18.04.1978
Sameinað þing: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3538 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

164. mál, kostnaður vegna ráðgjafarstarfa um rekstur ríkisfyrirtækja eða stofnana

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Á þskj. 327 leyfi ég mér að bera upp svo hljóðandi fsp. við hæstv. fjmrh. um kostnað vegna ráðgjafarstarfa um rekstur ríkisfyrirtækja eða stofnana:

„1. Hvaða ríkisstofnanir hafa verið athugaðar í þeim tilgangi að koma á hagkvæmni og auknum sparnaði í rekstri á árunum 1974, 1975, 1976 og 1977?

2. Hverjir hafa annast þessar rannsóknir og hvað hefur hver aðili fengið í greiðslu fyrir þær?

3. Hvað hefur verið gert hjá viðkomandi stofnunum til þess að skipuleggja reksturinn í samræmi við tillögugerð, og hvað hefur það kostað?“

Það er kunnugt þeim hv. þm. sem setið hafa í fjvn., að oft hefur verið fjallað um ýmis rekstrarvandamál ákveðinna ríkisstofnana. Eru ríkisstofnanir orðnar allmargar, sem hafa verið teknar til meðferðar, ef svo má segja, og frá fjárlaga- og hagsýsludeildinni hafa komið gögn í hendur fjvn.-manna um ýmsar athuganir, er fram hafa farið, og sagt, hvað til hafi staðið. Hefur mikið verið um þessi mál rætt. En alþm. kannast líka við kjörorðið: „Báknið burt“. Það hefur heyrst undanfarið. Því leikur mér nokkur hugur á að vita, hvað hægt sé að gera í því að minnka þetta bákn, gera það hagkvæmara og þægilegra í rekstri og kostnaðarminna fyrir heildina.

Ég get ekki látið hjá líða að geta þess, að ein ákveðin saga, sem ég heyrði af tilviljun í vetur, vakti undrun mína. Hún er á þá leið, að Ríkisútvarpið lét kalla á leigubifreið til að sækja aflaskýrslu í næsta hús og er þó vegalengdin á milli ekki meira en seilingarfjarlægð. Ef starfshættir margra stofnana eru með þessum hætti varðandi kostnaðarþátt, þá vil ég gjarnan að það sé tekið til umræðu af hagsýslu- og fjárlagastofnun eða nánari athugun sé gerð á ýmsum rekstri ríkisfyrirtækjanna. Maður hefur ýmislegt heyrt, og þess vegna er ekki úr vegi að fá nokkurt yfirlit yfir hvað hefur verið gert á þeim vettvangi undanfarin 4 ár.