17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3507 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

243. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur árum voru gerðar allvíðtækar breytingar á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Mér ásamt fleiri þm. lék þá hugur á að koma fram þeirri breytingu, sem nú er gerð till. um í þessu frv. Það tókst þá ekki, en nú er þess enn freistað að fá inn í lögin þessa breytingu í trausti þess, að fyrir hendi sé á Alþ. nú aukinn skilningur á nauðsyn breyttrar stefnu á ýmsum sviðum landbúnaðarmála, m. a. því sem hér er um að raða.

Sú breyting frá gildandi lögum, sem þetta frv. á þskj. 458 felur í sér, miðar að auknu jafnvægi milli mjólkurframleiðslu á hinum ýmsu landbúnaðarsvæðum annars vegar og markaðsþarfa hins vegar. Í gildandi lögum, 30. gr. framleiðsluráðslaganna, er heimild til að styrkja kostnaðarsama mjólkurflutninga milli sölusvæða. Í þessu frv. er lagt til að sú heimild nái jafnframt til að örva mjólkurframleiðslu með sérstökum verðbótum á mjólk á þeim svæðum sem í dag fullnægja ekki þörfum aðliggjandi markaðssvæða, en hafa þó möguleika til aukinnar mjólkurframleiðslu.

Árlega greiðir Framleiðsluráð upphæðir er nema tugum millj. í flutningsgjöld á mjólk milli landshluta. Þessir flutningar fara fram fugleiðis að stórum hluta og nemur þá flutningsgjaldið 40–50 kr. á hvern mjólkurlítra. Óhagkvæmni þessa fyrirkomulags liggur í augum uppi og auðvelt er að færa fyrir því gild rök, að stefna beri að því, að hver landshluti verði eftir því sem unnt er sjálfum sér nógur að því er varðar framleiðslu þessarar mikilvægu neysluvöru. Fjárfúlgum þeim, sem nú er varið til þessara rándýru flutninga, væri ólikt betur varið til að ná því framtíðarmarkmiði, m. a. með þeirri aðferð sem þetta frv. gerir ráð fyrir, en til þess skortir lagaheimild nú. Mjólkurframleiðslunni þarf að jafna meira um landið frá því sem nú er. Stóru kúabúin sunnanlands og norðan gætu gjarnan snúið sér að framleiðslu nautakjöts í auknum mæli jafnframt því sem reynt væri að auka mjólkurframleiðslu á þeim svæðum sem búa við mjólkurskort. Ég hygg að sá landshluti, sem þarna kemur fyrst og fremst við sögu, sé Vestfirðir og aðrir strjálbýlir landshlutar, en norðanverðir Vestfirðir hygg ég að séu það landssvæði sem þarna er helst um að ræða.

Í umr. hér í Nd. á dögunum var Inndjúpsáætlun gerð að umtali í umr. um landbúnaðarmál. Mér heyrðist á hv. þm. Norðurl. e., Stefáni Valgeirssyni, að hann teldi þar mikil mistök hafa orðið að því leyti, að áætlunin hefði fyrst og fremst beinst að sauðfjárbúskap fremur en mjólkurframleiðslu. Fleiri hafa orðið til að gagnrýna þetta, að nokkru leyti með réttu, en ég ætla ekki að fara út í það frekar hér. Á þessu eru til eðlilegar skýringar, og víst er um það, að enda þótt Inndjúpið sé betur fallið til sauðfjárbúskapar, þá hafa Djúpbændur í auknum mæli farið út í mjólkurframleiðslu og mjólkuraukning hjá Mjólkursamlagi Ísfirðinga hefur aukist um 15% á einu ári, sem er meira en helmingi meira en meðalaukning yfir landið. Ég tel að þessi viðleitni til að örva mjólkurframleiðslu á slíkum svæðum sé hin rétta stefna og við hljótum að gera það heimilt að lögum.

Í umr. um landbúnaðarmál að undanförnu, þ. á m. á fjölmennum bændafundum víða um land, hafa komið fram ákveðnar ábendingar og kröfur um að tekin verði upp markviss stjórnun og skipulagning á framleiðslumálum landbúnaðarins er tryggi í senn aukna hagkvæmni í búrekstri og jafnvægi í markaðsmálum. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að hin stóru tæknivæddu bú, sem útheimta feikimikla fjárfestingu og launakostnað, skila töluvert minni hagnaði tiltölulega en meðalstóru búin, sem eru viðráðanlegri í stofnun og rekstri. Hagkvæmasta bústærðin er nú talin vera 350–400 ærgildi eða 25–30 kúa bú, og erlendis frá heyrum við fregnir í þá átt, að horfið sé í vaxandi mæli aftur til fjölskyldubúskapar. Þetta á jafnvel við um Bandaríki Norður-Ameríku, þar sem hlutirnir eru þó allajafna stórir í sniðum.

