17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3517 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

246. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Páll Pétursson) :

Herra forseti. Þær umr., sem orðið hafa um þetta frv. til laga gleðja mig að ýmsu leyti. Sérstaklega vil ég leyfa mér að þakka hv. formanni bankaráðs Seðlabankans, hv. þm. Jóni Skaftasyni, fyrir skilmerkilega ræðu sem hann flutti þegar málið var til umr. fyrir nokkrum dögum. Bankaráðsformaður kom að sjálfsögðu skilmerkilega til skila viðhorfi Seðlabankans og þeim röksemdum, sem bera uppi þá vaxtastefnu sem fylgt hefur verið nú um skeið og viðhorfi þeirra manna, sem eiga sparifé, eiga sparisjóðsbók, en standa ekki í atvinnurekstri. Og ég held að það sé ekki að ófyrirsynju, að þessi mál séu krufin til mergjar.

Hv. þm. Jón Skaftason lýsti því í mjög sterkum orðum, að þetta frv. hefði ekki stefnubreytingu í för með sér, vegna þess að allar þær ákvarðanir, sem teknar hefðu verið um vexti undanfarið, hafi raunverulega verið teknar af ríkisstj. Nú stendur fullyrðing gegn fullyrðingu. Hv. þm. vitnaði í sjálfan sig þann tíma, sem hann hefur verið í bankaráði, og trúverðuga menn innan bankans um liðna tíð, áður en hann kom í bankaráðið. En svo vill til að aðrar staðhæfingar eru á lofti í málinu. Ég vil — með leyfi forseta — fá að vitna til ummæla þáv. viðskrh., hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, sem sagði í Þjóðviljanum laugardaginn 13. júní 1974: „Vaxtahækkunin er einhliða ákvörðun Seðlabankans“. Þessi vaxtahækkun, sem þá var framkvæmd, var sem sagt gerð með þeim hætti, að þáv. viðskrh., þáv. starfandi viðskrh., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, sá sér fært að fría sig ábyrgð á þessari vaxtahækkun. Nú fór ekkert milli mála að hv. þm. var þá hæstv. ráðh. og það var náttúrlega lýðum ljóst, að vel gat svo farið að hann yrði ráðh. áfram. Þá stóðu fyrir dyrum viðræður um áframhaldandi vinstri stjórn í landinu og hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefði að sjálfsögðu komið sterklega til greina sem viðskrh. í þeirri ríkisstj. og einn af burðarásum hennar og máttarstólpi. Annað var ekki vitað á þeim tíma en svo gæti orðið. Að vísu hafði þá hv. þm. ráðstafað tíma sínum við laxveiðar austur á landi fremur en standa í stjórnarmyndunarviðræðum í Reykjavík. Það sló mig afar illa þegar ég frétti um þennan laxveiðitúr, og kann að vera að einhverjir fleiri hafi skilið það þannig, að hann hugsaði sér ekki að verða ráðh. áfram eða bera ábyrgð á stjórn landsins á yfirstandandi kjörtímabili. En þrátt fyrir það var hann þó þessa dagana ráðh. viðskiptamála og yfirmaður banka.

Ég vil taka það fram vegna ummæla í ræðu hv. þm. Jóns Skaftasonar, að mér vitanlega hafa ákvarðanir um vaxtahækkanir ekki verið teknar í þingflokki framsóknarmanna. Það kann að vera að ráðh. komi hér og lýsi sök á hendur sér af þessari vaxtahækkun, en meðan svo er ekki ætla ég að halda mig við fyrri skoðun mína.

Meginatriði þessa frv. er að færa ákvörðunarvaldið um vexti í fyrra horf. Hv. þm. vitnaði til þess, að í útlöndum væru hafðar reglur svipaðar og hér eru, en ég hygg þó, að þjóðfélagsaðstæður í þeim þjóðlöndum, sem hv. þm. vitnaði til, séu að sumu leyti ekki sambærilega: við það sem er hér á Íslandi. Þess vegna er ekki endilega víst, að okkur henti nákvæmlega sama skipulag og þar er tíðkað. Fyrir mér er það meginatriðið, að ríkisstj. á hverjum tíma, hið pólitíska vald standi ábyrgt fyrir þeim ákvörðunum, sem það tekur, og hafi ekki barn til blóra, til að kenna því klækina, eins og mér fannst á hv. þm. Jóni Skaftasyni að bankastjórn Seðlabankans væri höfð, enda viðurkenndi hann það þegar hann var búinn að lýsa því nákvæmlega í ræðu sinni, að ákvarðanir um vaxtahækkanir hafi verið teknar nánast af ríkisstj. Þá segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég held jafnvel að flestar ríkisstj. óski sér þess tæpast að hafa slíkt formlegt vald beint hjá sér, vegna þess að yfirleitt er þetta vald eða meðferð þess ekki þess eðlis, að það auki á vinsældir þeirra er með það fara. Og ég dreg það talsvert í efa, að okkar ágætu ráðh. væri í reynd mikill greiði gerður með samþykkt þessa frv.“

Það getur vel verið, að þetta standist allt saman. En nú skilja leiðir okkar hv. þm. Jóns Skaftasonar, vegna þess að ég held að ríkisstj. verði, hvort sem ráðh. er greiði gerður með því eða ekki, að standa ábyrg fyrir þeim ákvörðunum, sem hún tekur, og þeim stjórnarmeirihluta, sem hún styðst við á hverjum tíma. Ég er sannfærður um að hápólitískar ákvarðanir eins og ákvarðanir um vaxtastefnu í landinu er rétt að réttkjörnir fulltrúar fólksins taki fremur en nokkrir aðrir menn. Ég vil ekki að þetta sé neinn feluleikur með það, hver tekar ákvörðun um vaxtahækkun. Ríkisstj. eins og aðrir stjórnmálamenn á að standa og falla með gerðum sínum.

