18.04.1978
Sameinað þing: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3547 í B-deild Alþingistíðinda. (2702)

354. mál, hátíðarbrigði vegna stórafmælis Snorra Sturlusonar

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Mér er „nokk“ sama hvað hv. þm. Stefán Jónsson segir um merkingu orðsins „afmæli“. Það getur verið vafamál, hvort þetta stórafmæli, sem ég nefni, er þetta árið eða næsta, en það er afmæli. Vegna þess, að ég er varkár maður að því er varðar móðurmálið, þá ráðgaðist ég — áður en ég lagði fram fsp. — við einn flokksbróður okkar Stefáns Jónssonar, þann sem ég lít á sem nokkurs konar móðurmálsakademíu í þingflokki okkar, Gils Guðmundsson, og hann lagði blessun sína yfir þetta. Sama gerði Jóhannes Halldórsson, sem er, trúi ég, ekki minni íslenskumaður en Gils Guðmundsson. Og hér frammi á skrifstofunni er orðabók Blöndals, eintak það, sem ég held hér á. Það er ekki víst að allir hv. þm. viti að þessi bók er þarna. En kannske mættum við fletta oftar upp í henni. Reyndar bið ég menn að fara varlega með þetta eintak. Án efa er þetta eitt hið verðmætasta eintak, sem til er af þessari bók. Fyrrv. skrifstofustjóri Alþingis, Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi, bætti á spássíu mörgum og dýrmætum skýringum, þannig að við getum fræðst hér um móðurmálið ekki aðeins af Sigfúsi Blöndal, heldur einnig af þeim mikla íslenskumanni Jóni Sigurðssyni. Nú vil svo til, að ég hef gleymt gleraugunum á borði mínu, þannig að ég get ekki lesið þetta smáletur. (Landbrh.: Þú getur fengið mín lánuð.) Þökk fyrir. Það fer vel á því, að það séu borgfirsk gleraugu sem ég nú nota. Mér finnst nú reyndar, að maður sjái betur í gegnum hægra heldur en vinstra auga. En í þessari ágætu bók stendur þetta: „afmæli, Fødselsdag; (minningarhátíð),“ — svo kemur aftur danska: „Aarsdag, Mindedag“, — og svo til nánari skýringar: „afmæli þess, að þá voru 1000 ár liðin, síðan kristni var lögleidd.“ Ég held að það fari ekkert á milli mála að hér nota ég rétt orð.

Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans við fsp. minni. Mér urðu það hins vegar vonbrigði að heyra, að þeir séu ekki búnir að gera það upp við sig í menntmrn., hvort eða hvernig þeir ætla að minnast þessa 800 ára afmælis. Ærinn hefur nú verið tími til að undirbúa það. En ég tek undir það með ráðh., að það er síður en svo viðeigandi að fara að hefja eitthvert fýrverkeri í tilefni af þessu. Kannske væri þessa afmælis best minnst með því að menn læsu hin miklu og góðu verk Snorra Sturlusonar.

Að lokum skal þess getið, með tilliti til afstöðu hv. þm. Stefáns Jónssonar, að það er kannske meiri ástæða til þess fyrir mig að flytja þessa fsp. heldur en hann. Kannske er Snorri Sturluson töluvert miklu meira lifandi fyrir mér en honum. Þá á ég ekki við það, að hann hafi síður en ég lesið verk Snorra Sturlusonar. En Snorri hefur verið nágranni minn, stytta hans hefur verið fyrir augum mér núna undanfarin ár næstum daglega, og lái mér hver sem vill þó að ég vilji hvetja til þess, að menn minnist þess, þegar 800 ár eru liðin frá fæðingu hans.

Stytta sú, sem Norðmenn gáfu okkur á Snorrahátíðinni 1947, er eins og menn vita gerð af Vigeland hinum norska, nokkuð góð stytta. Þó hef ég orðið var við það, þegar menn koma í Reykholt, að þá undrast þeir nokkuð stærð þeirrar bókar, sem Snorri hefur undir handleggnum og er að fara, að því er virðist, í göngutúr með. Hún er tvisvar til þrisvar sinnum stærri en þessi bók. Og ég svara því þá til, að þessi bók sé kannske ekki eingöngu þarna fyrir bókmenntaáhuga Snorra, heldur sé hún í og með þáttur í líkamsæfingum hjá þeim gamla — þ. e. a. s. „trimmi“.