01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

313. mál, bifreiðahlunnindi bankastjóra

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hér hefur verið minnst á launakjör framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins, og formaður stjórnar þeirrar stofnunar, hv. 1. þm. Suðurl., hefur veitt svar við því.

Ég hef átt sæti í þessari stjórn síðan stofnunin var sett á laggirnar, og mig rekur minni til þess, eins og hann skýrði frá, að á einum fyrsta stjórnarfundi þar hafi verið tekin ákvörðun um að framkvæmdastjórar stofnunarinnar skyldu hafa sömu launakjör og bankastjórar. Ef minni mitt bregst ekki, þá greiddi ég þessu ekki atkv. Ég vænti þess, að það standi svo í bókum stofnunarinnar, en ég vil að þetta komi fram. Ég studdi það ekki að þeir hefðu sambærileg kjör við bankastjóra.