17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3498 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta frv. lýsti ég yfir fylgi við það. Ég taldi að þarna væri farið inn á braut sem ég gæti hæglega sætt mig við. Ég gerði það kannske fyrst og fremst að fenginni reynslu af þessari annars ágætu stofnun, sem e. t. v. hæfir ekki á þingi nú, að vera að tala mikið um því enginn er til andsvara fyrir hana beinlínis. Ég skal hins vegar viðurkenna, að mér hefur ekki dottið í hug að allt yrði í himnalagi hjá þessum aðila frekar en öðrum, þó að þingkjörin stjórn yrði kosin, og skal taka undir það með hv. 5. þm. Austurl., að ekki mun allt lagast við að slík stjórn kæmist á. En hitt fullyrði ég, að hvort sem um er að kenna rangri lagasetningu varðandi skipan opinberra framkvæmda eða einhverju öðru, þá er hér um að ræða stofnun sem vinnur á margan hátt ákaflega einkennilega. Og af þeirri ástæðu einni og að marggefnu tilefni varðandi þessa ágætu stofnun hefði ég talið fljótlegasta og vænlegasta leið til þess að breyta þar einhverju um til bóta að skipa henni einhverja slíka stjórn.

Ég viðurkenni auðvitað manna fúsastur, að lögin um skipan opinberra framkvæmda eru stórgölluð. Ég ætla ekki að fara að rekja framsögu mína fyrir þáltill., sem ég flutti um endurskoðun á þessari löggjöf, en þáltill. þessi, sem hv. þm. Steinþór Gestsson gat um áðan, var einmitt samþykkt og ég fagnaði því, að þessi endurskoðun væri hafin.

Innkaupastofnunin er áreiðanlega oft í nokkrum vanda gagnvart þessum lögum og þeim ákvæðum sem þar eru, og ég ætla þess vegna alls ekki að fara að kenna stofnuninni alfarið um það sem þar er misgert. Ég verð líka að segja, að oft kemur fyrir að aðilar vilji ráðast í framkvæmdir af fyrirhyggjuleysi og að ekki nægilega athuguðu máli, og áreiðanlega hefur Innkaupastofnun ríkisins oft haft rétt fyrir sér er hún hefur stöðvað aðila sem þannig hefur verið ástatt um. En ég veit einnig um það, að ekki er miklu betra ástandið oft hjá þessari ágætu stofnun, þó að allt virðist vera í lagi og allt sé tilbúið. Ég ætla aðeins á eftir að rekja eitt dæmi í sambandi við þetta. Hv. þm. Steinþór Gestsson nefndi samstarfsnefndina, hún væri oft kölluð saman en það hefur verið neyðarúrræði sumra aðila til þess að koma einhverjum tökum á Innkaupastofnunina að fá þessa samstarfsnefnd saman til að fjalla um mál sem hafa dregist úr hömlu. Þessi samstarfsnefnd er áreiðanlega ekki kölluð saman í hverju slíku vandatilfelli. Ég veit ekki hvernig þessu máli er háttað, en oft virðist mér að þessir ágætu aðilar, sem þarna eiga að vera einhvers konar yfirstjórn, hagsýslustjóri, forstjóri Innkaupastofnunarinnar og síðast en ekki síst formaður fjvn. á hverjum tíma, kæmu seint saman og flýttu sér hægt í þessum efnum og það væri fyrst og fremst stofnuninni sjálfri um að kenna. hún reyndi í lengstu lög að vera með alla þræði í eigin höndum þar inn frá, en þyrfti sem allra minnst til samstarfsnefndarinnar að leita.

Ég ætla ekki að fara að rekja dæmi, sem hv. S. þm. Austurl. þekkir jafnvel og ég af viðskiptum okkar í sambandi við ákveðna framkvæmd austur á landi. En það væri svo sem nógu fróðlegt að rifja það upp, að þegar búið var að samþykkja ákveðna fjárveitingu á Alþ. til ákveðinnar framkvæmdar urðum við, þeir alþm. sem höfðum að þessu staðið, eiginlega að krjúpa á kné fyrir framan þessa góðu aðila til þess að biðja þá nú um að leyfa okkur að gera þetta. Og þegar auðmýkt okkar var orðin nógu mikil, þá sögðu þeir já. Þannig leit ég á málið a. m. k., því að á meðan við rákum á eftir því af miklum krafti og öflugheitum, þá gekk hvorki né rak.

