19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3620 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

189. mál, búnaðarfræðsla

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 367 er frv. til laga um búnaðarfræðslu í landinu. Þegar þetta frv. var lagt fram í hv. Nd. gerði ég ítarlega grein fyrir málinu og enn fremur fylgir frv. mjög ítarleg grg. Þetta mál hefur verið alllengi á leiðinni og farið í gegnum margfaldar endurskoðanir frá því að farið var að vinna að því á árinu 1973. Nú er það hins vegar von mín og ósk, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi.

Aðalatriði frv. eru þau, að bætt er úr þeim göllum, sem eru á gildandi lögum um búnaðarfræðslu, og við þau aukið svo sem reynslan og kröfur þar að lútandi segja til um. Gert er ráð fyrir að lengja hið almenna bændaskólanám, og enn fremur er gert ráð fyrir því, að átt geti sér stað námskeið sem bændur njóta eftir að þeir hafa áður notið náms á búnaðarskólum eða vegna starfs síns. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að sérhæfing geti átt sér stað við þessa skóla meiri en nú er. Þá er þar ákvæði sem mundi styrkja stöðu Hólaskóla, en nauðsyn ber til að styrkja stöðu hans.

Í þessu frv. er svo ákvæði um að búvísindadeildin á Hvanneyri, sem hét upphaflega framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri, á að halda nafni en við hann starfi búvísindadeild og allar kröfur um kennslu, bæði er varðar inntöku inn í deildina og eins kennara er starfa við deildina, séu gerðar þær sömu og til Háskóla Íslands. Það var ekki álit þeirra, sem um hafa fjallað, að rétt væri að fara að fella þessa starfsemi inn í starfsemi Háskóla Íslands. Ég átti viðræður við núv. rektor Háskóla Íslands um þann þátt mála og taldi hann að væri fjarri lagi að gera það, heldur að halda starfseminni áfram við Bændaskólann á Hvanneyri eins og verið hefði. Ekki síst bæri að gera það þar sem erlendir háskólar væru farnir að virða námið frá búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri á sama hátt og háskólanám væri. Þannig hafa Íslendingar, sem hafa komið úr búvísindadeildinni á Hvanneyri, farið í framhaldsnám í erlendum háskólum, náð þar góðum árangri og notið þar fullra réttinda.

Það ber brýna nauðsyn til að setja þessi lög núna og festa þau ákvæði, sem hafa verið laus í reipunum í þessari starfsemi, og enn fremur að breyta nokkuð til um búfræðinámið sjálft, eins og gert er með þessu lagafrv.

Kostnaður af lagafrv. þessu er ekki neitt sem máli skiptir. Hann fer eftir ákvörðunum á hverjum tíma um kennaratölu og þær framkvæmdir sem kynnu að verða á staðnum, en þar hefur átt sér stað mikil uppbygging á síðustu árum og hún mun halda áfram hvernig sem þessari starfsemi verður hagað. Ég vil endurtaka það, að hér er um að ræða að Bændaskólinn á Hvanneyri verði áfram sú stofnun sem hann hefur verið í tveim deildum, þ. e. búfræðideild og búvísindadeild, en hún jafngildir háskólanámi.

Í sambandi við frv. þetta vil ég geta þess, að skýrara þykir í sambandi við 3. gr. frv., þegar talað er um búfræðslunefnd þá sem skipa á, að kveða á um það, hver skuli bera kostnað af starfsemi nefndarinnar. Þó að frv. færi óbreytt í gegnum hv. Nd. tel ég rétt að þetta verði gert skýrt, að þeir, sem tilnefna í þessa nefnd, hafi kostnað hver af sínum fulltrúa. Enn fremur tel ég réttara að festa í 21. gr. frv. að skipa skuli aðalkennara, eins og talað er um, auk þess aðstoðarkennara eftir ákvörðun landbrn., en þar komi til viðbótar: að fengnum till. skólastjóra og deildarstjórnar og samkv. lögum um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana, er þar vitnað í lög nr. 97/1974. Skólastjórinn ræður svo stundakennara. Þetta mundi ég biðja hv. landbn. að taka inn í frv. nú, því að ég tel að það muni ekki breyta neinu um afgreiðslu þess þó að það þyrfti að fara til einnar umr. í hv. Nd. — Þar var alger samstaða um frv. En það er rétt að skýr ákvæði séu um þetta í frv. og þess vegna man ég óska eftir þessari breytingu.

Eins og ég sagði áðan, flutti ég um þetta mál ræðu í hv. Nd. og grg. með því er skýr. Þess vegna mun ég ekki hafa fleiri orð um frv. í hv. Ed., en fer fram á það, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn. Ég endurtek, að ég treysti n. að vinna það fljótt að málinu að það nái afgreiðslu þessu hv. Alþingi.