18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3591 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Þar eð ég á sæti í þeirri n., sem mun fá þetta mál til meðferðar, ásamt hv. síðasta ræðumanni, mun ég ekki gera þessi frv. að umtalsefni efnislega þegar við þessa 1. umr. Ég tel hins vegar að ekki verði hjá því komist að láta í ljós skoðun á þeim vinnubrögðum sem hér er um að ræða.

Þegar fyrrv. ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, vinstri stjórnin svonefnda, kom til valda eftir kosningarnar 1971 var það eitt af fyrstu verkum hennar, eitt af helstu áhugamálum hennar að gera gagngerar breytingar á skattalögunum, sem stjórnin, sem áður hafði setið, viðreisnarstjórnin svokallaða, var þá nýbúin að setja að undangengnum rækilegum athugunum og mjög viðtækum undirbúningi að þeim breytingum sem þá höfðu verið gerðar. Við hæstv. núv. fjmrh. vorum þá í stjórnarandstöðu og áttum einmitt sæti í fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., sem fjallaði ítarlega um þær breytingar sem þáv. ríkisstj. — þegar á fyrsta starfsári sínu — beitti sér fyrir. Og það er nægilegt að vísa í þær ítarlegu umr., sem fóru fram um skattalagabreytingar vinstri stjórnarinnar, til þess að leiða í ljós að flokkar okkar, flokkur minn, Alþfl., og flokkur hans, Sjálfstfl., voru mjög andvígir ýmsum þeim breytingum sem þá voru gerðar á skattalögunum að frumkvæði þáv. ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, enda töldum við þá báðir, að sú lagabreyting væri illa undirbúin, það væri kastað til hennar höndunum, þau lög, sem þá voru sett, væru bæði gölluð og ranglát. Og þau lög eru enn í gildi á því herrans ári 1978. Öll reynsla af þeirri löggjöf sýnir að skoðun okkar núv. hæstv. fjmrh. og þáv. meðnm. míns í hv. fjh.- og viðskn. þessarar d., þau rök, sem við þá fluttum fram sumpart sameiginlega og sumpart hvor í sínu lagi gegn þeirri lagasetningu, hafa reynst rétt. Reynslan hefur staðfest gagnrýni okkar í þeim efnum í einu og öllu.

Ég skal ekki lengja þessa 1. umr. um þetta mál með því að rekja í einstökum atriðum í hverju þessi rangindi voru fólgin. Ég skal aðeins leyfa mér að benda á þá almennu staðreynd, að í reynd hafa skattalög vinstri stjórnarinnar frá fyrsta starfsári hennar reynst lög um skalt á launafólk. Almennur launþegi hefur þurft að greiða tiltölulega mjög hátt hlutfall af tekjum sínum í tekjuskatt til ríkissjóðs, og skattlagning á tekjum hjóna hefur verið allar götur síðan í hæsta máta ranglát. Hins vegar var þannig gengið frá ákvæðum þeirra laga, sem þá voru sett og enn gilda, að fyrir fram mátti vita að mjög auðvelt væri fyrir félög og þá sem stunda atvinnurekstur, þó einstaklingar séu, að koma sér undan réttmætri skattgreiðslu, enda hefur komið í ljós að félög og atvinnurekstur greiða aðeins lítinn hluta þess tekjuskatts sem ríkissjóður innheimtir af borgurum sínum. Langsamlega mestur hluti tekjuskattsins er sóttur í vasa launþeganna, jafnvel þeirra sem tiltölulega lágar launatekjur hafa. Og ekki nóg með það, að atvinnureksturinn greiði — ég vil segja hlægilega lítinn tekjuskatt af gífurlega mikilli veitu, heldur greiðir verulegur hluti alls atvinnurekstrar í landinu bókstaflega engan tekjuskatt til ríkissjóðs. Ég hirði ekki að rekja þessar tölur, það mundi lengja mál mitt að ástæðulausu á þessu stigi málsins. Síðar verður kannske ástæða til þess að rifja upp um þetta tölur sem tiltækar eru og ég hef raunar rakið áður á undanförnum 3–4 þingum mjög ítarlega.