Það er staðreynd, að hinn aukni fjármagnskostnaður og aukin vinnulaun á stórbúum hirða tekjurnar af aukinni framleiðslu. Það er sem sagt margt sem bendir til þess, að ráðlegt sé og heillavænlegt okkar þjóðarbúskap, að við stefnum að auknu jafnvægi í þessum málum. Og mér sýnist rétt og eðlileg sú hugmynd, sem komið hefur fram innan íslenskra bændasamtaka í umræðum um verðlagsmál landbúnaðarins, að greitt verði fullt verð fyrir afurðir upp að vissu marki, en lægra verð fyrir umframframleiðslu. Slík ráðstöfun mundi vafalaust gera sitt til að draga nokkuð úr greiðslu útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir, sem er vissulega eitt af okkar vandræðamálum í dag. Það virðist einnig eðlilegt og réttmætt, að engar útflutningsbætur væru greiddar á framleiðslu áhugamanna er stunda búskap sem tómstundastarf, en talið er að slík búvöruframleiðsla nemi nú allt að 8% af heildarframleiðslunni. Við erum hreinlega neydd til að grípa til einhverra ráða til bóta á því skipulagi eða öllu réttara skipulagsleysi sem ríkt hefur hingað til í þessum málum til skaða fyrir þjóðarheildina.

Byggð á Íslandi er síðast hvar þannig háttað, að helstu þéttbýlissvæðin eru útvegsbæir og þorp við ströndina, en landbúnaðarsvæðin, misjafnlega þéttbýl og gróskumikil, inn til fjarða og dala. Það hlýtur að vera affarasælast, að byggðirnar til sjávar og sveita þróist samhliða og uppfylli hvor annarra þarfir. Í því er hið raunverulega byggðajafnvægi fólgið. Það er því mikilvægt að nýta af skynsemi og framsýni þá landkosti sem fyrir hendi eru á hverjum stað, enda þótt það kosti misjafnlega mikla fyrirhöfn. Í ýmsum nágrannalöndum okkar, m. a. í Noregi, eru styrkir og lán til landbúnaðar mismunandi eftir landssvæðum. T. d. eru ræktunarlán í Norður-Noregi 50% hærri en annars staðar í landinu.

Verðbótum á landbúnaðarafurðir er þar einnig beitt til að jafna aðstöðumun og örva framleiðslu, hliðstætt því sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Það er oft og réttilega á það minnt í umr. um íslensk efnahagsmál, hve mikilvægt það er að gætt sé fyllstu arðsemi við úthlutun fjármagns til atvinnulífs landsmanna. Ekki vil ég gera lítið úr þessu sjónarmiði, en minni jafnframt á, að öll okkar þjóðlífsgerð er með þeim hætti, í senn sérstæð og viðkvæm vegna fámennis okkar í stóru og erfiðu landi, að við hljótum að gæta þess vel og jafnvel að kosta nokkru til þess, að ýmis félagsleg og menningarleg verðmæti fari ekki forgörðum í hringiðu sviptikenndra þjóðfélagsbreytinga. Við tölum gjarnan enn í dag með nokkru stolti um okkar fornu bændamenningu, sem sprottin var úr jarðvegi íslenskra sveita. Að þeirri menningararfleifð búum við enn og það er skylda okkar að sýna henni þá ræktarsemi, sem hún á skilið, og búa þannig að íslenskri bændastétt, að hún fái haldið reisn sinni. Það er óhjákvæmilegt, að í verðlags- og lánamálum landbúnaðarins sé tekið aukið tillit frá því sem nú er til ólíkra aðstæðna, bæði að því er snertir landshætti og markaðsþarfir.

Það, sem farið er fram á í þessu frv., virðist e. t. v. fljótt á litið ekki mjög stórvægilegt. Samt sem áður markar það ákveðna stefnu, sem ég hef lengi talið æskilegt og rökrétt að við gæfum meiri gaum en hingað til — stefnu sem tryggi betur en nú er nauðsynlegt jafnvægi og traustari tengsl milli okkar höfuðatvinnuvega til lands og sjávar. Ég hef hér að framan reynt að færa fram nokkur rök fyrir þeirri skoðun minni, og ég vona að hv. landbn., sem ég fel málið hér með til umfjöllunar, geti fallist á að hér sé bent á rétta leið. Mér skilst að lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins séu enn í heildarendurskoðun. Fari svo, að þetta frv. mitt nái ekki fram að ganga nú á þessu þingi, m. a. vegna þess hve stutt er til þingloka, þá gæti sú hugmynd, sem í því felst, komið til athugunar og vonandi í lög við þá endurskoðun.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. landbn.