01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

324. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í áfengisvörnum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um fyrirhugaða framkvæmd á þáltill. sem hér var samþykkt á s.l. vori, um aukna fræðslu í áfengisvörnum og þátt fjölmiðla í þeirri fræðslu. Þessi till. var allviðamikil og fylgdi henni mikil og góð grg, um hvernig hér skyldi brugðist við.

Við urðum þegar vör við það í vor að í sjónvarpi var um að ræða þætti, sem ég held að hafi verið gagnleg byrjun, en þar þarf hins vegar enn betur að gera. Skólarnir eru vitanlega hinn æskilegi vettvangur, en þar hefur fræðsla í þessum efnum verið of skipulagslaus og handahófskennd til þessa, enda hafa öll kennslugögn, námsbækur og annað því um líkt verið af skornum skammti og auðvitað hefur áhugi kennara á þessu máli verið mismikill.

Aðalástæðan fyrir þessari fsp. nú er eiginlega sú, að fjvn. hefur borist beiðni um námsstjóra í bindindisfræðum. Þetta mál liggur nú fyrir okkur í fjvn. og þar verður einhverja afstöðu að taka. Mörgum mun sýnast að hér sé um of stórt stökk í byrjun að ræða, en ljóst er að markvissa yfirstjórn og leiðbeiningar vantar, svo að full þörf er á að þessu sé betur sinnt en nú er, að einn maður önnum kafinn hafi þetta í hjáverkum, eins og ég hygg að sé nú í rn. Vegna þessarar beiðni vildi ég gjarnan heyra, hvað í ráði er, og reyndar einnig vegna þess að ég vil vita sem einn af flm. um það, hver fyrirhuguð framkvæmd þessarar ályktunar er. Þá vildi ég heyra viðhorf ráðh. og rn. til þessa og til tillögu framkvæmdarinnar í heild, áður en tekið væri á þessari beiðni í fjvn. Það er að vísu rétt, að áfengisvarnir heyra undir annað rn., en þar sem um fræðslu er fyrst og fremst að ræða og eins vegna einarðrar afstöðu hæstv. menntmrh. í þessum málum almennt er fsp. til hans beint.