18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3598 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karvel Pálmason :

Herra forseti. Þó að vissulega væri til þess full ástæða að eyða löngum tíma í að ræða jafnstórt og mikilvægt mál og hér er um að ræða, þá er augljóst af þeim vinnubrögðum, sem hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir, með því að það er einungis sólarhringur síðan málið var lagt fram á Alþ. og þess vegna á þeim tíma gersamlega útilokað að neinu marki að kynna sér efnislega innihald þessa frv. ásamt öðrum þeim störfum sem hæstv. ríkisstj. leggur nú á Alþ., að í raun og veru er um tómt mál að tala að hægt sé að tala efnislega um þetta mál á þessu stigi. En full ástæða er til þess að benda á — og verður aldrei of oft á það bent eða ítrekað — með hversu miklum endemum hér er staðið að málum og er ekki að gerast fyrst nú, þó að nú kasti fyrst tólfum varðandi þetta mál. Í rann og veru væri hið eina rétta svar við vinnubrögðum af þessu tagi það, að stjórnarandstaðan, sem á að halda uppí aðhaldi og gagnrýni á hæstv. ríkisstj., léti ekki bjóða sér vinnubrögð eins og þau sem hér eru viðhöfð. Það dettur engum heilvita manni í hug að afgreiða mál eins og þetta á einungis tveimur eða tæplega tveimur vikum, eins og nú eru eftir af þinghaldi. Eða er það virkilega ætlun hæstv. ríkisstj., að þetta mál fari í gegnum þingið án þess að t. d. launþegasamtökin og ótalmargir fleiri aðilar fái til þess tækifæri að tjá sig um málið? Og það er auðvitað út í hött og verður að gagnrýna, að til þess skuli ætlast og þm. boðið að ræða þetta mál nú í lok þings á kvöldfundi eða fundum þar sem einungis tiltölulega lítill hluti hv. þm. er mættur.

Nú má vel vera, að hv. stjórnarliðum á Alþ. sé það vel kunnugt um innihald þessa máls, að þeir þurfi ekki að vera hér til þess að taka þátt í umr. eða þingstörfum um málið, en eigi að síður eiga þeir hér að vera ekki síður en aðrir. Ég vil a. m. k. fyrir mitt leyti taka mjög undir aths. við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Það getur ekki verið að hæstv. ríkisstj. sé full alvara að bæði þessi mál, þ. e. a. s. frv. um tekju- og eignarskatt og síðan um staðgreiðslukerfi skatta, eigi að afgreiða nú á þessu þingi ásamt 50–60 öðrum frv., sem eftir er að afgreiða og hæstv. ríkisstj. leggur áherslu á að verði afgreidd. Eitthvað af þessu verður að víkja, og þá er það auðvitað hæstv. ríkisstjórnar að gera upp við sig, hvað hún lætur liggja af þessum málum. En öll þessi mál verða ekki afgreidd, það er augljóst mál, nema því aðeins að hæstv. ríkisstj. stefni að því að þinghald verði fram að kosningum. Það má vera að sú sé ætlun hæstv. ríkisstj., en það er líka eina leiðin til þess að framkvæmanlegt sé að afgreiða þessi mál, að þinghald verði þá fram í lok júní.

Ég held að full ástæða sé fyrir hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkana að gera sér fulla grein fyrir því, þó að stjórnarandstaðan væri öll af vilja gerð til þess að afgreiða málið sem ég efast ekkert um, því að stjórnarandstaðan er full ábyrgðartilfinningar, en gagnstætt má segja um hinn aðilann, þá er það tímans vegna nær vonlaust, miðað við það að afgreiða öll önnur frv. sem liggja nú fyrir til afgreiðslu.

Eins og ég sagði áðan er ekki til þess ástæða, a. m. k. ekki fyrir mig, að gera hinar einstöku greinar eða einstöku efnisatriði frv. að umræðuefni nú, vegna þess að tími hefur ekki gefist til þess að íhuga málið.

Út af því, sem kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, þá er að vísu búið að leiðrétta það að verulegu leyti, en ég held að það sé mesta misminni hjá hv. þm., að þá fyrst hafi ranglæti byrjað varðandi skattalöggjöf launþegum til handa þegar fyrrv. ríkisstj. tók við völdum. Þetta er auðvitað bara misminni, hv. þm. hefur ekkert meint með þessu. Þetta er bara eins og hvert annað misminni og leiðréttist auðvitað hér með. Og það er alveg öruggt mál, að fyrst hv. þm. er ekki búinn að biðja um orðið aftur, en búið er að gera þessa aths. og leiðréttingu, þá er hann samþykkur henni og því ástæðulaust að ræða þetta frekar. Sannleikurinn er auðvitað sá, að sú skattalöggjöf, sem var í gildi eftir 12 ára setu hv. 9. þm. Reykv. í ríkisstj., var verulega óhagstæð launþegum í landinu. (GÞG: Miklu betri en þessi löggjöf.) Miklu betri en þessi, já. Ég held að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason ætti að kynna sér þetta betur áður en hann lætur fullyrðingu frá sér fara, því að það er vitað — og það veit hv. þm. — að breytingin, sem gerð var á þinginu 1972, var til bóta. Þó að vissulega væri ekki nógu langt gengið — það skal viðurkennt — í átt til þess að leiðrétta það rangláta skattalagakerfi, sem viðreisnarstjórnin kom á, þá var vissulega gengið verulega í átt til þess að leiðrétta það einmitt gagnvart launþegum. En það voru aðrir hópar í þjóðfélaginu, sem höfðu betri aðstöðu undir þeim skattalögum, sem giltu í tíð viðreisnarstjórnarinnar, heldur en þeim, sem giltu eftir að fyrrv. ríkisstj. tók við völdum. Og þar er fyrst og fremst átt við hin fjölmörgu fyrirtæki í landinu sem verið hafa og eru enn að verulegu leyti — það skal undirstrikað — skattlaus.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, því að mér heyrðist að núv. hæstv. samgrh., fyrrv. fjmrh., sem stóð að breytingunni á skattalögunum frá 1972, ætli sér að gera aths. við ummæli hv. 9. þm. Reykv. Efast ég ekki um að hann skýri satt og rétt frá því sem þar hefur gerst, og ég skal því ljúka máli mínu. En ég ítreka það sjónarmið mitt, að ekki á að bjóða Alþ. það né ætlast til þess, að það afgreiði lagabálk sem þennan á svo stuttum tíma sem fyrirsjáanlegur er — ég tala nú ekki um ef einnig á að afgreiða frv. um staðgreiðslukerfi skatta samtímis. Slík vinnubrögð eru ekki bjóðandi Alþ. á þeim stutta tíma sem nú er fyrirhugað að eftir sé af þinghaldinu.