14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3468 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

247. mál, uppsögn fiskveiðiheimilda Færeyinga innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Á þskj. 466 flyt ég till. til þál. um uppsögn fiskveiðiheimilda Færeyinga innan fiskveiðilandhelgi Íslands. Tillgr. er þannig:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að segja upp nú þegar með umsömdum 6 mánaða fyrirvara heimildum Færeyinga til fiskveiða með línu- og togveiðarfærum innan fiskveiðilandhelgi Íslands, samkv. niðurstöðu viðræðna, sem undirrituð var hinn 20. mars 1976 og staðfest með samþykkt Alþ. hinn 18. maí 1976.“

Í grg. segir svo:

„Eins og alþjóð er kunnugt um var sett á með reglugerð þorskveiðibann dagana 21. mars til 28. mars miðað við hádegi báða daga. Þetta er algjört einsdæmi í fiskveiðilögsögu íslensku þjóðarinnar. Afstaða manna til þessa fyrsta algjöra þorskveiðibanns var þegar á heildina er litið mjög jákvæð og bannið vel virt. Þetta staðfestir það, er vel var vitað, að allir hugsandi menn gera sér fulla grein fyrir hversu alvarlegt ástand er með þorskstofninn við landið. Einnig er það öllum vel kunnugt, er um fiskveiðar hugsa og fjalla, að sóknargeta veiðiflota landsmanna er miklu meiri en svo, að núverandi þorskstofn þoli fulla og eðlilega sókn. Þegar svo er komið má öllum vera það ljóst, að ekki er lengur nein forsenda þess að veita öðrum þjóðum réttindi til þorskveiða hér við land. Þótt hér sé aðeins rætt um heimild, er Færeyingar njóta nú, mun hið sama gilda gagnvart öllum öðrum þjóðum hvað varðar veiðimöguleika á bolfiski innan fiskveiðilandhelgi Íslands. Við getum einfaldlega alls ekki veitt okkur þann munað að hafa opnar heimildir fyrir útlendinga til veiða á þorski hér við land um ófyrirsjáanlegan tíma. Takist hins vegar vel til með skipulegar friðunaraðgerðir og fáist fullvissa um örugga stofnstærð hrygningarfisks munum við í framtíðinni geta boðið frændum vorum Færeyingum veiðimöguleika innan fiskveiðilögsögunnar.

Óþarfi er að rekja með tölum öfugþróun á aflamagni þorsks hér við land. Það er alþjóð svo vel kunnugt um.“

Ástæðan til þess, að ég flyt þetta mál og tek það upp er sú, að í vetur, þegar rætt var um veiðiheimildir fyrir Færeyinga með loðnu, kom fram í máli mínu að ég taldi eðlilegt, að þetta mál yrði skoðað rækilega vegna breyttra forsendna og að eitthvað yrði gert í málinu. Hæstv. utanrrh. sagði þá, að ekkert lægi fyrir í því efni nema þá munnleg ósk mín. Síðan hefur ekkert gerst í málinu. Ég dokaði við og átti von á því, að eitthvað yrði athugað eða gert. En það skeði ekkert. Svo var sett á veiðibann. Öllum var ljóst, að það er auðvitað algjört neyðarúrræði. Færeyingar hafa nú heimild til að veiða af þroski um 7 þús. tonn. Alls mega þeir taka með þessum veiðarfærum, ef ég man rétt, um 17 þús. tonn.

Fullyrt er af kunnugum sjómönnum, að eftirlít með veiðunum og einkum afla sé í ólestri, alls ekki sé hægt að treysta því, að þeir taki ekki meiri afla hér við land með þessum veiðarfærum. Skipin eru mörg og víða dreifð og geta lagt þessi veiðarfæri í sjó víða. Það er raunar ómögulegt að vera öruggur með, að þeir freistist ekki til þess að taka meiri afla en þeir hafa heimild til. Ég hef heyrt sjómenn fullyrða að svo muni vera, en legg ekki neinn dóm á það sjálfur, hvort svo er eða ekki. Ég aðeins viðurkenni það, að eftirlitið er ekki í lagi og kannske ekki mögulegt að hafa það í lagi.

