17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3502 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég þarf ekki að lengja þessar umr. að neinu ráði, en vegna þeirra ummæla, sem komu fram hjá hv. 7. landsk. þm., langar mig einungis að benda á að lög um skipan opinberra framkvæmda eru sett af hinu háa Alþ., og þau kynni, sem ég hafði af þessari svokölluðu samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, voru fyrst og fremst á þá lund, að nefndin taldi sér skylt að fara eftir lögum. Ég er ekki nógu kunnugur því einstaka atriði, sem hv. þm. nefndi áðan, til þess að ég geti á nokkurn hátt dæmt um það, en ég er einn af þeim, sem eru þeirrar skoðunar, að þessi lög þurfi endurskoðunar við, og ég vil leyfa mér að harma, að það verk, sem vissulega hefur verið unnið í sambandi við endurskoðun þessara laga, skuli ekki enn þá hafa borið meiri árangur en raun ber vitni. En vegna þess að hér var í umr. verulega deilt á aðila, sem ekki eru hér staddir til þess að svara fyrir sig, þá finnst mér að við þurfum a. m. k. að minnast þess rækilega, að þetta eru lög sem Alþ. hefur sett og á meðan þeim er ekki breytt verður að gera ráð fyrir að reynt sé að fara eftir þeim. Hvort sú framkvæmd hefur ævinlega orðið eins og við hefðum helst kosið er annað mál. Auðvitað hljóta í framkvæmd þessara laga, eins og ég reyndar hygg flestra laga, einhvern tíma að koma fyrir mistök. Það er alveg rétt, að menn hafa ákaflega oft beint spjótum sínum að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir. Ég hygg að það hafi oft verið gert að meira eða minna leyti á réttum eða eðlilegum forsendum af hálfu þeirra sem vopnunum beittu, en hins vegar hygg ég líka, að þessi nefnd hafi talið sig hafa mjög ákveðnar skyldur við þau lög sem hér um ræðir.