19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3613 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

285. mál, sáttastörf í vinnudeilum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur lagt fram frv. um breytingu á lögum um sáttastörf í vinnudeilum, þ. e. a. s. sett verði sérstök lög, sem snerta þann kafla gildandi laga um stéttarfélög og vinnudeilur, er sérstaklega snerta störf sáttasemjara. Ég á ekki von á því, að af hálfu verkalýðshreyfingarinnar verði gerðar aths. við það eða haft á móti því, að starf sáttasemjara sé gert að aðalstarfi og honum sköpuð betri aðstaða til að rækja störf sin. Ég vek hins vegar athygli á því, að efni frv. er víðtækara en þetta, þar sem sáttasemjara er veittur viðtækari réttur til afskipta af vinnudeilum en er í gildandi lögum, eins og berlega er viðurkennt í grg. Er því ljóst að hér er hreyft mjög viðkvæmu máli, sem athuga verður vandlega áður en það kemur til afgreiðslu.

Það kom ekki skýrt fram í ræðu hæstv. ráðh., a. m. k. ekki í því af henni sem ég heyrði, — ég missti að vísu af upphafsorðum ræðunnar, — að haft hefði verið samráð við miðstjórn Alþýðusambands Íslands eða aðra aðila vinnumarkaðarins um efni frv., enda þótt ég eflst ekki um að einhverjir fulltrúar þessara aðila hafi verið látnir vita um að frv. þetta væri á döfinni. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla efnislega frekar um þetta mál, en vildi leggja ríka áherslu á það, vegna þess að ég á ekki sæti í þeirri hv. n. sem fær málið til meðferðar, að málið verði að sjálfsögðu sent til umsagnar aðilum vinnumarkaðarins og þá sérstaklega verkalýðshreyfingunni og það verði ekki afgreitt, þrátt fyrir þann skamma tíma sem nú er til ráðstöfunar til þingloka, öðruvísi en álit þessara aðila liggi fyrir.