. Ég er ekki talsmaður þess að leggja niður marga stofnlánasjóði, en tel þó að það megi og það sé rétt að sameina nokkra þeirra sem vinna mjög í sömu grein, þar sem þeir vinna núna margir í sömu grein.

Ég hafði sagt það í ræðu minni — sem ég heyrði ekki annað betur en hv. þm. Stefán Valgeirsson flytti ranglega eftir mér — að ég teldi eðlilegt að Stofnlánadeild landbúnaðarins yrði alveg sjálfstæð deild, sjálfstæð stofnlánadeild á hliðstæðan hátt og Fiskveiðasjóður er sjálfstæð stofnlánadeild hjá sjávarútveginum. Ég hef aldrei verið að deila um það, hvort kalla eigi Stofnlánadeild landbúnaðarins hluta af Búnaðarbankanum eða ekki hluta. Hitt er skoðun mín, að stofnlánasjóðina eigi að skilja frá rekstrarlánabönkunum svo sem frekast er unnt. Það er óeðlileg skipan að hengja svona stofnlánadeild, eins og t. d. Stofnlánadeild landbúnaðarins, aftan í einn af viðskiptabönkunum sérstaklega. Menn voru á það sáttir á sínum tíma að skilja t. d. á þennan hátt á milli Útvegsbankans og Fiskveiðasjóðs og gera hann að sjálfstæðum stofnlánasjóði sem viðskiptabankarnir hefðu í rauninni sem jafnasta aðstöðu gagnvart. Ég er á sömu skoðun gagnvart Stofnlánadeild landbúnaðarins. Ég teldi eðlilegast að hún starfaði sem sjálfstæð stofnun, hvort sem hún er í þeim tengslum við hinn sameinaða banka, sem ég geri ráð fyrir, að hann hafi með að gera fjárreiður stofnunarinnar eða ekki. Slíkt væri ekkert höfuðatriði í mínum huga. En ég tel að miklu eðlilegra sé að stofnlánin séu í þessum efnum skilin frá, en ekki blandað á einn eða neinn hátt saman við hin almennu rekstrarlán eða hin almennu viðskiptalán.

Það er þetta, sem ég sagði og vil segja varðandi Stofnlánadeildina, að ég tek ekki þátt í neinni deilu um hvort skýra beri hana lagalega sem hluta af Búnaðarbankanum eða ekki, heldur fyrst og fremst um hitt, að ég tel að eðlilegt væri að hafa þessa skipan á.

Það kom upp á sínum tíma í sambandi við Fiskveiðasjóð, að t. d. Landsbankinn, sem hafði talsvert mikil viðskipti við sjávarútveginn, fann mjög að því, að Fiskveiðasjóður væri í beinum skipulagslegum tengslum við Útvegsbankann.

Hann taldi að í sumum tilfellum væri tekin afstaða til stofnlánaveitinga til sjávarútvegs með nokkurri hliðsjón af hagsmunum viðskiptabankans sem sjóðurinn var tengdur. Landsbankamenn héldu því þá mjög fram, að sá banki færi nokkuð halloka, eða þau fyrirtæki sem hann hafði aðallega viðskipti við í sjávarútvegi, varðandi afgreiðslu stofnlána frá Fiskveiðasjóði. Mér þætti ekki óeðlilegt að slíkt gæti komið upp í sambandi við Stofnlánadeild landbúnaðarins, enda hefur maður heyrt á það minnst, að svipað kæmi upp þar, — að ef hinn sameinaði banki hefði bein skipulagstengsl við Stofnlánadeild landbúnaðarins, þá kynni hinn ríkisviðskiptabankinn, Landsbankinn, að telja að hans hlutur yrði ekki jafn og sameinaða bankans. Af því er ég á þeirri skoðun, að eðlilegt sé að skilja þarna á milli, því þarna er um tvenns konar peningamálaþætti að ræða, annars vegar stofnlán og hins vegar rekstrar- eða viðskiptalán.