Áðan var rædd ágæt till. til þál. um Suðurnesjaáætlun. Einmitt í grg. með till. segir að sjávarútvegur hafi löngum verið höfuðatvinnuvegur á Suðurnesjum og sé það enn. Þar eru um 40% af mannafla bundin við sjávarútveginn. Hin síðustu missiri hefur útgerð og fiskvinnsla á Suðurnesjasvæðinu öllu átt við mikla og vaxandi rekstrarerfiðleika að stríða. Er nú svo komið, að margar fiskvinnslustöðvar þar eru ýmist alls ekki reknar eða reknar með hálfum afköstum, jafnvel á hávertíðinni. Þetta ástand er auðvitað mjög alvarlegt. Kom glögglega fram hjá báðum ræðumönnum, sem hér töluðu, flm. og 4. þm. Austurl., að alger forsenda fyrir enduruppbyggingu og skipulagningu atvinnulífs á þessu svæði væri að tryggja jafnt og gott hráefni. Þótt menn segi að 7 þús. tonn af þorski og 10 þús. tonn af öðrum bolfiski séu kannske ekki mikill afli, þá mundi það samt vega mikið ef við gætum haft 17 þús. tonn til dreifingar á þessu svæði einu sér. Auðvitað mun afli ekki skiptast svo jafnt, þó að við gætum losnað við þann hluta er Færeyingar fá úr fiskveiðilögsögu okkar. En engu að síður er það þó áfangi að rétta við fiskstofna okkar í þeirri skipulögðu, góðu og árangursríku baráttu sem verið hefur undanfarin ár og öll þjóðin hefur verið einhuga um að takast á við.

Ég vil undirstrika, að þegar stofnstærð hrygningarfisks er orðin stór aftur og við höfum náð fullu valdi á því að láta þorskinn vaxa það mikið upp að nýju, þá er ekkert sjálfsagðara en að Færeyingar hafi möguleika til veiða hér aftur, ekkert sjálfsagðara. Þeir hafa reynst okkur vel í gegnum árin og hér var fjöldi manna, á annað þús. manns, oft, við fiskverkun og sjávarsókn um nokkurra ára skeið. Það skal síst standa á mér að viðurkenna, að þeir eiga alveg sérstaklega gott af okkur skilið. En ég tel það ofrausn að þora ekki að viðurkenna, að við höfum ekki efni á því að veita þeim þessa heimild núna um nokkurra ára bil.

Það vantar tilfinnanlega hráefni á Suðurnesin og raunar víðar og við verðum allir að þora að horfast í augu við þá staðreynd, að skipulagt og gott átak þarf til að tryggja það. Við erum hér nokkrir alþm., sem höfum jafnan talið skynsamlegt og réttlætanlegt að leggja flotvörpuna til hliðar og fara þess vegna með gát í aukna sókn, sem hefur verið fyrir hendi undanfarin ár, sérstaklega tvö ár, til þess að tryggja að þorskstofninn næði sér upp aftur. Nú er það staðreynd, að á þessari vertíð hefur engin páskahrota komið og enginn afli er finnanlegur, svo heitið geti, á stóru svæði. Það sagði mér skipstjóri í gær í samtali — hann hefur verið með veiðarfæri sín á Selvogsbanka og er Vestmanneyingur — að ekki væri nokkurs staðar að hafa bein úr sjó, eins og hann orðaði það, og hann tók upp net sín og fór austur í bugt. Margir fleiri Suðurnesjabátar hafa tekið ís um borð og haldið á þetta takmarkaða svæði, þar sem meginhluti vertíðarflotans er að berjast um þorskinn núna. Ástandið er svo alvarlegt, að jafnvel Selvogsbanki og miðin hér í Miðnessjó og vestur um gefa núna sama og engan afla miðað við mörg undanfarin ár. Þetta er mjög alvarlegt. Á sama tíma berast fregnir um að togarar fái í flotvörpu allgóðan afla af fjögurra og fimm ára fiski. Það þýðir, að fiskurinn er drepinn einu ári áður en bann verður fullþroska og getur hrygnt. Þetta tel ég alvarlegt mál. Þetta snýr að okkur sjálfum fyrst og fremst, en þetta er einn þátturinn í heildarskipulagningu á því að flýta fyrir að þorskstofnarnir komist upp í eðlilega stærð, svo við getum notið fullrar veiðigetu flota okkar og einnig þá gefið frændum vorum og vinum Færeyingum möguleika á því að veiða áfram hér.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda lengri ræðu um þessa till., en vandlaust væri að rekja þetta mál í löngu máli. Þess gerist þó alls ekki þörf. Alþjóð er vel kunnugt um, hvað við höfum getað áorkað í þessu efni. En ég vil ekki láta hjá líða að fá þetta á hreint. Ég tel þetta enga illkvittni í garð Færeyinga, síður en svo. Ég vil aðeins horfast í augu við þá staðreynd, að við verðum að fara eins varlega í sókn í fiskistofna okkar og frekast er unnt. Ég segi það alveg hreinskilnislega, að eins og nú er háttað getum við ekki séð af einum ugga til annarra þjóða þegar um þorsk eða bolfisk er að ræða. Það er alls ekki nein forsenda fyrir slíku.

Að svo mæltu legg ég til, að þessari till. verði vísað til utanrmn.