18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3574 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Virðulegi forseti. Í ræðu minni, er ég flutti við 1. umr. fjárl. fyrir árið 1978, gerði ég ráð fyrir framlagningu nýs frv. til laga um tekju- og eignarskatt. Það frv. liggur nú fyrir til umr. og verður að líta á það ásamt frv. því til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem flutt er samhliða því, sem þátt í heildarendurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Að þessu verkefni hefur verið unnið á mörgum undanförnum árum, eða allt frá lokum síðasta áratugs. Sögu þessarar endurskoðunar mun ég ekki rekja hér, en vísa til framsöguræðu minnar við 1. umr. um tekjuskattsfrv. það sem flutt var á síðasta þingi.

Í framhaldi af flutningi þess frv. urðu víðtækar umr. um skattamál, bæði innan þings og utan. Fjh.- og viðskn. beggja þd. unnu saman að yfirferð yfir frv. þetta og var í því skyni leitað umsagnar fjölmargra aðila um málið. Á grundvelli þessara umsagna og umr. hefur það frv., er hér liggur fyrir til umr., verið samið. Það er að uppsetningu og efnisskipan að mestu byggt á frv. frá fyrra ári og ýmis efnisatriði eru óbreytt frá því sem þá var. Öðrum atriðum, sumum mikilvægum, hefur verið breytt vegna fram kominna aths. og umræðna.

Almennur tekjuskattur var leiddur í lög á Íslandi með lögum nr. 74 frá 1921. Frá þeim tíma hafa að vísu verið gerðar ótal breytingar á tekjuskattslögunum, en jafnan hefur verið byggt á þeim grunni sem lagður var með lögum frá 1921. Hafa allar breytingar verið felldar inn í ramma þeirra laga.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur eins og frv. í fyrra í sér till. til nýrrar heildarlöggjafar um tekjuskatt og eignarskatt. Er hún ný frá rótum að því leyti, að vikið er frá uppsetningu fyrri laga um þetta efni og reynt að haga niðurröðun efnis þannig, að það sé sem aðgengilegast.

Frv. er skipt í 13 kafla. I. kafli frv. fjallar um skattaðild, þ. e. a. s. hvaða aðilar eru skattskyldir hér á landi. II. kafli frv. í fjallar um skattskyldar tekjur. Í honum er skilgreining á tekjuhugtakinu í víðustu merkingu, þ. e. a. s. brúttótekjum, og er hún að mörgu leyti víðtækari en sú skilgreining sem gilt hefur hingað til. III. kafli frv. fjallar um þann frádrátt sem heimilaður er frá tekjum samkv. II. kafla, en þar er gerður munur á því sem einstaklingi, sem stundar rekstur, er heimilt að draga frá tekjum sínum annars vegar og hins vegar frádrætti sem er heimilaður frá tekjum af atvinnurekstri. IV. kafli frv. hefur að geyma ýmis ákvæði um tekjur. Hér er safnað saman ýmsum ákvæðum sem varða tekjur og eigi þóttu beinlínis eiga heima í II eða III. kafla frv. Þegar frá tekjum hefur verið dreginn heimilaður frádráttur kemur út sá stofn, sem skattur er reiknaður af, eða svonefndur tekjuskattsstofn, en um hann fjallar V. kafli frv. VI. kafli þess fjallar síðan um hvernig tekjuskattur er reiknaður af þeim stofni, sem skilgreindur er í fyrri köflum frv., svo og um persónuafslátt og barnabætur frá reiknuðum skatti. VII. kafli fjallar um eignarskatt. Í VIII.–XIII. kafla eru ákvæði er varða skattyfirvöld, álagningu, úrskurði, kærur, viðurlög og önnur atriði, en ákvæði um innheimtu skattsins eru í frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Breytingar frv. eru ekki bundnar við formið eitt, heldur eru í því margvíslegar efnisbreytingar. Ég tel rétt að geta fyrst meginbreytinganna sem í frv. felast, áður en ég fjalla um einstök atriði þeirra.

Heimildum til frádráttar frá tekjum einstaklinga er hér komið fyrir með hliðstæðum hætti og í gildandi lögum, nema hvað frádráttarliðum er nokkuð fækkað. Hins vegar er ekki gengið eins langt í því efni og gert var í frv. því er lá fyrir síðasta þingi. Þannig verður áfram heimilt að draga frá tekjum til skatts lífeyrissjóðsgjöld, stéttarfélagsgjöld, gjafir til líknar- og menningarmála og námsfrádrátt svo að dæmi séu nefnd. Í frv. er það nýmæli, að mönnum gefst kostur á að nota fastan frádrátt, sem er ákveðinn hundraðshluti af launum í stað frádráttar iðgjalda af lífeyri, stéttarfélagsgjalda, vaxtagjalda og gjafa til menningarmála. Með þessu móti ætti framtalsgerð að geta orðið einfaldari hjá allmörgum skattaðilum og einnig ætti að nást meiri nákvæmni í staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í öðru lagi er reglunum um skattlagningu hjóna gerbreytt. Í stað þess að samkv. núgildandi lögum er skattur reiknaður sameiginlega af tekjum hjóna, eftir að helmingur af launatekjum konunnar eða ákveðið hámark af atvinnurekstrartekjum hennar hefur verið dregið frá, er lagt til í frv. að tekin verði upp sérsköttun hjóna, með nokkurri takmörkun þó. Hér er einnig um verulegt frávik að ræða frá ákvæðum tekjuskattsfrv. þess sem flutt var á fyrra þingi, þar sem gert var ráð fyrir því, að tekjur hjóna væru lagðar saman og þeim skipt í tvo jafna hluta til skattlagningar. Í sérsköttun hjóna samkv. frv. felst það, að launatekjur og atvinnurekstrartekjur á að telja fram og skattleggja hjá hvoru hjóna um sig, en eignatekjur beggja eru lagðar saman og skattlagðar hjá því hjóna sem hærri hefur launatekjurnar. Hvort hjóna um sig nýtur sama skattstiga og persónuafsláttar og einhleypingur. Þann hluta persónuafsláttar, sem öðru hjónanna nýtist ekki til greiðslu skatts eða útsvars, skal færa til makans við skattlagningu og gengur til frádráttar skatti hans eða útsvari meðan til endist.

