18.04.1978
Sameinað þing: 68. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

363. mál, framkvæmd grunnskólalaga

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð, sem hér hafa áður verið sögð úr þessum ræðustól nú í þessum umr., að það er þakklætisvert að fá þessa skýrslu. Þetta er viðamikil bók og ærið mikið verk að kynna sér hana til hlítar.

Endurskoðun skólamála hlýtur alltaf að vera í gangi og hún er mjög nauðsynleg. Það er mjög nauðsynlegt að hún fari fram. Undanfarin ár hafa verið gerðar mjög veigamiklar breytingar á skólakerfinu, og fyrir dyrum standa áframhaldandi breytingar á þessu skólakerfi. Ég nefni grunnskólalögin, sem nú eru svona í og með til umr. Ég nefni frv. um framhaldsskóla, sem okkur hefur verið sýnt á Alþ. Ég nefni frv. til laga um búnaðarfræðslu, kennaramenntun o. fl., o. fl. Ég er þeirrar skoðunar, að í þessum efnum sé heppilegra að sækjast frekar eftir þróun en byltingu. Sannast sagna eru sumar hugmyndir, sem settar hafa verið fram um skólamál, helst til byltingarkenndar fyrir minn smekk. Ég hygg að með grunnskólalögum hafi margt verið gert til bóta og með framkvæmd þeirra.

Ég er ekki sérstakur andstæðingur níu ára skólaskyldu. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt, að óráðinu nemandi eigi færa leið til framhaldsnáms, og jafnvel að forsvaranlegt geli verið að hvetja hann á þeirri braut, ef hann skyldi vera eitthvað tvíátta í því efni, því að það kann að hefna sín síðar í lífinu ef hann lætur þráðinn niður falla og hyggst kannske taka sér hvíld um tíma og taka svo til við nám síðar eða fara einhverjar krókaleiðir að framhaldsmenntun. En ég er hins vegar ákaflega andvígur hinum langa árlega kennslutíma, þessum níu mánaða kennslutíma sem nú er víða tíðkaður. Ég held að hann sé alveg afleitur. Þessi þjóð á enga framtíð fyrir sér í landinu nema með því að vinna. Og þjóðin þarf að læra að vinna. Það á að vera nauðsynlegur þáttur í uppeldi barna okkar og unglinga að kenna þeim að vinna. Og meira en það, það þarf að kenna þeim sem fjölbreyttasta vinnu, og nemendum er fyrir mjög miklu að kynnast atvinnuvegunum. Við finnum það á okkur sjálfir, alþm., hversu nauðsynlegt er að hafa einhverja nasasjón af atvinnulífinu í landinu. Ég stend í þeirri trú, að einhverjir voðalegustu menn með hverri þjóð séu menn sem kalla mætti „fagidjóta“, menn sem hafa aflað sér mikillar þekkingar um ákveðið svið þjóðmála, ákveðið svið þjóðlífsins, en vanrækt alveg að afla sér þekkingar á öðrum atriðum. Eins er þetta með menntunina. Ég held að það sé æðimikið atriði og verði ekki nægilega undirstrikað, hvað almenn menntun er mikilvæg. Í mínum augum er almenn menntun mikilvægari en langt sérnám. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að vanda undirstöðuna ekki einasta innan skólans, heldur að skapa nemendunum tækifæri til þess að kynnast því lífi, sem hér er lifað, og því lífi sem hér þarf að lifa. Ég held að nemendum sé mikilvægt að fá að starfa septembermánuð við þjóðnýt störf — ekki mikilvægt að vera suður á Spáni að hlýja sér þar, heldur að vinna. Skólarnir eiga einnig að vera vinnustaðir og menntastofnanir fremur en tómstundaheimili.