Ég hafði í framsöguræðu minni fyrir þessu frv. nokkuð bent á að spara mætti allverulega með sameiningu þessara banka, hafði m. a. haft orð á því, að t. d. væri auðvelt að komast hjá því núna í byrjun, að Seðlabankinn þyrfti að fara í það að byggja yfir sig nýja höll, eins og rætt hefur verið um, ef framkvæmd yrði sameining Útvegsbankans og Búnaðarbankans á Reykjavíkursvæðinu, vegna þess að þá gæti aðalbankahús Útvegsbankans losnað. Ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti, að þetta er hægt. Þessir bankar hafa nægilegt húsrými. En hv. þm. Stefán Valgeirsson hristir höfuðið, því hann vill láta þá hafa enn þá meira húsrými en þeir hafa og virðist því ekki vera á neinum sparnaðarbuxum í þeim efnum. (Gripið fram í.) Já, það er raunsæi, að bankarnir þurfi að sætta sig við hóflegt húsnæði ekki síður en aðrir. Ég efast ekkert um að þessir tveir bankar eiga á Reykjavíkursvæðinu slíkar húseignir sem þeir nota nú fyrir bankastarfsemi sína, að tiltölulega auðvelt væri að koma þessu fyrir á þann hátt að hægt væri að spara nú í fyrstunni húsnæði sem væri þá alveg fullnægjandi handa Seðlabankanum. Um talsverðan sparnað gæti verið að ræða á þessu sviði, sem þó kæmi aðallega fram í því við sameiningu bankanna, að fljótlega væri hægt að komast af með færra starfsfólk en nú er og þó einkum og sérstaklega væri hægt að koma í veg fyrir þá fjölgun sem virðist vera þarna á ferðinni og hefur verið þarna á ferðinni.

Það skiptir auðvitað mestu máli að taka fyrir starfsmannafjölgunina í bankakerfinu, sem auðvitað leiðir af því, að þessir bankar eru í harðri samkeppni innbyrðis. En þessar sparnaðarröksemdir hafa þó aldrei verið höfuðröksemdir mínar í þessu máli, ég hef ekki lagt á þær áherslu, en tekið skýrt fram að þær væru þó höfuðatriði. Hitt skiptir að mínum dómi langsamlega mestu máli, að með þessum hætti væri hægt að tryggja miklu sterkari og betri bankaviðskipti fyrir atvinnulífið í landinu. Það er það þýðingarmesta. Það, sem kemur þar næst á eftir, er að með þessu er hægt að koma í veg fyrir áframhaldandi ofvöxt í bankakerfinu.

