17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs var hv. þm. Ragnar Arnalds fjarverandi úr salnum, fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. Ed., ella hefði ég sennilega ekki gert það, að kveðja mér hljóðs. En úr því sem komið er, þá vil ég nota tækifærið til þess að lýsa yfir eindregnum stuðningi við frv. þetta til laga á þskj. 69 um breytingu á lögum um Innkaupastofnun ríkisins og undanskil þar alls ekki ákvæðið um starfssvið stjórnarinnar, sem hér er ráðgert að Alþ. kjósi til handa Innkaupastofnuninni. Ég tel fullkomna ástæðu til þess að kveða svo að orði sem gert er í 1. gr. frv. um starfssvið stjórnarinnar.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson, formaður fjh.- og viðskn. Ed., hefur áður gert hér í Ed. grein fyrir hugmyndum sínum um það, með hvaða hætti Alþ. eigi að láta til sín taka um stjórn hinna ýmsu stofnana, þ. e. a. s. að fá aukið vald til eftirlits, til endurskoðunar og beita síðan valdi sínu meira í formi gagnrýni en með því, að Alþ. gerist beinn stjórnunaraðili að þessum fyrirtækjum. Hefur hv. þm. áður gert grein fyrir þeirri skoðun sinni, að með þeim hætti bindist Alþ. of mikið í stjórnir fyrirtækjanna og skerði þar með möguleika sinn til gagnrýni og óbeins eftirlits. Hér er um að ræða hugmyndir hv. þm. um grundvallaratriði í sambandi við stjórn þessara fyrirtækja — hugmyndir sem ég hygg að hljóti að teljast góðra gjalda verðar og vel þess virði að athugaðar séu. Hér er um „prinsip“-mál að ræða. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að Alþ. kjósi stjórnir þessara stofnana og fyrirtækja og beri beina ábyrgð á stjórninni.

Hvað Innkaupastofnun ríkisins varðar, þá tel ég mig ekki hafa í höndum gögn eða upplýsingar, sem heimili mér að bera brigður á heiðarlega starfsemi þeirrar stofnunar. Það hef ég ekki. Aftur á móti er mér fullkunnugt um það, með hvaða hætti Innkaupastofnun ríkisins, hinar ýmsu deildir hennar og þá aðallega framkvæmdadeildin, hefur gripið fram fyrir hendur Alþ. í ýmsum málum, tafið framkvæmdir, sem samþykktar hafa verið á fjárlögum, jafnvel ár frá ári, og tekið í sínar hendur vald sem Alþ. er ætlað. Þess eru dæmi, að smíði nauðsynlegra þjónustuhúsa úti um land hefur dregist árum saman vegna þess að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins var þar til trafala.

Ég hlýt að líta á svar rn. við beiðni um álitsgerð og tóninn í því sem nánast útúrsnúning og allt að því dónaskap, þar sem kveðið er svo að orði, að ekki muni aukast vöruþekking, ekki tryggð aukin vöruþekking með því að Alþ. kjósi stjórn stofnunarinnar til fjögurra ára. Í frv. því, sem hér um ræðir, er alls ekki verið að bjóða aukna vöruþekkingu, heldur allt annað. Lýsingin á því, með hvaða hætti er leitað útboða í meiri háttar verk, dregur kannske hugann að því, með hvaða hætti virðist vera leitað útboða eða tilboða í minni háttar verk. Mér er kunnugt um að tafist hefur í heilt ár smíði læknisbústaðar úti á landi, vegna þess að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar leitaði tilboða í glugga á húsinu hér syðra. Trésmíðaverkstæði í byggðarlaginu fyrir norðan vantaði verkefni, en fékk ekki að smíða þessa glugga, þótt fyrir lægju upplýsingar um að tilboðsaðilinn syðra, sem átti að smíða gluggana, ætlaði að smíða þá fyrir mun hærra verð en heimamenn gátu smíðað þá fyrir, og þá var eftir að bæta ofan á flutningskostnaði og svo náttúrlega 20% söluskattinum ofan á flutningskostnaðinn.

Ég er alveg efalaus um að þörf er á því, að Alþ. kjósi stjórn Innkaupastofnunar ríkisins með svipuðum hætti og ráðgert er í þessu frv. Ég tek fyllilega gildar lýsingar hv. fim. Alberts Guðmundssonar á störfum Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar og með hvaða hætti það varð þeirri stofnun til styrktar og ábata, að stofnuninni var sett stjórn. Það liggur í augum uppi, að Alþ. á að kjósa stjórn Innkaupastofnunar ríkisins og heimta með þeim hætti á einfaldan, en kannske ekki með öllu vinsælan hátt, úr höndum embættismanna vald sem Alþ. ber. Alþ. á með þessum hætti að tryggja að þessi undirstofnun, sem nú fjallar um ráðstöfun milljarða af því fé sem Alþ. samþykkir til úthlutunar, hagi notkun þessa fjár með fullkomnu tilliti til vilja Alþ. og það komi þannig að þeim notum sem hv. Alþ. ætlast til.

Ég mun greiða atkv. með þessu lagafrv. óbreyttu.