Með hliðsjón af því, hversu sammála við hæstv. núv. fjmrh. vorum á þinginu 1971–1972 um það, að sú lagasetning, sem þá var knúin fram með nokkru offorsi af hálfu þáv. ríkisstj., — með hliðsjón af því, hversu sammála við vorum um galla þessarar löggjafar, kom mér það síður en svo á óvart, að það skyldi vera eitt meginatriði í stjórnarsamningi núv. stjórnarflokka, Sjálfstfl. og Framsfl., ekki hvað síst þegar minn gamli og góði félagi úr fjh.- og viðskn., Matthías Á. Mathiesen, var orðinn fjmrh., hafði sjálfur tekið við embætti fjmrh., – þeim mun minna hissa varð ég á því, kannske ætti ég heldur að segja ánægðari var ég með að lesa í stjórnarsamningi núv. ríkisstj., að eitt helsta verkefni hennar skyldi vera að setja þjóðinni ný og réttlátari skattalög. ný skattalög sem væru réttlátari en þau sem þá voru búin að gilda í 3 ár. (Gripið fram í: Það hefur allt staðist.) Ja, það er nú það. Bara það hefði staðist. Þess vegna varð ég satt að segja mjög undrandi þegar fyrsta starfsár núv. stjórnar leið og ekki bólaði á neinu skattalagafrv.. Og ég var ekki einn um þá undrun, það voru margir undrandi, bæði innan þings og ekki síður utan þings. Enn þá meira undrandi varð ég þegar annað þingið leið án þess að nokkurt skattalagafrv. sæi dagsins ljós. Ég fór að láta mér detta í hug, hvort það gæti verið, að hinn ágæti og skeleggi gagnrýnandi lagasetningarinnar á þinginu 1971–1972 væri búinn að gleyma allri gagnrýni sinni á það frv. Hitt var náttúrlega líka hugsanlegt, að hann væri allur af góðum vilja gerður til þess að setja ný skattalög, en samstarfsflokkurinn, sem átti fyrrv. fjmrh., sem hefði knúið þessi skattalög fram á þinginu 1971–1972, vildi ekki gera breytingu á þessu afsprengi sínu. Það gat líka verið hugsanleg skýring. En engin skýring fékkst á þessu. Ég fékk hvorki að vita, hvort það væri fastheldni fyrrv. fjmrh. og núv. landbrh. í sína fyrri villu, né hvort það kynni að vera gleymska fyrrv. meðnm. míns í fjh.- og viðskn. og núv. fjmrh. sem væri orsök til þess, að ekkert gerðist á sviði skattamálanna.

Staðreyndin er sú, að tvö heil þing liðu og þess var ekki getið í stefnuskrárræðu forsrh., að það mundu verða sett skattalög einhvern tíma. Tvö heil þing liðu og ekkert gerðist. Svo kom þriðja þing þessa stjórnarsamstarfs, þingið, í fyrra. Þegar langt var liðið á það sá frv. loksins dagsins ljós, og þá hýrnuðu brúnir á okkur ýmsum sem höfðum verið mörg ár mjög óánægðir með skattalög vinstri stjórnarinnar. En hvað skyldi þá hafa komið í ljós? Þá gerðist allra undarlegasti atburðurinn. Látum það nú vera þó að núv. landbrh. hafi ekki viljað láta gera sig alveg ómerkan orða sinna frá vinstristjórnarárunum, og það getur alla góða menn hent að gleyma fyrri ummælum sínum og fyrri skoðunum sínum, eins og sumir voru farnir að halda að hent hefði hæstv. núv. fjmrh. En það, sem kom í ljós á þinginu í fyrra, var að útbýtt var miklu frv., sem frá embættislegu sjónarmiði séð var að mörgu leyti mjög vel undirbúið. Það er alveg ástæðulaust að hafa þann heiður af embættismönnum sem þeir eiga skilið. Þeir höfðu lagt mikla vinnu og margháttaða útreikninga í að gera allt málið skiljanlegra en ella mundi vera. Það var ekkert að finna að tæknilegum undirbúningi frv. Hann var hinn prýðilegasti að öllu leyti. En það, sem í ljós kom og undarlegt var, var að varla voru liðnar tvær víkur frá því að frv. var útbýtt er í ljós kom, að engin samstaða var um það hjá ríkisstj. Ráðh. greindi á. Og eftir svo sem eina viku til viðbótar kom í ljós, að ekki var aðeins ágreiningur í þingflokkum ríkisstj., heldur bókstaflega allt upp í loft, hver höndin upp á móti annarri, ekki bara tvær skoðanir ríkjandi í Sjálfstfl. og Framsfl., heldur margar skoðanir ríkjandi. Það var deilt um 3. og 4. hverja grein í skattalagafrv. Auðvitað endaði það þannig, að þó að fjh.- og viðskn. væri öll af vilja gerð til þess að afgreiða málið með ágætri aðstoð embættismanna úr fjmrn., ríkisskattstjóra og margra fleiri góðra sérfræðinga, þótt n. væri öll af vilja gerð til þess að afgreiða málið í fyrra, þá var það ekki afgreitt. Af hverju? Var það af því að það væru vondir menn í stjórnarandstöðunni, við hv. þm. Lúðvík Jósepsson? Var það af því? Nei, það var ekki af því. Málið var ekki afgreitt af því að stjórnarflokkarnir komu sér ekki saman um það, ráðh. komu sér ekki saman um það. Þetta vissu menn vel og fengu staðfest á fundum í n. og létu þess getið í ummælum hér. og það var ekki borið á móti því, hvorki af hálfu ráðh. né forustumanna stjórnarflokkanna, því að það mega þeir eiga, að þeir segja ekki blákalt ósatt. (Gripið fram í: Er þm. viss um það?) Já, ég sagði að ég vildi láta þá njóta þess sannmælis í þessu efni, að þeir þrættu ekki fyrir það að logandi ósamkomulag væri um málið í stjórnarflokkunum. Þeir þrættu ekki fyrir það, og fyrir það mega þeir eiga þakkir enn í dag, að þeir skyldu ekki reyna að skrökva að fólki um þetta, a. m. k. ekki vera að kenna okkur Lúðvík Jósepssyni um að málið skyldi ekki vera afgreitt. Það hefði verið algerlega þýðingarlaust. Við gátum sannað að það væri ekki okkur að kenna. Það var þeirra eigin ósamkomulagi að kenna, að ekkert varð úr afgreiðslu málsins í fyrra. (Gripið fram í: En er það ekki svo enn?) Ja, nú kemur að því.