Í þriðja lagi eru með frv. þessu gerðar till. um breytingu á skattmeðferð einstaklinga sem fást við atvinnurekstur á eigin ábyrgð. Ákvæði frv. eru að þessu leyti hliðstæð ákvæðum frv. þess er flutt var á síðasta þingi. Er lagt til að tap, sem verður á atvinnurekstri einstaklings, verði ekki frádráttarbært frá öðrum tekjum sem einstaklingurinn kann að hafa. Hins vegar má færa þetta tap milli ára við skattskil eins og önnur rekstrartöp og kemur á móti hagnaði sem síðar kann að verða á atvinnurekstrinum. Jafnframt er einstaklingum, sem atvinnurekstur stunda, gert að reikna sér laun af vinnu sinni við þann rekstur eins og sú vinna hefði verið innt af hendi hjá óskyldum aðila. Þessi laun teljast þeim persónulega til tekna, en aftur á móti til gjalda í rekstrinum, og verður tap, sem kann af því að hljótast, færanlegt milli ára eins og annað rekstrartap.

Í fjórða lagi er fyrirhuguð breyting á reglum um fyrningu og söluhagnað. Er lagt til, að fyrningar verði framvegis reiknaðar af endurmetnu stofnverði einstakra fyrnanlegra eigna. Kemur ein fyrning af þannig framreiknuðum fyrningarstofni í stað þrenns konar fyrninga samkv. gildandi lögum. Fyrningarhlutföll eru lækkuð frá því sem nú er, sem eðlilegt er þegar fyrningar eru leyfðar af endurmetnum stofni. Lagt er til að fengnar fyrningar verði endurmetnar á sama hátt og stofnverðið. Þá er í frv. það nýmæli, að gert er ráð fyrir að fyrningar verði takmarkaðar nokkuð hjá þeim aðilum sem fjármagnað hafa fyrnanlegar eignir með lánsfé og notið hafa vaxtafrádráttar frá tekjum.

Í fimmta lagi er reglunum um söluhagnað einnig breytt verulega. Er lagt til að söluhagnaður af öllum eignum innan og utan atvinnurekstrar, öðrum en íbúðarhúsnæði, verði skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma. Söluhagnaðurinn reiknast sem mismunur söluverðs annars vegar og kaupverðs, sem framreiknað hefur verið eftir verðbreytingarstuðli, hins vegar, að teknu tilliti til framreiknaðra fyrninga, ef um sölu á fyrnanlegri eign er að ræða. Í þessu felst að söluhagnaður er því aðeins skattskyldur að viðkomandi eign hafi hækkað meira í verði í eigu seljanda en nemur almennum verðbreytingum í þjóðfélaginu á eignarhaldstíma hans.

Í sjötta lagi er þess að geta, að í þeim köflum laganna, er varða framkvæmd skattlagningar og viðurlög, eru yfirleitt fluttar sömu till. um breytingar og gerðar voru í fyrra frv. Gert er ráð fyrir að skattskrá birtist síðar en venja hefur verið, þannig að þær upplýsingar, sem hún hefur að geyma, verði réttari en nú er kleift tímans vegna. Þá er skipan ríkisskattanefndar breytt. Í stað þess að í nefndinni eiga sæti þrír aðalmenn og þrír varamenn, sem allir taka meiri eða minni þátt í störfum nefndarinnar, er lagt til, að nefndin verði skipuð 3 mönnum sem allir hafi nefndarstörfin að aðalstarfi, jafnframt verði skattsektir í böndum ríkisskattanefndar, en hin sérstaka skattsektanefnd, sem starfar samkv. gildandi lögum, verði lögð niður. Viðurlög við skattsvikum verði þyngd. Veigamesta breytingin er sú, að gert er ráð fyrir því, að ítrekuð brot eða miklar sakir geti leitt til sambærilegra fangelsisdóma og ef um væri að ræða fjárdrátt, fjársvik eða önnur auðgunarbrot samkv. almennum hegningarlögum.