Ég tók eftir því í umr. um þetta mál, að hv. 4. þm. Reykn., Jón Skaftason, taldi að þær upplýsingar, sem ég hefði gefið um starfsmannafjölda í bankakerfinu, væru ekki fullkomlega í samræmi við þær upplýsingar sem hann hefði fengið varðandi þessi mál. Hann óskaði í rauninni eftir því, að ég gæti gefið frekari skýringar á þessu. Og það skal ég gera. Þær tölur, sem ég nefndi í þessum efnum, liggja fyrir í opinberum upplýsingum varðandi þessi atriði. Í bankamálaskýrslunni segir að árið 1971 hafi starfsmenn í bankakerfinu verið taldir um 1600 ársmenn, en skýrt kemur fram, að þar er um að ræða bankakerfið allt, ekki aðeins viðskiptabanka og seðlabanka, heldur einnig sparisjóðskerfi landsins og stofnlánasjóði sem starfa sem hreinar peningastofnanir. Er þá talið í skýrslu bankamálanefndar, að sem ársmenn hafi á árinu 1971 verið starfandi í bankakerfinu um 1600 manna, heils árs menn. Síðan hefur komið út skýrsla, sem tekin hefur verið saman á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins, um starfsmannahald í hinum ýmsu starfsgreinum. Í þeirri skýrslu er þessi tala bankamálanefndar staðfest. Þó að þar séu nefndir aðeins fleiri menn en bankamálaskýrslan tilnefnir, þá skiptir það ekki máli. Talan er staðfest í þessari skýrslu, að árið 1971 hafi verið rétt rúmlega 1600 heils árs menn í þessum störfum. Í þessari sömu skýrslu kemur fram, að árið 1975 hafi verið í þessum sömu störfum rétt rúmlega 2200 ársmenn. Ég nefndi í ræðu minni 2200, en eins og ég gat um eru þetta nýjustu tölurnar, sem liggja fyrir taldar á þessum grundvelli, en miðað við þær upplýsingar, sem fram hafa komið um áframhaldandi starfsmannafjölgun í bankakerfinu sem heild, þá sagði ég að samkv. þessu væri ekki ótrúlegt að þessi starfsmannafjöldi væri nú á árinu 1978 orðinn 2700–2800 manns, en var 2200 árið 1975. Ég gat að sjálfsögðu ekki fullyrt um það, hvað þessi mannfjöldi væri mikill, en ég ætla að allir sjái, sem á þessar tölur líta, að hér virðist vera um eðlilega ágiskun að ræða á breytingu sem orðið hefur síðan 1975. Mér þótti hins vegar einsýnt að þær tölur, sem hv. 4. þm. Reykn., Jón Skaftason, var með, væru á allt öðrum grundvelli upp byggðar. Þar er líklega um að ræða, eftir því sem ég get helst getið mér til um, starfsmenn annaðhvort í viðskiptabönkunum einum eða þá bankakerfinu eins og um það er rætt í þrengstu merkingu, en hins vegar ekki í sparisjóðum og stofnlánadeildum, eins og hinn útreikningurinn er miðaður við.

Sá vöxtur á mannafla í bankakerfinu, sem þarna er um að ræða, er auðvitað geysilega mikill og hefur verið alveg óumdeildur. Ég segi að mikil þörf er á því að gera þá skipulagsbreytingu í bankamálum okkar, sem gæti komið í veg fyrir áframhaldandi vöxt á mannafla í þessum starfsgreinum. Ég held að það sé mikil skammsýni þeirra, sem vilja búa við óbreytt fyrirkomulag í þessum efnum, að ætla að neita þeim staðreyndum að í bankakerfinu hefur verið um gífurlega aukningu á mannafla að ræða á undanförnum árum, og það kostar þjóðarheildinu mikið, að eyða vinnuafli sínu á þennan hátt, ef þarna er hægt að komast af með minna.

Ég benti líka í þessu sambandi á að í bankamálaskýrslunni kæmi fram samanburður á kostnaði við rekstur banka í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi. Þegar bankamálanefndin gerði þennan samanburð á árinu 1973, þá var talið að kostnaður við rekstur banka hér á landi væri 38–56% hærri en í þessum löndum. Þetta kemur allt fram í álíti bankamálanefndar. Auðvitað ættu þessar tölur að vera nægilegar til þess, að hv. alþm. skildu þá miklu og knýjandi nauðsyn, að numið verði staðar og dregið úr þessum ofvexti.

Kannske mætti spyrja um það einnig, hvort verið gæti að það væri til þess að þrengja kosti landbúnaðarins og bændastéttarinnar að koma í veg fyrir þennan ofvöxt. Skyldi það einnig vera til bölvunar íslenskum landbúnaði að koma í veg fyrir að þarna hópist saman starfslið jafnt og þétt umfram þarfir? Ég held að það sé íslenskri bændastétt til góða að koma í veg fyrir þennan ofvöxt, ekki síður en að það sé til góða fyrir aðrar vinnustéttir. Einnig er að þessu leyti til um að ræða frv., sem miðar ekki aðeins til umbóta fyrir bændastéttina, heldur fyrir landsmenn alla, þar sem svo stendur á að við þurfum á fleiri höndum að halda við bein undirstöðuframleiðslustörf í landinu, en við þurfum frekar að draga úr mannafla í greinum þar sem ekki er um undirstöðuframleiðslu að ræða. Þar sem þjónustuverk þarf að vinna þurfum við að reyna að gæta vel að því að haga vinnuafli okkar á réttan hátt.

