17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3496 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Ég sé, að flm. frv. er ekki hér staddur, svo að ég get verið mjög stuttorður. Hann gat um að ég hefði viljað fara þarna einhverja millileið. Það er einhver misskilningur hjá hv. 12. þm. Reykv. Ég gat um að það hefðu verið aðrir í n., sem hefðu viljað fara millileið, en ég vona að afstaða mín hafi verið alveg skýr. Ég vil ekki halda áfram á þeirri braut að kjósa stjórnir yfir hinum ýmsu stofnunum ríkisins. Ég hef gert ljóslega grein fyrir afstöðu minni í frv. til laga um ríkisendurskoðun, um þá leið sem ég vil fara í þessum efnum. Ég er ekki þeirrar trúar, að það sé eina leiðin, sem fær er til þess að lagfæra eitthvað í einhverri stofnun ef þar fer eitthvað úrskeiðis, að setja henni stjórn. Innkaupastofnunin lýtur stjórn fjmrn. og lýtur stjórn framkvæmdavaldsins og ef því er öllu illa stjórnað, þá er hægt að skipta þar um stjórnendur og er gert, en að fara að skipa hinum ýmsu stofnunum ríkisins nýjar stjórnir er alger breyting á allri uppbyggingu framkvæmdavaldsins. Að Alþ. fari að kjósa stjórn hjá Pósti og síma, Rafmagnsveitum ríkisins, Vita- og hafnamálastofnuninni og hinum ýmsu stofnunum er alger breyting. Það eru ráðh. og rn. sem ráða yfir þessum stofnunum og stjórna þeim. Hins vegar mun það hafa gerst í nokkrum tilfellum, að ráðh. hafi sett ýmsa menn í stjórnir slíkra stofnana sér til aðstoðar. Að mínum dómi er ekki kominn tími til að breyta því. Ef þessum stofnunum er hins vegar ekki nægilega vel stjórnað, þá er kominn tími til að skipta þar um stjórnendur og þá jafnvel ráðh. líka. Ef menn vilja fara þá leið að bæta þessi mál með því að skipta um menn, þá er ekki eina leiðin að kjósa nýjar og nýjar stjórnir og byggja ofan á „apparatið“ og gera það þunglamalegra og losa tengslin sem þarna eru. Það verður til þess, að ekki verða eðlileg tengsl á milli rn. og hinna ýmsu ríkisstofnana, ef þær verða algerlega leystar undan þeim og færðar beint undir stjórnir sem kosnar eru af Alþ., og því miður er það nú svo, að ekki er alger vissa fyrir því, að þessum stofnunum verði mjög vel stjórnað, jafnvel þótt Alþ. kjósi þar ákveðna menn til að stjórna.

Nokkuð hefur verið rætt hér um lög um skipan opinberra framkvæmda, sem ég tel að séu á margan hátt gölluð og þurfi að lagfæra. En það er annað mál. Jafnvel þótt sett verði stjórn yfir Innkaupastofnunina höfum við ekki tryggingu fyrir því, að framkvæmd verði önnur, því að sú stjórn þyrfti væntanlega að fara að lögum og sú stjórn þyrfti að stýra Innkaupastofnuninni í samræmi við þau lög sem henni hafa verið sett. Ég hef því ekki trú á að þar yrði breyting. En til þess að lagfæra það, sem þar hefur verið minnst á, þarf að breyta lögum um skipan opinberra framkvæmda. Ég hygg að slík endurskoðun sé í gangi. Á þeim vettvangi þarf að vinna vel að málum og endurskoða þau lög, því að þau eru á margan hátt misheppnuð að minni skoðun. En ég vil sem sagt leggja á það áherslu, að ég er andvígur því, að þetta frv. verði samþykkt, hvort sem þar er farin einhver millileið eða eftir því, sem hv. flm. hefur lagt til.