Í frv. því, sem flutt var á síðasta þingi, var lagt til að fella niður flesta frádráttarliði einstaklinga, þannig, að skattgrunnur tekjuskatts yrði nær hinn sami og skattgrunnur útsvars. Þeim liðum, sem rétt þótti að halda, var breytt úr frádráttarliðum í afsláttarliði frá reiknuðum skatti. Með þessu frv. er hins vegar horfið á ný til svipaðs kerfis og nú gildir. Er flestum mikilvægustu frádráttarliðum gildandi laga haldið lítt breyttum. Nokkrir liðir, sem frádráttarbærir eru samkv. gildandi lögum falla þó úr tölu frádráttarliða. Má þar nefna m. a. kostnað af öflun bóka o. fl., verkfærakostnað, iðgjöld af lífsábyrgð, sjúkra- og slysadagpeninga, frádrátt að námi loknu vegna námskostnaðar sem stofnað var til eftir 20 ára aldur o. fl. Mikilvægasta nýmælið í þessu efni er þó, að lagt er til að skattaðilum sé heimilt að reikna sér til frádráttar 10% af launatekjum í stað þess að tíunda lífeyrissjóðsiðgjöld, iðgjöld stéttarfélaga, sjúkra- og styrktarsjóða, vaxtagjöld og gjafir til menningarmála. Með þessu ákvæði má áætla, að 3/4 hlutar gjaldenda velji þennan fasta frádrátt. Með þessu ákvæði er tvennt unnið. Annars vegar horfir þessi skipan til verulegrar einföldunar á framtölum og þar með minni vinnu, bæði hjá gjaldendum við framtalsgerð og skattyfirvöldum við endurskoðun framtala. Hins vegar jafnar þetta að nokkru aðstöðu þjóðfélagsþegnanna, og má segja að með þessu sé að vissu marki komið til móts við þá er í leiguhúsnæði búa og hafa engan vaxtagjaldafrádrátt, en eins og kunnugt er er greidd húsaleiga eigi frádráttarbær frá skatti. Með þessu fyrirkomulagi ætti einnig að nást meiri nákvæmni í staðgreiðslu opinberra gjalda og minna að verða um eftirkröfur og endurgreiðslur að tekjuárinu liðnu.

Nokkrir þeir frádráttarliðir, sem frv. hefur að geyma, eru breyttir nokkuð frá gildandi lögum. Þ. á m. má nefna nokkuð breyttar reglur um skattfrelsi sparifjár, en ákvæði frv. um þetta efni eru hliðstæð ákvæðum fyrra frv. Samkv. gildandi lögum eru innistæður í bönkum, sparisjóðum og lögmæltum innlánsdeildum félaga undanþegnar framtalsskyldu, tekjuskatti og eignarskatti, ef tilteknum skilyrðum er fullnægt, og varða þau skilyrði skuldastöðu gjaldanna í árslok. Með frv. er gert ráð fyrir að sparifé þetta verði ávallt framtalsskylt, en hins vegar verði það skattfrjálst eftir svipuðum reglum og áður, þó þannig að skilyrði fyrir skattfrelsi miðast nú við vaxtagreiðslu á árinu, en ekki skuldastöðu í árslok.

Þá er í frv. ákvæði um frádráttarbærni móttekins arðs úr hlutafélögum að vissu marki. Er frádráttarheimild þessi bæði takmörkuð við að arðurinn fari ekki fram úr 10% af nafnverði hvers hluta og jafnframt bundinn vissu hámarki, sem er 250 þús. kr. hjá einstaklingi, en 500 þús. kr. hjá hjónum. Jafnframt er lagt til að heimild félaga þessara til að draga úthlutaðan arð frá tekjum sínum verði skert frá því sem nú er, þannig að frádráttarheimild félaganna verði framvegis bundin við helming úthlutaðs arðs og takmarkist við 5% af nafnverði hlutafjár.

Þá er lagt til, að hlífðarfatafrádráttur sjómanna, sem miðast hefur við vikufjölda á sjó, og hinn sérstaki sjómannafrádráttur, sem er ákveðin upphæð fyrir hvern mánuð á sjó, verði sameinaðir í einn frádráttarlið, sem miðast við tiltekna upphæð fyrir hvern dag sem lögskráður maður telst stunda sjómannastörf.

Þá er námsfrádrætti breytt þannig, að í stað frádráttar samkv. matsreglum ríkisskattstjóra, sem er mishár fyrir einstaka skóla, er helmingur af launatekjum námsmanna frádráttarbær. Þessi frádráttur sætir þó hámarki, sem er 260 þús. kr.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að bæði tekjur og gjöld af íbúðarhúsnæði, sem skattaðili á og notar til eigin þarfa, verði felld niður af framtali, þannig að eigin húsaleiga verði ekki talin til tekna, en á móti falli niður frádráttarliðir tengdir húsnæðinu, þ. á m. viðhaldskostnaður og fasteignagjöld.

Skattlagning hjóna hefur síðustu þrjá áratugina verið meðal þeirra þátta tekjuskattsálagningar sem mestum umr. hafa sætt. Í framsöguræðu minni við 1. umr. tekjuskattsfrv. á fyrra ári rakti ég að nokkru þróun þessara mála og gat helstu till. til breytinga á núverandi samsköttunarfyrirkomulagi sem fram hafa komið á Alþ. á síðustu áratugum. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það allt hér, en vísa að mestu til þess sem þá var sagt.

