18.04.1978
Sameinað þing: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3545 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

346. mál, hönnun Þjóðarbókhlöðu

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin. Það gleður mig, að a. m. k. menntmrn. skuli ætla að ganga á undan með góðu fordæmi og ekki láta hanna fleiri opinberar byggingar þar sem fatlaðir geta ekki farið ferða sinna. En ég vil minna á það enn, að það er ekki að ófyrirsynju sem minnt er á, að tekið skuli tillit til þessara hluta við hönnun opinberra bygginga sem ætlaðar eru allri alþýðu manna til afnota og starfa í. Og ég vil ítreka það, sem ég hef áður lagt áherslu á í þessu sambandi, að ekki sé aðeins tekið tillit til fatlaðra í hönnun nýrra bygginga, heldur sé einnig unnið að lagfæringu eldri bygginga með þetta sjónarmið fyrir augum.