Ég veitti því athygli, að hv. 4. þm. Reykn., Jón Skaftason, virtist í meginatriðum að öðru leyti vera sammála stefnu þessa frv. míns um skipan bankamála. Hann vildi hyggja á niðurstöðum þeim, sem fram koma hjá bankamálanefndinni, og hann taldi orðið mjög aðkallandi að unnið yrði að því að fækka viðskiptabönkum í þá átt sem þessi nefnd leggur til. Þessi hv. þm. Framsfl. virðist því vera á allt annarri skoðun en hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem vill halda í það gamla, úrelta skipulag, sem nú ríkir í þessum málum, svo dýrt og kostnaðarsamt sem það er fyrir þjóðarheildina.

Samanburður sá, sem kom fram hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, á mannfjölda sem nú væri starfandi í Landsbankanum annars vegar og í Búnaðarbankanum og Útvegsbankanum hins vegar, er algjörlega út í hött. Ég benti á þetta strax í framsöguræðu minni því ég þekkti fyrir fram þessar yfirborðskenndu röksemdir. Auðvitað byggist þetta, að Landsbankinn er þarna með tiltölulega fleira starfslið, á því að þar er um að ræða allt önnur störf og miklu meiri störf. Auðvitað vitum við að t. d. gjaldeyrisþjónusta Landsbankans kallar til sín geysilega fjölmennt starfslið, sem ekki er til að dreifa í Búnaðarbankanum sem ekki hefur haft þessa þjónustu með höndum. Hægt er að nefna þarna miklu fleiri greinar, svo að ekki er um sambærilega hluti að ræða hér, enda er það svo, að ef um umframlið væri að ræða í Landsbankanum, í stærri bankanum, þá ætti vitanlega að taka á því verkefni út af fyrir sig. En það sjá allir menn, að hægt er að spara eitthvað á því, við skulum segja t. d. í byggðarlagi eins og á Akureyri, að hafa þar aðeins eitt útibú á vegum Búnaðar- og Útvegsbanka í staðinn fyrir að hafa þar tvö útibú eins og nú er. Það vita allir, að rekstur á tveimur útibúum frá bönkum af þeirri gerð, sem Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn eru, á stað eins og Akureyri er eyðsla, er óhagkvæm. Og kapphlaup þessara tveggja ríkisbanka um rétt til þess að koma upp útibúum, þar sem bankarnir eru að keppa um sömu krónurnar, er auðvitað bein eyðsla sem ber að reyna að koma í veg fyrir.

En að því leyti til sem t. d. bændur og forsvarsmenn bænda kynnu að vera hræddir um að þeir fengju lakari þjónustu hjá hinum sameinaða banka en þeir fá nú hjá bankakerfinu eins og það er í dag, þá eru allt aðrar leiðir til þess að tryggja að viðskiptahagsmunir þeirra verði ekki fyrir borð bornir en að búa við skipulagið eins og það er í dag. Það er auðvitað alveg fráleitt að skipulagið tryggi mönnum nokkuð í þessum efnum.

Ég vil einnig segja það, vegna þess að nú hefur verið allmikið rætt um fjárhagsvandamál Útvegsbankans, að það er algjör misskilningur að sá fjárhagsvandi, sem þar hefur verið rætt um, eigi eitthvað skylt við það, að staða bankans eignalega séð sé slæm. Sannleikurinn er sá, að eignalega séð er staða Útvegsbankans betri en Búnaðarbankans enn í dag. Hitt er aftur annað mál, að útlán þess banka hafa verið með þeim hætti, — án þess að ég sé að gera grein fyrir þeim að öðru leyti, því ég hef ekki aðstöðu til þess, — útlánin hafa verið með þeim hætti nú um tíma, vegna þess hvernig starfssvæði bankanna skiptast, að hann hefur lánað meira út en hann hefur getað ráðið við með góðu móti miðað við það starfsfé sem hann hefur úr að spila.