Allt frá því að almennur tekjuskattur var leiddur í lög hér á landi á árinu 1921 hefur meginreglan verið samsköttun hjóna. Á árunum 1950–1951 var á Alþ. fluttur fjöldi till. til breytinga á þessu atriði. Má segja að frv. þessi falli í tvo meginflokka. Annars vegar voru frv. sem gerðu ráð fyrir helmingaskiptum tekna milli hjóna, hliðstætt því sem lagt var til í tekjuskattsfrv. því sem lagt var fyrir Alþ. í fyrra, en hins vegar var um að ræða frv. þar sem lögð var til sérsköttun tekna hvors maka í einhverri mynd. Eftir að núgildandi heimild til helmingsfrádráttar af launatekjum giftra kvenna var lögleidd árið 1958 dró um hríð mjög úr umr. um þetta atriði. Er það fyrst nú á allra síðustu árum að samsköttun hjóna hefur aftur verið almennt til umræðu. Veldur því bæði ör þróun í jafnréttismálum á öðrum sviðum löggjafarinnar og eins hitt, að með vaxandi atvinnuþátttöku giftra kvenna og auknum tekjum þeirra koma gallar 50% frádráttarheimildarinnar skýrar í ljós, en einn meginókostur hennar er sá, að hlunnindi, sem af henni leiðir, vaxa í réttu hlutfalli við hækkandi tekjur útivinnandi kvenna án þess að kostnaðurinn, sem útivinnan hefur í för með sér, hafi nokkur áhrif á fjárhæð frádráttarins.

Till. fyrra frv. um helmingaskipti á tekjum og eignum milli hjóna voru meðal þeirra atriða í því frv., er mestum deilum ollu. Í mörgum umsögnum um það kom fram sú skoðun, að æskilegasta lausnin á skattlagningu hjóna væri að sérskatta hvort hjóna um sig.

Í ljósi þeirra umr., sem um þetta mál urðu í fyrra, og með hliðsjón af því, að sérsköttun hjóna fellur mjög vel að staðgreiðslukerfi skatta, er í frv. þessu lagt til að upp verði tekin takmörkuð sérsköttun hjóna. Í frv. er gert ráð fyrir að tekjum hjóna sé skipt í þrennt. Þær tekjur, sem falla undir a-lið 7. gr., en þar vega launatekjur þyngst, skal hvort hjóna um sig telja fram og frá þeim draga þá frádráttarliði, sem tengjast þessum tekjum, þ. e. þá liði sem um ræðir í A-, C- og D-liðum 30. gr., eða fastan frádrátt, velji hjónin bæði þá aðferð. Þær tekjur hjóna, sem um ræðir í C-lið 7. gr., en hér er fyrst og fremst um að ræða eignatekjur, skal leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar launatekjur eða skyldar tekjur. Frá þessum tekjum má draga heimilaða frádráttarliði samkv. B- og E-lið 30. gr. Loks skulu tekjur af atvinnurekstri teljast hjá því hjóna sem stendur fyrir rekstrinum. Hvort hjóna um sig skal síðan skattlagt eftir sama skattstiga og einhleypingur, og persónuafsláttur hvors hjóna er hinn sami og persónuafsláttur einhleypings. Sá hluti persónuafsláttar, sem öðru hjóna nýtist ekki á móti reiknuðum skatti eða útsvari, færist til hins hjóna og gengur til frádráttar skatti þess, meðan hann endist, og síðan til frádráttar á útsvari þess. Eignir hjóna eru lagðar saman og þeim síðan skipt í tvo jafna hluta sem skattlagðir eru hjá hvoru hjóna um sig. Sá greinarmunur, sem gerður er á hjónum eftir kyni í gildandi lögum, er afnuminn svo og heimild til 50% frádráttar frá launatekjum eiginkonu.

Með þessum reglum er gengið eins langt til sérsköttunar hjóna og fært þykir eins og nú er ástatt. Ekki þykir gerlegt að skipta eignum og tekjum milli hjóna eftir því hvort hjóna telst eigandi þeirra. Kemur þar bæði til, að í flestum hjónaböndum er töluverður vafi á til hjúskapareignar hvors hjóna á að telja verulegan hluta eignarheildarinnar og eins hitt, að alger sérsköttun eigna og eignatekna opnar hjónum möguleika á að skipta þessum tekjum og eignum á milli sín til skattlagningar á þann hátt sem þeim er hagkvæmastur án þess að skattyfirvöld hafi möguleika til vefengingar á þeim skiptum. Heimildin til millifærslu ónýtts persónuafsláttar hefur þann ótvíræða kost umfram algera sérsköttun, að með henni er við skattlagningu tekið tillit til þess, að tveir einstaklingar eiga að lifa af tekjum þess hjóna, sem vinnur utan heimilis, í þeim fjölmörgu hjónaböndum þar sem aðeins annar makinn aflar heimilinu tekna í peningum.

Sérsköttun tekna og niðurfelling 50% frádráttar af launatekjum eiginkvenna hefur í för með sér nokkra endurdreifingu á skattbyrði hjóna innbyrðis, þar sem miklu minna máli skiptir samkv. frv. en samkv. gildandi lögum, hvernig hjónin skipta tekjuöflun utan heimilis á milli sin. Má í stórum dráttum segja, að hjón, þar sem eiginkonan aflar engra tekna, hagnist á breytingu allt þar til eiginmaðurinn hefur um það bil 6 millj. kr. í tekjur, og er þá miðað við árið 1978, en afli konan á hinn bóginn tekna umfram 2 millj. kr. skerðist hlutur hjóna strax við 2 millj. kr. tekjur hjá eiginmanninum.

