18.04.1978
Sameinað þing: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

354. mál, hátíðarbrigði vegna stórafmælis Snorra Sturlusonar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara út í umr. um móðurmálið, en mér datt hins vegar í hug og ætla að segja frá því, að komið hefur fyrir á hv. Alþ. að 800 ára afmæli eða ártíð hafi komið nokkuð til umtals. Ég minnist þess, að þegar Skálholtsstóll átti slíkt afmæli fékk þáverandi fjvn. bréf frá þeirri nefnd, sem stóð fyrir hátíðahöldum þeim sem þar fóru fram, og í því bréfi sagði, að hátíð þessa hefði borið að með bráðum hætti. Það þótti fjárveitinganefndarmönnum þess tíma nokkuð kynlegt, að slíkt hefði gerst.

Hins vegar vil ég segja það í sambandi við að minnast þessa atburðar, — ég vil halda mig við töluna 8 í þessu sambandi og ekki fara að breyta því, — að þá tel ég, og reyndar verða þeir fleiri sem um það verða að fjalla, en mér finnst að Reykholtsstaður eigi fyrst og fremst að njóta þessa atburðar eða þessarar ártíðar eða afmælis, það sé fyrst og fremst staðurinn sjálfur og það sem mætti verða honum til prýðis og fegrunar, sem njóta skyldi. Það mætti vel hugsa sér, að Skógrækt ríkisins legði í Snorragarð meira en gert hefur verið, því að því verki hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Það er fyrst og fremst það, sem mér fyndist að þyrfti að gera.

Hitt vitum við hv. 5. þm. Vesturl. báðir, að ef sá gamli væri nú uppi, þá væri hann á kjörskrá í kjördæmi okkar, og ég hef haldið því fram, að hann mundi vera kjósandi minn, þ. e. a. s. ef hann væri ekki keppinautur. Um það þori ég nú ekki að dæma, en mér þykir líklegra að Snorri væri keppinautur en venjulegur kjósandi.