Þegar málið hafði verið rætt svona ítarlega undir þinglok í fyrra og var tæknilega svona vel undirbúið, málið þrautrætt, þá bjóst ég auðvitað við því, að eitt fyrsta málið sem ég sæi á borðinu mínu, þegar ég kom hér 10. okt. s. l., væri frv. að nýjum tekjuskattslögum. Og hvað var eðlilegra en ég byggist við því? Málið hafði verið lagt fyrir okkur rækilega undirbúið, þrautrætt í n., harkalega rifist mn það í ríkisstj. og deilt um það illdeilum í báðum stjórnarflokkunum. Maður skyldi halda að sumarið hefði dugað til þess að ráðh. sættust loksins um svona mikilvægt mál og formönnum þingflokkanna, jafndugmiklir menn og það eru, hæstv. iðnrh. og hv. þm. Þórarni Þórarinssyni tækist að bera friðarorð á milli hinna fjandsamlegu arma í þingflokkum stjórnarflokkanna. Nei, nei, ekkert frv. var sjáanlegt fyrstu vikuna sem við sátum hér — ekki aldeilis. Tíminn leið fram að jólum og ekkert tekjuskattsfrv. sást. Svo er gefið mánaðar þinghlé. Eitt af því, sem mönnum var sagt að þetta þinghlé væri alveg nauðsynlegt til, var að hægt væri þá að koma sér saman um frv. um tekju- og eignarskatt og jafnvel helst líka að koma saman frv. um staðgreiðslu skatta. M. ö. o.: það átti að nota það jólaskap, sem menn kæmust í og komast eðlilega í á jólunum, láta jólaskapið endast út janúarmánuð og bera friðarorð á milli manna um skattamál innan stjórnarflokkanna. Þess vegna var það sem við margir — ég heyri á hv. þm. Karvel Pálmasyni að hann er mér alveg sammála um þetta eins og margt fleira — (KP: Þó það nú væri.) — bjuggumst við því, að þegar þing kæmi aftur saman, líklega 20. jan. eða eitthvað um það leyti, þá yrði meðal fyrstu mála frv. að nýjum lögum um tekju- og eignarskatt og helst af öllu staðgreiðslufrv. líka. Nei, nei, þessir 10 dagar af janúarmánuði liðu. Ekkert sást. Svo kom febrúar með sína 28 daga. Ekkert tekjuskattsfrv. sást. Svo kom þriðji mánuður ársins, marsmánuður. Hann er 31 dagur skilst mér. Það dugði ekki heldur til þess að honum tækist að koma frá sér frv. um tekju- og eignarskatt eða staðgreiðslukerfi skatta. Nei, það þurfti hálfan aprílmánuð, það þurfti tímann allt fram til dagsins 17. apríl. til þess að stjórnin gæti komið sér saman um að leggja fram frv. um tekju- og eignarskatt. Og hvernig skyldi þá vera háttað störfum þingsins? Einmitt á þessum sama degi, hálfum öðrum klukkutíma áður en frv. er lagt fram, heldur hæstv. forsrh. fund með forsvarsmönnum þingflokkanna til þess að ræða um þinghaldið. Og á þeim fundi, — ég segi það aftur, — hálfum öðrum klukkutíma áður en frv. var lagt fram, — var ákveðið að þinghaldið skuli halda áfram þangað til fyrstu viku maímánaðar lýkur, eða m. ö. o. þingið skyldi halda áfram í tæpar þrjár vikur frá því ákvörðunin var tekin, í tæpar þrjár víkur frá því að frv. um tekju- og eignarskatt var lagt fram. Fyrir utan sunnudaga, sem eru alltaf einn í hverri viku, eru þrír frídagar á þessu tímabili: sumardagurinn fyrsti, 1. maí og uppstigningardagur, sem auðvitað styttir raunverulegan vinnutíma þingsins, þannig að það eru engar ýkjur að sá raunverulegi vinnutími, sem Alþ. er ætlaður til að fjalla um þetta mál, er tvær víkur, tvær vinnuvikur. Auðvitað eru þetta algerlega óverjandi vinnubrögð, að þannig skuli vera haldið á einn veigamesta málinu sem hæstv. ríkisstj. hét að beita sér fyrir þegar hún tók við fyrir tæpum 4 árum.