Með 7. gr. frv. er gerð till. um breytingu á reglum um skattlagningu tekna barna. Samkv. gildandi lögum er meginreglan sú, að börnin eru skattlögð með foreldrum sínum. Ef þau hafa hins vegar tekjur umfram visst mark, er heimill að taka til greina umsókn þeirra um sérsköttun. Núgildandi kerfi veldur því, að fyrstu krónurnar eru skattlagðar með tekjum foreldra og lenda því í tiltölulega háu skaftþrepi. Afli barnið meiri tekna er það oftast skattfrjálst af þeim tekjum. Skattur af tekjum barna lækkar því samkv. gildandi lögum við hækkandi tekjur. Frv. gerir ráð fyrir því, að launatekjur barna innan 16 ára aldurs verði skattlagðar hjá barninu sjálfu með föstu 5% skatthlutfalli, en barnið njóti ekki persónuafsláttar. Aðrar tekjur barns skulu teljast með tekjum foreldris þess sem hærri hefur launatekjur og skyldar tekjur. Eignir barns skulu skattlagðar með eignum foreldra eða eignum manns, sem nýtur barnabóka vegna barnsins.

Auk þess, sem þegar er vikið að, eru með frv. gerðar fjöldamargar aðrar breytingar á skattlagningu einstaklinga, sem of langt mál yrði að rekja hér. Áður en ég skilst við þennan þátt vil ég þó geta þeirra breyttu reglna um barnabætur, er frv. hefur að geyma. Eru með frv. lagðar til tvenns konar breytingar á barnabótum frá því sem nú er. Annars vegar er lagt til að barnabætur með börnum undir skólaskyldualdri verði hærri en með öðrum börnum og hins vegar að barnabætur með börnum einstæðra foreldra verði 40% hærri en barnabætur til annarra.

Í 2. mgr. 1. tölul. A-hluta 7. gr. frv. er eitt af þeim nýmælum sem fyrra frv. hafði að geyma og tekið er nær óbreytt upp í frv. þetta. Þó ákvæði þetta hafi verið meðal þeirra sem hvað mestum umr. sættu af ákvæðum fyrra frv., vil ég ekki láta hjá líða að fara um það nokkrum orðum hér. Samkv. þessari mgr. ber þeim, er vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að telja sér til tekna endurgjald fyrir starfið eins og það hefði verið innt af hendi fyrir óskyldan aðila. Samkv. 59. gr. er svo skattstjóra heimilt að ákveða þessum aðilum slíkar tekjur, ef fram talið endurgjald fyrir eigin vinnu er lægra en eðlileg laun til launþega hefðu verið fyrir sama starf. Skulu þessar ákvarðanir skattstjóra byggðar annars vegar á viðmiðunarreglum er ríkisskattstjóri setur, en hins vegar á mati skattstjóra á aðstöðu hlutaðeigandi gjaldenda, og skal þá taka tillit til aldurs, heilsu, starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli,skipta. Í frv. er síðan skýrt nánar, hvernig ákveða skuli viðmiðunartekjur þeirra er landbúnað stunda, en hliðstætt ákvæði var ekki í fyrra frv. Þetta reiknaða endurgjald er síðan frádráttarbært frá tekjum af rekstrinum eða hinni sjálfstæðu starfsemi eins og hver annar launakostnaður. Í framhaldi af þessu er svo ákvæði 62. gr. frv. þess efnis, að tap á atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi sé aldrei heimilt að draga frá tekjum sem ekki eru tengdar slíkri starfsemi: Þessi ákvæði eru að vissu leyti svar við þeirri miklu gagnrýni sem tekjuskattslöggjöfin hefur sætt á undanförnum árum að því er varðar skattlagningu þeirra er við eigin rekstur vinna.

Tekjuskatturinn hefur af ýmsum verið nefndur launþegaskattur. Að mínu mati er þetta ekki réttnefni. En hinu er ekki að neita, að einstaklingar með sjálfstæðan atvinnurekstur hafa átt fleiri kosta völ en launþegar, t. d. með fjárfestingum og fyrningum, til að firra sig skattgreiðslum með fullkomlega löglegum hætti. Hér er lagt til að við þessum vanda verði snúist með reiknuðum launum fyrir þessa aðila. Þessi lausn á vandanum er engan veginn gallalaus. En vandamálið er erfitt viðfangs og þær aðgerðir, sem grannar okkar — t. d. Danir — hafa beitt, hafa ekki gefið góða raun. Reglur sem svipuðum tilgangi þjóna í Danmörku lúta að því, að heimild atvinnurekenda til fyrninga er takmörkuð ef lífeyrir þeirra fer niður fyrir eðlilegt mark. Hvort sú aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir, gefur góða raun, fer að sjálfsögðu mikið eftir því, hvernig til tekst um framkvæmd hennar ef að lögum verður. Í mörg ár hefur svipað kerfi og þetta gilt um launaskatt af eigin vinnu atvinnurekenda án þess að verulegum deilum hafi valdið. Þar sem launaskattshlutfallið er hins vegar mun lægra en jafnaðarskattur samkv. tekjuskattslögunum, er hætt við að sú reynsla, sem fengist hefur af launaskattinum, sé ekki að fullu marktæk að því er þetta atriði varðar.

