01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

319. mál, fóstureyðingalöggjöf

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Hann var greinilega svo barmafullur af upplýsingum um þessi efni sem ég mátti vita fyrir, að mér veittist fullerfitt að fylgja honum eftir. Hann bar svo ótt á, enda mikilvægt mál hér annars vegar.

Það er alveg rétt, mér var fullkunnugt um það, að við erum langsamlega lægstir að þessu leyti hvað varðar fjölda fóstureyðinga miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir, við erum fjórum eða fimm sinnum lægri. En ég tel að það sé ákaflega hæpið að miða um of við þessa granna okkar, því að við vitum að þeir hafa verið í miklum vandræðum með framkvæmd þessa í sínum heimalöndum, og maður hefur heyrt margar ófagrar sögur frá okkar blessaða sæluríki, Svíþjóð, að þar hafi skapast beinlínis neyðarástand á sjúkrahúsum, vegna þess að aðsóknin af fóstureyðingarkonum var það mikil að almennir sjúklingar komust hreinlega ekki að. Það er alltaf betra að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í, og þess vegna er það að ég ber fram þessar fsp. nú.

Ég sé að hæstv. ráðh. hefur ekki látið þar við sitja að dreifa í skóla og sjúkrastofnanir bæklingum sínum, þeir eru komnir hér á borð alþm., og því skyldi þeim af veita síður en öðrum, kann ég honum þakkir fyrir.

En ég heyri sem sagt að þessi mál eru á hreyfingu, og mér þykir vænt um að heyra þær upplýsingar, sem ég gat krotað niður í hraðskrift meðan mál hæstv. ráðh. stóð yfir, að konum, sem hafa hætt við fóstureyðingu eftir leiðbeiningar og ráðgjöf á viðkomandi stofnunum, hefur fjölgað. Þetta tel ég mjög jákvætt, ef rétt er, sem ég hef ekki ástæðu til að efa.

Hins vegar veit ég líka, því miður, og það m.a. skapaði mér nokkurn ugg, að það hefur komið fyrir hér í Reykjavík og ég segi það hér af því að ég veit að það er ekki slúðursaga, það var það persónulega nálægt mér að ég veit að það er rétt, að ung stúlka barnshafandi kom til læknis til að láta ganga úr skugga um hvort hún væri með barni. Það kom í ljós, og það fyrsta, sem læknirinn sagði henni, var: „Viltu ekki bara losna við það?“ Ég þarf ekki að taka fram, að þessi unga stúlka, sem að vísu var ekki gift, en trúlofuð, varð í senn undrandi og hneyksluð og þeir aðrir sem vissu um þetta. Það eru svona tilfelli sem hnitmiðuð leiðbeiningastarfsemi og ráðgjöf á að fyrirbyggja að geti komið fyrir. En þarna er auðvitað ekki um annað að ræða en brigð í starfi sem ég vil vona að sé undantekning. En svona nokkuð hefur átt sér stað, og þess vegna er full ástæða til þess af a]vöru að sýna þessu máli árvekni og láta ekki dragast um of þær ráðstafanir, sem lögin fela í sér. Og ég tel mig mega vænta þess af svari ráðh. að eitthvað sé verið að gera í rétta átt í þessum málum.