Sumir hafa talað um að ekki væri ástæða til þess að sameina þessa tvo ríkisbanka, Búnaðarbankann og Útvegsbankann, á þann hátt sem lagt er til í frv. mínu og á þann hátt sem bankamálanefndin lagði til á sínum tíma, heldur væri eðlilegra að leggja Útvegsbankann niður eða skipta honum upp á milli hinna tveggja bankanna. Ég vék nokkuð að þessu í hinni upphaflegu framsöguræðu minni um málið. Auðvitað er hægt að hugsa sér þessa leið. Skyldi það þá ekki líka verða til þess að þrengja kosti bænda í landinu ef t. d. Búnaðarbankinn tæki við verulegum hluta af rekstri Útvegsbankans? Aðalatriðið í mínum huga er að fækka þessum bönkum og koma á fót við hliðina á Landsbankanum álíka öflugum banka, alhliða viðskiptabanka. Þá yrði miklu auðveldara að skipta landinu á milli þessara tveggja höfuðbanka, þannig að atvinnureksturinn sem heild ætti tilkall til þess að geta fengið eðlilega bankaþjónustu. Ég hef hins vegar sagt það sem mína skoðun, að ég tel þann hátt miklu eðlilegri, miðað við allar aðstæður í dag, að gengið sé á eðlilegan hátt til þess að sameina þessa tvo banka heldur en að annar yrði lagður niður og hinir bankarnir svo látnir á þann hátt taka við eignum hans og skuldbindingum og þeim verkefnum sem hann hefur haft með að gera. En sé engin önnur leið verður að fara þá leið frekar en að una ástandinu, sem ég álít að sé í rauninni óalandi eins og það er nú.

Einnig hefur komið fram sú hugmynd að búa áfram um langan tíma við það skipulag í bankamálunum, sem við búum í dag, en að eigandi þessara banka, þ. e. a. s. ríkið, legði þá Útvegsbankanum í þessu tilfelli fram stóraukið stofnfé. Auðvitað getur ríkið lagt þessum banka til stóraukið stofnfé með ýmsum hætti og þá ekki síst með beinni lántöku. Auðvitað er þetta hægt. Ríkið getur farið þessa leið og gert Útvegsbankann miklu öflugri fjárhagslega en hann er í dag. Ég álít að sú leið væri röng, af því að hún heldur áfram við því kostnaðarsama skipulagi sem við búum við í dag, þ. e. a. s. að viðskiptabankarnir, sem starfa orðið í meginatriðum á svipuðu sviði, séu þrír þegar engin þörf er á að hafa þá nema tvo.

Ég veitti því líka athygli, að formaður þingflokks framsóknarmanna, hv. 4. þm. Reykv. Þórarinn Þórarinsson, varpaði fram þeirri hugmynd, að e. t. v. væri nóg að hafa einn ríkisviðskiptabanka og rétt væri að steypa öllum þessum bönkum saman í einn. Vissulega er þetta möguleiki, og ýmsum hefur komið þetta til hugar fleirum en honum og þá gjarnan látið það fylgja með, að síðan yrðu hlutafélagabankarnir eða prívatbankarnir allir sameinaðir líka í annan viðskiptabanka, annan viðskiptabanka, annan stóran hlutafélagsbanka — alhliða banka sem starfaði þá í samkeppni við hinn stóra og öfluga ríkisviðskiptabanka.