En annað dæmi ætlaði ég að rekja hér, sem ég varð var við á s. l. sumri og mér þótti vægast sagt átakanlegt. Við ætluðum að fara að reisa okkur heimili fyrir þroskahefta austur á landi. Það var ekkert að vanbúnaði að hefja byggingu þessa húss, viðurkennt af öllum í þessari ágætu stofnun, að okkur væri ekkert að vanbúnaði að hefja bygginguna hvað allan undirbúning snerti og hvað fjárveitingu þess árs snerti einnig, hún væri einnig fullnægjandi. En, sögðu þeir, þið megið ekki bjóða út fyrr en þið hafið tryggingu fyrir fjárveitingu næsta árs einnig. Það er nú þannig háttað með Styrktarsjóð vangefinna, sem þessir peningar fást úr, að hann er ákveðinn frá ári til árs og þessa yfirlýsingu var auðvitað ómögulegt að fá. Þetta vissu þeir innkaupastofnunarmenn mætavel að var útilokað að fá. Og það var ekki fyrr en við höfðum farið í ráðh., ég vil segja ráðh. eftir ráðh., sem Innkaupastofnunin gaf sig með þetta fáránlega skilyrði, sem hún vissi frá upphafi að var ekki til neins að fara fram á við okkur og breytti auðvitað engu um þann áfanga, sem átti að byggja á s. l. ári, jafnframt því sem hún fékk nægilega góðar yfirlýsingar um það frá hæstv. félmrh., að vissulega mundum við fá allan þann skerf til þessa heimilis sem við þyrftum á þessu ári. Þó væri ekki hægt að segja til um, hver sú upphæð yrði, þá yrði áfanginn á þessu ári að fara eftir því.

Ég ætla ekki að fara að deila meira á þessa stofnun. Það er, eins og ég sagði, óviðkunnanlegt, vegna þess að hér er enginn forsvarsmaður stofnunarinnar sem slíkur. En þarna er nú forstjóraveldið í algleymingi, og ég held að ekki veiti af að setja ofurlítið ofan í við það forstjóraveldi, sem þarna er, og það gæti þingkjörin stjórn, sýnist mér.

Ég veit að svo glöggur maður sem hv. þm. Steinþór Gestsson hefur áreiðanlega rétt fyrir sér, þegar hann segir að þetta muni geta stangast á við lög um skipan opinberra framkvæmda og þess vegna sé vafasamt að samþykkja frv. af þeim ástæðum. En af því að ég hef nú flutt þáltill. um það einmitt, að lög um skipan opinberra framkvæmda verði endurskoðuð og sú endurskoðun er í gangi, þá er ég ekkert hræddur út af fyrir sig við að styðja þetta frv. frekar en ég var í haust. Ég skal sem sagt ekki orðlengja þetta frekar. Ég styð þessa stjórnarskipan þótt ég taki undir það með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, að ég treysti ekki á það fullkomlega, að á þessu verði miklu betri stjórn fyrir bragðið. En þetta er tilraun sem ég álít að mjög sé vert að gera. Ég vildi gjarnan mega ganga til fleiri manna en form. fjvn. til þess að reyna að koma málum í gegn sem dvalist hafa óeðlilega hjá þessari stofnun. Ég þykist vita að oft sé farið til form. fjvn, í sambandi við svona framkvæmdir og veit af þeim dæmi — hv. núv. form. fjvn. á áreiðanlega eftir að finna fyrir því, sérstaklega þegar fer að líða að hinum mikla framkvæmdatíma — til þess að reyna að knýja í gegn atriði sem standa þarna föst, svo óskiljanlega föst og á svo óeðlilegan máta að ekki verður við unað.

Hitt tek ég undir og ég er sammála því, að vanda eigi allan undirbúning verka sem allra best, menn eigi þar ekki að flana að neinu og verkefni Innkaupastofnunar ríkisins sé m. a. að sjá um að ekki sé flanað að neinu eða menn fari út í einhverjar óforsjálar framkvæmdir. En þegar allt er í lagi, eins og rakin hafa verið dæmi um, eru tafir hvimleiðar. Ekkert dæmi hefur verið tekið átakanlegra í þingum um það en hæstv. núv. menntmrh. gerði, sem lýsti einu sinni átakanlega dæmi um byggingu eina úti á landi, sem Innkaupastofnunin þvældist fyrir, svo skemmtilega, að alveg er með ólíkindum hvernig þar tókst til. Ég held, að í þessu tilfelli hefði getað verið til bóta, að við alþm. hefðum getað leitað til einhverrar slíkrar stjórnar, sem hefði þó a. m. k. ekki látið slíkan atburð, eins og þar var rakinn, gerast eða a. m. k. verða slíka framhaldssögu sem varð. Ég man ekki, hvort það var fjögurra eða fimm ára framhaldssaga, sem hæstv. menntmrh. lýsti, áður en loksins var komist að niðurstöðu í þessum málum.