19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

289. mál, heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og flestum er kunnugt hefur þróun heilbrigðismálaþjónustu orðið mjög ör á Íslandi á síðustu áratugum, en þó hefur ýmsum þáttum heilbrigðisþjónustunnar ekki verið sinnt sem skyldi. Þar kemur margt til, bæði aðstöðuleysi og enn fremur skortur á sérhæfðu fólki til starfa. Þannig held ég að fróðir menn séu almennt sammála um að of lítið hafi verið gert fyrir þann hóp sem liðið hefur vegna heyrnarmeina, svo ekki sé talað um þann hóp sem liðið hefur vegna talmeina. Hvað snertir heyrnarmein sérstaklega hafa þó verið starfandi hér á landi ýmsir aðilar sem sinnt hafa þessu verkefni. Má þar nefna háls-, nef- og eyrnadeild Borgarspítalans, heyrnardeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og starfsemi félagsins Heyrnarhjálpar, en það félag hefur verið rekið af sjálfboðaliðum og hefur félagið unnið ómetanlegt starf sem sannarlega ber að þakka. Þannig má segja hvað snertir heyrnarmeinin að hafi verið um töluverða þjónustu að ræða. Hefur almannatryggingakerfið tekið þátt í þessari þjónustu eins og annarri þjónustu sem hefur verið um að ræða og undir þau lög fellur. En hvað snertir talmein sérstaklega er ekki hægt að segja hið sama. Þar hefur ekki verið um auðugan garð að gresja hvað snertir samfélagslega hjálp. Er mjög brýnt að úr verði bætt og það sem fyrst.

Með hliðsjón af því, sem ég hef nú sagt, skipaði ég 4. mars 1977 nefnd sem hafði það hlutverk að gera tillögur um skipulagt samstarf háls-, nef- og eyrnadeildar Borgarspítalans, heyrnardeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og félagsins Heyrnarhjálpar. Enn fremur var nefndinni falið að gera heildartillögur um framtíðarfyrirkomulag talmeina- og heyrnarþjónustu og skipulag heyrnarmálefna hér á landi. Í nefndinni áttu sæti Björn Önundarson tryggingayfirlæknir, sem jafnframt var formaður, Hallgrímur Sæmundsson yfirkennari, Stefán Skaftason yfirlæknir, Erlingur Þorsteinsson yfirlæknir og Birgir Ás Guðmundsson heyrnarfræðingur.

Nefndin tók þegar til starfa og viðaði að sér gögnum. Innan um það bil þriggja mánaða hafði hún skilað af sér störfum í formi heildartill. um framtíðarfyrirkomulag talmeina- og heyrnarþjónustu og skipulag heyrnarmálefna á landinu. Að þessum tillögum fengnum ákváðum við í heilbr.- og trmrn. að útbúa frv. til l. um heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Var frv. að miklu leyti byggt á till. þessarar nefndar. Áður en að fullu var gengið frá frv. þessu, sem hér liggur fyrir, var það sent til umsagnar landlæknis og lýsti hann sig fyllilega sammála frv. og svo hafa reyndar allir þeir aðilar gert sem starfað hafa að þessum málum á undanförnum árum.

Það var álit heilbr.- og trmrn., að ekki væri annað fært en að skipa fyrir um þessi mál með lögum, bæði vegna þeirrar samræmingar, sem þeim er ætla,ð að hafa í för með sér, og þess kostnaðar, sem af þeim mun leiða, jafnvel þótt hann sé í dag að langmestu leyti greiddur úr ríkissjóði.

Frv. gerir ráð fyrir því, að ríkið starfræki stofnun með þessu nafni. Gert er ráð fyrir því, að við stofnunina starfi yfirlæknir, sérmenntaður í heyrnarfræði og sé hann í fullu starfi og annist faglega stjórn stofnunarinnar. Honum til aðstoðar á að vera yfirheyrnar- og taluppeldisfræðingur. Aðrir starfsmenn stofnunar skulu vera heyrnar- og uppeldisfræðingar, heyrnarritarar, tæknimenn, hlustarstykkjasmiðir ásamt aðstoðarfólki. Til þess að stofnunin þjóni þegar frá öndverðu þeim tilgangi, sem henni er ætlað, þarf að vera tryggt, að það starfslið, sem ég nefndi áðan, starfi við stöðina. Með hliðsjón af því er valin sú óvenjulega leið að tíunda næstum allt starfsfólk stöðvarinnar.

Gert er ráð fyrir að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins greiði 90% af rekstrarkostnaði og sveitarfélögin 10%, en það er sama hlutfall og lengst af hefur verið. Endalaust má deila um hvort þetta sé heppilegri rekstrarleið, en benda má á að allur kostnaður vegna heyrnartækja er greiddur og hefur verið greiddur til þessa af sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins. Gert er ráð fyrir því hér, að þessu verði haldið áfram hvað snertir allan þennan rekstur í samræmi við þær reglur sem sjúkratryggingadeildin greiðir eftir til sjúkrahúsanna. Skipting greiðslna milli sveitarfélaga færi þá eftir nánara samkomulagi þeirra á milli.

Með stofnun slíkrar heyrnar- og talmeinastöðvar er gert ráð fyrir því, að starfsemi félagsins Heyrnarhjálpar og heyrnardeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur verði sameinuð, en rekstur háls-, nef- og eyrnadeildar Borgarspítalans haldi áfram. Enn fremur er gert ráð fyrir að þessi nýja stofnun taki yfir öll þau tæki sem félagið Heyrnarhjálp og heyrnardeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur hafa undir höndum, eftir nánara samkomulagi við þá aðila um kaup og kjör.

Eitt af aðalmarkmiðum þessarar stofnunar hlýtur að vera að tryggja að á boðstólum séu ávallt fullkomnustu tegundir heyrnartækja og annarra hjálpartækja. Einnig þarf að tryggja að viðgerðarþjónustu verði sem best háttað.

Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efnisatriði þessa frv., en vísa til frv. sjálfs og þeirrar grg. sem fylgir með því og skýrir frv. að öllu leyti.

Herra forseti. Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til, að frv. verði vísað til hv. heilbr: og trn.