Frv. hefur að geyma ýmis nýmæli um skattlagningu atvinnurekstrar og eru hinar breyttu reglur um fyrningar og söluhagnað hinar veigamestu þeirra. Frv. gerir ráð fyrir að allar fyrnanlegar eignir séu fyrndar á upphaflegu kostnaðarverði, þegar því hefur verið breytt samkv. verðbreytingarstuðli sem miðast við breytingar á meðaltali vísitölu byggingarkostnaðar milli ára. Fengnar fyrningar skulu á sama hátt árlega hækkaðar með verðbreytingarstuðli fyrningarársins. Með þessari aðferð hækkar fyrningarstofn í samræmi við hækkanir á vísitölu byggingarkostnaðar. Til mótvægis er gert ráð fyrir lægri árlegum fyrningarhlutföllum en gilda um hinar almennu fyrningar samkv. ákvæðum gildandi laga. Þessari fyrningu af endurmatsverði er auk þess ætlað að koma-í stað flýtifyrninga og verðstuðulsfyrninga gildandi laga.

Andstætt því, sem er í gildandi lögum, er engin lágmarksfyrning tiltekin í frv. og heimilt er að nota árlega leyfða fyrningu til fulls á kaupári, en enga á söluári eignar. Þá er gert ráð fyrir 10% niðurlagsverði lausafjár og mannvirkja eins og verið hefur.

Í ákvæði til bráðabirgða er heimilt endurmat á þeim fyrnanlegum eignum skattaðila, sem eru í eigu hans við gildistöku laganna. Er lagt til að þetta endurmat í eitt skipti miðist við breytingu á meðaltali vísitölu byggingarkostnaðar frá kaupári eða árinu 1964, ef eignin er keypt fyrir þann tíma, til ársins 1979. Ólíkt því, sem gildir um endurmat fenginna fyrninga eftir gildistöku laganna, er lagt til að allar fengnar fyrningar vegna þessara eigna fram til ársins 1979 séu hækkaðar með stuðli kaupárseignarinnar, en ekki með stuðli fyrningar ársins.

Þá er í ákvæði til bráðabirgða heimild til að nota fasteigamatsverð mannvirkis að frádreginni framreiknaðri flýtifyrningu og söluhagnaðarfyrningu í stað framreiknaðs stofnverðs mannvirkisins og framreiknaðra heildarfyrninga, óski gjaldandi þess heldur.

Tilgangurinn með endurmatsfyrningum er að viðhalda eigninni, eigin fé í atvinnurekstri. Því hefur ekki þótt rétt að heimila fulla fyrningu af endurmenntun stofnverði í þeim tilvikum sem fyrnanlegar eignir eru fjármagnaðar að einhverju eða öllu leyti með lánsfé. En frv. gerir ráð fyrir því, að fjármagnskostnaður, þar með taldar verðbætur og gengistap af lánum sé gjaldfært óháð fyrningum. Ótakmarkaðar endurmatsfyrningar samhliða gjaldfærslu alls fjármagnskostnaðar mundu í reynd auka mismun milli þess atvinnurekstrar, sem fjármagnar fyrnanlegar eignir með eigin fé, og hins sem fjármagnar þær með lausafé. Í 44. og 45. gr. frv. eru því sett fram skerðingarákvæði til að rétta hlut þeirra sem fjármagna fyrirtæki sín með eigin fé.

Í þeim tilvikum, sem skuldir skattaðila í heild fara fram úr eignum hans, að undanskildum fyrnanlegum eignum, er gert ráð fyrir því, að fyrnanlegar eignir séu að hluta til fjármagnaðar með lánsfé. Skerðing á fyrningum er síðan reiknuð út frá þessum mismun eigna og skulda. Reiknað er árlega tillag í sérstakan reikning, mótreikning fyrninga, sem er ákveðið hlutfall af þeirri fjárhæð sem eru skuldir umfram þessar eignir, þ. e. eignir í atvinnurekstri, aðrar en fyrnanlegar eignir. Hlutfallið miðast við sama verðstuðul og endurmat eigna, og er mótreikningur og eftirstöðvar hans síðan framreiknuð með árlegum verðbreytingarstuðli. Í lok hvers árs er síðan reiknuð fyrning af mótreikningum, nokkurs konar neikvæð fyrning, sem tekjufærð er á móti almennum fyrningum. Þessi ákvæði um fyrningar eru öll nýmæli og gæti því reynst nauðsynlegt að breyta þeim síðar, en hér er mörkuð meginstefnan.

Hagnaður af sölu fyrnanlegra eigna verður samkv. ákvæðum frv. að fullu skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma. Hagnaðurinn telst mismunur á söluverði annars vegar og stofnverði (kostnaðarverði) þeirra, að frátöldum áður fengnum fyrningum, hins vegar, þegar stofnverð og fyrningar hafa verið framreiknaðar með verðbreytingarstuðli. Sá munur, sem þá stendur eftir sem söluhagnaður, ætti að svara til hagnaðar sem myndast hefur, t. d. vegna þjóðfélagslegra aðgerða eða breytinga, svo sem fenginna fyrninga umfram slit eignar við öflun tekna. Heimild er til þess, að því er fasteignir varðar, að nota gildandi fasteignamat í ársbyrjun 1979 í stað stofnverðs, hafi skattaðili eignast hið selda fyrir þann tíma. Heimild er til frestunar skattgreiðslu, enda sé söluhagnaðurinn notaður til fyrninga annarra fyrnanlegra eigna. Með þessu ákvæði er leitast við að tálma ekki flutningi eigna milli atvinnugreina.