Þessari skýrslu fylgja till. um skólaskipan og taka þær raunar nokkuð mikið rúm í skýrslunni. Ég mun nú ekki gera þessa till. í verulegum mæli að umræðuefni. Það hefur komið fram, m. a. hjá síðasta ræðumanni, að taka ber þessar till. með mikilli varúð. Sannast sagna er ég hálfhissa á því, hvernig menn geta fengið sig til að prenta þetta eins og það er lagt hér fyrir, sumt af því. Athugun á skyldunámi hlýtur náttúrlega að fara saman við athugun á framhaldsnámi. Við höfum, eins og ég sagði áðan, starfað nokkuð byltingarkennt að þessum málum. Við höfum gleymt í hita bardagans því, sem fyrir hefur verið, eða sést yfir vissa gildustu þættina, sem fyrir eru í fræðslukerfi okkar. Héraðsskólarnir hafa t. d. orðið með nokkrum hætti utan við þessa mynd. Það er illa farið, því að þeir hafa gegnt geysilega miklu hlutverki í menntun þjóðarinnar. Mér sýnist að stefnan sé sú að rýra hlut þeirra. Það er ákaflega óskynsamlegt að mínum dómi. Þeir standa á gömlum merg. Þar hefur skapast hefð sem er dýrmæt. Við sum þeirra er frábært starfslið. Og svona mætti lengi telja. Þá verður að aðlaga breyttum tímum. Það er eitt af hinum brýnni verkefnum í skólamálum okkar. Það má t. d. hugsa sér að færa til kennslu, að þeir starfi meira á framhaldsskólastigi en þeir hafa gert, en ég legg ríka áherslu á að þeim sé ekki gleymt.

Það er eðlilegt, að foreldrar óski eftir því að hafa börn sín sem lengst heima. Við því er ekkert að segja. En allt verður þetta að vera innan skynsamlegra marka og raunhæfra marka. Ekki má byggja á óframkvæmanlegri skrifborðsvinnu eða fráleitri skrifborðsvinnu, eins og mér virðist sums staðar að hafi verið gert í þeim till. til skólaskipunar sem hér eru prentaðar. Ég nefni sem dæmi till. um skólaskipun á 14. skólasvæði þ. e. a. s. þar sem ég er kunnugastur, í Austu-Húnavatnssýslu. Það vill svo til, að Austur-Húnvetningar hafa verið að reyna að leysa þessi mál sjálfir heima fyrir. Það hefur tekist þar viðtækt samstarf með hreppum um að byggja skóla á Húnavöllum. Ég ætla ekki að ræða þá framkvæmd í einstökum atriðum, en þeir heimamanna, sem þar hafa um fjallað, hafa verið fullir samstarfsvilja og lagt á sig mikið starf og vandaðan undirbúning til þess að samræma sjónarmið sín. Eftir því hefur verið unnið. Eftir því hefur verið byggður þarna stór heimavistarskóli. Að vísu orka sumir þættir þess byggingarlags, sem þar hefur verið notað, nokkuð tvímælis, en það er ekki mergurinn málsins. Nú sýnist mér að þessar till. geri ráð fyrir að taka þaðan 8. bekk, sem þar starfar núna, og kenna þeim börnum á Blönduósi, aka síðan þeim börnum á kvöldin fram í Húnavelli til þess að geyma þau þar um nætur. Þetta finnst mér ekki skynsamlegar hugmyndir. Mannvirki, sem við erum knúnir að reisa, eigum við að nota meðan þess er kostur, og við verðum að gæta hagsýni í notkun þeirra. Sveiflukenndar ákvarðanir um að ætla að bylta því í dag, sem gert var í gær, hef ég ekki trú á að séu farsælar.

Hugmyndir um fjölbrautaskóla eru uppi víða um land og hafa komið mjög í tísku á síðustu árum. Sums staðar eru þær í nokkuð lausu lofti og hvergi nærri fullmótaðar, og reynsla af þeim nemendum, sem þannig eru menntaðir, er þaðan af síður fengin í þjóðfélaginu. En ég vil fyrir mitt leyti alls ekki að menntaskólarnir hverfi í skuggann fyrir fjölbrautaskólunum, samkv. því sem ég sagði áður um gildi hinnar almennu menntunar og að ég set hana hærra en sérnám eða fagnám. Ég held að það, sem við þurfum að hafa í huga við öll þessi mál, sé hagsýni og þó fyrst og fremst að við byggjum góða skóla, að við starfrækjum góða skóla og miklu fremur góða skóla en mjög marga skóla.