19.04.1978
Efri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3634 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

151. mál, samkeppni í verðmyndun og samruni fyrirtækja

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til endanlegrar afgreiðslu í hv. fjh.- og viðskn. var uppi till. um að frv. yrði fellt. Var ég samþykkur þeirri málsmeðferð, en fór síðan af fundi. Eftir á kom í ljós, að meiri hl. n. taldi eftir atvikum eðlilegast frá sínu sjónarmiði að afgreiða frv. með rökstuddri dagskrá og með tilvísun til frv. ríkisstj. um verðlagsmál sem nú er til afgreiðslu hér í þinginu.

Þótt ég væri innilega sammála þeirri niðurstöðu, að frv. yrð fellt við meðferð málsins hér í d., get ég alls ekki fallist á þessa afgreiðslu, vegna þess að ég er næstum jafnmikið á móti því frv. sem rökstudda dagskráin vísar til. Ég tel að sú hugsun, að neytandinn hafi aðstöðu til að hafa nægilegt aðhald að versluninni til þess að um heilbrigða samkeppni sé að ræða og vöruverð í lágmarki, sé óraunhæf og í engu samræmi við aðstæður líðandi stundar. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort hugsanlegt er við fyllstu samkeppni og óbreytt vöruverð frá ári til árs að skapa það aðhald af hálfu neytenda sem gerir frjálsa álagningu eðlilega, en á verðbólgutímum er þetta óhugsandi með öllu. Neytandinn hefur enga möguleika til þess að fylgjast með því, hvar vöruverð er lægst á hverjum tíma, þegar vörurnar eru að hækka í hverjum mánuði og hverri viku, stundum jafnvel dag eftir dag, það er alger fásinna að ætla að treysta á það, að neytendur geti gegnt því hlutverki að halda niðri vöruverði eftir þessari leið.

Auk þess er á það að líta, að það er almenn regla í þjóðfélagi okkar, að stéttir manna semji um kjör sín ellegar lúti úrskurðum um kjör sín, eins og er í einstaka tilviki og er út af fyrir sig alls ekki til fyrirmyndar, en hitt er óþekkt með öllu, að stéttir fái aðstöðu til að skammta sér sjálfar laun. Ég tel því eðlilegast að verslunarstéttin verði að lúta úrskurðum um kjör sín, svo fremi að hún fái því ekki framgengt að hún hafi samningsrétt um kjör sín, sem vel gæti komið til greina. Þá væri sá samningsréttur við ríkisvaldið.

Ég minni á að skammt er um liðið síðan launastéttirnar sömdu um kjör sín í almennum kjarasamningum, bæði hin almennu verkalýðsfélög og starfsmenn ríkis og bæja, en nokkrum mánuðum síðar beitti flokkur flm., Sjálfstfl., sá flokkur sem hv. flm., Albert Guðmundsson, hefur forustu fyrir í stærsta kjördæmi landsins, sér fyrir því, að þau kjör, sem launastéttirnar höfðu samið um, voru rýrð verulega með löggjöf. Og ég tel það satt að segja ótrúlega hugmynd — ekki aðeins fáránlega hugmynd, heldur óvenjulega ótrúlega hugdettu, að bera það á borð, að í kjölfar þess, sem gerst hefur, eigi verslunarstéttin að skammta sér sjálf laun að eigin geðþótta. Þess vegna styð ég þá hugmynd eindregið, sem áður var fram komin, að frv. verði fellt, og mun greiða atkv. gegn því við atkvgr.