Auðvitað verður ekki hjá því komist að gagnrýna það harðlega og láta í ljós mikla óánægju með það, að þannig skuli haldið á einu mesta og stærsta viðfangsefni þessa kjörtímabils, sem var endurbót á þeim ranglátu og óskynsamlegu og illa undirbúnu skattalögum sem sett höfðu verið af fyrrv. hæstv. ríkisstj. En því miður hefur ekki betur tekist til en það, að þegar tvær vikur eru eftir af raunverulegum starfstíma síðasta þings kjörtímabilsins, þá fá þm. lagðar fyrir sig till. um ný skattalög. En þrátt fyrir þetta allt saman, þrátt fyrir þessa gersamlega óviðunandi málsmeðferð, þá er engu að síður um svo mikið nauðsynjamál að ræða að ég tel það skyldu þingsins að taka þetta mál fram yfir önnur mál sem enn eru því miður óafgreidd.

Rétt er að það komi alveg skýrt fram, að á fundinum í gær fengum við fulltrúar þingflokkanna skrá yfir þau stjfrv. sem enn eru óafgreidd á þessu þingi. Þau eru nær 60 en 50, stjfrv. sem eru óafgreidd Ég hef ekki talið saman þau þmfrv., sem eru óafgreidd. Þetta sýnir auðvitað mjög lélega forustu af hálfu hæstv. ríkisstj. fyrir liði sínu á þessu þingi, þar sem þó er um að ræða mjög sterkan meiri hl. Það er auðvitað gersamlega útilokað að afgreiða öll stjfrv., enda mun ekki vera til þess ætlast, og enn fremur afgreiða stórmál eins og skattalögin. En eigi að velja á milli tvenns, leggja áherslu á að afgreiða óafgreidd stjfrv. og einhver óafgreidd þmfrv. eða afgreiða skattalögin, þá segi ég eins og er, að ég tel heldur nauðsyn á því að skattalögin verði afgreidd, því að slíkt er ranglætið sem ekki hvað síst íslenskir launþegar eiga við að búa í þessum efnum, að á það ber að leggja megináherslu að þessu þingi ljúki ekki án þess að ný skattalög verði sett og nauðsynlegar endurbætur gerðar.