Ég er á þeirri skoðun, að miklu erfiðara sé að koma þessari skipan á miðað við núverandi aðstæður en að fara þá leið sem ég geri ráð fyrir á mínu frv., og ég efast líka stórlega um að þetta væri hagkvæm leið fyrir okkur eins og þessum málum er háttað í dag. Ég geri fyrir mitt leyti lítið úr hlutverki hlutafélagsbankanna, einkabankanna. Það er skoðun mín, að þeir hefðu betur aldrei orðið til og það er skoðun mín, að ekki sé nein ástæða til þess að gera hlut þeirra meiri en nú er. Það mun ekki auðvelda stjórn peningamála og efnahagsmála í þessu landi að gera hlut þeirra enn þá þýðingarmeiri í efnahagskerfinu en nú er. Sumir þeirra starfa í dag nánast eins og stórir sparisjóðir. Ég hallast því að þeirri skoðun, að rétt sé að fækka þeim bönkum, sameina þá, sem þar eru skyldastir, á fyrsta stigi. Ég dreg mjög í efa að kringumstæður leyfi að þeir bankar séu lagðir niður úr því sem komið er, en hitt tel ég, að litlar líkur séu til þess, að tekið verði á málefnum hlutafélagsbankanna nema ríkið geri fyrst hreint fyrir sínum dyrum með því að skipa málum banka sinna á eðlilegan hátt.

Það gladdi mig líka að heyra að formaður þingflokks Framsfl., Þórarinn Þórarinsson, var einnig í öllum aðalatriðum sammála mér um að fækka ætti ríkisviðskiptabönkunum og vinna að sameiningu banka. Hann lagði hins vegar áherslu á það í máli sínu, að hann teldi rétt vera að taka þessi bankamál öll til nýrrar endurskoðunar og lagði þá sérstaka áherslu á að taka þyrfti einnig fyrir skipulag Seðlabankans. Það er rétt, að í till. bankamálanefndarinnar er gengið út frá því, að þar sem lögin um Seðlabankann séu nýjustu allra þessara laga sé ekki aðkallandi að breyta þeim. Því gerði bankamálanefndin engar till. um skipulagsbreytingar á Seðlabankanum. Ég tel að þetta atriði út af fyrir sig sé nokkuð sjálfstætt mál, hvort ástæða þykir til þess að huga nánar að skipulagi Seðlabankans og þætti hans í skipan bankamálanna. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að blanda þessu saman við það mál sem nú er mest aðkallandi í þessu, en það er að stíga þetta fyrsta skref sem snertir skipulag ríkisviðskiptabankanna. Ég álít að það sé alveg sérstakur þáttur út af fyrir sig sem beri að leysa fyrst, hvað svo sem gert verður frekar í þessum málum.

Mér þykir þá einnig ástæða til þess að vekja athygli á því, með sérstöku tilliti til þeirrar andstöðu sem komið hefur fram hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni gegn þessu frv., að fyrir lá skriflega, þegar tilraun var gerð í lok síðustu alþingiskosninga til þess að mynda nýja vinstri stjórn, að Framsfl. samþykkti þessa till. okkar um skipan bankamála. Hann féllst á þetta, sem var ein af till. okkar í sambandi við myndun nýrrar stjórnar. Formaður flokksins lýsti því yfir, og það liggur fyrir skriflega, að hann féllst á þetta sem stefnumarkandi mál, að vinna ætti að þessari sameiningu sem hér er um að ræða. Mér þykir því alveg einsýnt af því, sem ég hef sagt hér, að afstaða hv. þm. Jóns Skaftasonar, afstaða hv. þm. Þórarins Þórarinssonar og afstaða formanns flokksins fyrir hönd flokksins í sambandi við tilraun til myndunar ríkisstjórnar sýna að hv. þm. Stefán Valgeirsson er í andstöðu við flokk sinn í þessu. Hann túlkar skoðanir sínar og kemur með þá sleggjudóma, að þetta frv. þrengi kosti bænda. Hann vill því bera það á flokksmenn sína og flokk sinn, að þeir stefni að því að þrengja kosti bænda með því að styðja þær till. sem hér liggja fyrir. Auðvitað voru líka fullgildir framsóknarmenn í þeirri bankamálanefnd sem gerði till. sem þetta frv. er byggt á. Hv. þm. Stefán Valgeirsson er því í andstöðu við þá sem þar voru, ekki síður en þm. sem ég hef minnst á.

