01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

324. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í áfengisvörnum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Út af því, sem hann sagði um útvarpið, þar séu þessi mál enn til athugunar, þá treysti ég hæstv. ráðh. til að fylgja því eftir, þó að það sé rétt hjá honum að það sé útvarpsins sjálfs að ákveða nánar um framkvæmd þessa atriðis. Ég tek af einlægni undir með hæstv. ráðh. varðandi það atriði, að þegar þál. eru samþykktar verði að fylgja þeim eflir í fjárveitingum. Vissulega skal ekki standa á mér að fylgja eftir fjárveitingu til þessa brýna verkefnis.

Ég sem sagt fagna því sem þarna hefur verið gert, að farið er að vinna að nýrri námsskrárgerð varðandi bindindisfræðslu og reglugerðin mun bráðlega fara í endurskoðun. Ég hafði reyndar heyrt að einn okkar ágætasti maður í þessum efnum og fær skólamaður, Hörður Zóphaníasson, mundi vera í þann veginn að taka þetta verkefni að sér, en vera kann að það sé rangt. Ég hefði fagnað því einmitt ef svo hefði verið, því að þá hefði ég getað treyst því að verkefnið yrði vel og fljótt af hendi leyst. Ég er algerlega sammála því, að þessi fræðsla sé felld inn í aðrar námsgreinar sem allra mest, tel það að mörgu leyti heppilega skipan, og auðvitað er ljóst að það er hlutlaus fræðsla um eðli og áhrif áfengisins sem skiptir hér öllu máli, því að ég þekki af eigin reynslu að prédikanir duga ansi lítið.

Almennt mætti margt um þetta mál segja. Það er augljóst þó, að núna á að nýta það vissa lag sem er í þessum málum, og öll vítum við að ástandið kallar á aðgerðir. Nýstofnuð áhugamannasamtök sýna t.d. að vilji en til þess að snúast gegn vandanum, enda þótt óvíst sé hvernig tekst til og hvort í einhverju verður bar hægt að sporna við ófremdarástandi. En það hefur verið von mín að þetta væri merki þess að meiri vakning og öflugri vitund um vandann væri fyrir hendi meðal almennings en mér hefur löngum þótt vera. Og þessu þarf einmitt að fylgja eftir í skólum, í fjölmiðlum og af öllum þeim sem láta sig nokkru skipta þjóðarheill í þessum málum.

Ég tek undir það svo að lokum með hæstv. ráðh., að til þess að þessu verði bærilega fyrir komið þarf fjármagn, og ekki skal standa á mér

og ég vona að það standi ekki á hv. alþm. að koma þessum sjálfsögðu hlutum í viðunanlegt horf.