01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

324. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í áfengisvörnum

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hér er um mál að ræða sem hv. 7. landsk. þm. og við fleiri bösluðum mikið á sínum tíma við að koma saman, og við fengum þetta í gegn á síðasta þingi. Ég vil þakka hv. þm. fyrir hans ágætu samvinnu í þessu efni og mikinn áhuga fyrr og síðar, og það veitir sannarlega ekki af.

Ég þarf ekki að bæta miklu við það, sem hér hefur komið fram. Það er greinilegt að eitthvað er verið að gera í þessum málum. Ég hef nýlega átt samtal við áfengisráðunaut ríkisins, og hann hefur tjáð mér sitt af hverju, sem í deiglunni væri. En ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á það, eins og gert var í grg. þessarar till., að þarna er það sjónvarpið sem er sterkasti aðilinn sem bægt er að fá í lið með sér, sérstaklega sjónvarpið, þó að hljóðvarpið geri sannarlega sitt gagn líka og hafi verið vel á verði í þessum málum, ekki með of mikilli prédikunarkenndri fræðslu, heldur jafnvel almennu skemmtiefni sem getur náð þeim tilgangi að fá fólk til þess að trúa því, að hægt er að skemmta sér og vera glaður og reifur án þess að hafa vínglas í hendinni. Ef við gætum fengið tískuna í lið með okkur þarna væri mikið unnið. Og ég held að það sé hárrétt hjá hv. 7. landsk. þm., að núna er einmitt lag til þess að vinna að þessum málum. Almenningsálitið hefur vaknað í bili og við þurfum að nota okkur það. Við þurfum ekki að ganga að því gruflandi að hv. þm. Helgi Seljan mun í fjvn. ekki liggja á liði sínu til að fá fé sem þarf til að framkvæma þessa till. Ég veit að það hefur kostnað í för með sér, en ég vona að till. hans fái góðan hljómgrunn hjá öðrum mönnum í fjvn.