Ég vissi um það, að hv. þm. Stefán Valgeirsson var andstæður þessu frv. Ég hafði þó gert mér vonir um að hann mundi átta sig betur á þessum málum en mér skilst að hann hafi gert, að hann mundi sjá að hér er síður en svo verið að gera hlut landbúnaðarins verri en hann hefur verið. Það er hreinlega verið að vinna að því, að landbúnaðurinn, jafnt sem aðrar atvinnugreinar, fái betri bankaþjónustu, um leið og reynt er að spara í bankakerfinu sem heild.

Ég vil síðan leggja á ný áherslu á það, að sá beini sparnaður, sem fram kæmi nú á stundinni í sambandi við sameiningu þessara banka, er ekki höfuðatriðið. Hitt er miklu meira um vert, að spara á þann hátt að koma í veg fyrir þá útþenslu sem þarna hefur verið og ég held að við mættum allir viðurkenna.

Í umr. um þetta mál hafa fleiri tekið til máls, m. a. ræddi hv. þm. Friðjón Þórðarson allmikið um frv. og vék í ræðu sinni að ýmsu því sem ég hafði rætt um í framsöguræðu minni. Ég get ekki séð að aths., sem hann gerði við mál mitt, skipti neinu teljandi máli. Ég skildi mál hans þannig, að hann væri einn í hópi efasemdarmanna um það, að rétt væri að að vinna að sameiningu þessara banka á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir. En þó fannst mér ekki koma fram hjá honum nein þau andmæli gegn stefnu frv., sem í rauninni væri hægt að leggja mikið upp úr. Hann lagði í rauninni aðallega, að mínu mati, áherslu á að það bæri að fara með gát í sambandi við þá sameiningu bankanna, sem hér væri rætt um, og vitnaði til ákveðinna orða í nál. bankamálanefndar. Ég get verið honum sammála í þessum efnum. Ég tel að fara beri með gát. Ég álít líka að það hafi verið gert. Þessar till. voru vandlega unnar á árinu 1973, þær voru mjög ræddar í öllum þeim bönkum sem eiga hlut að máli. Ég mætti m. a. á fundi starfsmannafélaga bankanna og ræddi þar málið á löngum fundi. Auðvitað komu ýmiss konar athugasemdir frá hálfu bankafólksins í sambandi við það, hvað hér væri á ferðinni, eins og skiljanlegt er. Ég álít að bæði stjórnmálaflokkar og þeir, sem þarna eiga nánast samband við bankanna, hafi fengið að hugsa um þessa skipulagsbreytingu nægilega lengi, hér hafi ekki verið flanað að neinu. Það kann að vera að enn þurfi að draga þetta nauðsynjamál, að gera breytingu í bankakerfinu. Það kann vel að vera að svo fari, en ég er sannfærður um að það er engum til góðs að beðið verði í þessum efnum. Ég er sannfærður um að þarna er orðið um knýjandi mál að ræða.