Hv. þm. Jón Skaftason færði ýmis rök fyrir því, að það hefði verið heppilegt að taka upp þá vaxtastefnu sem nú er fylgt. En ég vil spyrja hv. þm.: Hefur þessi vaxtahækkunarstefna lagfært efnahagskerfi okkar? Hefur hækkun vaxta hægt á verðbólgunni? Ég er ekki sammála þessu. Ég held að svo hafi ekki verið. Hér er kannske ekki eingöngu vegna hárra vaxta við efnahagsörðugleika og sjúkt efnahagskerfi að etja, en þeir eiga hluta sakarinnar, og þetta var ekki lækning. Það var skref í öfuga átt sem tekið var.

Hv. þm. talaði illa um þensluna í þjóðfélaginu og hina miklu fjárfestingu. Mér finnst ekki öll þensla þurfa að vera af hinu illa. Ég held að þrátt fyrir þessa þenslu og að hluta til vegna þessarar þenslu eigum við nú lífvænlegra þjóðfélag. Við búum í betri íbúðum en ella hefði verið. Við eigum atvinnutæki sem við mundum ekki hafa eignast ef ekki hefði verið um öra fjárfestingu að ræða. Það er rétt, að eftirspurn hefur verið mikil eftir lánsfé. En lánsfjárþörfin þarf ekki endilega að minnka við það, að vextir séu hækkaðir. Menn reyna meðan mögulegt er að klóra í bakkann og reyna að fleyta fyrirtækjum sínum frekar en hleypa þeim á höfuðið, sem betur fer. Og lánsfjárþörfin eykst náttúrlega þegar vaxtaupphæðinni verður í mörgum tilfellum að bæta við skuldirnar. Ég stend í þeirri trú, að verðbólgan orsaki ekki háa vexti, heldur séu háir vextir þáttur í því að orsaka verðbólgu. Það er enginn vafi á því, að þegar svo er komið, að hlutdeild vaxta í rekstrarkostnaði fyrirtækja er orðin jafngífurleg eins og hér, þá finnur atvinnureksturinn í landinu fyrir þessu öllu. Þegar t. d. fjórðungur af rekstrarkostnaði frystihúss er orðinn fjármagnskostnaður, þá gefur auga leið að þetta er alvörumál. Það hefur orðið mismunur á fjármagnskostnaði og vinnulaunakostnaði. Fjármagnið hefur verið hærra skrifað nú um sinn á kostnað vinnu. Alveg eins mætti setja dæmið þannig upp, að ef fyrirtækin þyrftu ekki að greiða svona háa vexti, þá gætu þau e. t. v. greitt hærri laun. Svona er hægt að velta þessu fyrir sér og með alveg jafngildum rökum og fram komu í ræðu hv. þm. Jóns Skaftasonar.

Ég hef ekki mikla trú á því, að verulegur fjárflótti yrði úr bönkum þó vextir væru lægri en nú er. Mikill hluti af þessu fé, sem í bönkunum er geymt, er skammtímainnstæður og jafnvel þó að vextir af því séu í einhverjum tilfellum neikvæðir eða a. m. k. tekin áhætta af því að þeir séu neikvæðir eða geti orðið neikvæðir, þá má skoða það jafnvel sem skattlagningu. Og ef það dreifist á nógu marga þegna þjóðfélagsins þá sé ég ekki verulegan háska búinn af því. Hitt vil ég árétta, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, að hvað viðkemur gamla fólkinu þarf að setja undir þennan leka, en slíkt væri hugsanlega unnt að gera með breytingum á tryggingalöggjöf og e. t. v. með öðrum ráðum. Það er vel hægt að hugsa sér að hafa tvöfalda vexti eða tvöfalt verðtryggingarkerfi. Við búum nú við það að sumu leyti, að hægt er að þróa þá leiðina allt eins vel til að geyma fé. Sumir geta tekið verðtryggt eða dýrt fjármagn, þó atvinnulífið þoli það ekki. Ég held líka að hlutur bankanna sem slíkra sé yfrið nógu góður. Mér finnst útþensla bankakerfisins bera vott um að það sé ekkert skorið við nögl sem bönkunum er skammtað fyrir að geyma og ávaxta fyrir mann fé. Það er nú svo komið, að bændur á Íslandi eru einungis helmingi fleiri en bankamenn, og guð veit hvernig þetta endar.

Ég tel sem sagt, að með samþykkt þessa frv. sé stigið spor í rétta átt og spor, sem við nauðsynlega þurfum að stiga, vegna þess að ég horfi til framtíðar með verulegum ótta, ef svo á að fara að þriðja eða fjórða hvern mánuð hækki vextirnir um svo og svo mörg prósent. Þeir hljóta óhjákvæmilega að gera það eðli málsins samkvæmt, vegna þess að kerfið vindur sig áfram og það er engin hætta á því, að það fari að snúast ofan af vitleysunni nema höggvið sé á þennan hnút.