Svipað ákvæði gildir um söluhagnað á ófyrnanlegum eignum og um söluhagnað á fyrnanlegum fasteignum. Þó er skattaðila jafnan heimilt að telja helming söluverðs ófyrnanlegrar fasteignar til tekna sem söluhagnað, enda getur viðmiðun við fasteignamat 1979 eða framreikningur á gömlu stofnverði reynst erfiður í sumum tilvikum. Þetta þýðir í reynd að heildar söluskattur af hagnaðinum verður innan við 25% hið mesta, í stað skattfrelsis eftir 6 ár eða lengri eignarhaldstíma samkv. gildandi lögum. Flutningur söluhagnaðar til lækkunar stofnverðs annarra eigna er einungis heimilaður vegna sölu á landi bújarða, og er sú heimild bundin allströngum skilyrðum.

Hagnaður af sölu ófyrnanlegs lausafjár, svo sem einkabíla, telst að fullu skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma, en við ákvörðun söluhagnaðar skal hækka eða lækka stofnverð lausafjárins með tilliti til verðbreytinga frá kaupári.

Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt það skemur en í 5 ár, en er skattfrjáls eftir 5 ára eða lengri eignarhaldstíma. Um söluhagnað af íbúðarhúsnæði í eigu lögaðila svo og þeirra manna, sem eiga íbúðir yfir tilteknum stærðarmörkum, fer eins og um söluhagnað af öðrum ófyrnanlegum mannvirkjum. Þá eru í frv. ákvæði um flutning söluhagnaðar af seldu íbúðarhúsnæði yfir á það sem aflað er í staðinn.

Samkv. gildandi lögum telst ágóði af sölu hlutabréfa og eignarhluta í sameignarfélögum og samlögum að fullu til skattskyldra tekna á söluárinu, hafi aðili átt hið selda skemur en 2 ár, að hálfu ef eignarhaldstími er milli 2 og 4 ár, en eftir 4 ár telst ágóðinn ekki til skattskyldra tekna. Samkv. frv. er full skattskylda söluhagnaðar af þessum eignum án tillits til eignarhaldstíma.

Fjölmargar aðrar breytingar varðandi skattlagningu atvinnurekstrar felast í frv. Þannig er gert ráð fyrir að heimilt verði að flytja rekstrartöp milli ára án tímamörkunar, eins og gert var í fyrra frv. Nýtt ákvæði er í frv. um heimild til sérstakrar 5% niðurfærslu á útistandandi viðskiptaskuldum. Skylt er að nota varasjóð til að mæta yfirfæranlegu rekstrartapi og lögboðið að mæta skuli tapi áður en fé er lagt í varasjóð. Þá er í frv. opnuð heimild til útgáfu jöfnunarhlutabréfa miðað við raunverulegt verðmæti hreinnar eignar hlutafélags í árslok 1978, en útgáfa jöfnunarhlutabréfa eftir það er bundin almennum verðhækkunum. Er þetta hliðstæð heimild og veitt var með lögum nr. 68/1971, en þó er sá munur á, að samkv. frv. er ekki áskilið að útgáfan fari fram innan tiltekinna tímamarka, en margir aðilar notuðu sér ekki hliðstæða heimild fyrri laga í tíma og misstu því af útgáfuréttinum.

Vaxtatekjur af innistæðum í inniendum lánastofnunum eru gerðar skattfrjálsar hjá lögaðilum að vissum skilyrðum fullnægðum, en þær voru ávallt skattskyldar hjá þessum aðilum samkv. fyrra frv. Þá var ákvæðum um frádráttarbærni þeirrar fjárhæðar, sem samvinnufélög greiða félagsmönnum sínum eða færa þeim til séreignar í stofnsjóði, breytt frá fyrra frv. Eru þau nú líkari ákvæðum gildandi laga um þetta efni.

Óþarft er að fara mörgum orðum um ákvæði frv. um eignarskatt. Ákvæði frv. um endurmat eigna leiða til þess, að eignarskattstofn hækkar nokkuð. Að því er hjón varðar hækka skattfrelsismörk eignarskatts verulega samkv. gildandi lögum og njóta hjón sameiginlegs skattfrelsis af 50% hærri upphæð en einhleypingur, en frv. gerir ráð fyrir að eignum verði skipt jafnt milli hjóna til eignarskattsálagningar og hvort hjóna um sig njóti sömu skattfrjálsrar eignar og einstaklingur.

Ákvæði VIII.–XII. kafla frv. eru að mestu leyti óbreytt frá fyrra frv., ef frá er talin grundvallarbreyting sem felst í upptöku staðgreiðslukerfis skatta. Eru innheimtuákvæðin felld niður úr tekjuskattsfrv., en kveðið á um alla innheimtu, jafnt innheimtu á tekjuárinu sem eftiráinnheimtu, á grundvelli álagningar frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem hefur einnig verið útbýtt á Alþingi.

Framkvæmdakaflar frv. fela í sér mikilsverðar breytingar frá ákvæðum gildandi laga. Um þessar breytingar tel ég óþarft að fjölyrða þar sem þær eru þm. kunnar frá fyrra frv. og gerð var ítarleg grein fyrir þeim í framsöguræðu við 1. umr. þess. Þó vil ég geta meginatriða þessarar till. svo og breytinga á þeim köflum frá ákvæðum fyrra frv.

Gert er ráð fyrir breyttri skipan ríkisskattanefndar þannig að nefndin verði framvegis skipuð þremur mönnum er hafi nefndarstörfin að aðalstarfi, en nú vinna 6 menn — 3 aðalmenn og 3 varamenn — að nefndarstörfum í hjáverkum. Niður eru felld ákvæði fyrra frv. um heimild til að leita fyrir fram úrskurðar ríkisskattanefndar um tiltekin atriði.