Í þessum efnum hefur verið að því víkið að taka beri tillít til sjónarmiða starfsfólks bankanna, sem hér á hlut að máli, m. a. starfsfólks Búnaðarbankans sem láti koma fram að það sé andvigt sameiningu eins og hún hefur legið fyrir. Um þetta hef ég sagt það og vil ítreka enn, að þó að ég telji sjálfsagt að hlýða á mál starfsmanna bankanna og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram hjá starfsfólkinu varðandi starfssvið þeirra þá viðurkenni ég ekki það sjónarmið, að starfsfólkið í bönkunum eigi að ráða bankapólitíkinni. Ég viðurkenni ekki það sjónarmið, að Alþ. og þeir, sem eiga að ráða skipan bankamála í landinu, eigi að fara eftir því sem starfsfólkið í bönkunum ákveður í þessum efnum. Ég tel að það sé skylda þeirra, sem fara með yfirstjórn bankamálanna, bankamálaráðh. og ríkisstj. sem heildar og síðan Alþ., að taka afstöðu þegar þessir aðilar hafa hlýtt á mál manna og gert upp við sig eða mótað afstöðu sína til þeirra hugmynda sem fram hafa komið. Þeir eiga að kveða upp dóm sinn. Það er einmitt það, sem við reyndum að gera á sínum tíma í vinstri stjórninni. Í vinstri stjórninni var þetta stefnumál flokkanna, að taka ætti til endurskoðunar bankakerfið. Það var að þessu unnið í fullu samráði við ríkisstj. í heild, till. lágu fyrir og samþykkt var af vinstri stjórninni að leggja fram stjfrv. um þetta mál. Hins vegar skal tekið fram, að rétt þótti að það kæmi skýrt fram, að þeir flokkar, sem studdu stjórnina, hefðu ekki tekið endanlega afstöðu til málsins, þannig að þeir hefðu óbundnar hendur um ýmsar breytingar sem þarna gætu komið til greina. Það fór líka svo, að frv. kom svo seint fram að ekki vannst tími til þess að afgreiða málið í valdatíð hennar. Síðan eru líka liðin nærri fjögur ár og málið hefur legið fyrir allan þennan tíma. Það er síst minni þörf á því að stokka upp þessi mál nú en var á sínum tíma í vinstri stjórninni.

Það var sem sagt álit allra þeirra flokka sem stóðu að vinstri stjórninni, strax á árinn 1911 þegar stjórnin var mynduð, að nauðsynlegt væri orðið að taka fyrir skipulag bankakerfisins. Af þessum ástæðum tel ég að farið hafi verið eftir þeim ábendingum, sem komu fram í áliti bankamálanefndar, að fara bæri að öllu með gát í þessum efnum og hraða þessum málum ekki svo mikið að aðilar heltust þarna úr lestinni. Ég álít að það hafi verið gert, en hitt er svo aftur ljóst, að eftir standa alltaf nokkrir aðilar. Nú sýnist mér að hv. þm. Stefán Valgeirsson sé sérstakur fulltrúi þeirra sem eftir standa og sjá allt illt við þessa skipan og vilja halda dauðahaldi í þetta gamla úrelta fyrirkomulag sem við búum við í dag. Frá honum hafa ekki komið neinar till. um það, hvernig hann vill leysa þessi mál. Hann hreytir aðeins úr sér illyrðum í minn garð og reynir að halda því fram, að ég sé að gera þetta til að reyna að vinna bændum ógagn, algjörlega órökstutt, út í bláinn, en frá honum koma engar till. um það, hvernig hann vill leysa þetta mikla vandamál sem við stöndum frammi fyrir varðandi skipulag bankamála.

Fram hjá svona skerjum verður auðvitað ekki siglt. Auðvitað verður alltaf að reikna með því, að einn standi eftir og fylgist ekki með tímanum, átti sig ekki á þörfinni og verði á móti. Mér sýnist þetta ætla að verða hlutskipti hv. þm. Stefáns Valgeirssonar í þessum málum, og við því er þá ekkert að segja þó að svo fari.

Ég er sannfærður um það eftir þær umr. sem fram hafa farið um þetta mál, að sú skoðun, sem mótuð var af bankamálanefndinni á sínum tíma og það frv. er byggt á sem er til umr., sé rétt. Ég hef sannfærst um það enn betur en áður, að þetta er hagkvæmasta leiðin, sú leið sem okkur ber að fara. Einhverjir sleggjudómar um að þessar breytingar, sem hér er um að ræða, verði einhverri einni stétt til óþurftar, slíkir sleggjudómar falla dauðir og ómerkir. Þeir hafa líka verið settir þannig fram, að þeim hafa ekki fylgt nein þau rök sem ber að fylgja tillögugerð um jafnalvarlegt mál og hér er á ferðinni.