Ég vil hins vegar segja alveg eins og er og tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að ég tel enga von til þess að hægt sé að afgreiða frv. um staðgreiðslu skatta á þeim tíma sem nú er til ráðstöfunar, enda er það ókynnt mál. Það frv. kom í fyrsta skipti í gær fram í þeim búningi sem það er í núna. Hitt er rétt hjá hæstv. fjmrh., að að stofni til er frv. um tekju- og eignarskatt sama frv. og í fyrra, jafnvel að því er mér sýnist í fljótu bragði með ýmsum endurhótum frá því í fyrra. Það er því þm. ekki nýtt mál. Hitt málið er algerlega nýtt. Og ég endurtek, að það er borin von að nokkurt vit væri í að reyna að afgreiða frv. um staðgreiðslu skatta. En það var meginerindi mitt í ræðustólinn, að ég vil taka fram fyrir hönd míns þingflokks að við erum reiðubúnir til þess að stuðla að því, að þetta frv. um tekju- og eignarskatt geti hlotið afgreiðslu á þessu þingi. Það skal ekki standa á starfi okkar, á vinnu okkar eða velvilja okkar til þess að nauðsynlegar endurbætur á skattamálum þjóðarinnar nái fram að ganga, þó illa hafi verið að málinu staðið og þó að seint sé fram komið og vinnubrögð, sem ekki eru æskileg, hljóti að fylgja í kjölfar svo slælegs undirbúnings sem þess sem hér hefur verið um að ræða, nema það komi nú í ljós, að enn sé um að ræða ágreining í stjórnarflokkunum um málið. Ég verð að segja það, að um það er ekkert komið fram enn þá. Ég veit ekki hvað kann að koma fram á fundum hjá hv. fjh.- og viðskn. á næstu dögum, þegar n. fara að fjalla um málið. Þegar við fengum málið í fyrra var ekkert um það sagt, að nokkur ágreiningur væri, en á fyrstu tveim, þrem fundunum fundu menn ágreining í nefndinni.

Ég vona af einlægni, að það komi í ljós, að þessi fjögur ár hafi nú dugað til þess að menn kæmu sér saman um að leiðrétta helstu vitleysur sem fyrrv. fjmrh. beitti sér fyrir á fyrsta starfsári vinstri stjórnarinnar. Ég vona að fjögur árin hafi dugað til þess. Það mundi hryggja mig mjög mikið, ef raunin yrði önnur. Þess vegna vona ég að þetta frv. sé nú orðið í grundvallaratriðum samkomulagsfrv. stjórnarflokkanna um málið. Sé svo, þá mun ég fyrir mitt leyti og minn flokkur stuðla að því, að það geti hlotið afgreiðslu. Ég er auðvitað ekki með þessu að lýsa yfir fylgi við frv. óbreytt. Mál sem þessi þurfa miklu nánari skoðunar við en hægt er að ætlast til að menn hafi getað komið við á einum sólarhring frá því að þeir sáu frv. á hinu háa Alþ. En jafnvel fljótleg skoðun bendir til þess, að í frv. standi fjölmargt til bóta frá því, sem nú er, og það náttúrlega styður enn frekar réttmæti þeirrar yfirlýsingar minnar, að þingflokkur Alþfl. sé reiðubúinn til þess að stuðla að því, að breytingar verði gerðar á skattalögunum í grundvallaratriðum í þeim anda sem í þessu frv. felst, þó að ég endurtaki að ég áskil mér fyllsta rétt, fyllsta fyrirvara um að flytja eða standa að eða fylgja brtt. um einstök atriði málsins.

Við þessa 1. umr. málsins skal ég láta mér nægja þessar aths. Ég vildi að það kæmi fram strax, að minn flokkur og ég teljum mjög ámælisvart hvernig að málinu hefur verið staðið, hversu lengi hefur dregist að koma á framfæri till. um breytingar á mjög ranglátu og mjög gölluðu kerfi tekju- og eignarskatts, að það skuli hafa dregist þangað til aðeins tvær starfsvikur eru eftir af starfstíma síðasta þings kjörtímabilsins. En þrátt fyrir þennan slælega undirbúning, þrátt fyrir að hér sé í raun og veru um að ræða vinnubrögð, sem stjórnarandstaða á í sjálfu sér ekki að láta bjóða sér, því stjórnarandstaða í lýðræðisríki á í sjálfu sér ekki að láta bjóða sér þau vinnubrögð sem hér er um að ræða, er ég fyrir mitt leyti vegna mikilvægis málsins tilbúinn til að stuðla að því, að nauðsynlegar endurbætur verði gerðar á því stórgallaða kerfi sem við höfum búið við undanfarin ár að því er varðar álagningu tekju- og eignarskatts.