19.04.1978
Efri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3632 í B-deild Alþingistíðinda. (2802)

151. mál, samkeppni í verðmyndun og samruni fyrirtækja

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Til fjh.- og viðskn. var vísað frv. til l. um samkeppni, verðmyndun og samruna fyrirtækja á þskj. 312.

Fjh.- og viðskn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. vildi að svo stöddu ekki taka efnislega afstöðu til málsins þar sem nú liggur fyrir Nd. frv. um verðlag og samkeppnishömlur o. fl. Það er 245. mál á þskj. 462, flutt af ríkisstj. Það frv. fjallar að nokkru leyti um sama efni. Meiri hl. fjh.- og viðskn. þótti óeðlilegt að afgreiða þetta mál fyrr en því frv. hefði verið vísað til n. og leggur því til að þessu máli verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, þar sem flm. frv. og einn nm., Albert Guðmundsson, óskaði eindregið eftir því að það væri afgreitt nú þegar frá n. Rökstudda dagskráin er á þskj. 524 og hljóðar þannig:

„Þar sem fyrir Alþ. liggur frv. frá ríkisstj. um sama efni, á þskj. 462, telur deildin ekki rétt að afgreiða frv. á þskj. 312 efnislega að sinni og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Albert Guðmundsson og Ragnar Arnalds skrifa ekki undir þessa rökstuddu dagskrá og munu gera grein fyrir afstöðu sinni við umr. málsins.