Ákvæðum fyrra frv. um framkvæmd álagningar og útkomutíma skattskrár er að mestu haldið óbreyttum í frv. þessu, en þó er hér lagt til að frumálagning á grundvelli lítt endurskoðaðra framtala nái til allra einstaklinga, en í fyrra frv. var lagt til að hún næði til þeirra einstaklinga einna sem ekki stunduðu atvinnurekstur. Kærufrestir til skattstjóra og ríkisskattanefndar eru lengdir. Ákvæðum fyrra frv. um beitingu álags, ef framtali er ekki skilað eða ef tekjur eru vantaldar, er breytt á þá lund að skattstjórum er ekki lengur skilyrðislaust skylt að beita álagningu. Viðurlög við skattalagabrotum eru verulega hert.

Gert er ráð fyrir að ákvæði frv. komi til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1980 vegna tekna á árinu 1979 og eigna í lok þess árs. Ýmsar tölur þær sem frv. hefur að geyma eru hins vegar miðaðar við verðlag á árinu 1978, til þess að kleift sé að bera það saman við gildandi lög á skynsamlegan hátt. Hins vegar er ráðgert, að ýmsar fjárhæðir í frv. verði hækkaðar eftir skattvísitölu, sem ákveðin yrði í fjárlögum fyrir árið 1980 áður en þær kæmu til framkvæmda í fyrsta skipti. Ákvæðum frv. er því ekki ætlað að koma til framkvæmda við álagningu í ár. Fyrirhugað er að flytja í haust sérstakt frv. um skattlagningu tekna ársins 1978, en ljóst er að vegna staðgreiðslukerfisins verða tekjur síðasta árs fyrir gildistöku þessa skattfrjálsar að formi til í meginatriðum.

Vegna fyrirhugaðrar upptöku staðgreiðslukerfis skatta eru tillögur frv. um skattstiga, persónuafslátt og fleiri atriði miðaðar við þá tilhögun. Þar sem gjaldendur munu framvegís að langmestu leyti staðgreiða tekjuskatt sinn á verðlagi tekjuárs, hafa skatthlutföll verið lækkuð, þrep í skattstigum lengd og persónuafsláttur hækkaður til að koma í veg fyrir að upptaka staðgreiðslukerfis valdi almennt séð aukningu á skattbyrði gjaldenda. Er reyndar við það miðað, að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti á árinu 1978 hefðu orðið tæpum 1 milljarð kr. lægri, ef frv. hefði verið komið til framkvæmda, en samkv. gildandi lögum. Er þá miðað við 35% meðalhækkun tekna á milli áranna 1977 og 1978.

Að því er varðar breytingar á skattbyrði einstakra hópa þjóðfélagsþegnanna má segja að einhleypingur njóti heldur meiri skattalækkunar en aðrir hópar, ef frv. þetta verður að lögum. Dreifist þessi lækkun nokkuð, þó ekki til hinna allra tekjuhæstu í þeirra hópi. Skattskyldumark einstaklinga, sem einskis frádráttar nýtur annars en fasts launafrádráttar, er samkv. frv. um það bil 1 millj. 550 þús. kr. miðað við tekjur á árinu 1978.

Töluverð endurdreifing á sér stað á skattbyrði innan hjónahópsins. Veldur þar mestu sérsköttun hjóna og þar með niðurfelling 50% frádráttarins. Enn fleiri atriði hafa hér áhrif. Yfirleitt er breytingin barnmörgum hjónum í vil. Breytingin er hins vegar yfirleitt nokkuð í óhag þeim hjónum, þar sem konan aflar mikilla tekna utan heimilis. Þessi breyting fer vitaskuld eftir öðrum högum hjóna á ýmsan hátt. En hversu háar tekjur útivinnandi eiginkonu mega vera áður en óhagræðisins fer að gæta ræðst af tekjum heimilisins í heild. Ef hjónin skipta peningatekjuöfluninni jafnt á milli sín, eru þau samkv. frv. skattfrjáls að tekjum allt að 3.1 millj. kr. miðað við árið 1978 og er þá reiknað með að þau séu barnlaus og njóti einskis frádráttar umfram 10% launafrádráttar. Meginstefna frv. er í þessu efni að jafna nokkuð metin milli þeirra hjóna, sem skipta með sér verkum þannig að annað starfar alveg við heimilið, og hinna, þar sem bæði vinna úti. Hlutur hinna síðarnefndu hefur hingað til verið mun betri.

Einstæðir foreldrar njóta sem heild heldur meira hagræðis en hjón af breytingunni. Hins vegar á sér stað endurdreifing innan hópsins barnmörgum og tekjulágum einstæðum foreldrum í hag, en tekjuháum einstæðum foreldrum með eitt barn fremur í óhag.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir því frv. sem hér er til umr. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég vildi mega vonast til þess og óska eftir því, að fjhn. beggja þd. starfi saman að athugun á frv., og að sjálfsögðu munu þeir aðilar, sem unnið hafa að samningu þess, vera reiðubúnir til að veita allar upplýsingar og fyrirgreiðslu við nefndarstörfin. Ég vil mega mælast til þess, að fulltrúar SF hefðu aðstöðu til þess að sitja þessa nefndarfundi til þess að þeim verði jafnframt gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem nm. kunna að óska eftir.